11.12.1981
Efri deild: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1441 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

96. mál, tímabundið vörugjald

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Menn hafa hér fengið sýnishorn af málflutningi hv. 11. þm. Reykv. Honum er einkar lagið að halda sig ekki við málefnin, heldur tala með skætingi út og suður og stundum af hreinni vanþekkingu. En að því er varðar það málefni sem hann gerir sérstaklega að umræðuefni, þá lýsi ég því hér með yfir, að ef hann óskar eftir að halda fundi á einhverjum öðrum tímum, þá skal ekki standa á mér. Hv. formaður nefndarinnar spurði mig að því bæði í upphafi þessa þings og í upphafi síðasta þings, hvort það væru einhverjir tímar vikunnar sem ekki hentuðu mér, og það hefur aldrei verið neitt ósamkomulag um þetta. Ég get ósköp vel gert kröfu um að fundir í nefndinni séu haldnir á sama tíma og fundir í ríkisstj., en ég hef aldrei gert kröfu um það. Það skal ekki standa á mér að hv. formaður geti fengið að breyta sínum fundartíma út og suður. Ég skil ekki að tveir klukkutímar á viku ráði neinum úrslitum. Auk þess er rangt að hæstv. forsrh. hafi tekið efnislega sérstaklega mikinn þátt í störfum nefndarinnar, nema það hafi gerst við búktal í gegnum formann nefndarinnar.