21.10.1981
Efri deild: 5. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

28. mál, almannatryggingar

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég spyr: Hvernig má það vera, að sumir íbúar þessa lands þurfi að greiða stórfé, gjarnan 1750 kr. og e. t. v. allt upp í 7000 kr., til þess að komast í sjúkrahús þegar þeir eru ekki ferðafærir, meðan aðrir, stór hluti íbúa þessa lands, geta komist í sjúkrahús nokkurn veginn ókeypis? E. t. v. trúa menn því ekki að þetta sé svona. En gildandi lög í landinu eru með þeim hætti, að svona er það. Það fer eftir búsetu manna líka, hvern kostnað þeir hafa af því að fá vitjun samlagslæknis. Sumir íbúar þessa lands þurfa að borga allt að 300 kr. fyrir að fá vitjun samlagslæknis meðan við mörg hin, sem búum hér t. d. á höfuðborgarsvæðinu, fáum þetta fyrir fáeinar krónur. Ekki getur þetta talist réttlæti, ekki getur þetta verið í samræmi við þá stefnu, sem mörkuð hefur verið og boðuð og kennd við byggð landsins og nefnd byggðastefna, að mismuna fólki með þessum hætti eftir því hvar það býr í landinu.

Hér er um gífurlegt óréttlæti að ræða og það í málaflokki sem maður hefði haldið að menn væru á þessum tíma allir sammála um hver grundvallarstefnan ætti að vera í, nefnilega heilbrigðismálum. Grundvallarstefnan á auðvitað að vera sú, að allir hafi jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu. Þeir heilbrigðu eiga að standa undir kostnaði hinna sjúku, hinir verr setu eiga ekki að gjalda þess þegar sjúkleiki herjar á þá, og það á enginn að komast í vandræði vegna greiðslu á læknishjálp. Greiðsla almannatrygginga vegna hjúkrunarkostnaðar og læknishjálpar er ekki úthlutun á ölmusu, heldur réttlætið eitt. Allir eiga að hafa sama rétt til læknisþjónustu og hjúkrunar án tillits til þess, hvar þeir búa eða hver efnahagur þeirra er. Og það á enginn að þurfa að kvíða því vegna efnahags síns að hann geti ekki notið bestu þjónustu sem völ er á. Því fer fjarri að þessum markmiðum, svo sjálfsögð sem þau hljóta að teljast, hafi verið náð í okkar landi. Almannalöggjöfin ber ýmis merki þess, að tilgangur þeirra laga hafi gleymst. Þó veit enginn okkar hvenær röðin kemur að honum sjálfum. Það ætti hver og einn að líta í eigin barm í þeim efnum. En eitt er það misræmis- og óréttlætisatriði í þessum efnum sem við verðum að skoða sérstaklega og hér er gert að umtalsefni, nefnilega að sumum Íslendingum er íþyngt óheyrilega með gjaldtöku fyrir heilbrigðisþjónustu fyrir þá sök eina að þeir búa ekki á réttum stöðum á landinu. Fyrir þessar sakir geta efnahagsleg viðhorf ráðið því, að þeir fari varhluta af þeirri heilbrigðisþjónustu sem aðrir landsmenn njóta.

Það frv., sem ég mæli hér fyrir, fjallar um einn þátt þessara mála. Með samþykkt þess yrði dregið úr því misrétti sem nú ríkir. Samkvæmt gildandi reglum um sjúkravitjanir getur kostnaður óferðafærs sjúklings í dreifbýli af vitjun samlagslæknis numið t. d. 300 kr. miðað við rúmlega 100 km akstur hvora leið. Ef við litum á sjúkraflug milli Norðurlands og Vestfjarða annars vegar og Reykjavíkur hins vegar, þá mun það kosta 4000–7000 kr. Samkv. gildandi reglum greiðir sjúklingurinn í flestum tilvikum 114 hluta þess eða allt að 1750 kr. (175 þús. gkr). Það er lagt á þennan óferðafæra sjúkling. Þess munu m. a. s. dæmi, að sjúklingar hafi orðið að greiða allan kostnaðinn, allt að 7000 kr. (700 þús. gkr.) eins og ég mun víkja að síðar. Ef þessar fjárhæðir eru bornar saman við t. d. ellilífeyrisgreiðslur sést glöggt hve tilfinnanleg og óréttlát útgjöld af þessu tagi eru.

Varðandi óhjákvæmilegan ferðakostnað samlagslæknis til samlagssjúklings gilda ákvæði h-liðar 43. gr. laga um almannatryggingar. Samkv. því greiðir sjúklingur þennan kostnað að hálfu, ef læknir notar eigin farartæki, en ella að 14 hluta, ef hann ferðast í öðrum bíl eða með öðru farartæki, enda sé þá um að ræða meiri vegalengd en 10 km á landi eða nota verði skip eða flugvél til ferðarinnar. Að því er varðar akstur mun gjaldtakan verða svipuð að krónutölu hvort heldur læknir notar eigin farartæki eða ekki. Gjald fyrir akstur eigin farartækis mun nú nema 2.75 kr. á km. Sjúklingur, sem býr 50 km frá aðsetri samlagslæknis, eins og víða er hér á landi, hlýtur því að greiða 138 kr. í ferðakostnað fyrir lækninn. Sjúklingur, sem býr í 100 km fjarlægð, verður að borga 275 kr. Ef við lítum á önnur farartæki er það vitanlega svo, að flutningur með snjóbíl getur kostað nokkur þús. kr. Ef við tökum snjóbílsferð sem kostar 3000 kr. — sem ég held að sé ekki fjarri lagi og líklega í lægri kantinum að því er varðar ýmsar þær ferðir sem farnar eru á snjóbílum í þessum tilgangi í afskekktum héruðum landsins, — þá yrði hluti sjúklingsins í því 750 kr. Þessir peningar eru innheimtir af sjúklingunum.

Með því frv., sem hér er flutt er gert ráð fyrir að sjúklingur þurfi ekki að bera kostnað af þessu tagi, kostnað sem stafar einungis af því, hversu fjarri sjúklingnum samlagslæknirinn er búsettur. Það stríðir vitaskuld gegn eðlilegu jafnrétti að þeir, sem búa við erfiðastar aðstæður til að njóta læknisþjónustu allajafna, skuli gjaldteknir umfram aðra þegar þeir verða að fá læknisvitjun í heimahús, af því að þeir eru ekki ferðafærir af sjúkdómssökum. Með samþykkt þeirrar brtt., sem ég mæli hér fyrir varðandi þetta atriði yrði þetta misrétti afnumið.

Um hinn þátt brtt., varðandi greiðslu á sjúkraflutningum, gilda ákvæði i-liðar í 43. gr. laga um almannatryggingar. Samkv. því, sem þar segir, greiðir sjúklingur 14 hluta af flutningskostnaði í sjúkrahús, þegar það á við að hann geti ekki notað venjulegar farþegaflutningsleiðir. Þetta á einkum við um sjúkraflug og flutning með snjóbíl. Að því er varðar flutning milli sjúkrahúsa er sagt að fara skuli eftir því sem kveðið kunni að verða á um í lögum um heilbrigðisþjónustu. Svo segir í 43. gr., i-lið almannatryggingalaga: Í lögum um heilbrigðisþjónustu eru hins vegar engin ákvæði um þetta efni svo að þetta ákvæði um flutning milli sjúkrahúsa er marklaust með öllu. Um slíkan flutning gilda engin lagaákvæði. Af þessum sökum var leitað samkomulags um það sjúkrahúsa í milli, að sjúkrahús, sem sendir sjúkling, skyldi greiða flutningskostnaðinn. En sannleikurinn er sá, að sjúkrahúsin í Reykjavík hafa tregðast við að greiða slíkan kostnað af heimsendingu sjúklinga. Þess eru því dæmi, að sjúklingar hafa orðið að greiða hann að fullu sjálfir.

Þessar reglur, sem ég hef hér rakið, fela greinilega í sér margs konar misræmi og óréttlæti. Ég skal rekja nokkur dæmi. Sjúklingur, sem fyrst er lagður inn á sjúkrahús á Egilsstöðum og síðan fluttur til Reykjavíkur, ber engan kostnað af flutningunum. En sjúklingur á Djúpavogi, sem eins stendur á um, verður hins vegar að greiða fjórðung kostnaðarins af því að það er ekkert sjúkrahús á Djúpavogi. Svona er misréttið. Sjúklingur utan af landi, sem þarf sjúkraflugvél af því að hann heilsu sinnar vegna getur ekki notað venjulegar farþegaflutningsleiðir, má allt eins búast við því að verða að bera allan kostnað af sjúkrafluginu samkv. gildandi lagaákvæðum — eða skorti á gildandi lagaákvæðum. En Reykvíkingur, sem eins stæði á um en hefði lent á sjúkrahúsi úti á landi, gæti vænst þess að þurfa ekki að bera neinn kostnað af þessum sökum. Svona er réttlætið í lögunum, herrar mínir.

Í þessu sambandi get ég ekki stillt mig um að minna á að sjúkraflug af þessu tagi kostar 4000–7000 kr. í mörgum tilvikum. Ferðir um fjallvegi með snjóbíl geta orðið ámóta dýrar og sjúkraflugið. Sömuleiðis geta flutningar með venjulegum sjúkrabíl um langar vegalengdir orðið mjög dýrar, t. d. frá Vík í Mýrdal eða Borgarnesi til Reykjavíkur. Þar gilda líka þessi ákvæði eða það ákvæðisleysi sem nú er í almannatryggingalögum.

Stundum er þörf á fylgdarmanni þegar sjúklingur er fluttur með þessum hætti. Varðandi fargjald hans, þegar hans er þörf, gilda þau ákvæði að sjúklingur verður að greiða 14 af fargjaldi hans þótt um áætlunarflug sé að ræða. Samkv. þessu frv. yrðu sett lagaákvæði um það, að flutningskostnaður milli sjúkrahúsa væri greiddur af því sjúkrahúsi sem sendir sjúkling, nema í þeim innanbæjarferðum sem sjúklingur getur heilsu sinnar vegna notað venjulegar samgönguleiðir. Jafnframt gilti það sama við heimsendingu sjúklings með sérstökum sjúkraflutningi. Um þetta hvort tveggja eru nú engin lagaákvæði. Frv. gerir ráð fyrir að bæta úr því. Frv. gerir líka ráð fyrir að þá yrði sjúkraflutningur í sjúkrahús greiddur að fullu af almannatryggingum í stað þess að nú greiðir sjúklingur fjórðung slíks flutningskostnaðar. Loks yrði tiltekið að fargjald nauðsynlegs fylgdarmanns yrði sjúklingi að kostnaðarlausu í stað þess að nú greiðir sjúklingur fjórðung slíks fylgdargjalds. Enn fremur gerir þetta lagafrv. ráð fyrir að fella niður gjaldtökur af sjúklingi vegna flutnings innanbæjar og af fyrstu 10 km flutningsleiðar, enda setur frv. það, sem ég mæli hér fyrir, fram þá meginreglu, að sjúklingur greiði ekki kostnað af sjúkraflutningum. Það má þó taka fram, að jafnvel þótt síðastnefnda ákvæðið héldist væri stórt skref stigið í réttlætisátt með þeim öðrum þáttum sem í frv. felast.

Flm. telja að enginn eigi að þurfa að kvíða því vegna efnahags að fá ekki notið bestu sjúkraþjónustu sem völ er á í landinu. Allir eiga að hafa sama rétt til læknisþjónustu og hjúkrunar, án tillits til efnahags og búsetu, og að því verður að stefna af fremsta megni. Þessi markmið, svo sjálfsögð sem þau eru, verða að teljast fjarri því að verða uppfyllt í þessu landi. Það misrétti, sem ég hef gert hér að umtalsefni, er svo yfirgnæfandi, að við flm. frv. teljum sjálfsagt að það verði þegar leiðrétt. Því flytjum við þetta frv. Við fluttum það áður á síðasta þingi, en það varð þá ekki útrætt. En með því að hér er um mikið sanngirnismál að ræða og varðar reyndar byggðina í landinu og jafnrétti íbúanna, þá höfum endurflutt þetta mál og leggjum þunga áherslu á að það fái afgreiðslu á þessu þingi.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði lagafrv. þessu vísað til heilbr.- og trn. og 2. umr.