09.12.1981
Neðri deild: 19. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1377 í B-deild Alþingistíðinda. (1135)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég held að það fari ekki á milli mála eftir ræðu hv. síðasta ræðumanns, 1. þm. Vestf., að með þessu frv. er farið inn á nýjar brautir og í raun og veru verið að ganga af Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins dauðum og ómerkum, svo fjarri hlutverki hans sem efnishlið þessa frv. er til þess fallin að gegna. Ég kveð mér því aðallega hljóðs til þess að vekja athygli á tveim atriðum í málflutningi hæstv. viðskrh. þegar hann var að bera blak af sér og hæstv. sjútvrh., að þeir gerðu sér þrátt fyrir allt grein fyrir því, að það væri ekki allt í lagi, þeir hefðu báðir látið í ljós áhyggjur út af rekstrargrundvelli atvinnuveganna og vaxandi erlendri skuldasöfnun. En þá kemur manni í hug það sem sagt hefur verið: Það góða sem ég vil, það geri ég ekki, en það illa sem ég vil ekki, það geri ég, vegna þess að þessi hæstv. ráðh. ásamt með hæstv ríkisstj. í heild hafa stefnt rekstrargrundvelli atvinnuveganna í voða. Hæstv. ríkisstj. hefur beinlínis staðið að erlendum lántökum í vaxandi mæli til lausnar aðsteðjandi vandamálum til að fleyta sér viku, mánuð eða misseri í senn fram á tímans leið án þess að horfast í augu við vandann í raun og veru.

Hvað veldur því, að atvinnuvegirnir berjast í bökkum og atvinnugreinar flestar eru reknar með tapi? Hvað er það annað en stefna ríkisstj. í gengismálum, í skattamálum, í verðbólgumálum og í verðlagsmálum? Ríkisstj. hefur ekkert aðhafst, sem í raun og veru hefur varanleg áhrif í baráttunni gegn verðbólgunni, enda sjáum við það nú þegar spáð er vaxandi verðbólgu.

Þessi vandamál atvinnuveganna eru m. a. leyst með því að benda atvinnufyrirtækjum á erlend lán. Og svo slær hæstv. viðskrh. sér á brjóst og segist vera á móti vaxandi erlendri skuldasöfnun. Hæstv. viðskrh. taldi það afskaplega vel af sér vikið hjá hæstv. ríkisstj. að hafa hækkað taxta Hitaveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar, Hitaveitunnar um 135% og Landsvirkjunar um 193%, s. l. tvö ár. Ég skal ekkert draga í efa að þær tölur sem hæstv. ráðh. vitnaði til, séu réttar. En ég vek athygli hans á því, að ef við gerum ráð fyrir 60% verðbólgu hvort árið, þá sé ég ekki betur en það þurfi 156% hækkun taxta eingöngu til þess að halda í við verðbólguna og kostnaðarhækkunina innanlands. Þessar taxtahækkanir eru afleiðing af verðbólgustefnu núv. ríkisstj. en ekki orsök.

Það verður að segjast eins og er, að það er auðvitað orsök verðbólgu þegar þessum fyrirtækjum er bent á að taka erlent lán og auka þannig þensluna innanlands í stað þess að fá hækkun á taxta sína. Það er verðbólgumyndandi og til lengdar auðvitað til þess fallið, að þjónustugjöld þessara fyrirtækja verða hærri en ella, þegar þeim er bent á að taka erlend lán, ekki eingöngu vegna framkvæmda heldur og vegna rekstrargjalda, eins og er í tilviki Landsvirkjunarinnar. En það er líka mála sannast, að með þjónustufyrirtæki eins og Hitaveitu Reykjavíkur, þar sem fjárfestingarþörfin er jöfn og mikil frá ári til árs án þess að stór stökk verði í tekjuöflun fyrirtækisins, þá er gersamlega þýðingarlaust að vísa slíkum fyrirtækjum á erlend lán, vegna þess að afborgunarbyrðin og vaxtabyrðin vex svo hröðum skrefum að gjaldgeta fyrirtækisins verður fljótt engin og þá þarf að hækka taxtana enn meir en verðbólgustigi nemur. En hæstv. ríkisstj. hugsar ekki lengra en næstu daga fram í tímann og ætlar sér að fleyta sér þannig fram yfir hjallana og skerin sem fyrir stafni eru.

Það er auðvitað alveg ljóst, einmitt vegna þess sem hæstv. viðskrh. sagði þar sem hann tilgreindi hækkanir á töxtum þessara fyrirtækja, að svokölluð niðurtalningarstefna Framsóknar hefur beðið algert skipbrot. Og þegar við erum að skilgreina orsök vaxandi erlendrar skuldasöfnunar, þá er hún ekki eingöngu fólgin í hallarekstri atvinnufyrirtækja. Hún er ekki eingöngu fólgin í erlendum lántökum opinberra fyrirtækja bæja og ríkis, eins og Landsvirkjunar og Hitaveitu Reykjavíkur, heldur er hún líka fólgin í vaxandi erlendri skuldasöfnun og lántökum ríkissjóðs sjálfs eða fyrirtækja sem beint eru rekin á vegum ríkisins. Það er alkunna og hefur oft verið á það bent, hvernig núv. hæstv. ríkisstj. stendur að gerð fjárlaga og lánsfjár- og fjárfestingaráætlunar. Það er þannig að þeim málum staðið, að sífellt er fleiri og fleiri útgjaldaliðum vikið út af fjárlögum og tekin lán til þess að standa undir fjárfestingu og jafnvel rekstrarkostnaði. Það er alkunna að mörkuðum tekjustofnum er, í stað þess að verja þeim til þeirra þarfa sem þeir eru ætlaðir til, varið til almennra rekstrarútgjalda. Allt þetta leiðir af sér vaxandi erlenda skuldasöfnun. Svo kemur hæstv. viðskrh. og segist hafa áhyggjur af vaxandi erlendri skuldasöfnun.

Ég vildi, herra forseti, vekja athygli á glámskyggni hæstv. viðskrh. og hinni uggvænlegu stefnu núv. ríkisstj. sem felst í því að veikja atvinnugrundvöll landsmanna og gera landsmenn almennt háða erlendum lántökum í mesta góðæri sem við Íslendingar höfum í raun notið.