10.12.1981
Sameinað þing: 33. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (1173)

9. mál, aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég er hrædd um að ég verði að valda hv. þm., sem hér hafa talað, sárum vonbrigðum þar sem ég tala hér hreint ekki sem talsmaður þingflokks Alþb. Hins vegar er ég lögformlega kjörinn þm. og leyfi mér að hafa skoðun á þessu máli. Mér hefur ekki tekist eins vel og þeim hv. þm. Eiði Guðnasyni og Friðrik Sophussyni að fá heildarskoðun þingflokks Alþb. á þessu máli. Ég hef hins vegar leyft mér að mynda mér nokkra skoðun á því og henni vil ég lýsa hér.

Alþjóðaorkustofnunin eða International Energy Agency, eins og það heitir á erlendu máli, er afrakstur fundar sem Nixon Bandaríkjaforseti boðaði til árið 1974, en til þess fundar voru boðnar ríkisstjórnir landa innan Efnahagsbandalags Evrópu auk Japans og Noregs. Þessi lönd eru ríkustu þjóðlönd veraldar og nú skyldu þau ræða saman um hina alvarlegu orkukreppu sem við heimsbyggð blasti. Á þessum fundi var stofnuð nefnd, svokölluð Energy Cooperation Group, sem skila skyldi áliti um hvernig þessi ríki gætu tryggt forréttindi sín, þ. e. forréttindi framleiðsluríkja olíu og kaupenda olíunnar. IEA var síðan stofnað 15. nóv. 1974 og þessi stofnun er nefnd Alþjóðaorkustofnunin á íslensku máli. Einu OECD-ríkin, sem eru utan hennar, eru Frakkland, Ísland og Finnland, eins og hér hefur komið fram.

Einungis um 20% jarðarbúa eiga þó aðild að þessari alþjóðastofnun, sem svo er nefnd, en þau ráða jafnframt yfir 64% af framleiðslunni. Alþjóðaorkustofnunin er auðvitað stofnun OECD-ríkja og þar með voru fátækustu þjóðir jarðar útilokaðar. Það skal upplýst hér, ef hv. þm. hafa ekki fylgst með þessum málum, að að mínu viti er ekkert fjær þessari stofnun í raun og veru en vinna að jöfnuði á skiptingu veraldarauðsins, heldur þvert á móti að viðhalda forréttindum og arðráni þeirra sem verða ríkari á kostnað hinna nauðstöddustu á jarðarkúlunni. Að sjálfsögðu var ekki að ófyrirsynju að Nixon Bandaríkjaforseti boðaði til þessa fundar. Hinir ríku óttast það eitt að hinir fátæku rísi upp, eins og ríki þriðja heimsins hafa smám saman sýnt tilburði til. Víetnamstyrjöldin kenndi mönnum að engin vopn geta brotið á bak aftur samstöðu fjöldans, hversu fátækur sem hann er. En Nixon sá í hendi sér að vissara var að afla fylgis annarra þjóða sem einnig vildu halda forréttindum sínum á kostnað hinna snauðu. Með minnkandi framboði olíu styrktust að sjálfsögðu einnig yfirburðir þeirra þjóða sem ráða yfir tækniþekkingu varðandi aðra orkugjafa t. d. kjarnorku.

OPEC-ríkin eru að sjálfsögðu ekkert hrifin af stofnun Alþjóðaorkustofnunarinnar og eygðu þar ógnun um áframhaldandi forréttindi hinna ríku. Auðvitað kom til átaka, og eru kannske átökin í Íran ekki alveg laus við það mál — í þessu landi þar sem eru olíulindir, í vellríku landi sem samt hýsir milljónir af hungruðu og fáfróðu fólki. Þessi þjóð er kannske nærtækt dæmi um ástandið. Við gætum einnig nefnt Saudi-Arabíu. Kannske væri ekki úr vegi að tengja atburðina í Afganistan þessari þróun líka þó að út í það skuli ekki farið hér.

Norðmenn hafa verið heldur vandræðalegir í aðild sinni af þessari mjög svo umdeildu stofnun. Helst hafa þeir viljað hafa sem hljóðast um þátttöku sína. En hvort sem þeim líkar það betur eða verr eru þeir orðnir stórútflytjendur olíu og þar með komnir í þennan leik. Frakkar hafa hins vegar tekið skýra afstöðu. Þeir hafa einfaldlega neitað að gerast aðilar og eflaust á sú afstaða sér sögulega skýringu. Viðskipti þeirra við nýlendur sínar eru þeim eflaust nægilega bitur lexía til að halda þeim frá þátttöku. Viðskiptahagsmunir við OPEC-ríkin eiga þar eflaust einnig hlut að máli og enn til viðbótar tortryggni þeirra í garð Bandaríkjamanna.

Ég held að við hljótum í máli sem þessu að reyna að líta svolítið á það í heild. Ég á a. m. k. á þessu stigi málsins erfitt með að sjá nauðsyn þess að Íslendingar gerist aðilar að þessum samtökum. Ég skal vera fús til að skipta um skoðun ef nefnd sú, sem nú er að störfum, kemst að öðrum niðurstöðum sem ég get sætt mig við. Ég held að við Íslendingar ættum fremur að leggja okkar litla lóð á vogarskálarnar til jöfnunar auðskiptingar í heiminum en að ganga í lið með þeim sem vilja viðhalda misskiptingu og órétti sem endanlega verður dauði okkar allra ef áfram heldur.

Hæstv. viðskrh. gat þess réttilega hér áðan, að aðild að þessum samtökum, Alþjóðaorkustofnun, fylgdu að sjálfsögðu veruleg útgjöld, þetta kostaði stórfé. Mín skoðun er sú, og það þarf töluvert til að sannfæra mig um annað, að þeim fjármunum væri betur varið til að virkja okkar eigin orku en að eyða þeim peningum í aðild að Alþjóðaorkustofnuninni.