11.12.1981
Efri deild: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1440 í B-deild Alþingistíðinda. (1213)

96. mál, tímabundið vörugjald

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er að vísu rétt hjá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, að fjh.- og viðskn. Ed. mun vera með þeim nefndum þessa þings fyrir utan fjvn. sem flesta fundi hefur haldið. Þó er það þannig, að margir þessara funda eru stuttir og nánast afgreiðslufundir til þess eins að ákveða til hvaða aðila þau frv. og till., sem til nefndarinnar koma, eru send. Sá talnareikningur, sem hann var með hér áðan, gefur því ekki alveg rétta mynd af þátttöku manna í störfum nefndarinnar. Ég fullyrði að þátttaka hæstv. forsrh. í störfum þessarar nefndar er efnislega miklu meiri en þær tölur bera með sér sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson fór hér með. Hins vegar hef ég leitast við sem formaður nefndarinnar að taka tillit til óska einstakra nm. um fundarhöld. Það hefur m. a. komið fram á þessu þingi sem og á fyrra þingi, að hv. þm. Kjartan Jóhannsson er svo upptekinn við önnur störf utan Alþingis að það hefur orðið að haga fundartíma nefndarinnar sérstaklega með tilliti til þess, að hann geti þar mætt. Ef nefndin héldi fundi á tímum sem hentuðu öðrum nm. betur, en henta honum ekki vegna starfa hans við Háskóla Íslands, þá gæti hann ekki mætt á fundum. Ég tel alveg sjálfsagt að taka áfram tillit til þess, að Kjartan Jóhannsson geti haldið áfram að starfa utan þings, sinna störfum þar, kenna við Háskóla Íslands, og hafa fundartímum nefndarinnar í samræmi við það. En ég er nokkurn veginn viss um það, að ef nefndarfundir yrðu haldnir á þeim tíma sem gæti hentað öðrum nm., en hentar ekki kennslutímum hv. þm. við Háskóla Íslands, þá yrðu fjarvistir hans af nefndarfundum líka nokkuð miklar.