14.12.1981
Sameinað þing: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1456 í B-deild Alþingistíðinda. (1247)

1. mál, fjárlög 1982

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það hefur áður komið fram að ekkert hafi verið rætt við þingflokka stjórnarandstöðunnar um þinghaldið til jóla. Það hefur einnig áður komið fram, að engar óskir hafa okkur borist af hálfu hæstv. ríkisstj. um þau mál sem hún mun óska eftir afgreiðslu á fyrir jólaleyfi. Hæstv. landbrh. Pálmi Jónsson tók það að sér, þegar hann gegndi forsrh.-störfum í liðinni viku, að koma þessum ábendingum áleiðis til hæstv. forsrh. Staðan er engu að síður óbreytt. Við okkur stjórnarandstæðinga hefur ekkert verið talað og ekkert samráð hefur verið við okkur haft um þinghaldið eða hvernig ríkisstj. hugsar sér afgreiðslu mála þá fáu daga sem eftir eru af starfstíma Alþingis fyrir jól.

Ég hygg að það muni vera algert einsdæmi að 2. umr. um fjárlagafrv. sé látin hefjast án þess að þm. hafi gefist kostur á að skoða, þó ekki væri nema rétt í svip, þær umfangsmiklu till. sem fjvn. gerir. Raunar er varla hægt fyrir almenna þm. að taka þátt í 2. umr. fjárlaga án þess að hafa fengið tækifæri til þess. Við heyrðum á skotspónum, formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar, að til stæði að halda fund í Alþingi s. l. laugardag til að útbýta till. fjvn. Okkur var ekki annað kunnugt en þessi útbýtingarfundur yrði haldinn, enda veit ég ekki betur en þá hafi þessar till. verið reiðubúnar af hálfu fjvn. og ekkert í veginum af nefndarinnar hálfu að leggja þær þá fram og útbýta þeim á fundi s. l. laugardag. Það var hins vegar ekki gert, hvers vegna veit ég ekki. Okkur var ekki tjáð um það neitt frekar en um annað varðandi þetta þinghald. Ég vek hins vegar athygli á því, að hafi þetta verið rétt, að till. fjvn. hefðu verið tilbúnar strax á laugardag, þá hefði mætavel verið unnt að senda þm. þessar till. núna um helgina svo að þeir gætu a. m. k. verið búnir að átta sig eitthvað á till. þegar að því kæmi að hefja 2. umr. fjárlaga nú. Það var hins vegar ekki gert heldur svo þm. koma algerlega ókunnugir málunum til umræðunnar.

Ég vek athygli á því, að í umr. rétt áðan lýsti formaður þingflokks Alþb. þeirri skoðun sinni, að réttast væri að fella niður um skeið fundi Alþingis í dag vegna útifundar um málefni Póllands á vegum verkalýðshreyfingarinnar íslensku. Ég bendi hæstv. forseta þingsins á þessa ábendingu formanns þingflokks Alþb. og vil spyrja hæstv. forseta hvort hann muni verða við þessum tilmælum þingflokksformannsins og þá einnig hvort hann muni þá hugsa sér að hafa þann háttinn á að láta ekki ljúka 2. umr. í dag þannig að þm., sem eru að sjá till. fjvn. nú fyrst, geti a. m. k. eitthvað ráðrúm haft til að skoða þau mál. Fáist ekki fullnægjandi svör við því mun þingflokkur Alþfl. að sjálfsögðu ekki greiða atkvæði með þeim afbrigðum sem nú á að veita. Ég vek enn athygli á því, að ekkert samráð hefur um þessi mál verið við okkur haft.