10.12.1981
Sameinað þing: 33. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

9. mál, aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég get ekki að því gert, að það fer alltaf svolítið um mig þegar fulltrúar Alþb. koma í ræðustól og eru að tala um grundvallarreglur lýðræðisins og hin helgustu mannréttindi og þar fram eftir götunum. Það fer svolítið um mig af þeirri ástæðu, að Alþb. og fyrirrennarar þess í íslenskum stjórnmálum hafa litið til ríkjanna í Austur-Evrópu, kommúnistaríkjanna, með sérstakri aðdáun og líta sumir hverjir enn. Menn skyldu hafa það í huga, að margir af forvígis- og forustumönnum Alþb., — ekki allir, en sumir, — hafa hlotið menntun sína og þjálfun undir handarjaðri kommúnistaflokkanna í Austur-Evrópu, og þess vegna þykir mér það hlálegt þegar þessir menn koma hér og belgja sig út af lýðræðisást í þessum ræðustól.

Ég held því fram, að það sé ólýðræðislegt í hæsta máta ef 1/10 hluta þm. er fengið neitunarvald í veigamiklum málum. Mér er alveg sama hvernig menn snúa því til eða frá. Það getur ekki samrýmst því sem menn vilja kalla lýðræðisleg vinnubrögð. Það er alveg útilokað, hvernig sem á málið er litið. Það eru ólýðræðisleg vinnubrögð ef lítill minni hluti er látinn ráða ferðinni í veigamiklum málum, eins og gert er í stjórnarsáttmálanum þar sem Alþb. er að hluta til fengið neitunarvald um ýmis málefni. Það er alveg sama hvernig menn reyna að snúa því til eða frá. Þau vinnubrögð verða aldrei kölluð lýðræðisleg. Þess vegna finnst mér hlálegt þegar formaður Alþb., hæstv. félmrh., bólgnar út af lýðræðisást í þessum ræðustól.

Ég ætla ekki að gerast langorður hér, herra forseti, en mér fannst nokkuð á skorta þegar hæstv. félmrh. var að telja upp það sem hann teldi að gæti verið til hagsbóta með aðild að Alþjóðaorkustofnun. Hann lét t. d. undir höfuð leggjast að geta þess sem er í samningnum um alþjóðarorkuáætlun, 3. liður, og heitir: Úthlutun olíu á neyðartímum.

Auðvitað er það rétt, að við eigum að skoða þetta mál, og auðvitað er það undirskilið og auðvitað felst það í þessari till., að við gerumst ekki aðilar að þessari stofnun nema því aðeins að þau skilyrði, sem við kunnum að setja, verði uppfullt. Það er svo augljóst og liggur svo í hlutarins eðli að um það þarf ekki að hafa mörg orð. Það felst auðvitað í því, að ríkisstj. er falið að gera ráðstafanir til þess að Ísland gerist aðili að Alþjóðaorkustofnuninni. Auðvitað gerist það ekki nema það verði með þeim skilyrðum og á þann hátt sem við getum sætt okkur við. Ég hélt satt að segja að um þetta þyrfti ekki að fara mörgum orðum.

Það hefur verið gagnrýnt hér, að gerður var olíukaupasamningur við Breta. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson gagnrýndi það. Hæstv. félmrh. valdi þann kostinn að fara aðra leið í sinni umfjöllun um það mál og olíukaup okkar annars staðar. Það hefur líka komið fram í þessum umr., að Alþb. bar auðvitað ábyrgð á þeirri ákvörðun að gerðir voru olíusamningar við Breta eins og fleiri. En hið venjulega gerðist hér. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson taldi áðan, er hann flutti hér sína ræðu, að Alþb. hefði ekki borið ábyrgð á þessu: „Við létum það eftir þessum herramönnum,“ sagði hann, en við berum enga ábyrgð. — Það kann vel að hafa farið svo að olíuverð samkv. þessum samningi hafi reynst eitthvað hærra en menn ætluðu er hann var gerður. En gæti ekki verið að beinir eða óbeinir kostir þess að hafa gert þennan samning hefðu létt okkur róðurinn á einhverjum öðrum miðum og kannske gert okkur auðveldara fyrir í viðskiptum og samningum við Sovétríkin um ýmislegt annað? Það skyldi þó aldrei vera. En það er venjan, að ef Alþb.-menn telja að eitthvað hafi farið á annan veg og lakari en ætlað var, þá bera þeir enga ábyrgð. Það er sjálfsagt þeim að þakka núna að sparifé hefur streymt inn í bankana þótt svo þeir hafi alla tíð lýst sig andsnúna þeirri vaxtastefnu sem hefur leitt til þess, að sparifjármyndun hér í landinu hefur aukist. Það kann að vera að þeim þyki þetta sumum góður málflutningur, en ég hygg að almenningi þyki það yfirleitt ekki.

Það er svo með hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson, að hans eftirlæti í ræðum á Alþingi er að halda því fram, að aðrir þm. hafi ekki kynnt sér mál, hann hafi hins vegar kynnt sér mál öðrum mönnum betur. Gjarnan tekur hann þm. í kennslustundir er sá gállinn er á honum. Ég held að við þurfum ekki á hans fræðslu um þessi mál eða önnur að halda. Þm. þurfa ekki að gerast hans nemendur um eitt eða neitt.

Ég vék að því áðan, að það væri eftirlætisiðja þeirra Alþb.-manna að tala í suður þegar aðrir töluðu í norður. Þegar hér voru umr. um utanríkismál fyrir allnokkru var talað um Menningarstofnun Bandaríkjanna og starfsemi hennar á Íslandi. Þegar vakin var athygli á þeim straumhvörfum sem gerst höfðu í umræðum um utanríkismál á Norðurlöndum þegar sovéskur kafbátur með kjarnorkuvopn strandaði í njósnaferð á bannsvæði sænska flotans, þá töluðu Alþb.-menn um Menningarstofnun Bandaríkjanna. Nú var verið að spyrja formann þingflokks Alþb. ákveðinna spurninga um stefnu þess flokks. Þá kemur hann hér og talar um sovéska kafbáta. Það stendur ekki á mér frekar en öðrum þm. að halda þeirri umr. áfram. (Gripið fram í.) Það er ekki langur tími liðinn síðan þessi umr. átti sér stað. Það var óskað eftir ákveðnum upplýsingum. Það stendur ekkert á okkur að halda þeirri umr. áfram. En við ræðum ekki þau mál undir þessum dagskrárlið. Við skulum halda okkur við skipuleg og skynsamleg vinnubrögð. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson skal ekki þurfa að kvarta yfir að það standi á umr. frá okkur um utanríkismál, um sovéska kafbáta í grennd við landið. Það er hins vegar ástæðulaust að hafa þau mál í flimtingum, eins og hann og hans flokksmenn hafa allajafna gert. Þeir hafa til þessa ekki verið sérlega fúsir til að ræða umsvif Sovétríkjanna, hvort sem það er hér á landi eða í höfunum við Ísland. Þessi flokkur hefur talið það sérstaka skyldu sína og telur enn að halda verndarhendi yfir hagsmunum þessa stórveldis og hefur gert utanríkismálastefnu þess að ýmsu leyti að sinni. Það hefur verið rakið hér oftlega að utanríkisstefna Alþb. hefur um áratugaskeið og þegar sá flokkur nefndi sig öðrum nöfnum verið bergmál af utanríkisstefnu Sovétríkjanna. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það undir þessum dagskrárlið. En á það skal ekki skorta, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, að menn séu reiðubúnir að ræða utanríkismál við Alþb. Það væri hins vegar kostur ef fleiri hv. þm. og ráðh. Alþb. tækju þátt í þeirri umr. Einhverra hluta vegna hafa þeir valið þann kostinn að láta formann þingflokksins, hv. 11. þm. Reykv., standa einan í þeirri umr. Við viljum gjarnan tala við fleiri.