14.12.1981
Sameinað þing: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1515 í B-deild Alþingistíðinda. (1267)

1. mál, fjárlög 1982

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Við þessa umr. flutti hv. 3. þm. Norðurl. e., Lárus Jónsson, ítarlega ræðu þar sem hann gerði grein fyrir viðhorfum okkar sjálfstæðismanna í stjórnarandstöðu til þessa fjárlagafrv. Ég sé ekki ástæðu til að bæta neinu við þá ítarlegu ræðu sem hann flutti.

Ég vil hins vegar sérstaklega vekja athygli á því nál. sem hv. þm. Lárus Jónsson, Friðrik Sophusson og Egill Jónsson hafa látið frá sér fara á þskj. 179. Hér er um að ræða óvenjulega ítarlegt nál., um 30 bls., þar sem gerð er ítarleg grein fyrir efnahagsstefnu hæstv. ríkisstj., og þar kom fram mjög margar og merkar upplýsingar um fjármál ríkisins og efnahagsstefnu hæstv. ríkisstj. Það er ekki oft sem við sjáum hér á hv. Alþingi jafnítarlegt nál. og hér kemur fram, og er höfundum þessa nál. mikill sómi að því. Það er þakkarvert þegar einstakir þm. leggja jafnmikla vinnu af mörkum og raun ber vitni um þar sem um þetta nál. er að ræða. Ég vil sérstaklega hvetja hv. þm. til að kynna sér þetta nál. ítarlega því það er að vissu leyti grundvallarplagg varðandi stefnu núv. hæstv. ríkisstj. og stöðu efnahagsmála í landinu og fjármála ríkissjóðs.

Ég kem fyrst og fremst upp í þennan ræðustól til að mæla fyrir tveimur brtt. sem fram koma á þskj. 189, en þær brtt. eru frá mér og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, Salome Þorkelsdóttur og Matthíasi Bjarnasyni. Önnur þessara till. er brtt. við framlag í Erfðafjársjóð og hin um framlag í Framkvæmdasjóð öryrkja og þroskaheftra. Ég ætla fyrst að víkja að síðari tillögunni.

Ég rifja það upp, að á árinu 1979 voru sett á Alþingi lög um aðstoð við þroskahefta. Þetta var ítarlegur lagabálkur og var takmark og markmið þeirra laga að tryggja þroskaheftum jafnrétti við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til að lifa sem eðlilegustu lífi í samfélaginu. Ástæða þessara laga var sú, að það var talin með réttu mjög mikil þörf á að sinna málefnum þroskaheftra í ríkari mæli en gert hafði verið, en þessi málaflokkur hefur verið vanræktur árum saman. Það hafa fyrst og fremst verið áhugasamir einstaklingar sem sinnt hafa þessum málum af frábærum dugnaði, en æ fleirum var ljóst að þörf væri á myndarlegu átaki og skipulegu átaki fyrir forgöngu ríkisins.

Í þessum lögum eru greind margvísleg verkefni sem nauðsynlegt sé að sinna varðandi þroskahefta, hvernig skipulagi starfsemi í þeirra þágu skuli háttað, hvaða tegundir af stofnunum skuli byggja og reka svo og hvers konar þjónustu skuli veita á hinum einstöku stofnunum og hinum einstöku starfssvæðum. Þetta skal ekki rakið hér, en á það minnt, að til að tryggja verulegt átak í þessum efnum var stofnaður sérstakur sjóður, Framkvæmdasjóður öryrkja og þroskaheftra, sem kveðið er á um í lögunum.

Aðaltekjustofn þessa sjóðs skyldi vera framlag ríkissjóðs og segir um það orðrétt í þessum lögum, með leyfi forseta:

„Tekjur sjóðsins eru: a) Ríkissjóður skal árlega leggja sjóðnum til a. m. k. 1000 millj. kr. Skal sú fjárhæð hækka í hlutfalli við verðlagsvísitölu miðað við árið 1979 að grunni.“

Hér er mjög skýrt og ákveðið til orða tekið um hvernig ríkissjóður eigi að leggja þessum sjóði til tekjur. Þessi lög voru samþykkt vorið 1979 og tóku gildi í lok þess árs. En þrátt fyrir þetta skýra lagaákvæði hefur þetta ekki reynst annað en orðin tóm því að í þeim fjárlögum, sem síðan hafa verið samþykkt, hefur þetta framlag verið skert og um það efni sett sérstök lög í hvert skipti og þá í tengslum við afgreiðslu lánsfjárlaga. Þær vinstri stjórnir, sem hér hafa setið, hafa ekki haft meiri áhuga á framgangi þessa mikilvæga nauðsynjamáls en raun ber vitni um.

Eins og ég gat um er í lögunum kveðið á um að framlagið eigi að vera 1000 millj. kr. og eigi að hækka í hlutfalli við verðlagsvísitölu miðað við árið 1979 að grunni. Meðalvísitala byggingarkostnaðar árið 1979, sem hlýtur að vera sú vísitala sem miða á við, var 318 stig. Í fjárlagafrv., eins og það hefur legið fyrir. er reiknað með vísitölu byggingarkostnaðar. Sú vísitala, sem reiknað er með í framkvæmdaliðum þessa fjárlagafrv., er 1.011 stig fyrir árið 1982. Samkv. þessu ætti framlagið því að vera 31.8 mill j. kr. Í fjárlagafrv., eins og við höfum haft það til meðferðar hingað til, er þetta framlag skert um 5 millj. kr. og sett niður í 26.7 millj. Þessu fylgir texti í lánsfjárlögum sem kveður nánar á um þessa skerðingu.

Í brtt. fjvn., eins og þær koma fram á þskj. 187, er gert ráð fyrir nokkurri hækkun á þessu framlagi, en þó ekki sem nemur skerðingu þeirri sem ég gat um, miðað við þá vísitölu sem gilti 1979 og mun gilda 1982. Hins vegar, svo það sé skýrt hvernig sú nýja tala er fengin út sem fjvn. gerir nú till. um, er fundin ný og sérstök vísitala sem miðað er við, og sú vísitala er meðaltal byggingarvísitölu áranna 1979 og 1980 og það meðaltal er notað sem grunnur og síðan reiknað ofan á það upp í þá vísitölu sem gildir samkv. fjárlagafrv. 1982. Þetta er að sjálfsögðu algjörlega óleyfilegt því að lögin um þroskahefta segja nákvæmlega til um hvernig hér skuli með fara. Sú brtt., sem nú hefur verið lögð fram af hálfu fjvn., er því ekki nægileg í þessu efni ef halda á sér við það markmið sem upphaflega var sett þegar þessum Framkvæmdasjóði voru markaðar tekjur með lögum.

Það er athyglisvert, að þeir hæstv. ráðh., sem ábyrgð bera á þessum málaflokkum, Ragnar Arnalds fjmrh. og Svavar Gestsson félmrh., eru forustumenn Alþb. og ráðh. þess í þessari hæstv. ríkisstj. Þessir hæstv. ráðh., sem á tyllidögum vilja gjarnan láta líta á Alþb. sem sérstakan málsvara þess fólks sem hér um ræðir, halda nú sérstaklega upp á ár fatlaðra með því að skera niður þetta framlag þrátt fyrir ótvíræð lagaákvæði um hvað framlagið eigi að vera.

Við flm. þessarar till. viljum að í fjárlögum fyrir árið 1982 verði þessu fjárframlagi að nýju komið upp í raungildi þeirrar fjárhæðar sem upphaflega var stefnt að og kveðið er á um í lögunum um þroskahefta.

Hin brtt., sem við flytjum, er við framlag í Erfðafjársjóð og það er reyndar önnur grein á sama meiði. Á sínum tíma var myndaður sérstakur erfðafjársjóður og átti erfðafjárskatturinn að ganga í þennan sjóð. Fé úr þessum sjóði á að verja til að koma upp vinnuheimilum og öðrum stofnunum fyrir öryrkja og gamalmenni. Í reynd hefur þetta verið á þá leið, að Endurhæfingarráð hefur veitt úr þessum sjóði og lagt áherslu á endurhæfingarstofnanir bæði fyrir aldraða og öryrkja, enda þörfin mjög brýn á þessu sviði. Samkv. því fjárlagafrv., sem hér liggur nú fyrir, er hins vegar gert ráð fyrir að allverulegur hluti erfðafjárskattsins fyrir árið 1982 verði tekinn og lagður beint í ríkissjóð til almennrar eyðsluríkisins, en ekki í Erfðafjársjóð. Samkv. endurskoðaðri tekjuáætlun, eins og hún kemur fram í brtt. fjvn., er nú gert ráð fyrir að erfðafjárskattur árið 1982 muni gefa í tekjur 13 millj. kr. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. að lagt verði til Erfðafjársjóðs af þessu fjármagni meira en 9 millj. kr., og það er nánar áréttað í lánsfjárlögum.

Ég held að allir geri sér grein fyrir því, að miðað við þau miklu verkefni, sem þarna eru óleyst, veiti ekki af þessu fjármagni, sem erfðafjárskatturinn gefur í Erfðafjársjóð, til .þeirra verkefna sem Erfðafjársjóður á að standa undir. Þeir hæstv. ráðh. Alþb., sem ábyrgð bera á þessari tillögugerð, eru þó greinilega á annarri skoðun því að þeir leggja til að 4 millj. kr. af erfðafjárskatti verði að þessu sinni teknar úr Erfðafjársjóði og settar beint í ríkissjóð.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þessar brtt. Ég held að þær skýri sig sjálfar, ekki síst þegar haft er í huga það sem ég hef nú sagt um þær. Sé ég ekki ástæðu til þess, eins og ég gat um áðan, að fjalla nánar almennt um þetta fjárlagafrv., en vísa til þess sem hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði í sinni ítarlegu ræðu áðan.