11.12.1981
Neðri deild: 22. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1442 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

109. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vestf. tók mjög vel undir efni þess frv. sem hér er til umr. og er ég honum þakklátur fyrir. Hann minntist á nauðsyn þess, að flugfargjöld innanlands væru með í útreikningsgrundvelli hinna sérstöku framfærsluvísitalna byggðarlaganna svo og opinber þjónusta og minntist hann sérstaklega á símaþjónustuna. Allt er það hárrétt hjá hv. þm. og til þess er vissulega ætlast í frv., enda segir þar að taka beri tillit til afgerandi þátta á hverjum stað þótt þeir séu ekki í grundvelli hinnar almennu framfærsluvísitölu. Með þessu er auðvitað átt við m. a. flugfargjöld innanlands og önnur innanlandsfargjöld og hvers konar opinbera þjónustu.

Hv. 5. þm. Vestf. taldi að frv. gengi of skammt á sumum sviðum og er ég honum sammála um það. Hann sagði að frv. næði aðeins til þeirra sem hefðu það háar tekjur að þeir greiddu tekjuskatt. Það er ekki alls kostar rétt. Sá persónuafsláttur, sem ekki nýtist til greiðslu tekjuskatts, gengur til greiðslu sjúkratryggingagjalda, eignarskatts og útsvars og eldri skulda vegna þessara gjalda. Auk þess jafngildir hækkun persónuafsláttar í mjög mörgum tilvikum hækkun útborganlegra barnabóta til viðbótar við þá hækkun sem þetta frv. gerir ráð fyrir, en barnabætur, sem ekki nýtast til greiðslu opinberra gjalda, eru, eins og kunnugt er, útborganlegar í peningum, eru greiddar í peningum.

Hitt er svo annað mál, að ónýttur persónuafsláttur ætti auðvitað að greiðast út á sama hátt og ónýttar barnabætur, og kæmi það mest til góða þeim sem allra minnstar hafa tekjurnar. Þetta höfum við Alþfl.-menn lagt til m. a. við afgreiðslu laga um ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu í febrúar mánuði á þessu ári. Tillaga okkar þá um útborgun ónýtts persónuafsláttar, m. ö. o. neikvæðan tekjuskatt, hlaut ekki stuðning þm. annarra flokka.

Flm. þessa frv. hugleiddu að taka þá tillögu Alþfl. upp í þetta frv., en féllu frá því, bæði vegna þess að það hefði gert frv. flóknara og því tafið afgreiðslu þess og vegna þess að ekki er við því að búast, að þm. annarra flokka hafi breytt afstöðu sinni til útborganlegs ónýtts persónuafsláttar frá því sem var fyrr á þessu ári. Með því að hafa þá tillögu með í þessu frv. töldum við að minni líkur væru á að það fengi jákvæða afgreiðslu, og því var það ekki tekið með. Aftur á móti höfum við hugleitt að endurflytja þá tillögu okkar í sérstöku frv. og býð ég hv. 5. þm. Vestf. hér með að vera meðflm. að því.