10.12.1981
Sameinað þing: 33. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1403 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

9. mál, aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að lýsa yfir að ég er mjög fylgjandi aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni og tek undir það sem hv. 10. þm. Reykv. Friðrik Sophusson sagði um þetta mál efnislega.

Ég hafði ekki hugsað mér að kveðja mér hljóðs um þetta mál við fyrri hluta umr. um þessa þáltill., þar sem ég geng út frá því, að þessi till. fari til meðferðar hjá utanrmn, þar sem ég hef aðstöðu til að fjalla um till. í einstökum atriðum. En óneitanlega eru þær umr. einkennilegar, sem hér hafa farið fram, og sýna viðkvæmni þeirra Alþb.-manna og vandræði þeirra. Ég verð að segja eins og er, að mér finnst einungis vænt um að þessi viðhorf þeirra Alþb.-manna komi fram við þessa umr.

Til marks um vandræði Alþb. er að einn þm. þess, hv. þm. Guðrún Helgadóttir, lýsti andstöðu sinni við þáltill., en hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, aðspurður um afstöðu þingflokks Alþb., veitti ekkert svar og sló úr og í. Hann er ekki búinn að gera upp við sig með hvaða hætti hann getur rökstutt andstöðu sína við þessa þáltill. eða aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni. Þar sýnir best að rök gegn aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni eru vandfundin. Hann er að reyna að leita að þeim rökum og hann hefur nú fengið hæstv. ríkisstj. til að fela sér og öðrum þeim tveim mönnum, sem skipa svokallaða efnahagsmálanefnd ríkisstj., að fara yfir málið. Ég hlýt að segja að ég hef ólíkt meiri trú á að utanrmn. sé treystandi að fjalla um þetta mál en þessari starfsnefnd ríkisstj., jafnvel þótt einn maður sé í báðum nefndum, svo miklu betur treysti ég þeim mönnum í utanrmn. sem ekki eru í efnahagsmálanefnd ríkisstj.

En í þessum starfsháttum ríkisstj. felst það, sem við í stjórnarandstöðunni höfum gagnrýnt undanfarna daga og oft áður, að það er verið að færa valdið úr höndum Alþingis og alþm. í hendur vikapilta framkvæmdavaldsins, ríkisstjórnarinnar. Alþingi ber að gæta sóma síns og ber að vera á verði gegn því, að vald sé dregið úr höndum alþm. eða ákvörðun tekin gagnstætt vilja meiri hluta Alþingis. Það er alvarleg þróun mála ef það á að líðast að innan við fimmtungur alþm. með innan við fimmtung af fylgi þjóðarinnar á bak við sig beiti neitunarvaldi þegar hagsmunamál Íslendinga eru annars vegar.

Ég ítreka og undirstrika, að það er vitað mál að frv. til l. um aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni hefur legið tilbúið hjá hæstv. viðskrh. Ég verð að beina þeirri áskorun til hans, að hann láti ekki undir höfuð leggjast í tengslum við afgreiðslu þessarar þáltill. að flytja slíkt frv. Hæstv. viðskrh. hygg ég vera hlynntan aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni og því verð ég að treysta honum til þess, þangað til annað kemur í ljós, að hann fylgi fram þeirri sannfæringu sinni með því að flytja slíkt frv. til l. hér á Alþingi. Ég heiti því að beita mér fyrir því í utanrmn. að nefndin fjalli ítarlega um þessa þáltill. og vinnsla utanrmn. verði með þeim hætti til styrktar happasælum lyktum þessa máls.

Ég hlýt að gefnu tilefni að svara hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni þar sem hann fjallaði um afskipti mín af því, að sett var á stofn olíuviðskiptanefnd. Það er alveg rétt, að ég átti frumkvæði að því í nafni Sjálfstfl. að beina þeirri tillögu til þáv. ríkisstj. á árinu 1979, að því er mig minnir, að slík olíuviðskiptanefnd yrði skipuð. Þá var viðskrh ekki orðinn formaður Alþb., en er núv. formaður Alþb. Hann féllst á það ásamt öllum ráðherrum þáv. ríkisstj. að slík olíuviðskiptanefnd skyldi skipuð og fjalla um það, með hvaða hætti unnt væri að tryggja örugg olíukaup og hagkvæm olíukaup. Ef framkvæmd þessara mála hefur farið svo illa úr hendi, sem hv. þm. vildi vera láta, að árangurinn hafi orðið sá, að við höfum stórtapað á olíuinnkaupum frá þeim tíma, er ríkisstjórnum og viðskiptaráðherrum og þeim, er úrslitavald hafa í þessum efnum, um að kenna. Það er auðvitað ljóst mál, að olíuviðskiptanefnd lagði til að við ættum fleiri kosta völ í olíuinnkaupum til landsins en tíðkast hefði um langt skeið. Ég tók eftir því, að hæstv. viðskrh. sagði síðast fyrir nokkrum vikum að það væri einmitt nauðsynlegt að við ættum fleiri kosta völ í þessum efnum. Að sjálfsögðu ættu aðrir en þeir, sem telja sínum málstað nauðsynlegt að hafa olíuinnkaup eingöngu frá Sovétríkjum, að geta skilið þetta. Ég held að hv. þm. hafi ekki getað dulið þau vonbrigði sín, að við erum ekki lengur að þessu leyti háðir einu ríki, að vísu uppáhaldsríki hv. þm. Við höfum í fleiri hús að venda. Það er víst og áreiðanlegt að það er happadrýgst fyrir Íslendinga að eiga fleiri kosta völ í þessum efnum sem öðrum.

Þegar litið er á verðlag olíuinnkaupa til landsins er 1 jóst að það verður að miða við lengri tíma en eitt eða tvö ár. Við höfum á s. l. áratug reynt tvær olíukreppur með miklum verðsveiflum olíuinnkaupa til landsins. Það verður að ganga svo frá málum, að við séum ekki ávallt háðir duttlungum annarra í þessum efnum, heldur verðum við að tryggja okkur bæði hvað snertir öruggar birgðir, innkaup og verðlag. Þess vegna vísa ég heim til föðurhúsanna þeim ummælum hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar að stofnun olíuviðskiptanefndar hafi verið Íslendingum til tjóns. Þvert á móti hygg ég að þá hafi þessi mál verið tekin til nauðsynlegrar endurskoðunar og endurmats sem hafi leitt til þess, að við eigum fleiri kosta völ í þessum efnum en áður, en það er okkur lífsnauðsyn. Það má vel vera að við þurfum að leita fleiri leiða og nýrra innkaupalanda en hingað til hefur verið gert. Við eigum að hafa augun opin, en auðvitað verður það svo annaðhvort að vera á valdi þeirra, sem kaupa inn olíuna og selja á eigin ábyrgð, eða á valdi stjórnvalda, ef þau á einhvern hátt ábyrgjast þessi olíuinnkaup, hvernig til tekst þegar til lengdar lætur í þessum efnum. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé mjög mikilvægt hagsmunamál Íslendingum, ákaflega mikilvægt öryggismál. Meðan við þó erum svo háðir innflutningi á olíu sem sú staðreynd ber vitni um að um helmingur orkunotkunar okkar er innfluttur þrátt fyrir vaxandi nýtingu innlendra orkulinda, þegar svo standa sakir, skiptir okkur miklu máli að vel sé á málum haldið. Þær upplýsingar og þau tengsl og það öryggi, sem skapast með aðild að Alþjóðaorkustofnuninni, er í þessum efnum, hygg ég, ómetanlegt.

Við munum vissulega, þegar við fáum þessa þáltill. til meðferðar í utanrmn., fjalla ítarlega um hana. Um leið og við munum hafa samráð við hæstv. utanrrh., eins og nefndarinnar er venja í öllum hennar störfum, mælist ég til þess að eiga samráð og samvinnu við hæstv. viðskrh. Ég er ekki í vafa um að niðurstaðan verður sú, að meiri hluti þm. muni telja hér um brýnt hagsmunamál Íslendinga að ræða. Það kann svo að vera úrvinnsluatriði með hvaða hætti við eigum að gerast aðilar að Alþjóðaorkustofnuninni og hvað aðlögunartíma við eigum að ætla okkur og önnur slík framkvæmdaatriði.