10.12.1981
Sameinað þing: 33. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1397 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

9. mál, aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ræða sú, sem hv. 8. landsk. þm. flutti hér, kom ekki á óvart. Það er ævinlega svo, að þegar einhver viðkvæm mál fyrir þennan flokk, Alþb., ber á góma er talað í norður er aðrir tala í suður. Það er talað um allt annað en það sem til umr. er. Nú, þegar verið er að ræða um aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni, kemur þessi hv. þm., Guðrún Helgadóttir, hér og talar um Nixon og talar um að þarna sé verið að viðhalda forréttindum og arðráni. Það er ekki talað um það sem máli skiptir. Það er ekki talað um efni málsins. Það er ævinlega snúið út úr og talað út í hött. Hins vegar er ekki ófróðlegt að heyra að hún tali ekki fyrir munn Alþb. í þessu máli. Ég sé að formaður þingflokks Alþb. er staddur á landinu og m. a. s. í þessum sal núna. Ég óska eftir að fá að heyra annaðhvort frá honum eða hæstv. iðnrh. og orkumálaráðh., sem hefur verið hér staddur líka, hver sé afstaða Alþb. til þessarar tillögu. Hver er afstaða Alþb. til aðildar Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni? Og ég spyr enn: Ef Alþb. er því andsnúið að Íslendingar tryggi hagsmuni sína með aðild að Alþjóðaorkustofnuninni, hver eru þá rökin gegn því, að við gerumst aðilar að þessari stofnun?

Mér finnst það aldeilis furðulegur málflutningur þegar því er haldið fram hér, að þessi stofnun hafi það markmið umfram annað að tryggja forréttindi og áframhaldandi arðrán. Nú vitum við að misskipting auðs í þessari veröld er mikil og margir eru þeir sem svelta heilu hungri og töluverð er sú aðstoð sem þau ríki, sem eiga aðild að OECD og Alþjóðaorkustofnuninni, láta af hendi rakna til hins sveltandi heims, þótt sú aðstoð mætti og ætti vissulega að vera meiri. Hún er hins vegar margföld á við það sem þau ríki á meginlandi Evrópu, sem ekki hafa kosið að gerast aðilar að þessari stofnun, austantjaldsríkin, láta af hendi rakna til hins sveltandi heims. Heldur hv. þm. Guðrún Helgadóttir að sú aðstoð, sem þessi ríki veita þróunarlöndunum, mundi aukast ef hagkerfi þeirra hryndi í rúst vegna olíubrests á neyðartímum? Heldur hún að það mundi hjálpa upp á aðstoð okkar við íbúana á Grænhöfðaeyjum ef hér yrði olíukreppa og olíuneyð? Heldur hv. þm. það? Það er auðvelt að koma í þennan ræðustól og slá um sig með þessum gömlu arðráns- og forréttindaslagorðum sem þeim Alþb.-mönnum eru ákaflega tungutöm, en með því er verið að horfa fram hjá kjarna málsins og því sem þetta mál snýst um.

Hv. þm. sagði að við ættum að nota það fjármagn, sem þetta kostaði, til að virkja eigin orkulindir. Það er enginn ágreiningur um að við eigum að virkja eigin orkulindir. Það, sem á hefur staðið í þeim efnum, er seinlæti, tómlæti Alþb. sem fer með þessi mál í ríkisstj. Það stendur ekki á stjórnarandstöðunni að ljá liðsinni sitt til þeirra mála, a. m. k. stendur ekki á Alþfl. í þeim efnum. En þessi ræða hv. þm. var enn eitt dæmið um hvernig þm. Alþb. tala ævinlega fram hjá efninu þegar þeir geta. Landsmenn fengu raunar ágætt dæmi um það, þeir sem horfðu á sjónvarpið í gærkvöld og hlustuðu þar á formann þingflokks Alþb. tala fram hjá því efni sem um var að ræða.

Það var áhugaverð lexía og væntanlega lærdómsrík fyrir þá sem með því fylgdust.

Ég vil gjarnan segja það við hæstv. viðskrh., að ég þakka honum þær upplýsingar sem hann hefur veitt hér og mér finnst að því beri að fagna að hér skuli hafa aukist rými til olíugeymslu. Hins vegar og þó svo við komum okkur upp hér auknum birgðum af olíu leysir það ekki allan vanda í þessu efni og með því verðum við ekki aðnjótandi allra þeirra kosta og allra þeirra upplýsinga og þess samstarfs og þeirrar tryggingar sem aðild að Alþjóðaorkustofnuninni veitir. Það er ljóst að Ísland hefur frá upphafi greitt atkv. með öllum þeim ákvörðunum sem leitt hafa til þessa samstarfs. Þess vegna er eðlilegt í framhaldi af þeirri afstöðu Íslands að við gerumst aðilar að þessu samstarfi, eins og t. d. Norðmenn, Danir og Svíar. Það kemur fram í þessari skýrslu að þessar þrjár grannþjóðir okkar telja sig hafa haft verulegan hag af aðild að þessari stofnun. Það er líka augljóst af hvaða ástæðum Finnar eru ekki aðilar að Alþjóðaorkustofnuninni. (ÓRG: En Frakkar?) Frakkar hafa, eins og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson veit, að nokkru farið eigin leiðir um sumt í Evrópusamstarfi. Sjálfsagt telja þeir m. a. að með samningum við sínar fyrri nýlendur og öðrum olíusamningum hafi þeir tryggt hagsmuni sína í þessum efnum. Ég hygg hins vegar, að aðstaða þeirra og aðstaða okkar í þessum efnum sé svo ólík að um það þurfi ekki að fara mörgum orðum. En hv. þm. kemur væntanlega að því á eftir því að ég heyrði ekki betur en hann hefði verið að kveðja sér hljóðs.

Það kom fram hjá hv. 10. þm. Reykv. og varaformanni Sjálfstfl. að hann er hlynntur þessari till. Ég vænti þess að hann hafi talað í umboði síns flokks. Það hefur líka komið hér fram, að hæstv. viðskrh. er þessu máli í grundvallaratriðum fylgjandi. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hans. Það er því ljóst, að á Alþingi er meirihlutavilji fyrir því, að þessi till. nái fram að ganga og Ísland taki þátt í þessu samstarfi. Ég trúi því ekki, að Alþb. hafi verið selt einhvers konar neitunarvald í þessum efnum í ríkisstj. Ég veit að hæstv. viðskrh. er kjarkmaður í pólitík, og ég veit og treysti því að hann muni flytja hér á Alþingi frv. það sem fram hefur komið að er tilbúið í hans skjalaskáp um aðild Íslands að þessari stofnun. Tryggt er að það frv. muni ná fram að ganga hér á Alþingi og með því fái íslenskir atvinnuvegir og íslenskt þjóðlíf nauðsynlega — ekki aðeins æskilega, heldur nauðsynlega tryggingu, tryggingu sem 21 ríki af aðildarríkjum OECD hefur talið sér skynsamlega og nauðsynlega. Ég fagna þeim ummælum sem hæstv. viðskrh. viðhafði áðan í þessum ræðustúf. En afstaða Alþb., sem ég geri fastlega ráð fyrir að sé sú sama og hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur, kemur ekki á óvart.

Það er orðið athyglisvert hér á Alþingi, að þegar utanríkismál eða mál, sem varða stefnu Íslendinga í utanríkismálum, eru hér til umr. flýja að öllum jafnaði þm. Alþb. úr sölum þingsins, a. m. k. sumir hverjir, og þó sérstaklega ráðherrar þess flokks. Þeir virðast ekki hafa áhuga á að ræða þessi mál. Þeir forða sér úr þingsölum. Það getur vel verið að þeim þyki ekki rétt að gæta þingskyldu sinnar. Raunar hefur það borið á góma hér í umr. að undanförnu hversu illa þm. þessa flokks gæta þingskyldu sinnar vegna þess að þeir hafa lagst í ferðalög eða eitthvað annað kemur þar kannske til. (Gripið fram í.) Það hefur orðið tilefni umr. hér. (ÓRG: Það eru þrisvar sinnum fleiri Alþb.-menn hér í salnum en framsóknarmenn.) Ja, það er e. t. v. ekki mælikvarði á gæðin. En það hefur orðið hér tilefni umr. hversu illa þm. þessa flokks gegna þingskyldu sinni. Ég ítreka það enn, að það er vissulega athyglisvert að þegar utanríkismál ber hér til umr. — (Gripið fram í.) Vill ekki hv. þm. bíða með aths. sínar þangað til hann kemur í ræðustól á eftir? Það er vissulega athyglisvert að ráðherrar Alþb. skuli ævinlega víkja burt úr salnum þegar utanríkismál koma hér til umræðu. Það hlýtur að eiga sér skýringar. Væntanlega skýrir formaður þingflokksins, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, ástæður þess hér á eftir. Það er eitt sem víst er, að þetta hefur orðið fleiri þm. umhugsunarefni en mér.