20.10.1981
Sameinað þing: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

20. mál, ár aldraðra

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau meginsjónarmið sem fram koma í þessari till. Þau eru öll þörf og rétt að gefa þeim verulegan gaum. Það er enda að vonum að þau séu vel ígrunduð, þar sem 1. flm. þessarar till. hefur flestum öðrum betur bæði hugsað um það, hvernig leysa mætti málefni aldraðra, og ég fullyrði einnig að fáir hafi betur unnið að því að koma þeim stefnumálum í framkvæmd sem einmitt er hér vikið að.

Það er þó svo, að þrátt fyrir átak margra, bæði sveitarfélaga, hins opinbera, ýmiss konar félagasamtaka og einstakra aðila er ótalmargt ógert í þessum efnum og verkefnin ærin sem vinna þarf. Það má segja að aldrei sé of oft minnt á það, hve þessi verkefni eru í raun og veru mikil og hversu hrikaleg margvísleg vandamál þessa aldraða fólks eru. Skiptir þá engu máli hvort talað er um heilsugæslumál þeirra, félagsleg mál — þar sem er kannske stærsti vandinn — eða önnur þau mál sem snerta þeirra vanda alveg sérstaklega umfram aðra þjóðfélagsþegna. Vissulega eru við Framkvæmdasjóð aldraðra, sem stofnaður var með lögum á þessu ári, bundnar miklar vonir um framfarir í þessum efnum. Hið sama má segja um þá aðstoð sem Húsnæðisstofnun ríkisins hefur veitt til byggingar dvalarheimila aldraðra. Engu að síður er ljóst að margt fleira og meira þarf að gera til að koma þessum málum í það horf sem við gjarnan vildum.

Ég stóð hér upp í fyrsta lagi til þess að lýsa yfir fullum stuðningi við meginmál þeirrar till. sem hér er um að ræða, en einnig vegna þess að ég er ekki alveg viss um nauðsyn þessarar sérstöku nefndar, sem ynni samhliða þeirri nefnd sem þegar hefur verið skipuð í þessum málum, og vitna þar í grg. sem fylgir þessari till., með leyfi hæstv. forseta, þar sem segir að heilbr.- og trmrh. hafi skipað nefnd um málefni aldraðra, án tilnefningar, sem tók til starfa í byrjun september. Í skipunarbréfi segir svo m. a.:

„Nefndin fær annars vegar það hlutverk að annast undirbúning alþjóðaárs aldraðra 1982 í samræmi við ályktun þings Sameinuðu þjóðanna 11. des. 1980 og hins vegar að gera till. til ráðh. um samræmingu á skipulagi í heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða með tilliti til félagslegra og heilsufarslegra sjónarmiða, sbr. þál. hér að lútandi, sem vísað var til ríkisstj. frá sameinuðu Alþingi í maí s. l.“ — og er vitnað til þskj. þar að lútandi.

Mér hefur sem sagt flogið það í hug, hvort í raun og veru mætti ekki færa út verksvið þessarar nefndar þannig að það tæki til allra þeirra þátta sem hér er lagt til. Ég segi það m. a. vegna þess að ég hef um það óljósan grun, að hv. 1. flm. þessarar till. sé einmitt í þessari nefnd — eða er ekki svo? Ég held því að það væri fullt eins mikil ástæða til að færa úf verksvið þessarar nefndar, sem þegar hefur verið skipuð, til þess að annast alla þá þætti sem hér er á minnt. Það ætti ekki að vera henni ofverk.

Ég skal svo aðeins ítreka það, að við vonum að ár aldraðra verði svipað og önnur þau ár sem hafa verið tileinkuð ákveðnum málefnum, að það ár skili verulegum árangri, það verði gert sérstakt átak á árinu, en fyrst og fremst verði það í raun og veru upphaf sóknar í þessum málum í heild, ekki bara eitt ár, heldur um alla framtíð.