11.12.1981
Efri deild: 21. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1441 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

96. mál, tímabundið vörugjald

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Eins og fram kom áðan vorum við í stjórnarandstöðunni, báðir flokkar, reiðubúnir að greiða fyrir því að mál þetta næði að ganga til 2. umr. og til nefndar samkvæmt ósk hæstv. forseta, þó að ráðh. hafi ekki gegnt þeirri skyldu sinni að mæla fyrir því, eða þá að málinu væri frestað þangað til hann gæti mætt, ef hann væri alveg upptekinn. Ef eftir þau vinnubrögð og þá ósvífni, sem hér hefur fram komið af hálfu formanns þingflokks Alþb. sérstaklega, mun ég ekki — og vonandi enginn í stjórnarandstöðunni greiða fyrir því, að málið fari til nefndar í dag.