14.12.1981
Sameinað þing: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1512 í B-deild Alþingistíðinda. (1266)

1. mál, fjárlög 1982

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Margt mætti að sjálfsögðu um fjárlagafrv. segja og yrði það ekki allt fjármálastjórn núv. hæstv. ríkisstj. til hróss. Þjóðhagsstofnun spáir 55% verðbólgu á næsta ári, en hin svokallaða reiknitala frv. er 33%. Hvað þýðir þetta? Það þýðir m. a. að allt framkvæmdafé í frv. er í reynd 14.2% lægra að raungildi en látið er í veðri vaka í frv. og forsendum þess til viðbótar við þá magnminnkun sem frv. sjálft gerir ráð fyrir á flestum framkvæmdasviðum. Sama er að segja um öll framlög til annarra aðila en ríkisfyrirtækja. Allar þessar fjárveitingar þyrfti að hækka um 16.5% til að ná því raungildi sem gert er ráð fyrir í frv.

Mestur hluti tekna ríkissjóðs vex með hækkandi verðbólgu og öll bein rekstrarútgjöld, en framlög til annarra aðila lækka stórlega til viðbótar við þá lækkun sem frv. og þjóðhagsáætlun gera ráð fyrir á flestum sviðum. Þetta á við um framlög til fjárfestinga á vegum ríkissjóðs og þetta á við um öll framlög til framkvæmda sem eru sameiginleg á vegum ríkis og sveitarfélaga, öll framlög til fjárfestingarlánasjóða, öll framlög til líknarfélaga, til menningarmála, til íþróttamála og þannig mætti lengi telja. Allar þessar fjárveitingar þyrfti að hækka um 16.5% frá fjárlagafrv. til að halda verðgildi því sem frv. gerir ráð fyrir, sem þó er í flestum tilvikum stórskert frá fjárlögum þessa árs, eins og áður hefur verið sagt. Það verða því víða á næsta ári erfiðleikar í samskiptum sveitarfélaga og annarra aðila annars vegar og ríkissjóðs hins vega.

Annað bendi ég á, sem er mjög áberandi, en það er áframhald á þeirri þróun frá því að núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum, að tekjuskattur fyrirtækja minnkar stórlega frá ári til árs sem hlutfall af heildarálagningu tekjuskatts og er áætlað í fjárlagafrv. að þáttur fyrirtækja verði innan við helming þess sem hann var árið 1979. Það ár var tekjuskattur félaga 25% af heildarskattinum, árið 1980 18%, árið 1981 14% og á næsta ári er hann áætlaður 12% . Vel af sér vikið það.

Ég minnist þess, að á árum áður gagnrýndi núv. hæstv. fjmrh. það mjög, hve fyrirtæki greiddu lítinn tekjuskatt, og birti árlega langa lista um tekjuskattslaus fyrirtæki máli sínu til stuðnings. Nú er enginn slíkur listi birtur, en langur yrði hann ef það væri gert og miklu lengri en þeir listar sem hæstv. fjmrh. birti á árum áður. Hæstv. ráðh. hefur tekist að minnka hlut fyrirtækja í tekjuskatti um fullan helming á þremur árum, þrátt fyrir að hann var of lítill fyrir að dómi hæstv. ráðh. og margra fleiri.

Það, sem veldur mér einna mestum áhyggjum í sambandi við fjárlagafrv., er staða hins almenna lántakanda hjá Byggingarsjóði ríkisins og staða sjóðsins sjálfs og þar með þeirra sem á lánum þurfa að halda næstu árin, því annað er ekki sýnt en að stefnt sé í greiðsluþrot sjóðsins innan fárra ára ef svo heldur fram sem horfir.

Það er talað um byggingu verkamannabústaða sem allsherjarlausn á húsnæðisvanda landsmanna. Sú lausn er góð svo langt sem hún nær, en það eru aðeins um það bil 30% þeirra, sem byggja þurfa að kaupa íbúðarhúsnæði, sem réttindi eiga í því kerfi. Við megum ekki gleyma öllum hinum. Ég er auðvitað ánægður með verkamannabústaðakerfið sem slíkt, enda er sá kafli í lögunum um Húsnæðisstofnun ríkisins efnislega óbreyttur frá því frv. sem ég lagði fram á sínum tíma. Hitt er ég aftur mjög óánægður með, að aukning lána til verkamannabústaða er alfarið á kostnað almennra húsbyggjenda. Sama er að segja um mörg ný og góð hlutverk Byggingarsjóðs ríkisins. Þau eru eins og málum er nú háttað alfarið á kostnað hins almenna húsbyggjanda. Þetta sést best á því, að á yfirstandandi ári standa útlán sjóðanna beggja, Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna, svo til í stað eða minnka jafnvel frá fyrra ári og svo mun enn verða á næsta ári samkv. fjárlagafrv. ef miðað er við að spá Þjóðhagsstofnunar um verðbólgustig sé rétt. M. ö. o.: öll aukning hjá Byggingarsjóði verkamanna og öll ný verkefni Byggingarsjóðs ríkisins eru á kostnað hins almenna húsbyggjanda. Eitt lán á vegum Byggingarsjóðs verkamanna jafngildir nokkurn veginn fjórum lánum til almennra húsbyggjenda. Eitt lán á vegum Byggingarsjóðs verkamanna kostar jafnmikið og 50% hækkun átta lána Byggingarsjóðs ríkisins. Það er fráleitt að allar umbætur í lánamálum skuli í reynd koma niður á hinum almenna húsbyggjanda og húskaupanda. Til þess var vissulega ekki ætlast í samþykktri stefnumótun ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar í húsnæðislánamálum.

Í lánsfjáráætlun segir að útlán Byggingarsjóðs ríkisins muni hækka um 24.6% á næsta ári miðað við yfirstandandi ár. Þetta er í reynd mjög veruleg lækkun. Ef spár Þjóðhagsstofnunar um 55% verðbólgu á næsta ári eru réttar jafngildir þetta 20% lækkun á úttánum sjóðsins frá því sem er á þessu ári.

Í þjóðhagsáætlun segir að heildarsamdráttur íbúðabygginga hafi verið 3% árið 1980 og 5% til viðbótar árið 1981. Í lánsfjáráætlun segir að útlán Byggingarsjóðs ríkisins muni dragast saman á þessu ári og aftur á því næsta vegna minni eftirspurnar eftir lánum. Þetta eru örgustu öfugmæli. Hið rétta er, að vegna þess hve lán Byggingarsjóðs ríkisins til almennra húsbyggjenda og húskaupenda eru forkastanlega lág treystir venjulegt fólk sér ekki lengur til að byggja eða kaupa íbúðarhúsnæði nema hafa annað húsnæði til að selja eða hafa óvenjugóða lánsmöguleika í lífeyrissjóðum og góðan aðgang að bönkum. Margir hafa lítinn eða engan aðgang að lífeyrissjóðum og geta því hvorki byggt né keypt. Fasteignasalar segja að unga fólkið sé horfið af fasteignamarkaðinum, og segir það sína sögu.

Þegar verðtrygging innlána var tekin upp og þá auðvitað einnig útlána var augljóst að stórhækka þurfti lán Byggingarsjóðs ríkisins. Það er mjög vel viðráðanlegt að greiða afborganir og vexti af verðtryggðum jafngreiðslulánum til 20 ára eða meira, jafnvel þótt þau séu fyrir mestum hluta byggingarkostnaðar eða kaupverðs. Það er aftur á móti með öllu útilokað að standa undir svo nokkru nemi 2–4 ára vaxtaaukalánum eða sambærilegum lánum sem bankakerfið nú veitir búsbyggjendum ef þeir á annað borð fá þar nokkur lán. Það er því í hæsta máta þversögn, sem segir í lánsfjáráætlun, að draga megi úr útlánum Byggingarsjóðs ríkisins vegna minnkandi eftirspurnar. Það verður að hækka útlánin til hvers og eins verulega svo að venjulegt fólk geti byggt eða keypt þak yfir höfuð sér.

Spyrja mætti hvort nægilega væri byggt af íbúðarhúsnæði, hvort markaðurinn sé mettur. Því fer víðs fjarri. Í öllum þeim áætlunum og útreikningum, sem gerð hafa verið hin síðari ár, er komist að þeirri niðurstöðu að byggja þurfi a. m. k. 2000 íbúðir á ári. Í spá Framkvæmdastofnunar ríkisins frá 1977 segir að byggja þurfi 2400 íbúðir á ári til að anna eftirspurn. En hvernig hafa þessi mál þróast síðan? Árið 1979 og 1980 voru innan við 1700 íbúðir byggðar hvort árið. Nú liggur fyrir að í ár verði þær aðeins um 1200. Á næsta ári er aðeins reiknað með lánum til 1175 fokheldra íbúða. Það þarf engan spámann til að sjá hvert stefnir. Það stefnir í algjört óefni ef ekki verður fljótlega spyrnt við fótum og það myndarlega.

Ég hef aðallega rætt, herra forseti, þá hlið málsins sem snýr að lántakendum í dag, en mun nú fara nokkrum orðum um það, hvernig málin snúa að Byggingarsjóði ríkisins sjálfum, stöðu hans nú og í framtíðinni að óbreyttri stefnu og þá auðvitað jafnframt stöðu lántakenda næstu ára, því það fer vitanlega eftir stöðu sjóðsins hvernig þeim vegnar í framtíðinni.

Það er stanslaust verið að skerða opinber framlög til Byggingarsjóðs ríkisins og húsnæðiskerfisins í heild. Markaðir tekjustofnar voru skertir um 35% 1980 og er þá átt við kerfið í heild, þ. e. Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna. Á þessu ári var sama skerðing þrátt fyrir mjög aukin verkefni. Og á næsta ári er reiknað með hvorki meira né minna en 45% skerðingu á opinberu framlagi til kerfisins í heild frá fyrri mörkuðum tekjustofnum og öðrum lögboðnum opinberum framlögum, og alltaf er verið að bæta nýjum og nýjum verkefnum á lánasjóðina. Ríkisstj. hæstv. hugsar sér að bæta þetta allt upp með síauknum lántökum til sjóðanna. Framlög ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins eru áætluð lægri í fjárlagafrv. fyrir næsta ár í krónum talið en þau voru árið 1979, en tekin lán til sjóðsins hafa meira en fertugfaldast á sama tíma. Árið 1979 voru tekin lán til Byggingarsjóðs ríkisins álíka há og framlög ríkissjóðs til sjóðsins. Á næsta ári verða tekin lán 46 sinnum hærri en framlög ríkissjóðs. Það vantar samkv. fjárlagafrv. 130 millj. kr. á næsta ári upp á að opinber framlög verði jafnhá og fyrri markaðir tekjustofnar og önnur lögboðin framlög hefðu verið með óbreyttum lögum. Það vantar 200 millj. kr á næsta ári í opinber framlög til að ná samþykktri stefnumótun ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar í húsnæðislánamálum. Slíkt getur hugsanlega gengið í örfá ár, en í reynd er verið að pissa í skóna sína og það rækilega.

Húsnæðislánakerfið tekur lán með 3.25% vöxtum til 15 ára, en lánar út ýmist með 2% vöxtum til 26 ára eða með 0.5% vöxtum til 42 ára. Vaxtamismunurinn einn sér, sem sjóðirnir þurfa að greiða, er hvorki meira né minna en 6.33 millj. árlega fyrir útlán hvers einstaks árs, en framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins er áætlað 57.2 millj. og til Byggingarsjóðs verkamanna 111.3 millj. Það líða ekki ýkjamörg ár, kannske liðlega 10, þar til allt framlag ríkissjóðs til beggja sjóðanna fer í það eitt að greiða vaxtamismun inn- og úttána. Það er ekki aðeins verið að binda þetta frá ári til árs. Það er verið að binda sjóðunum bagga 26–27 ár fram í tímann. Það endar með því, herra forseti, og er reyndar ekki ýkjalangt þangað til, að við sitjum uppi með kerfi sem bindur fjárframlög ríkissjóðs áratugi fram í tímann án þess að koma húsbyggjendum framtíðarinnar eða húskaupendum að nokkru minnsta gagni. Það fær ekki eyri frá ríkinu miðað við svipuð framlög og nú eru til útlána. Það fer allt eins og það leggur sig í að borga vaxtamismun.

Ég skora á hv. fjvn. að taka þessi mál nú þegar til rækilegrar endurskoðunar. Ef það verður ekki gert mun ég freista þess að bera fram brtt. varðandi þetta við 3. umr. fjárlaga.