10.12.1981
Sameinað þing: 33. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

9. mál, aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Þessar umr. um aðild að Alþjóðaorkustofnuninni hafa tekið nokkuð aðra stefnu en þá að ræða sérstaklega það mál og hefur verið drepið verulega á dreif. Þar á meðal hafa komið inn í þessar umr. verulegar umr. um olíuviðskipti. Olíuviðskiptin eru stór þáttur í okkar utanríkisviðskiptum og vissulega ástæða til að ræða þau hér á hv. Alþingi. E. t. v. væri skynsamlegt að gera það þegar umr. fara fram um utanríkismál árlega og að þá sé gefin skýrsla sérstaklega um olíuviðskiptin. Að vísu er hún í þeim hluta skýrslu utanrrh. sem fjallar um viðskiptamál, en það gæti verið ástæða til að gefa sérstaka skýrslu um olíuviðskiptin. Ekki skal ég skorast undan því og þó að fyrr verði.

En það hefur ýmislegt komið fram í þessum umr. sem ég sé ástæðu til að gera að umræðuefni. Sérstaklega á ég þá við ræðu hv. þm. Alberts Guðmundssonar. Hann staðhæfði í sinni ræðu að hægt sé að lækka olíuverðið frá því sem nú er og verið hefur.

Ég er þeirrar skoðunar eftir kynni mín af þessum viðskiptum, að þau séu ákaflega vandasöm og erfitt að segja fyrir um hvað rétt sé að gera, vegna þess að ástandið í þessum málum á hinum alþjóðlegu mörkuðum er þannig og það eru svo margir óvissuþættir í þessum málum, að það er erfitt að ákveða fyrir fram með fullri vissu hvað rétt sé að gera. Auðvitað verða menn að meta stöðuna hverju sinni og byggja ákvarðanir á því mati.

Ég held t. d. að ef horfið hefði verið að því ráði á árinu 1980 að kaupa hráolíu — á þeim tíma þegar margir voru þeirrar skoðunar að það væri e. t. v. skynsamlegt að láta hreinsa hana og flytja til landsins — hefðum við fengið af því stórkostlegan skell fjárhagslega af því að þessi mál þróuðust í aðra átt en menn áttu þá von á. Ég held þess vegna að menn eigi að tala varlega um þessi mál og gera sér grein fyrir því, að þau eru ekki einföld og margir óvissuþættir koma þar inn í.

Varðandi viðskipti við einstaka aðila vil ég aðeins víkja að því atriði sem hv. þm. Albert Guðmundsson ræddi um, hugsanlegum viðskiptum við Saudi-Arabíu. Á þeim tíma sem þessi umboðsmaður leitaði hófanna hér, sem vildi hafa milligöngu milli Íslendinga og Saudi-Araba um olíuviðskipti, hafði ég samráð við aðra sem höfðu nokkra reynslu af slíkum viðskiptum. Ég hafði t. d. samráð við orkumálaráðherra Danmerkur, sem hafði talsverða reynslu af þessum viðskiptum, og hann ráðlagði mér eindregið að við skyldum ekki taka upp viðskipti við Saudi-Arabíu nema við opinbera aðila þar. Ég játa það, að ég tók tillit til þess arna. En það háttaði þannig til á þessum tíma, að við höfðum ekki stjórnmálasamband við Saudi-Arabíu. Þess vegna ræddum við það, ég og hæstv. utanrrh., og höfðum raunar gert það áður en þessir atburðir gerðust, að skynsamlegt væri að við hlutuðumst til um að tekið yrði upp stjórnmálasamband við Saudi-Arabíu. Utanrrn. undir forustu utanrrh. hófst þegar handa um það mál. Það tekur alllangan tíma að koma á stjórnmálasambandi og segja má að það sé ekki að fullu komið á enn. Við höfum að vísu sendiherra, Ingva Ingvarsson, sem situr í Stokkhólmi, og hann hefur skilað sínum erindisbréfum, að ég hygg, til Saudi-Arabíu. En Saudi-Arabía hefur ekki tilnefnt sendiherra af sinni hálfu. Það eru því ekki komin á enn þá fullkomlega formleg stjórnmálaviðskipti eða stjórnmálasamband milli þessara tveggja ríkja.

Ég hef fullan hug á að kannaðir séu allir möguleikar í sambandi við olíuviðskipti við Saudi-Arabíu. Ég held að það sé sjálfsagt og eðlilegt mál. En ég tel að það þurfi að gerast eftir opinberum leiðum, en ekki gegnum umboðsmenn sem starfa sem „forretningsmenn“ á þessu sviði.

Það verður auðvitað að gæta þess, að olíuviðskiptin eru einn þáttur í okkar utanríkisviðskiptum. Þau eru einn þáttur þeirra og það verður að líta á þessi mál með tilliti til þess.

Það hafa farið fram á undanförnum tveimur áratugum mjög ítarlegar kannanir á því, hvort skynsamlegt væri fyrir okkur Íslendinga að reisa olíuhreinsunarstöð hér í landinu. Niðurstaðan af þessum könnunum hefur alveg tvímælalaust verið neikvæð. Það var ekki ýkjalangt frá því á tímabili, á árunum milli 1960–1970, að menn hugsuðu til þess að reisa hér olíuhreinsunarstöð. Góðu heilli var það ekki gert. Ég hygg að þeir aðilar, sem þá var rætt við, hafi reist olíuhreinsunarstöð á Nýfundnalandi. Sú olíuhreinsunarstöð fór á hausinn og kostaði þá, sem þar áttu hlut að máli, stórkostlega fjármuni. Hvort aðstæður hafa breyst í þessum efnum skal ég ekki fullyrða, en þeir menn, sem eru kunnugir olíuviðskiptum, telja ekki skynsamlegt, að Íslendingar ráðist í að reisa olíuhreinsunarstöð, og hafa m. a. skýrt frá því, að margar olíuhreinsunarstöðvar í Vestur-Evrópu hafi ekki nægilega mikil verkefni. Ég dreg það þess vegna mjög í efa en skal þó ekkert um það fullyrða. Það er sjálfsagt að hafa opin augu fyrir öllum möguleikum í þessum efnum.

Þá kom hv. þm. Albert Guðmundsson inn á það að athuga möguleika á viðskiptum við Frakka. Hann minntist meira að segja á þetta mál við mig á sínum tíma og það er allrar athygli vert. Ég benti honum á það, að við höfum viðskiptafulltrúa í París og hvort ekki væri ástæða til að hann athugaði þessi mál með hv. þm. Mér finnst það sjálfsagt. Það eru auðvitað algjörlega opin viðskipti milli okkar og Frakka og sjálfsagt og eðlilegt að íhuga alla möguleika á viðskiptum ef þau eru hagkvæm. Það er sjálfsagt.

Að öðru leyti vildi ég segja það, að ég hef ekki við höndina þau gögn sem varða sérstaklega þetta mál, viðskipti við Saudi-Arabíu, olíuviðskipti við Saudi-Arabíu. Ég get skýrt frá því, að hér hafa verið menn frá Saudi-Arabíu nú nýlega. Þeir hafa átt viðræður við utanrrh., utanrrn., þeir hafa átt viðræður við viðskrn., þeir áttu t. d. viðræður við mig í gær og starfsmenn viðskrn. Það er í ráði að setja upp sérstaka sýningu þar austur frá sem verður í janúarmánuði, og ég hygg að íslenskir aðilar einhverjir hafi hug á að taka þátt í henni og verða þar viðstaddir. Það er sjálfsagt að athuga alla möguleika á viðskiptum við þessar þjóðir, svo framarlega sem þau viðskipti eru okkur hagkvæm. En ég vara við því og tel vafamál að hægt sé að staðhæfa að við getum lækkað okkar olíuverð verulega með því að breyta til frá því sem verið hefur.

Við verslum við margar þjóðir. Við verslum mikið við Sovétríkin. Þau viðskipti hafa yfirleitt verið hagstæð og alveg sérstaklega hagstæð nú upp á síðkastið, miðað við þá þróun sem mál hafa tekið. Við verslum við ýmsa aðila hér í Vestur-Evrópu. Við höfum nú rætt við Norðmenn um möguleika á olíuviðskiptum. Sannleikurinn er sá, að þeir hafa ekki getað boðið okkur jafnhagkvæmt verð og staðið hefur til boða annars staðar. Það hefur komið á daginn að viðskipti við breska hlutafélagið BNOC hafa verið veruleg og að sumu leyti góð viðskipti. Þau hafa samt ekki verið eins hagstæð og ástæða hefði verið til að ætla að þau gætu orðið. Þess vegna höfum við núna beint meiri viðskiptum til Portúgals með olíuinnkaup. Síðan hafa verið olíuviðskipti við ýmsa aðra aðila hér á Vesturlöndum. Portúgal er ákaflega þýðingarmikið viðskiptaland fyrir Íslendinga. Við seljum þangað á þessu ári saltfisk fyrir um 100 millj. dollara. Það er ekkert óeðlilegt að Portúgalir hafi áhuga á að selja okkur vörur. Þess vegna vil ég láta í ljós ánægju yfir því, að við skulum hafa aukið olíuviðskipti okkar við Portúgal. Að sjálfsögðu kemur til greina að auka víðskipti við þá, en það verður auðvitað að gerast eftir eðlilegum leiðum.

Ég vil aðeins segja það í tilefni af ræðu hv. þm. Alberts Guðmundssonar, að ekki mun viðskrn. eða aðrir íslenskir aðilar vilja leggja stein í götu þess, að einstakir aðilar nái hagkvæmum viðskiptum við aðrar þjóðir eða aðra aðila hjá öðrum þjóðum, síður en svo. Ég segi fyrir mig, að ég vil greiða fyrir slíku eins og framast er unnt.

Varðandi málið sem er á dagskrá, aðild að Alþjóðaorkustofnuninni, þá hefur komið fram í þessum umr. að það mál er til athugunar. Mér sýnist að það sé opið mál af hálfu allra flokka að hugsa til aðildar að Alþjóðaorkustofnuninni. Menn hafa dálítið misjafna afstöðu til málsins, en mér sýnist að það sé til athugunar. Hver niðurstaðan verður skal ég ekki fullyrða, en ég hefði þó haldið að ástæða væri til að hraða frekar en seinka þeirri upplýsingasöfnun sem við teljum nauðsynlega áður en við tökum endanlegar ákvarðanir um það, hvernig best sé að vinna að þessu máli.

Ég hef lítið vikið að efnisatriðum í sambandi við hugsanlega aðild að Alþjóðaorkustofnuninni. En það er enginn vafi á því, að með slíkri aðild mundum við njóta góðs af upplýsingum á sviði orkumála utan við olíuviðskiptin og þeim óháð. Við höfum þegar talsverð samskipti við Efnahags- og framfarastofnunina í París um orkumál. Iðnrh. og fjórir menn með honum sátu t. d. ráðstefnu á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París á s. l. sumri um orkumál, og við höfum tekið þátt í orkusamstarfi innan OECD. Þess vegna er það kannske rökrétt framhald að við gerumst aðilar að Alþjóðaorkustofnuninni og njótum góðs af því samstarfi. Þær þjóðir, sem þegar hafa gerst aðilar, 21 þjóð, eru helstu iðnríki veraldarinnar, þær þjóðir sem lengst eru komnar á sviði orkumála. Við getum áreiðanlega sitthvað af þeim lært og eigum að geta notið góðs af margvíslegum upplýsingum og margvíslegu samstarfi á sviði orkumála.