14.12.1981
Sameinað þing: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (1268)

1. mál, fjárlög 1982

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þó ærin ástæða væri til að ræða hér þetta frv. til fjárlaga í löngu máli og sýna fram á hvað Alþingi er um það bil að fara að samþykkja óraunhæf fjárlög á sannkölluðum brauðfótum er augljóst tilgangsleysi þeirra umr., því stjórnarliðar eru staðráðnir í að blekkja þjóðina og gefa henni ranga mynd af stöðunni í fjármálum ríkisins og útgjöldum og tekjum ríkisins á næsta ári. Bæði tekju- og útgjaldaliðir þessa frv. eru stórlega vanmetnir og þarf ekki frekar vitnanna við en komið hefur hér fram fyrr í dag og kvöld í ræðum stjórnarandstæðinga. Hver er tilgangurinn með því að samþykkja svo óraunhæf fjárlög, þegar fyrirsjáanlegt er að hvorki tekju- né útgjaldaáætlanir fjárlaganna munu standast og langur vegur þar frá?

Það er vitaskuld tilgangslaust að karpa hér tímum saman til að reyna að sannfæra stjórnarsinna um að þeir séu vísvitandi að blekkja þjóðina með villandi upplýsingum um stöðu fjármála og áætlana á útgjöldum og tekjum fyrir næsta ár, því stjórnarsinnar eru staðráðnir í að halda sér við blekkinguna og ná henni fram hér á hv. Alþingi. Það er auðvitað ótækt að útgjalda- og tekjuhlið fjárlaganna skuli vera svo stórlega vanmetin, sem þýðir að fjmrh. fær að ráðskast með stórfelldar aukafjárveitingar utan við fjárlögin og fram h já Alþingi. Ég segi: fram hjá Alþingi, vegna þess að stórlega vanáætlaður fjárlagagrunnur þýðir miklar aukafjárveitingar á næsta ári og þegar fjárlagaárið er gert upp í ríkisreikningi stendur Alþingi frammi fyrir gerðum hlut í því efni. Afleiðingin af stórlega vanmetnum fjárlagagrunni er sú, að þjóðin býr í reynd við tvenns konar fjárlög: annars vegar hefðbundin fjárlög samþykkt á Alþingi og hins vegar stórfelldar fjárveitingar sem að mestu eru í höndum framkvæmdavaldsins því þegar upp er staðið stendur löggjafarvaldið, sem ber ábyrgð á fjármunum ríkisins, frammi fyrir gerðum hlut að því er varðar ráðstöfun aukafjárveitinga.

Það hlýtur að vera tími til kominn að löggjafarvaldið fari að átta sig á þessari staðreynd og það fari að glíma við raunhæf fjárlög eins og er skylda þess, fjárlög sem gefa rétta mynd af stöðu ríkisbúskaparins á komandi fjárlagaári, í stað þess að karpa endalaust um óraunhæf og dulbúin blekkingafjárlög sem allir hljóta að sjá í gegnum. Ég skal standa við það sem ég sagði hér í upphafi míns máls, að ég mun ekki eyða löngum tíma í almenna gagnrýni á þetta marklausa pappírsplagg, sem Alþingi er um það bil að fara að staðfesta. Í stað þess vil ég gera grein fyrir nokkrum brtt. sem ég flyt ásamt nokkrum þm. Alþfl. og fram koma á þskj. 189.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að Alþb.-menn nota hvert minnsta tækifæri í fjölmiðlum til að hrósa sér af því að stórfelldar framfarir hafi átt sér stað á félagsmálasviðinu í tíð þeirra í ríkisstj. Það hefur ljóslega komið fram hér í umr., að fjárlagagrunnur margra þátta á félagslega sviðinu er byggður á mjög ótraustum grunni. En þegar Alþb.-menn eru að hrósa sér af framförum á félagsmálasviðinu væri slíkt sjálfshól meira virði ef þeir beittu sér fyrir fjármagni til að standa við fyrirheit þessara framfara á félagsmálasviðinu. Nefnd hefur verið hér t. d. staða Byggingarsjóðs ríkisins sem dæmi um hve framfarir á félagslega sviðinu eru reistar á ótraustum og hæpnum grunni. Þær brtt., sem ég flyt hér, og skýringar víð þær munu enn frekar renna stoðum undir á hve ótraustum grunni ýmis mál á félagslega sviðinu standa í þessu fjárlagafrv. — fjárlögum undir liðnum Framkvæmd laga um aðstoð við þroskahefta er um svo mikla vanáætlun að ræða að nauðsynlegt er að fá fram leiðréttingu nú við meðferð fjárlaga hér á Alþingi. Í fjárlögum eru áætlaðar rúmar 5 millj. til framkvæmdar laga um aðstoð við þroskahefta. Í meðförum fjárlagafrv. hjá fjvn. hefur þessi liður hækkað um 1 millj., en fjárhagsáætlun félmrn., sem fer með þessi mál, er um 11–12 millj. kr. Ég vil freista þess að gera brtt. við nokkra veigamikla liði í þeim viðfangsefnum sem heyra undir framkvæmd laga um aðstoð við þroskahefta.

Með lögunum um aðstoð við þroskahefta var landinu skipt í átta starfssvæði hvað málefni þroskaheftra varðar. Á hverju starfssvæði skyldi vera 5 manna svæðisstjórn. Í lögunum um aðstoð við þroskahefta og reglugerð fyrir svæðisstjórnir er svæðisstjórnum ætlað mjög veigamikið hlutverk í framkvæmd laganna. Er verksvið þeirra mjög umfangsmikið svo nauðsyn hefur verið á að svæðisstjórnir hefðu skrifstofuaðstöðu og starfsmann. Grundvöllurinn fyrir uppbyggingu þjónustu fyrir þroskahefta á svæðunum er undir því kominn að svæðisstjórnum sé búin viðunandi aðstaða, en starfssvið svæðisstjórna eru áætlanagerða, eftirlit með stofnunum þroskaheftra og að fylgjast með húsnæðis- og atvinnumálum svo dæmi sé tekið. Vegna starfa svæðisstjórna er á fjárlögum gert ráð fyrir 112 þús. kr., en félmrn. ætlar að til þurfi að koma um 1.7 millj. til þessarar starfsemi. Hér er því langur vegur frá að gert sé ráð fyrir að svæðisstjórnir geti haldið uppi sinni starfsemi. Ég vil minna á að fyrir Alþingi liggur nú frv. til l. um málefni fatlaðra þar sem umfang verkefna svæðisstjórna er stórlega aukið. Grundvöllurinn í skipulagningu þeirri, sem það frv. gerir ráð fyrir svo og lögin um aðstoð við þroskahefta, er starfsemi svæðisstjórna og að þær séu vel virkar. Verði þessi liður á fjárlögum varðandi svæðisstjórnir ekki stórlega aukinn er borin von að lögum um aðstoð við þroskahefta eða frv. um fatlaða, sem liggur fyrir Alþingi, nái þeim árangri sem til er ætlast.

Ég legg því til í brtt. við frv. til fjárlaga að liðurinn Svæðisstjórnir hækki úr 112 þús. í 1 millj., sem er 700 þús. undir áætlun félmrn. um kostnað, en ég tel tilgangslaust að freista þess að reyna að hækka hann frekar miðað við þá meðferð, sem þessi liður fékk nú hjá fjvn., og þá upphæð sem ráð er fyrir gert í fjárlögum.

Í annan stað er það rekstur sambýla. Lögin um aðstoð við þroskahefta gera ráð fyrir að sett séu á fót sambýli og þessum lið á fjárlögum. Framkvæmd laga um aðstoð við þroskahefta, er ætlað að standa undir rekstri þeirra. Á sambýlum dveljast þroskaheftir einstaklingar sem eru sæmilega sjálfbjarga og geta séð um sig sjálfir með nokkurri aðstoð. Áður en sambýli komu til sögunnar, sem eru nýjung í málefnum þroskaheftra hér á landi, þurftu þessir einstaklingar oft að dveljast á vistheimilum fyrir þroskahefta. Rekstur sambýlanna er margfalt ódýrari en vistgjald það sem greiða þarf á vistheimilum þroskaheftra, auk þess sem sambýli eru veigamikill þáttur í svokallaðri „normaliseringu“, sem er að þroskaheftum sé gert kleift að aðlagast sem mest eðlilegum lifnaðarháttum. Þó Íslendingar séu skammt á veg komnir varðandi uppbyggingu sambýla hafa nágrannaþjóðir okkar lagt höfuðáherslu á þetta mál í þjónustu við þroskahefta.

Í nýsettum lögum í Svíþjóð kemur fram að innan fimm ára frá gildistöku þeirra skuli öll börn og ungmenni flytjast af stofnunum í smáar heimiliseiningar, svokölluð sambýli, og svipuð stefna er uppi á hinum Norðurlöndunum. Hér á landi eru nú rekin fjögur sambýli og fyrirhugað er að taka tvö í notkun á næsta ári. Stjórnarnefnd málefna þroskaheftra, sem úthlutar fjármagni Framkvæmdasjóðs öryrkja og þroskaheftra, hefur lagt mikla áherslu á að koma á fót sambýlum, og sennilega verður byrjað á þrem til fimm nýjum sambýlum á næsta ári. Kannanir, sem gerðar hafa verið, sýna að útskrifa mætti fjölda einstaklinga af vistheimilum væru sambýli fyrir hendi. Gefur það auga leið að rekstur sambýlis fyrir hvern einstakling er mun ódýrari fyrir ríkissjóð en rekstur vistheimila.

Kostnaður ríkissjóðs vegna stofnana þroskaheftra á hvern einstakling er á ári, miðað við meðalkostnað á vistheimili, um 108 þús. á einstakling, en rekstur sambýla aðeins rúmur þriðjungur þeirrar upphæðar. Á fjárlögum er gert ráð fyrir 464 þús. í rekstur sambýla, en á fjárhagsáætlun félmrn. eru um 2 millj. kr. Forráðamenn sambýlanna, sem t. d. hér í Reykjavík eru rekin á vegum Styrktarfélags vangefinna, hafa upplýst að fáist ekki leiðrétting á þessu í meðförum þingsins sæju þeir sér ekki annað fært en að leggja reksturinn niður á næsta ári. Það mundi þýða að vistheimilin yrðu að taka aftur við þessum einstaklingum, sem yrði mun dýrara fyrir ríkissjóð eins og ég hef gert hér grein fyrir. Ég vil því freista þess að flytja sparnaðartillögu sem fram kemur á þskj. 189. Till. er um að hækkað verði framlag til rekstrar sambýla úr 464 þús. í 2 millj., en liðurinn hefur einungis verið hækkaður í 764 þús. í meðferð fjvn.

Ég þarf varla að rökstyðja hér nauðsyn þess fyrir öryrkja að vernduðum vinnustöðum verði skapaður rekstrargrundvöllur. Á fjárlögum er gert ráð fyrir 350 þús. til rekstrar verndaðra vinnustaða, og í meðferð fjvn. hækkaði upphæðin í 450 þús., en fjárhagsáætlun félmrn. er um 1 millj. vegna verndaðra vinnustaða. Ég flyt því brtt. ásamt nokkrum öðrum þm. Alþfl. um að fjárframlag til rekstrar verndaðra vinnustaða hækki úr 350 þús. í 1 millj. kr.

Full ástæða væri til að flytja brtt. við fleiri þætti undir þessum lið um framkvæmd laga um aðstoð við þroskahefta. Nefna má t. d. rekstur leiktækjasafna og kostnað við 15. gr. laga um aðstoð við þroskahefta, sem er stórlega vanáætlaður.

Ég vil t. d. nefna 15. gr. laga um aðstoð við þroskahefta, sem kveður á um að framfærendur þroskahefts einstaklings, sem eingöngu dvelst í heimahúsum og þarfnast umönnunar eða gæslu, eigi rétt á fjárhagslegri aðstoð. Kostnaður vegna þessa ákvæðis verður um 1 millj. kr. fyrir þetta ár og hógvær áætlun félmrn. vegna þessa ákvæðis er um 1.1 millj. vegna næsta árs, en á fjárlögum 1982 er gert ráð fyrir 600 þús. Ég vil enn og aftur minna á frv. um málefni fatlaðra, sem fyrir Alþingi liggur, en það kveður á um mun víðtækari aðstoð að því er þetta varðar. Verði það frv. að lögum verður kostnaður vegna þessa ákvæðis á árinu 1982 enn meiri en áætlun félmrn. nú bendir til, um 1.1 millj., en fjárlögin gera nú aðeins ráð fyrir 600 þús. kr. til að standa straum af þessu. Vænti ég að fjvn. taki mið af þessum lið og hækki hann og skoði vel milli 2. og 3. umr.

Ég mun a. m. k. ekki við 2. umr. þessa máls flytja fleiri brtt. við þennan lið, Framkvæmd laga um aðstoð við þroskahefta, heldur hef ég valið að draga úf núna við 2. umr. þrjá veigamikla þætti, þ. e. kostnað við starfrækslu svæðisstjórna, kostnað við rekstur sambýla og kostnað við rekstur verndaðra vinnustaða, og flyt um það brtt. nú við 2. umr. Vona ég að þessi hógværð verði til þess, að brtt. nái fram að ganga.

Ég mæli hér einnig fyrir brtt. sem felur í sér að Tryggingastofnun ríkisins fái fjármagn til að geta mætt þeim greiðslum er varða hópskoðanir, krabbameinsleit á vegum Krabbameinsfélags Íslands. Tryggingastofnun ríkisins hefur um árabil þurft að standa straum af þessum kostnaði án þess að ráð sé fyrir honum gert í tekjum Tryggingastofnunar ríkisins. Tryggingastofnun hefur margsinnis á þetta bent og óskað eftir að stofnunin þyrfti ekki að standa straum af þessum útgjöldum, enda stofnuninni ekki séð fyrir fjármagni til þess.

Á fundi tryggingaráðs 13. nóv. 1980 var gerð eftirfarandi samþykkt, sem ég vil fá að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Tryggingaráð fellst á að Tryggingastofnun ríkisins greiði Krabbameinsfélagi Íslands árið 1981 með sama hætti og áður gjald fyrir hvert frumusýni vegna hópskoðana kvenna. Jafnframt leggur ráðið þunga áherslu á að þetta sé í allra síðasta sinn sem slík greiðsla verði innt af hendi af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins.“

Í bréfi, sem Krabbameinsfélag Íslands sendi fjvn. 6. nóv. s. l., kemur fram að Tryggingastofnun ríkisins geti fallist á að greiða fyrir umræddar rannsóknir verði henni ætlað fjármagn á fjárlögum til að mæta þeim. Í sama bréfi Krabbameinsfélagsins til fjvn. fór félagið þess á leit við fjvn. að Tryggingastofnuninni yrði framvegis ætlað fjármagn á fjárlögum til að mæta greiðslum er varða hópskoðanir er fara fram á vegum Krabbameinsfélagsins, enda líti stjórnin svo á að greiða ætti fyrir þær hópskoðanir eins og fyrir hver önnur læknisverk.

Í áætlun Krabbameinsfélagsins fyrir árið 1982 kemur . fram að vegna leitarstöðvarinnar er áætlað að þær greiðslur, sem kæmu frá Tryggingastofnuninni, þyrftu að vera 1 millj. 927 þús. og vegna frumurannsókna um 574 þús. kr. eða samtals um 2.5 millj. kr. Á fjárlögum fyrir árið 1982 eru ætlaðar til Krabbameinsfélagsins 1.2 mill j. kr. Er það sama upphæð og félagið fékk fyrir árið 1981, en í meðförum fjvn. hefur hún hækkað í 1.7 millj. kr. Þessir fjármunir, sem veittir hafa verið á fjárlögum, auk gjafafjár og ágóða af happdrætti Krabbameinsfélagsins, hafa staðið straum af öðrum kostnaði í rekstri Krabbameinsfélagsins, svo sem almennu skrifstofuhaldi, fræðslustarfsemi og söfnun upplýsinga í krabbameinsskrár sem er veigamikill þáttur í öllu starfi félagsins. Krabbameinsskrá hefur verið haldin frá 1954, en þessi skrá er undirstaða undir allar krabbameinsrannsóknir, en í sambandi við hana eru gerðar faraldsfræðilegar rannsóknir á sjúkdómstíðni, eðli þeirra o. fl. Ég vek sérstaklega athygli á henni vegna þess að kostnaður við hana er mikill og er áætlað að á árinu 1982 þurfi til hennar um 1.1 millj. kr. eða sem næst þeirri fjárhæð sem ráð var gert fyrir á fjárlögum. Auk þessa þarf, eins og áður kom fram, 2.5 millj. til viðbótar við þá upphæð til að standa undir hóprannsóknum. Er því sýnt að það, sem ætlað var á fjárlögum til Krabbameinsfélagsins, getur ekki staðið undir hópskoðunum á vegum félagsins. Auk krabbameinsskrárinnar stendur þessi upphæð, sem ráð er fyrir gert í fjárlögum, undir almennu skrifstofuhaldi og rekstri og að einhverju leyti fræðslustarfsemi. Sú brtt., sem ég flyt á þskj. 189 ásamt hv. þm. Árna Gunnarssyni, Magnúsi H. Magnússyni, Vilmundi Gylfasyni og Eiði Guðnasyni, er þess efnis, að sérgreint verði framlag til Tryggingastofnunar ríkisins til þessa verkefnis að upphæð 2 millj. kr.

Ég vil, með leyfi forseta, vitna í bréf til Tryggingastofnunarinnar, sem undirritað er af formanni Krabbameinsfélagsins, Gunnlaugi Snædal, og dagsett er 20. nóv. 1981, en í því bréfi segir, með leyfi forseta:

„Þó svo að allir sem við hefur verið rætt í heilbrigðisstéttum hjá ríki og borg, læknar og alþm. virðast vera sammála um að mikilvægt sé að halda rannsóknunum áfram og að Krabbameinsfélagið sé æskilegur aðili til að reka þær hefur ekkert gerst sem gerir félaginu kleift að halda þeim áfram. Eigi að nást ákjósanlegur árangur af hópskoðunum er nauðsynlegt að auka þær um allt að 50% frá því sem nú er. Komi ekki til einhver fastur fjárhagsgrundvöllur fyrir þennan þátt starfseminnar er sýnt að Krabbameinsfélagið hefur ekki bolmagn til að reka hópskoðanir öllu lengur. Til að standa undir þeim hefur félagið þurft að verja gjafafé, ágóða af happdrættum og hluta af ríkisstyrk til viðbótar þeim greiðslum sem Tryggingastofnunin hefur innt af hendi.“

Ég þarf varla að eyða löngum tíma til að rökstyðja mikilvægi þess fyrir hv. alþingismönnum hve brýnt það er að Krabbameinsfélaginu verði gert kleift að halda áfram krabbameinsleit, svo óyggjandi eru skýrslur um árangur hópskoðana sem gerðar hafa verið hjá félaginu. Frá 1964-1979 hafa verið framkvæmdar 154 þúsund skoðanir víðs vegar um landið og greind hafa verið á þessu 15 ára tímabili 294 illkynja æxli, en auk þess milli 300 og 400 staðbundin krabbamein. Þessar tölur tala sínu máli um nauðsyn þess, að Krabbameinsfélaginu verði skapaður viðunandi rekstrargrundvöllur til að halda þessari starfsemi áfram.

Fyrirsjáanlegt er að rekstrargrundvöllur verður ekki fyrir hendi nema sérstaklega verði gert ráð fyrir því nú við fjárlagagerðina. Vísa ég enn og aftur í því sambandi í bréf tryggingaráðs til Krabbameinsfélagsins, sem undirstrikaði að ekki kæmu til frekari greiðslur frá Tryggingastofnuninni til Krabbameinsfélagsins í þessu skyni nema gert væri ráð fyrir tekjum til Tryggingastofnunarinnar til að standa straum af kostnaðinum. Ljóst er einnig að stórlega vantar á að Tryggingastofnunin geti staðið undir útgjöldum sínum á næsta ári, en eins og fjárlögin eru nú úr garði gerð vantar 240 millj. kr. til að fjármunir samræmist útgjaldaáætlun stofnunarinnar fyrir 1982, og sjá allir að hún getur ekki að óbreyttu bætt á sig þeim kostnaði sem af hópskoðunum Krabbameinsfélagsins leiðir.

Ég vil benda á að heilbr.- og félmrn. leggur áherslu á að Tryggingastofnunin geti áfram greitt til Krabbameinsfélagsins vegna þessa verkefnis, og vil ég — með leyfi forseta — vitna til bréfs rn. til Tryggingastofnunar því til staðfestingar, en þetta bréf er undirritað af hæstv. ráðh. Svavari Gestssyni og Jóni Ingimarssyni, en þar segir svo, með leyfi forseta:

„Rn. felur nauðsynlegt að þessi starfsemi haldi áfram á næsta ári, og því er það ósk rn. að tryggingaráð taki þetta mál til endurskoðunar, og mælir rn. með því, að Krabbameinsfélaginu verði greitt fyrir þessar rannsóknir sem næst því gjaldi sem taxti Læknafélags Íslands segir til um á hverjum tíma.“

Ég vil að lokum, með leyfi forseta, vitna í áður greint bréf Krabbameinsfélagsins til fjvn. og tel ekki að málið þurfi frekari skýringa við en þar kemur fram. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, en þetta bréf er undirritað af Gunnlaugi Snædal og Hirti Hjartarsyni:

„Ísland hefur vakið heimsathygli fyrir leghálskrabbameinsrannsóknir og mikið vitnað til þeirra. Það er bjargföst trú þeirra, sem við þessar rannsóknir starfa, að hægt sé að útrýma leghálskrabbameini á Íslandi. Margir aðrir möguleikar eru fyrir hendi varðandi krabbameinsleit, sem ekki hefur verið hægt að hrinda í framkvæmd vegna aðstöðuleysis. Þar er í forgangi stóraukin leit að brjóstkrabbameini og leit að ristilkrabbameini. Það er almennt viðurkennt að stefna beri að fyrirbyggjandi aðgerðum, m. a. með greiningu sjúkdóms á byrjunarstigi í stað sjúkrahúsvistar og kostnaðarsamra lækninga, og í mörgum tilfellum dregur þar úr þjáningum fólks. Allar þessar gífurlegu upplýsingar, sem safnað hefur verið allt frá árinu 1964 varðandi hópskoðanir, og þær upplýsingar, sem krabbameinsskráin hefur að geyma frá 1954 ásamt faraldsfræðilegum rannsóknum, eru ómetanlegur grundvöllur allra krabbameinsrannsókna hér á landi.

Á þessu ári hefur Krabbameinsfélag Íslands starfað í 30 ár. Stjórnendur félagsins veltu því fyrir sér hvaða rekstur svona áhugamannafélag ætti að hafa með höndum. Þessi mál voru rædd á nokkrum fundum með fulltrúum aðila frá ríki og borg í vor. Niðurstaðan hefur orðið afdráttarlaus. Öll starfsemi Krabbameinsfélagsins hefur sannað gildi sitt. Aðrir aðilar eru ekki tilbúnir að taka við henni og því verður að gera félaginu kleift fjárhagslega að sinna þessum verkefnum sínum.“

Ég hef lokið máli mínu, herra forseti, og ég vona að hv. alþingismenn veiti þeim brtt. brautargengi sem ég hef hér lýst.