14.12.1981
Sameinað þing: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1454 í B-deild Alþingistíðinda. (1242)

154. mál, stuðningur við pólsku þjóðina

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þeir atburðir, sem gerst hafa á síðustu klukkustundum í Póllandi, hafa vissulega vakið óhug með okkur Íslendingum eins og öðrum. Þeir atburðir hafa óhjákvæmilega vakið menn til alvarlegrar umhugsunar m. a. um, eins og hæstv. utanrrh. lét um mælt í gær, að það þjóðskipulag, sem menn búa við í þessum hluta heims, þolir auðsjáanlega ekki frelsi.

Ég hafði tal af hæstv. forsrh. um miðjan dag í gær og óskaði eftir því, að hann greindi Alþingi frá afstöðu ríkisstj. til þessara atburða. Hæstv. forsrh. hefur orðið við þessari beiðni og ég færi honum kærar þakkir fyrir.

Á fundi þingflokks Alþfl. í morgun áttum við þm. Alþfl. m. a. kost á að ræða við fulltrúa Samstöðu í Póllandi sem nú er hér gestur alþýðusamtakanna á Íslandi. Í kjölfar þeirra viðræðna gerði þingflokkur Alþfl. svohljóðandi samþykkt:

„Þingflokkur Alþfl. ítrekar stuðning sinn við pólsku verkalýðshreyfinguna og baráttu hennar fyrir auknum lýðréttindum, frjálsræði og bættri afkomu pólskrar alþýðu. Þingflokkurinn fordæmir þá ákvörðun ríkisstjórnar pólska kommúnistaflokksins að afnema mannréttindi, hneppa forustumenn verkalýðshreyfingarinnar í fangelsi, banna vinnustöðvanir og leggja hömlur á starfsemi frjálsra verkalýðsfélaga í landinu. Þetta er ofbeldisaðgerð gegn pólsku þjóðinni og alvarlegt brot á alþjóðlegum sáttmálum um lýðréttindi og mannhelgi sem Pólland er aðili að.

Þingflokkur Alþfl. hvetur ríkisstjórn Íslands til þess að koma á framfæri hörðum mótmælum við pólsk stjórnvöld og lýsa stuðningi Íslands við hina frjálsu verkalýðshreyfingu Póllands og frelsisbaráttu hennar. Jafnframt óskar þingflokkurinn eftir því við aðra flokka Alþingis að þeir fallist á að taka höndum saman og samþykkja með allsherjarsamstöðu á Alþingi Íslendinga stuðningi við pólsku þjóðina í þrengingum hennar. Bendir þingflokkurinn í því sambandi sérstaklega á till. til þál. um efnahagsaðstoð við pólsku þjóðina, sem þm. Alþfl. hafa nýverið lagt fram á Alþingi.“

Herra forseti. Í nafni þingflokks Alþfl. lýsi ég yfir eindregnum stuðningi við þá till., sem utanrmn. hefur lagt fyrir þennan þingfund, og ítreka óskir okkar við aðra flokka þingsins um samstöðu þingflokkanna um frekari aðgerðir Alþingis til að styðja frelsisbaráttu pólskrar alþýðu.