09.12.1981
Neðri deild: 19. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1383 í B-deild Alþingistíðinda. (1143)

96. mál, tímabundið vörugjald

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég hef flutt hér á þskj. 157 litla brtt. við frv. um sérstakt tímabundið vörugjald, sem efnislega felur það í sér, að fellt verði niður 30% vörugjald á hljómplötum. Ástæðan fyrir þessu er sú, svo ég fari nokkrum almennum orðum um þessa till. fyrst, að hljómplötur eru einhver mikilvægasti menningarmiðill sem við nú höfum yfir að ráða. Ný tækni til upptöku og afspilunar hefur gert tónlist að almenningseign. Fólk getur nú hlýtt á alla tegund tónlistar í stofunni heima hjá sér og slík tæki eru nú til á flestum heimilum. Þetta er einnig mikilvæg tómstundaiðja ungs fólks sem ég held að sé bæði holl og góð.

Tollur á hljómplötum er 75%, en 30% vörugjald hefur verið á þessum varningi frá því í sept. 1978 þegar vörugjaldið var tekið upp. Það er staðreynd, sem innflutningsskýrslur sýna, að eftir að vörugjaldið var sett á dró mjög úr hljómplötusölu. Sú þróun hefur verið niður á við allan tímann síðan. Svo ég upplýsi hvernig þessar tölur eru, þá voru árið 1977 flutt inn 76.6 tonn. Árið 1978, en þá byrjaði vörugjaldið og hafði áhrif síðasta ársfjórðung þess árs, var innflutningurinn 71.6 tonn. Árið 1979, fyrsta heila árið eftir að vörugjaldið komst á, var hann 58.6 tonn, og 1980 var það enn niður á við, 48.5 tonn.

Hér hefur orðið um 37% samdráttur í innflutningi á hljómplötum. Í einingum mælt, þ. e. ef reynt er að færa þetta yfir á venjulegar hljómplötur, þá hefur innflutningur minnkað úr 410 þús. hljómplötum 1977 niður í 260 þús. hljómplötur á árinu 1980. Svipaða sögu er að segja um íslenskar hljómplötur. Þó hefur vörugjald af hljómplötum með íslensku efni verið fellt niður, en engu að síður hefur sala þeirra minnkað á þessu tímabili. Aðalástæðan er auðvitað sú, að þessi vörutegund sætir óhóflegri skattheimtu. Almenningur hefur ekki lengur efni á að kaupa þessa vöru hér á landi, enda er verð á hljómplötum nú tvöfalt til þrefalt miðað við verð á þessum vörum í nágrannalöndum okkar og þeim löndum sem íslenskir ferðamenn helst sækja heim. Ég held að það sé alveg ljóst, það ber öllum saman um, að sá varningur, sem íslenskir ferðamenn kaupa hvað helst — og þá á ég við venjulegar fjölskyldur á ferðalögum erlendis — eru hljómplötur. Sala á þessum varningi hefur því flust úr landi að miklu leyti.

En sagan er ekki öll sögð með þessu, því að um síðustu áramót tók hér til starfa sérstakt fyrirtæki sem pressar hljómplötur. Þetta fyrirtæki er þjónustuaðill fyrir íslenska hljómplötuútgefendur og umboðsmenn erlendra hljómplötufyrirtækja. Í febrúar á þessu ári var byrjað að pressa hér á landi hljómplötur með erlendu efni. Hafa síðan verið pressaðir allmargir titlar sem hafa nú þegar umtalsverðan hluta af markaðnum. Þetta var m. a. vörn þeirra, sem í greininni starfa, gegn þessari miklu skattheimtu. En nú hefur brugðið svo við, að í októbermánuði s. l. ákvað fjmrn. að 30% vörugjaldið skyldi jafnframt vera á plötum sem framleiddar væru hér á landi, ef þær væru með erlendu efni. Þetta var því skammgóður vermir. Lögin eru nú túlkuð á þann veg, að 30% vörugjald er einungis fellt niður á plötum sem framleiddar eru hér á landi og eru með íslensku efni.

Ég er alveg sannfærður um það, að ef þessi till. yrði samþykki mundi sala á hljómplötum að nýju aukast hér á landi. Þessi verslun mundi flytjast inn í landið að nýju og tolltekjur ríkissjóðs vegna þessa varnings mundu vega upp á móti þeim tekjum sem töpuðust vegna afnáms vörugjaldsins.

Þetta er ekki mikið mál, hvorki fyrir ríkissjóð né hv. Alþingi. Hins vegar er þetta töluvert mikið mál fyrir stóran hóp fólks. Sannleikurinn er sá, að hljómplötur eru orðnar nokkuð stöðug neysluvara mjög margra fjölskyldna hér á landi og því skiptir þetta ótrúlega stóran hóp manna miklu máli.

Ég vænti þess, að hv. deild treysti sér til að samþykkja þessa litlu brtt.