11.12.1981
Efri deild: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1435 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

144. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er lagt fram, fjallar um sjúkratryggingagjald og framlengingu þess frá því sem það er nú á árinu 1981. Í frv. er gert ráð fyrir að á árinu 1982 skuli skattstjórar leggja á sjúkratryggingagjald sem sé þannig, að af gjaldstofni sem er 101 250 kr. og þar fyrir ofan greiðist 2%, en ekkert af því sem þar er fyrir neðan í tekjum á árinu 1981. Álagt gjald á árinu 1981 nemur 33.8 millj. kr. og er áætlað að af þeirri fjárhæð innheimtist 32 millj. kr. Talið er að álagning sjúkratryggingagjalds á árinu 1982 nemi með þeim hætti, sem hér er gerð till. um, 49.5 millj. kr. og er það venjulegur framreikningur miðað við aðrar skattaforsendur sem fjárlagafrv. ársins 1982 hvílir á. Þær breytingar voru gerðar á sjúkratryggingagjaldi á fyrri hluta þessa árs, að það var fellt niður af lægri tekjum. Að mati Þjóðhagsstofnunar og Reiknistofu háskólans, sem hafa skoðað það mál lítillega fyrir mig, hefur sú ákvörðun, sem tekin var snemma á þessu ári, það í för með sér, að sjúkratryggingagjald á árinu 1982 verður 130–140 millj. kr. lægra en ella hefði verið.

Hér er um að ræða framlengingu á skatti og frv. lagt fram til þess að unnt verði að taka mið af því við afgreiðslu fjárlaga. Ég hygg að það hafi yfirleitt verið svo, a. m. k. þau ár sem ég man eftir, að sams konar frv. hafi ekki orðið að lögum fyrr en eftir áramót þó að þau hafi verið sýnd fyrir áramót.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn., þar sem hér er um að ræða skatt. Það er í samræmi við þá afstöðu sem hv. þingdeildir tóku á s. l. ári að minni till., að þetta fari ekki til heilbr.- og trn., heldur til fjh.- og viðskn. þingsins.