20.10.1981
Sameinað þing: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

31. mál, nýting bújarða (ríkisjarða) í þágu aldraðra

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Það fer vel á því, að eftir að búið er að ræða hér um mál aldraðra annars vegar og hins vegar um nýtingu bújarða eða ríkisjarða alveg sérstaklega í þágu orlofsheimila, þá sé mælt fyrir þessari till. hér. Sá er aðeins munurinn, að þessi till. er ekki ný, hún er víst orðin ríflega þriggja ára gömul og kynni kannske einhver að segja að það væri farið að slá í hana. En ég vona þó að svo sé ekki. Hún er flutt hér nokkurn veginn óbreytt af okkur hv. þm. Stefáni Jónssyni og hv. þm. Skúla Alexanderssyni. Tillgr. er þannig:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fara fram könnun á þeim möguleika að nýta bújarðir (ríkisjarðir sérstaklega) í nánd þéttbýlisstaða með góða heilsugæsluaðstöðu sem dvalarheimili fyrir aldraða.

Dvalarheimilin yrðu byggð upp sem smáar einingar, þar sem búandi fólk, sem flytja þarf af bújörðum sínum vegna aldurs eða heilsubrests, gæti haft smábúskap, sameiginlega eða út af fyrir sig undir ákveðinni yfirstjórn og með nauðsynlegri aðstoð og aðhlynningu. Reynt yrði að tengja slík heimili svo sem kostur væri við smáiðnað í sveitum einnig.“

Við flm. viljum enn freista þess að leita fulltingis Alþingis varðandi mál þetta. Ég tel að það yrði í raun beint innlegg í þá umræðu um málefni aldraðra sem nú er ofarlega á baugi og mun verða enn meira áberandi á ári aldraðra, næsta ári. Hún snertir úrlausn sem ég veit að hefur gefist vel hjá Norðmönnum þó að hún sé þar ekki mjög útbreidd. Till. er komin beint frá fólki sem þurfti á sínum tíma að þola snögga lífsvenjubreytingu, of snögga og sára að þess dómi, og vildi fá athugun á einhverju millistigi, svo sem hér er ráð fyrir gert.

Mér finnst því enn að þetta eigi að kanna og reyna til hlítar hvort könnun leiði hið jákvæða í ljós. Meginhugsun felst í því, að fólk, sem ekki hefur lengur orku til áframhaldandi búrekstrar í því formi sem einyrkjabúskapurinn er, þurfi ekki að fara rakleitt á dvalarheimili í þéttbýli, oft án möguleika til þess að nýta þá krafta sem enn eru eftir til starfa og iðju einhvers konar. Slíkt heimili sem þessi till. gerir ráð fyrir hefur tvo aðalkosti. Lífsvenjubreytingin, umhverfisbreytingin er minni og starfsorka nýtist til þeirrar iðju sem fólkið helst kýs og hefur starfað að um dagana.

Heimilið yrði byggt upp sem smáeining 6–8 aðila sem þangað kæmu með hluta bústofns síns, sem æðioft er sárt að láta frá sér í einu vetfangi, og hefðu aðstöðu á heimilinu til að annast þar t. d. fáeinar kindur. Þær jarðir, sem heppilegar kynnu að reynast, gætu haft hvort tveggja, húsakost til íbúðar að hluta og nægt útihúsarými. Tilkostnaður gæti því, þegar allt kæmi til alls, orðið svipaður og jafnvel minni en við venjuleg dvalarheimili sem reisa þarf. Er hér sérstaklega miðað við það, að ríkið ætti þegar viðkomandi jarðir. Þess vegna er á þær jarðir lögð sérstök áhersla.

Hér yrði ekki um að ræða neitt sem héti hjúkrunarheimili að sjálfsögðu, en starfsliðið réðist að nokkru eða mestu leyti af því, hve mikla aðstoð þyrfti að veita heimilismönnum við heyöflun, gegningar og fleira. Hún yrði þó aldrei mjög mikil, miðað við heilsufar og starfsmöguleika þess fólks sem ég hef hér einkum í huga. En heildaryfirstjórn og viss heimilisaðstoð yrði eflaust til að koma. Nándin við þéttbýli með góða heilsugæsluaðstöðu er sjálfsagt öryggisatriði, og það er víða orðið, sem betur fer, að heilsugæsluaðstaða sé býsna fullkomin.

Við flm. tengjum þessa heimilisvinnu einnig við smáiðnað tengdan landbúnaði, sem sjálfsagt er að hafa inni í myndinni. Við erum enn á þeirri skoðun, að í framtíðinni muni heimili af þessu tagi risa og hafa þá tvo meginkosti sem að var vikið í upphafi. Nýting starfsorku aldraðra er mikið vandamál, vandamál þeirra fyrst og fremst, en samfélagsins um leið. Hér er til móts við það vandamál komið og ég hygg, ef við hugsum málið grannt, að þessi lausn gæti fært mörgum ómælda ánægju og lífsfyllingu á efri árum. Til þess er mikið vinnandi að svo geti orðið. Ég vil því biðja hv. nefnd að gaumgæfa þetta mál vel og finna því einhvern þann farveg sem gæti horft til framtíðarlausnar á hluta þess vanda sem aldraðir búa illu heilli óneitanlega við í dag.

Að lokinni þessari umr. vil ég leyfa mér að óska eftir því, að málinu verði vísað til hv. allshn.