11.12.1981
Neðri deild: 22. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1450 í B-deild Alþingistíðinda. (1229)

59. mál, lyfjalög

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða lítið frv., sem flutt er til breytinga á lyfjalögum, nr. 49/1978, og fjallar einkum um Lyfsölusjóð.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að stjórn Lyfsölusjóðs sé skipuð til fjögurra ára í senn, en eins og lögunum er háttað nú er þar ekki um að ræða tímatakmörkun á skipun stjórnar Lyfsölusjóðs.

Í öðru lagi gerir frv. ráð fyrir að það verði nokkuð breytt til varðandi fjárframlög í Lyfsölusjóð. Samkv. gildandi lögum frá 1978 á að greiða 1% af cif-verði innfluttra lyfja í Lyfsölusjóð. Þessi lög voru sett vorið 1978, eins og ég gat um, og hefur komið í ljós að það hefur reynst óframkvæmanlegt að innheimta þetta með þeim hætti sem lögin gerðu ráð fyrir. Þess vegna hefur það ekki verið gert. Auk þess hefði það hækkað lyfjaverð mjög verulega og valdið ríkissjóði þar af leiðandi auknum útgjöldum sem stærsta lyfjagreiðanda landsins.

Fyrir því er hér lagt til að hinn markaði tekjustofn verði felldur niður, en ákveðið að ríkissjóður leggi Lyfsölusjóði til árlegt framlag samkv. fjárlögum. Í samræmi við þessa stefnu er gert ráð fyrir að undir heilbr.- og trmrn., lið 399–0144 í fjárlagafrv., fái Lyfsölusjóður á næsta ári 160 þús. kr.

Herra forseti. Frv. þetta hefur fengið afgreiðslu í hv. Ed. Ég legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.