14.12.1981
Sameinað þing: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1458 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

1. mál, fjárlög 1982

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. talaði á undan mér og eiginlega kom fram í máli hans ástæðan fyrir því, hvers vegna nauðsynlegt er að kveðja sér hljóðs. Það er óþarfi að rifja það upp, að okkur þm. var skýrt frá því fyrir 10 dögum eða svo að þinghaldi mundi ljúka á föstudegi í þessari viku. Jafnframt var frá því skýrt hér frammi á gangi að ekki yrði við því að búast að lánsfjáráætlun yrði afgreidd fyrir áramótin, en einmitt í sambandi við lánsfjárlögin eru ýmis mál þeim tengd sem veruleg ástæða er til að ræða ítarlega og nauðsynlegt að fái mjög góða skoðun í þinginu, eins og m. a. um fjárþörf Bjargráðasjóðs, svo ég taki eitthvert dæmi, og önnur mál mætti nefna.

Vitaskuld er það rétt hjá hæstv. forsrh., að meðan hann nýtur meirihlutastyrks hér á Alþingi þarf hann ekki frekar en hann vill að láta stjórnarandstöðuna fylgjast með því. hvernig hann hugsar sér að biðja sína menn að haga þingstörfum. En reynslan hefur kennt mönnum sem ekki hafa setið á þingi jafnlengi og hann, að vitaskuld er hyggilegra að sýna líka andstæðingum sínum kurteisi og háttvísi. Þess vegna kemur mér það á óvart, líka vegna þess að ég veit að hæstv. forsrh. er mjög háttprúður maður, að hann skuli nú hafa brugðið á það ráð að sýna stjórnarandstöðunni ekki lágmarkskurteisi varðandi afgreiðslu lánsfjárlaga og fjárlaga að þessu sinni.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það, hversu seinlegt verk er að bera einstakar brtt. saman við fjárlög og gera sér grein fyrir hvað í þeim felst. Það er auðvitað ljóst, að 2. umr. fjárlaga verður ekki með sama sniði og hún ætti að vera vegna þess að þm. gefst ekki færi á að undirbúa sig sem skyldi eftir að brtt. meiri hl. liggja fyrir. Ég vil enn fremur bæta því við, að það er borin von að lánsfjárlög geti orðið neitt nema leikaraskapurinn einn þegar á að kasta höndunum til þeirra eins og sýnilegt er að hæstv. ríkisstj. ætlar sér.