10.12.1981
Sameinað þing: 33. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

9. mál, aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég skal ekki bæta miklu við það sem ég sagði áður um málið sjálft.

Ég sé ástæðu til þess að gefnu tilefni að segja það sem mína skoðun, að ég álit að þeir menn, sem voru skipaðir í nefnd til að kanna þetta'mál á sínum tíma og skiluðu skýrslu, hafi unnið sitt verk samviskusamlega. Það hafa orðið ýmsar breytingar á því ástandi sem var þegar þeir öfluðu upplýsinga t. d. um birgðarými, um neyslu á olíuvörum og ýmislegt fleira, sem vitanlega breytir niðurstöðum slíkrar skýrslu, og ég fæ ekki sé að það sé beinlínis ástæða til að segja að skýrslan sé ósamviskusamlega unnin. Ég held að hún hafi verið unnin af samviskusemi. Ég bar að vissu leyti ábyrgð á þessari nefnd þó að ég skipaði hana ekki. Hún hélt áfram störfum eftir að ég tók við starfi viðskrh. og þá að sjálfsögðu á mína ábyrgð. Hún var ekki pólitísk. Embættismenn unnu þetta starf. Ég held að engin ástæða sé til þess að segja að þeir hafi ekki unnið sitt starf samviskusamlega. Ég vil láta það koma fram að þeir eru ekki hér viðstaddir til að bera hönd fyrir höfuð sér. Hins vegar hafa orðið verulegar breytingar síðan skýrslan var gerð. Þarf auðvitað að taka tillit til þess þegar borið er saman ástandið eins og það er nú og það ástand sem var þegar þeir menn, sem unnu þessa skýrslu, öfluðu upplýsinga.