10.12.1981
Sameinað þing: 33. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (1187)

9. mál, aðild Íslands að Alþjóðaorkustofnuninni

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Þetta eru orðnar nokkuð langdregnar umr. og ég skal ekki lengja þær mikið. Ég vildi aðeins taka það fram til þess að enginn misskilningur komi upp varðandi þær upplýsingar sem ég fékk frá danska orkumálaráðherranum, að það er engin stefna í viðskrn. að leita til Dana sérstaklega og taka ákvarðanir í samræmi við það sem þeir ráðleggja. Ástæðan fyrir því, að þetta var gert, var sú, að Danir voru einmitt að taka upp stjórnmálasamband við Saudi-Arabíu og höfðu verið að því nokkuð lengi og ég vildi gjarnan fylgjast með því hvernig það hefði gengið til og hvaða reynslu þeir hefðu öðlast af þessum viðskiptum. Þegar Norðurlandaráðsfundur fór fram hér ræddi ég við orkumálaráðherrann, sem var hér staddur, og hafði svo samband við ráðuneytið. Hann bauð að láta okkur í té upplýsingar um reynslu þeirra í sambandi við viðskipti við Saudi-Arabíu, og með það í huga tók ég þá ákvörðun, að það væri ekki skynsamlegt fyrir okkur að skipta við aðra þar, heldur að hafa a. m. k. sambönd til að byrja með við ríkisstjórnina sjálfa. Ég skal ekkert um það segja, hvað kann að verða síðar þegar við höfum komið þarna á sambandi sem hægt er að styðjast við.

Varðandi nokkur ummæli hv. þm. Kjartans Jóhannssonar um viðskipti við breska félagið BNOC vil ég aðeins upplýsa það, sem ég hef raunar gert áður, að samningar við það félag voru byggðir á niðurstöðum olíuviðskiptanefndar. Hv. þm. hrósaði sér af því að hafa átt þátt í að koma þeim samningum á, en vildi svo enga ábyrgð bera á samningunum og vildi varpa því frá sér, þar sem fjallað var um verð í þeim samningum, að hann bæri nokkra ábyrgð á því. Ég man ekki nákvæmlega á hvaða stigi þetta var þegar ég tók við embætti viðskrh., en ég fullyrði að þessir samningar voru gerðir í framhaldi af störfum olíuviðskiptanefndar. Það er svo annað mál, að mál hafa þróast á talsvert annan veg en menn gerðu ráð fyrir þá. Við gerðum þá ráð fyrir að olían á uppboðsmarkaðinum í Rotterdam mundi hækka meira en reyndin hefur orðið. Verðið hefur verið miklu stöðugra en menn gerðu ráð fyrir þá. Það er þetta sem ég á við þegar ég vara menn við því að tala gáleysislega um þessi mál. Þau eru vandasöm, hvað sem hver segir, og það þarf að hafa hliðsjón af því.

Ég vil svo ljúka mínum þætti í þessum umr. með því að upplýsa það, að ég held að staða okkar í þessum efnum í dag sé góð. Við eigum nægar olíuvörur og ég held að viðskiptin hafi verið frekar hagstæð þegar á heildina er litið. Það má að sjálfsögðu deila um einstök atriði í þessum málum sem öðrum. Ég er þó þeirrar skoðunar, að það sé rétt stefna — ég var sammála olíuviðskiptanefnd um það — að dreifa þessum viðskiptum nokkuð til þess að tryggja okkur. Ég held að það eigi að halda áfram í þá stefnu.

Hins vegar held ég að olíuviðskipti okkar við Ráðstjórnarríkin, Sovétríkin, hafi verið hagstæð, a. m. k. síðan ég tók við embætti viðskrh. og það verði ekki á neinn hátt hægt að gagnrýna með rökum þau viðskipti. En ég held að það sé hyggilegt fyrir okkur eins og flestar aðrar þjóðir að dreifa þessum viðskiptum nokkuð til þess að tryggja okkur í framtíðinni.