20.10.1981
Sameinað þing: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

20. mál, ár aldraðra

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. þm., sem hafa talað í þessu máli, fyrir undirtektir þeirra við það. Vil ég sérstaklega þakka hv. 1. þm. Vesturl. fyrir að skýra okkur frá því, að málið hefði efnislega verið rætt í þingflokki Framsfl. og þm. hans heitið stuðningi sínum við það.

Varðandi það, sem kom fram nú síðast í orðum hv. þm. Helga Seljans, vil ég aðeins endurtaka þau orð mín sem voru lýsing á því, hver aðdragandi væri að vinnu þeirrar nefndar sem hæstv. heilbrmrh. hefur skipað til þess að vinna að frv.-gerð varðandi heilbrigðis- og vistunarþjónustu fyrir aldraða. Það er búið að semja þrjú frv. Það fyrsta sem samið var — og er ég nú að endurtaka nokkuð frá því áðan, en ég sé fulla ástæðu til þess vegna þessara orða hv. þm., — það fyrsta vannst þáv. hæstv. ráðh. Magnúsi H. Magnússyni ekki tími til að flytja, en það var lagt tilbúið fyrir þann heilbrmrh. sem þá tók við, hæstv. ráðh. Svavar Gestsson. Hann gat ekki notað það, lét ráðuneytisstjóra sinn semja nýtt frv., sem hann var ekki heldur ánægður með, og kallaði til pólitíska stuðningsmenn, sem að mínu viti hefðu mátt veljast öðruvísi úr þeim sömu röðum en gert var. Það frv. var síðan lagt fyrir hv. Alþingi á s. l. vetri. Endalok þess urðu þau, að tekinn var út úr þeim ákveðinn þáttur og þau lög samþykkt sem í gildi eru um Framkvæmdasjóð aldraðra. Samkv. þeim lögum eiga þau að falla úr gildi um n. k. áramót. Auk þess kom í ljós við könnun þeirra laga, að það var ekki nokkur vegur að úthluta einni einustu krónu samkv. þeim til þeirra framkvæmda sem átti einmitt að vinna að, þ. e. að ráða bug á því neyðarástandi sem ríkir bæði á Reykjavíkursvæðinu og reyndar líka á Eyjafjarðarsvæðinu í dag. Því þarf að breyta þeim lögum. Persónulega er ég á móti nefsköttum, en ég lýsti því yfir við hæstv. ráðh. á síðasta þingi þegar hann ræddi við mig um þetta mál, að ég mundi fylgja nefskatti, sem væri tímabundinn, til þess að ráðast að vandamáli eins og þessu sem við erum að glíma við. Og ég mun ljá atkv. mitt til þess að svo verði enn um eins árs skeið, eins og ég hygg að hann muni leggja til.

En vegna þess að hv. þm. taldi það ekki ofverkið okkar þótt við bættum á okkur því sem ég hef verið að ipmra á í sambandi við víðtækt framtak allra landsmanna, þá vil ég aðeins segja honum frá því, að fram til þessa — þó að við höfum haldið fundi vikulega, og einn stendur yfir núna og varð ég að afsaka mig, enda munu þeir geta haldið vinnu áfram án mín, — þá erum við rétt að byrja að lesa yfir þau frumvörp, sem þegar eru til staðar, til þess að reyna að draga úf úr þeim samkomulagsatriði sem við getum þá sniðið eftir nýtt frv. um heilbrigðis- og vistunarþjónustu. Til viðbótar er eftir að fara í gegnum allt sem varðar húsnæðismál frá þó nokkrum stöðum. Bæði hafa verið lögð fram frumvörp og eins eru í gildandi lögum ákvæði um húsnæði aldraðra. Síðan kemur inn fjármagnsmálið. Þá koma inn tryggingamálin, sem eru stór og mikill bálkur sem þessi nefnd verður að fjalla um líka. Ég tel því að ef við eigum að reyna að ná þessu máli fram hér á Alþingi á yfirstandandi þingi veiti þessu fólki ekkert af að sitja við þetta verkefni og því beri Alþingi að hafa forgöngu um að við náum fram landssamstöðu allra aðila, ekki bara pólitískra fulltrúa, heldur hlutlausra félagasamtaka, til þess að vinna þessum málum lið. Það er það sem ég á við sérstaklega með flutningi þessarar tillögu.