10.12.1981
Sameinað þing: 33. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1399 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

9. mál, aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Alltaf eru þeir seinheppnir, Alþfl.-mennirnir, í málflutningi sínum. Þegar hv. þm. Eiður Guðnason fór að lýsa því áðan hvað væru margir Alþb.-menn fjarverandi kom í ljós að það er einhver fjölmennasti þingflokkurinn sem er í salnum. Þingflokkur Alþb. á hér inni margfalt fleiri þm. í dag og á þessari stundu en þingflokkar sem eru helmingi stærri eða svo. (Gripið fram í: Hvar eru ráðherrarnir?) Ráðherrarnir eru að stjórna landinu og gengur vel. (Gripið fram í.) Formaður flokksins er mættur hér í salnum og hann og formaður Sjálfstfl. eru einu formenn stjórnmálaflokka á Íslandi sem heiðra hv. þm. Eið Guðnason með því að vera hér. (Gripið fram í.)

Hins vegar er skiljanlegt að hv. þm. Eiður Guðnason skuli minnast á utanferðir varðandi þessa þáltill., vegna þess að þessi þáltill. fæddist nefnilega og fékk eins konar skemmri skírn í utanlandsferð hv. þm. Eiðs Guðnasonar. Hann var sendur til útlanda á vegum Alþingis í fyrrasumar og sat nokkra daga í París ásamt öðrum góðum mönnum.(Gripið fram í: Þér.) Já, ég ætlaði að koma að því. Hann kom umsvifalaust heim og flutti þessa till. Hann var ekki að kynna sér málið. Hann var ekki að eyða miklum tíma í að skoða það vandlega. Nei, honum dugðu tvær dagstundir í París til þess að öðlast allan sannleikann um þetta mál.

Við, sem viljum hafa vandaðri málsmeðferð, höfum haft annan hátt á. Við athugum ekki eingöngu mál í París, við gerum það líka hér á Íslandi. Það hefur komið í ljós, því miður, að í þeirri skýrslu, sem gerð var og vikið hefur verið að í þessum umr., reyndust ýmsar veigamiklar upplýsingar vera rangar. Það verður því miður að horfast í augu við það að þegar málið var nánar kannað og rætt við sérfróða aðila á þessu sviði kom í ljós að ýmsar grundvallarupplýsingar í málinu, eins og t. d. um það geymarými, sem til væri í landinu, — upplýsingar sem hv. þm. gerir að meginuppistöðu í grg. sinnar till., — voru rangar. Öll sú talnagerð sem tillöguflutningurinn byggist á, reyndist ekki rétt.

Fulltrúar ríkisstj. komust að raun um að sú skýrsla, sem þarna hafði verið unnin, var því miður ekki nægilega vel úr garði gerð, hefur orðið m. a. hv. þm. Eiði Guðnasyni og félögum hans til þess að flytja hér grg. sem er efnislega röng. Ég er ekki að saka þá um það. Það er sjálfsagt því að kenna, að þeir sérfræðingar, sem áttu að vinna málið, gerðu það ekki nægilega vel. Sett var á laggirnar nefnd, eins og hæstv. viðskrh. hefur skýrt hér frá. Það er nefnd valinkunnra manna. Það eru sömu mennirnir og eru í efnahagsmálanefnd ríkisstj. Sú nefnd hefur verið að afla sér greinargerða frá þeim aðilum innanlands sem eru miklu kunnugri olíuviðskiptum en hv. þm. Eiður Guðnason og allur þingflokkur Alþfl. samanlagður. Við höfum fengið frá þessum aðilum upplýsingar og greinargerðir sem við erum nú að skoða og meta, sem draga upp töluvert aðra mynd en gerð er í þessari skýrslu og í þessari grg. Veröldin er því miður stundum flóknari en hún virðist lita út fyrir að vera úr þingflokksherbergjum Alþfl. Við höfum enn fremur fengið mjög ítarlega skýrslu frá Noregi um meðferð þessa mál þar og þá reynslu, sem Norðmenn hafa haft af aðild sinni að þessari stofnun, og mat manna þar í landi á þátttöku í henni. Þess vegna fer nú fram á vegum stjórnarflokkanna, eins og hæstv. viðskrh. sagði frá áðan, ítarleg efnisleg athugun á þessu máli. Það er verið að reyna að fá fram réttar upplýsingar, réttan talnalegan grundvöll og réttar efnislegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka afstöðu til þess: Í fyrsta lagi, hvort menn vilji ganga í þessa stofnun, og þá í öðru lagi, hvaða skilyrði Íslendingar eiga að setja þegar þeir ganga í stofnunina. Það hefur ekki verið minnst á það í þessum umr., en hins vegar er rétt að það komi fram, að þegar Norðmenn gengu í þessa stofnun gerðu þeir það með skilyrðum. Það er nauðsynlegt að Íslendingar geri upp við sig áður en þeir taka afstöðu til þessa máls, hvaða skilyrði ætlunin er að setja. Það er alveg ljóst að þær skuldbindingar, sem þarna er ætlast til að menn uppfylli, er mjög vafasamt að Íslendingar geti tekið allar á sig. Slíkt krefst þess vegna mun ítarlegri athugunar en hefur greinilega farið fram af hálfu þeirra sem að þessari þáltill. standa, vegna þess að þeir orða það hvergi hvaða skilyrði það eru sem þeir vilja setja.

Í þriðja lagi þarf að athuga með hvaða hætti það frv., sem væntanlega yrði lagt fyrir þingið að lokinni slíkri athugun, yrði úr garði gert. Það er alls ekki einfalt mál að ganga frá því, m. a. vegna þess að í því frv. yrðu að vera ákvæði um eignarnám á olíubirgðum, olíugeymslustöðvum og jafnvel þeim skipum og öðrum flutningstækjum sem flytja og bera olíu hér á landi. Sumir hafa jafnvel skilið það uppkast að frv., sem hv. þm. Eiður Guðnason var að vitna til áðan, á þann veg, að ef það yrði samþykkt mundi felast í því heimild til að taka á einni stundu umsvifalaust eignarnámi öll þau olíuskip sem hér væru innan landhelgi og lögsögu. (HBl: Það væri ekki ónýtt.) Það væri ekki ónýtt fyrir hv. þm. Halldór Blöndal, en það er kannske ekki víst að Sjálfstfl. sé allur reiðubúinn að skrifa upp á það. A. m. k. hafa sjálfstæðismenn ekki verið miklir talsmenn eignarnáms af því tagi til þessa. (Gripið fram í: Eru þau ekki flest sovésk?) Nei, þau eru ekki flest sovésk. Sum þeirra eru í eigu Sambands ísl. samvinnufélaga. (HBl: Er einhver munur á því tvennu?) Ég vænti þess, að þeir þm., eins og Eiður Guðnason, sem hafa sérstaklega hælt viðskrh í þessum umr., geti svarað Halldóri Blöndal því, hvort það sé einhver munur á Sovét og hæstv. viðskrh. Tómasi Árnasyni. Ég ætla ekki að svara því.

Ég held að menn verði í allri hreinskilni að gera sér grein fyrir því, að það er sjálfsagt að athuga þetta mál. Það er ekki eins einfalt og hv. flm. hefur látið í skina. Það er hægt að hafa á ýmsan hátt uppi efasemdir og athugasemdir um þessa aðild, eins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir gerði hér, og þær röksemdir eiga fyllilega rétt á sér. Þær röksemdir, sem hafa verið fluttar með skilyrðislausri aðild hér í umr., geta sjálfsagt líka átt rétt á sér. Málið er í eðli sínu flóknara, eins og ég hef verið að gera hér grein fyrir, einkum og sér í lagi vegna þess að sú grundvallarskýrsla, sem hefur verið lögð innanlands til grundvallar í meðferð málsins, reyndist ekki eins vel unnin og nauðsynlegt var.

Hins vegar væri skemmtilegt að rifja upp í umr. afskipti formanns Alþfl. og formanns Sjálfstfl. af olíuviðskiptum Íslendinga á s. l. tveimur árum, þegar þessir tveir flokkar virðast nú sameinast hér um að flytja þjóðinni nýjan fagnaðarboðskap í orkumálum. Hverjar voru kröfurnar sem hv. þm. Geir Hallgrímsson og hv. þm. Kjartan Jóhannsson fluttu fyrir tveimur árum — kröfur um það sem átti að bjarga olíuviðskiptum Íslendinga? Það var að gera samning við Breta um kaup á olíu. Það var eitt helsta baráttumál Alþfl. og Sjálfstfl. í tilhugalífinu í kringum minnihlutastjórn Alþfl. og fyrstu mánuðina á stjórnarandstöðutímanum í tíð núv. ríkisstj. Það var farið eftir þessum ráðum. Það var gert fyrir þessa herramenn m. a. að gera samninga við Breta um kaup á olíu. Hver hefur reynslan orðið? Reynslan hefur orðið sú, að þessi olía hefur orðið miklu dýrari, miklu óhagkvæmari en önnur olía sem keypt hefur verið til landsins. Það hefur reynst þjóðinni mjög dýrt að fara að ráðum þessara herramanna. Það er skiljanlegt að þeir hafi litið upp á síðkastið rifjað upp frumkvæði sitt í olíuinnkaupamálum íslensku þjóðarinnar fyrir um það bil tveimur árum. Það væri æskilegt, að hæstv. viðskrh. gerði þjóðinni við tækifæri grein fyrir því, hvað þetta olíuævintýri þessara heiðursmanna hefur kostað þjóðina, hver er sá umframkostnaður sem íslenska þjóðin hefur orðið að borga af bresku olíunni á undanförnum árum? (ÓE: Hver gerði þennan samning?) Ég sagði áðan að þetta væri eitt af því fáa sem við hefðum gert fyrir þessa herramann. Það sýnir okkur að vit þessara manna á olíuviðskiptum er ekki þess eðlis í ljósi reynslunnar að þeir séu með eitthvað „patent“ um það, hvað sé íslenskum þjóðarhagsmunum fyrir bestu. Allir þeir, sem vit hafa á þessum málum, eru sammála um að þessir olíuviðskiptasamningar hafi verið óhagstæðir þjóðinni. Ég ætla ekki að gera þá að umræðuefni við þessa umr., en það væri vissulega tilefni til að gera það við gott tækifæri og lesa þá upp hér fínu ræðurnar, sem voru haldnar af hv. 1. þm. Reykv., Geir Hallgrímssyni, og Kjartani Jóhannssyni, og þau skrif, sem komu í málgagni Alþfl. og Morgunblaðinu um það efni.

Það væri að vísu freistandi að bera fram ýmsar spurningar til hv. þm. Eiðs Guðnasonar um ýmis efni sem kannske heyra ekki beint undir þennan dagskrárlið. Ég hef saknað þess dálítið undanfarið að þm. skuli vera hættur fyrirspurnum sínum um hinn sovéska kafbát sem hann gerði að umræðuefni hér fyrir nokkru í fjölmiðlum. (HBl: Það er strandaði kafbáturinn, var það ekki?) Ég sakna þess mjög, að hann skuli ekki hafa gengið á eftir upplýsingum frá varnarliðinu og NATO og öðrum þeim aðilum sem hann hafði hér stór orð um. Það hefur allt í einu orðið undarleg þögn í þjóðfélaginu á undanförnum tveimur vikum um þessa kafbáta. Það virðist sem bæði ríkisfjölmiðlarnir og blöðin og Alþfl. hafi sameinast um að tala ekkert meira um þessa kafbáta. (Gripið fram í: Hann var kannske aldrei til.) Ég óska eftir því, vegna þess að það hefur verið mikið baráttumál Alþb. að fá ítarlegar og nákvæmar upplýsingar um alla þá kjarnorkukafbáta, sem hér eru innan fiskveiðilögsögunnar, og vegna þess að tilvera þessa sovéska kafbáts er enn ein röksemdin fyrir málflutningi okkar um nauðsyn þess að taka upp kjarnorkuvopnalausa fiskveiðilögsögu, að hv. þm. Eiður Guðnason manni sig nú upp í að halda áfram baráttu sinni fyrir nákvæmari upplýsingum um sovéska og aðra kafbáta í íslenskri landhelgi.