11.12.1981
Neðri deild: 22. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1446 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

110. mál, grunnskólar

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Þetta mál er ekki alveg nýtt. Það var a. m. k. flutt í fyrra, og þá man ég að ég tók til máls um þetta efni og lýsti viðhorfum mínum til þess sem mér virðist vera tilgangur þessa frv. Ég held að mér sé óhætt að segja að ég hafi greint frá því, að viðhorf mín í þeim efnum, sem eru tekin fyrir í þessu frv., séu á engan hátt frábrugðin því sem fram hefur komið í grg. fyrir frv. og í ræðum þeirra hv. þm. sem talað hafa fyrir málinu. — Ég man að í fyrra talaði Ragnhildur Helgadóttir fyrir málinu.

Ég vil að það komi alveg skýrt fram, að ég tel að það sé grundvallaratriði í sambandi við skólarekstur og samkv. skólamálastefnu að vernda friðhelgi einkalífs. Það er svo mikilvægur þáttur í þjóðfélagi okkar að fram hjá því verður ekki gengið. Vissulega ber skólunum að virða friðhelgi einkalífsins og að umgangast þannig nemendurna að ekki sé á neinn hátt gengið gegn helgum skoðunum þeirra eða friðhelgi einkalífs yfirleitt. Ég vona satt að segja í lengstu lög að það sé almenn stefna þeirra, sem starfa í skólunum, að framkvæma kennslu með þeim hætti.

Þá kröfu hef ég ævinlega gert til kennslu, til kennara og til kennslustarfa, að beitt sé því sem ég vil kalla hlutlægni. Það er auðvitað ekki hægt að komast hjá því að það sé rætt um hvers konar efni í skólum, þjóðfélagsmál t. d., trúarefni og pólitík. Það er ekki hægt að útiloka slík efni í skólafræðslu, í samfélagsfræði, sögu og öðru slíku. Hins vegar er það list kennarans að tilreiða kennslu sína af hlutlægni, sem ég vil kalla. Þá kröfu verður að sjálfsögðu að gera til kennara að þeir vinni í slíkum anda. Ég endurtek það, að ég vona að almennt sé það svo að á þessu sé enginn misbrestur. Sama er auðvitað að segja um það sem kalla mætti þá og í beinu framhaldi af þessu flokkspólitískan áróður. Hann á ekki heima í skólum landsins. Ég tel að kennarar verði í því sambandi að temja sér hlutlægni í kennslustörfum, hlutlægni í frásögn og umfjöllun um viðkvæm mál eins og stjórnmál og sundurgreiningu á þjóðfélagslegum málum og flokkastefnum o. s. frv. Þetta er mikill vandi, en ég vona að almennt séu kennarar þeirrar skoðunar, að sú skylda hvíli á þeim að fara þarna með gát og tilreiða efni sitt af hlutlægni.

Ég hef að vísu ekki verulega orðið var við það, eftir að ég kom í embætti menntmrh., nema kannske í einu tifelli, að pólitískum áróðri hefði átt að vera beitt í skóla. Í þessu eina tilfelli, sem ég nefni og ætla þó ekki að rekja hér, lét ég fara fram mjög nákvæma athugun á því máli fyrir mitt leyti og á vegum þeirrar stofnunar þar sem þetta átti að hafa gerst. Ég get fullyrt að niðurstaðan var sú, að þarna væri ekki ástæða til að væna um hlutdrægni í kennslu eða um það væri að ræða að reynt væri að beita flokkspólitískum áróðri. Ég hef ekki ástæðu til að vefengja þá niðurstöðu, m. a. vegna þess hverjir stóðu að þeirri athugun. Það voru menn af margs konar pólitískri gerð og pólitískum skoðunum. Ég tel því ekki ástæðu til að gera mikið úr því, að þarna hafi verið um pólitískan áróður eða tilraun til pólitísks áróðurs að ræða, enda á hann ekki að liðast í kennslu. Hann er óþarfur og á ekki að líðast í því þjóðfélagi sem við búum í, við það margflokkakerfi, sem við búum að, og þær margbreytilegu skoðanir sem okkar þjóðfélag krefst að séu virtar.

Eitt af því mikilvæga, sem hér er fjallað um, varðar rannsóknir, skólamálarannsóknir getum við sagt eða ýmsar rannsóknir sem eiga sér stað innan skólanna og á högum nemenda. Hér er um mjög viðkvæm mál að ræða. Og ég hef ekki oft þurft að standa frammi fyrir því að veita slík rannsóknarleyfi. Þó minnist ég nýlegs dæmis um að ég þurfti að fjalla um slíkt leyfi. Ég framkvæmdi það á þann veg að hafa sem allra víðtækust samráð við þá aðila sem þetta snerti. Rannsóknarleyfið, sem snerti Háskóla Íslands, var ekki veitt fyrr en Háskólinn hafði fjallað rækilega um málið og gefið jákvætt svar við veitingu leyfis. Þannig vona ég reyndar að alltaf verði staðið að í sambandi við mál sem þessi, að það verði farið með mikilli gát í þessum efnum og að virt verði svo sjálfsögð atriði sem friðhelgi einkalífsins og að reynt sé að sporna við því að gera óþarflega viðkvæmar upplýsingar um einstaklinga, jafnvel unglinga. Þannig mun ég a. m. k. reyna að framkvæma þessi mál, og ég vona að svo verði gert í framtíðinni.

Hér hefur verið minnst á grunnskólalögin. Þau eru í endurskoðun og hafa verið það. Þeirri endurskoðun er á vissan hátt lokið eða að því leyti til, að nefndin, sem sérstaklega var falið að fjalla um endurskoðunina, hefur skilað áliti. Í framhaldi af því, að nefndin skilaði áliti, lét ég í haust efna til fjölmennrar ráðstefnu um grunnskólann og framkvæmd grunnskólalaga. Þessi ráðstefna var fjölmenn og umræður þar miklar. Nú liggja þessar umræður fyrir í einni bók og getur verið fróðlegt fyrir hv. alþm. að kynna sér þær umræður sem þar fóru fram. En eftir er að fara nánar yfir nefndarálitið og þær umr., sem urðu á þessari allfjölmennu ráðstefnu skólamanna um þessi efni, og kanna hverjar breytingar skuli gera á grunnskólalögunum sem eru ekki gömul, en eru þó, eins og vill verða um flesta löggjöf, ekki óháð því að breytingar þurfi að gera á þeim öðru hverju. Ég held að það sé alveg ljóst, að hvorki grunnskólalög né önnur skólalög séu svo heilög eða svo vel úr garði gerð að þau séu ekki háð ýmsum breytingum. Þessu verki er lokið að hluta, en þó ekki að öllu leyti, því eftir er að kanna nánar í ráðuneytinu og af minni hálfu, hvaða breytingar skuli gera á grunnskólalögunum, og taka þá mið af því, sem endurskoðunarnefndin hefur gert í þessu efni, og einnig því sem fram kom á þeirri fjölmennu ráðstefnu sem haldin var um grunnskólalögin í haust.

Ég hef ekkert á móti því að þau mál, sem eru sérstaklega rædd í þessu frv., komi til athugunar í þessu sambandi, enda gengur frv. vafalaust til þingnefndar nú og án efa munu í framhaldi af því spinnast meiri umr. um það. Vafalaust myndast þá einhver tengsl við ráðuneyti mitt í þessu sambandi, og hef ég ekki á móti því, að þessi mál og önnur, sem snerta grunnskólann og framkvæmd grunnskólalaga, verði rædd í menntmn. þegar þetta mál kemur þar til sérstakrar athugunar.