11.12.1981
Efri deild: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1437 í B-deild Alþingistíðinda. (1202)

69. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Það frv. til l. um breyt. á lögum nr. 5 13. febr. 1976, um útflutningsgjald af sjávarafurðum, með síðari breytingum, var lagt fram og afgreitt með nokkrum breytingum frá Nd. og liggur nú hér fyrir á þskj. 158.

Með þessu frv. voru lagðar fram ítarlegar athugasemdir og mjög ítarleg grg. Leyfi ég mér að vitna til þeirrar grg. því að þar er að finna mjög glöggar skýringar á ákvæðum frv. og rakin nokkuð saga þessara mála.

Frv. gerir ráð fyrir að sjútvrh. verði heimilt að ákveða að áður en gjald er lagt á saltsíld samkv. 2. gr. skuli draga frá fob-verði samanlagt verð umbúða og sérstakra hjálparefna. Á sama hátt er ráðh. heimilt að ákveða að gjald samkv. 2. gr. skuli ekki innheimt af ediksöltuðum síldarflökum og öðrum síldarflökum sem verkuð eru á svipaðan hátt. Við lögin bætist svo nýtt ákvæði er orðist svo:

„Ákvæði til bráðabirgða: Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. skal útflutningsgjald af loðnumjöli og loðnulýsi framleiddu á tímabilinu 1. okt. til 31. des. 1981 nema 3.575% af fob-verðmæti útflutnings.

Tekjur af gjaldinu skiptast sem hér segir:

1. Til Aflatryggingasjóðs, áhafnadeildar 32.3%

2. Til Tryggingasjóðs fiskiskipa og til úreldingarstyrkja:

a) Til greiðslu á hluta af vátryggingarkostnaði fiskiskipa samkv. reglum sem sjútvrn. setur 30.8%.

b) Til aldurslagatryggingar til úthlutunar samkv. reglum, sem sjútvrn. setur, 4.6%.

3. Til Fiskveiðasjóðs Íslands og Fiskimálasjóðs:

a) Til Fiskveiðasjóðs 27.7%.

b) Til Fiskimálasjóðs 1.2%.

4. Til sjávarrannsókna og Framleiðslueftirlits sjávarafurða samkv. reglum, sem sjútvrn. setur, 1.6%.

5. Til Landssambands ísl. útvegsmanna 0.9%.

6. Til samtaka sjómanna 0.9%.

Sjútvrh. er heimilt að ákveða að ekki skuli innheimt gjald samkv. 2. gr. af skreið sem unnin er úr kolmunna, sem veiddur er á árunum 1981–1982, og að endurgreiða það gjald, sem þegar kann að hafa verið greitt af afurðum unnum úr kolmunna sem veiddur var á árinu 1981.“

Lög þessi öðlast þegar gildi, sbr. 3. gr. frv., en þegar þau hafa hlotið staðfestingu skal fella meginmál þeirra inn í lög nr. 5 13. febr. 1976, um útflutningsgjald, með síðari breytingum, og gefa þau út svo breytt.

Ég mæli fyrir þessu frv. fyrir hönd sjútvrh., sem er fjarstaddur, og leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.