11.12.1981
Efri deild: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1433 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

100. mál, Stofnlánadeild verslunarfyrirtækja

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég mun mæla hér fyrir tveimur málum, á þskj. 103 og 104, frv. til laga um breyt. á lögum um Stofnlánadeild verslunarfyrirtækja og frv. til laga um breyt. á lögum um Stofnlánadeild samvinnufélaga. Ég vil — með leyfi hæstv. forseta — mæta fyrir þessum frv. báðum í einu. Þau eru ákaflega svipuð. Ég gerði það í Nd. og ég vona að það geti gengið eins hér í hv. Ed. (Gripið fram í: Það gengur allt í Nd.) Það frv. til laga um breyt. á lögum um Stofnlánadeild verslunarfyrirtækja, sem nú er á dagskrá, er lagt fram að ósk bankaráðs Verslunarbanka Íslands hf., samhliða hinu frv. sem ég minntist á, um breyt. á lögum nr. 45 frá 1972, um Stofnlánadeild samvinnufélaga.

Stofnlánadeild verslunarfyrirtækja starfar sem sjálfstæð deild við bankann undir stjórn bankaráðs og er hlutverk hennar að styðja að verslun landsmanna með hagkvæmum stofnlánum. Veitir stjórn deildarinnar slík lán til öflunar búnaðar og áhalda fyrir verslunarfyrirtæki, byggingar verslunar- og skrifstofuhúsnæðis og meiri háttar endurbóta á slíku húsnæði. Enn fremur getur stjórnin, ef sérstakar ástæður mæla með, heimilað að þessum aðilum séu veitt stofnlán til kaupa á verslunar- og skrifstofuhúsnæði.

7. gr. laganna kveður á um að lánstími megi eigi vera lengri en 12 ár. Hámarkslánstími þessi var ákveðinn árið 1972 og var þá í samræmi við það sem þótti hagkvæmt og eðlilegt á þeim tíma. Miðað við þær breytingar, sem orðið hafa almennt á lánskjörum á síðustu misserum með tilkomu fullrar verðtryggingar á lánum, þykir eðlilegt að leggja til að lánstími sé lengdur, m. a. til þess að létta greiðslubyrði lántaka. Af ofangreindum ástæðum er lagt til að hámarkslánstími verði miðaður við 25 ár.

Ég vil leyfa mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn.

Hitt frv., sem er hliðstætt þessu, frv. til laga um breyt. á lögum um Stofnlánadeild samvinnufélaga, fjallar um það að lánstími megi eigi vera lengri en 25 ár og lánin skuli endurgreidd með jöfnum afborgunum. Þetta frv. er lagt fram að ósk bankaráðs Samvinnubanka Íslands hf., samhliða því frv. sem ég var að mæla fyrir um Stofnlánadeild verslunarfyrirtækja. Stofnlánadeild samvinnufélaga starfar sem sjálfstæð deild við Samvinnubankann undir stjórn bankaráðs og er hlutverk hennar að styðja verslunarrekstur samvinnufélaga með hagkvæmum stofnlánum. Veitir stjórn deildarinnar slík lán til byggingar verslunar- og skrifstofuhúsnæðis samvinnufélaga og fyrirtækja innan þeirra vébanda, sem verslun stunda, svo og til meiri háttar endurbóta á slíku húsnæði. Enn fremur getur stjórnin, ef sérstakar ástæður mæla með, heimilað að þessum aðilum séu veitt stofnlán til kaupa á verslunar- og skrifstofuhúsnæði.

7. gr. laganna kveður á um að lánstími megi eigi vera lengri en 12 ár. Hámarkslánstími þessi var ákveðinn árið 1972, á sama tíma og lánstími hjá Stofnlánadeild verslunarfyrirtækja, og var þá í samræmi við það sem þótti hagkvæmt á þeim tíma. Miðað við þær breytingar, sem orðið hafa almennt á lánskjörum á síðustu misserum vegna fullrar verðtryggingar á lánum, þykir eðlilegt að lánstími sé lengdur, m. a. til þess að létta greiðslubyrði lántaka. Af ofangreindum ástæðum er lagt til að hámarkslánstími verði miðaður við 25 ár.

Ég mun svo leyfa mér, þegar tímabært er, að leggja til að þessu frv. verði einnig vísað til hv. fjh.- og viðskn.