14.12.1981
Sameinað þing: 35. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1522 í B-deild Alþingistíðinda. (1269)

1. mál, fjárlög 1982

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég mun nú mæla fyrir brtt. á þskj. 189, sem ég flyt ásamt Matthíasi Bjarnasyni, Eyjólfi Konráð Jónssyni, Halldóri Blöndal, Jósef H. Þorgeirssyni, Karvel Pálmasyni, Salóme Þorkelsdóttur, Sigurði Óskarssyni og Sverri Hermannssyni. Þessar brtt. varða þýðingarmikinn þátt orkumála: annars vegar framlög til Orkusjóðs og hins vegar niðurgreiðslu á olíu til húshitunar.

Það er svo, að till. þeim, sem orkuráð gerði um framlög til orkusjóðs, hefur verið lítill gaumur gefin af hæstv. ríkisstj., svo mjög að það er til mestu háðungar. Þetta segi ég með tilliti þess, hve þýðingarmikið er að Orkusjóður hafi fjármagn til að sinna þeim mikilvægu verkefnum sem honum eru ætluð. Tillögur orkuráðs eru um framlög til Orkusjóðs, þ. e. framlög til styrkingar dreifikerfa í sveitum, til jarðhitaleitar, til hitaveitulána og til sveitarafvæðingar, en þetta eru þýðingarmestu þættir sem Orkusjóður hefur með að gera. Tillögur orkuráðs um framlög til þessara hluta námu um 143 millj. kr., en í fjárlagafrv. eru aðeins veittar í þessar þarfir tæplega 46 millj. kr. Þetta nemur um 30% af því sem orkuráð taldi að væri nauðsynlegt og raunar lágmark þess sem þyrfti. Það eru 30% af þessu fjármagni sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir, og þó er þetta í málaflokki sem hæstv. ríkisstj. segir að eigi að hafa forgang. Hvað halda menn að sé um aðra málaflokka þegar svo er um þá sem eiga að hafa forgang samkv. sjálfum stjórnarsáttmálanum?

1. till. varðar styrkingu dreifikerfa í sveitum. Í till. orkuráðs til fjárlaga fyrir árið 1982 var gert ráð fyrir samtals 48.5 millj. kr. til styrkingar dreifikerfa í sveitum. Var sú tala byggð á áætlunum Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða. Þessar áætlanir miðuðust við upphaflega tímaáætlun orkuráðs frá 1. mars 1979 um lúkningu styrkingarinnar á átta árum. Var gert ráð fyrir að vinna upp á árinu 1982 þann drátt sem varð á aðgerðum 1980 og 1981 frá tillögum ráðsins: Í grg. með tillögum orkuráðs fyrir árið 1982 eru leidd rök að því, að ekki megi verða dráttur á styrkingu dreifikerfis sveitanna frá áætlun ráðsins vegna mikilvægis þess að losna sem fyrst við hina dýru húshitun með olíu í sveitum landsins og geta tekið upp fulla rafhitun í staðinn alls staðar þar sem aðstæður leyfa ekki hagkvæma nýtingu jarðvarmans. Orkuráð gerði það því að tillögu sinni, að 58.5 millj. kr. yrði varið til styrkingar sveitakerfanna á næsta ári, en til vara gerði orkuráð tillögu um 34.18 millj. kr. í þessu skyni. Það er sú fjárhæð sem það kostar að bæta ástand dreifikerfanna þar sem það er allra verst og óhæft til að gegna hlutverki sínu öllu lengur að mati Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða. Það er þessi upphæð sem við flm. þessarar brtt. leggjum til að tekin verði upp, þ. e: sú upphæð sem orkuráð telur að sé algjört lágmark þess sem þarf að gera á næsta ári og er fjarri því að vera sú upphæð sem var aðaltillaga orkuráðs.

Önnur till. okkar, sem varðar Orkusjóðinn, er um sveitarafvæðinguna. Í fjárlagafrv. eru áætlaðar 7.2 millj. kr. til sveitarafvæðingar í heild, bæði til nýrra veitna og viðbótar við eldri veitur. Þessi fjárhæð gerir ekki betur en að duga til að kosta viðbætur við eldri veitur, eins og þær horfa nú við, og raunar mjög óvíst hvort upphæðin dugir til þess þegar til kemur. Ekkert verður þá eftir til að tengja órafvædd býli við samveitur. Nú eru ótengd nálega 30 býli alls á landinu af þeim býlum sem orkuráð telur að tengja eigi við samveitur. Tillögur ráðsins gera ráð fyrir að verja 12.6 millj. kr. til nýrra veitna í sveitum. Sú fjárhæð var áætlaður kostnaður á framreiknuðu verðlagi um mitt ár 1982 við að tengja þessi um 30 býli samveitum.

Löngu er orðið tímabært að ljúka þessu verki og láta fólkið, sem bíður eftir rafmagni, ekki bíða lengur. Hér er ekki um meira átak að ræða en svo, að með öllu er ástæðulaust að draga lengur en til ársins 1982 að ljúka þessu verki. Frekari dráttur verður til þess eins að gera það enn dýrara. Orkuráð leggur því mjög eindregið til að tillaga þess um 12.6 millj. kr. til nýrra veitna verði tekin upp í fjárlög og þar með ljúki endanlega lagningu nýrra veitna í sveitum landsins. Auk þess veitir ekkert af þeim 8.4 millj. kr. í viðbætur við eldri veitur sem ráðið lagði til, þannig að heildarfjárhæðin til sveitarafvæðingar þarf að vera 21 millj. kr. Það er einmitt þessi upphæð sem við flm. þessarar brtt. leggjum til að tekin verði upp. Það er aðaltillaga okkar varðandi sveitarafvæðingu.

En við erum einnig með till. til vara og hún er sú, að upphæðin verði 15.5 millj. kr. Í báðum tilfellum er um að ræða hækkun á því sem er í fjárlagafrv. 2.7 millj.: í aðaltill. í 21 millj., en í varatill. 15.5 millj. En varatill. byggist á því, að gert er ráð fyrir því í lánsfjáráætlun að þar komi með lántöku 4.5 mill j. kr. til sveitarafvæðingar. Það er að vísu mjög óeðlileg ráðstöfun að ætla Orkusjóði að taka lán til sveitarafvæðingar, en ráðstafa því fjármagni sem óafturkræfu framlagi til sveitarafvæðingarinnar, en að sjálfsögðu er það betra en ekki í því neyðarástandi sem ríkir í þessu efni og þess vegna er hér um að ræða þá varatill. sem ég hef nú greint frá.

Þá er hér till. um að hækka styrk vegna olíunotkunar til húshitunar úr 30 millj. í 50 millj. kr. Olíustyrkirnir hafa nú á síðustu dögum verið nokkuð til umræðu hér í hv. Alþingi, bæði í hv. Ed. og í Sþ. Mönnum ætti því að vera í fersku minni hvernig ástand þessara mála er. Í fjárlögum fyrir árið 1981 er gert ráð fyrir að 50 millj. kr. sé varið til niðurgreiðslu á olíu vegna húshitunar. En það er upplýst, ef engin breyting verður á eins og nú horfir, að ekki verði ráðstafað á þessu ári nema um helmingi þessarar upphæðar. Það er upplýst að olíustyrkirnir hafi ekki hækkað frá því 1. jan. 1980 og hafi allan tímann síðan numið 200 kr. á ársfjórðungi. Á sama tíma hefur orðið stórkostleg hækkun á olíuverði þannig að sú aðstoð, sem það fólk þarf að fá sem ber byrðar olíuupphitunarinnar, er orðin miklu minni en ráð var fyrir gert í ársbyrjun 1980.

Ég gerði fsp. varðandi þetta mál nú á dögunum og lagði árherslu á að það væri nauðsynlegt að hækka þessa olíustyrki nú þegar. Hæstv. viðskrh. tók því ekki fjarri og talaði raunar þannig, einkum í Ed., að það mætti ætla að hann ætlaði að verða við þessum óskum, en það heyrir undir hæstv. viðskrh. að taka ákvörðun í þessu efni og það getur hann gert að óbreyttum lögum. En hæstv. viðskrh. sagði, að hann óskaði eftir álíti nefndar, sem er að vinna að endurskoðun laga um lækkun og niðurgreiðslu olíu til jöfnunar á húshitunarkostnaði, og vildi heyra álít þessarar nefndar, sem var ekki skipuð til að gefa slíkt álít, heldur til að endurskoða gildandi lög. Nefndin lét ekki á sér standa og gerði samþykkt strax daginn eftir að þetta bar við hér á hv. Alþingi. Nefndin gerir það að tillögu sinni að olíustyrkurinn fyrir 4. ársfjórðung þessa árs verði hækkaður um 75% og auk þess að greidd verði viðbót við olíustyrki á fyrri ársfjórðunga þessa árs þannig að orkustyrkurinn hækki fyrir allt árið hliðstætt. Síðan nefndin gerði þessa tillögu hefur ekkert heyrst frá hæstv. viðskrh. Ef hæstv. viðskrh. ætlar að verða við þessu er nauðsynlegt að ráðstafa öllu því fé sem fjárlög gera ráð fyrir í þessu skyni á þessu ári, um 50 millj. kr.

Nú er í frv. til fjárlaga fyrir árið 1982 gert ráð fyrir einungis 30 millj. kr. M. ö. o.: ef orðið verður við sjálfsagðri hækkun olíustyrkjanna í ár yrði að lækka þá aftur á næsta ári ef við samþykkjum einungis 30 millj. í þessu skyni. Það sjá allir hvílík óhæfa slíkt væri. Með tilliti til þess er hér gerð sú brtt., að upphæðin til niðurgreiðslu olíu verði hækkuð úr 30 millj. í 50 millj. kr.

Þetta eru þær till. sem við flm. gerum varðandi orkumálin. Við gerum ekki beinar till. um hvernig skuli fjármagna þessa hækkun. Við teljum að það þurfi ekki að gera með tillíti til þess, að orkujöfnunargjaldið, sem lagt er á til að verja til orkumála og er áætlað 190 millj. kr. á næsta ári, fer ekki nema að minni hluta til orkumála.

Á því ári, sem nú er að líða, fór meginhluti þeirrar upphæðar, sem orkujöfnunargjaldið gaf, til Orkusjóðs eða hliðstæðra verkefna nema um 90 millj. kr. af 190 millj. kr. Með tilliti til þessa þykir okkur einsýnt, að því, sem eftir stendur af orkujöfnunargjaldinu, verði varið til að mæta þeim kostnaðarliðum sem við leggjum til í till. okkar að verði hækkaðir.

Af því, sem ég hef nú sagt, má mönnum vera ljóst að þeim till., sem við flm. gerum, er mjög í hóf stillt. Það er vegna þess að við viljum freista þess, að þessar till. nái fram að ganga og að stjórnarherrarnir sjái sóma sinn í því að gera það sem er raunar í algjöru lágmarki og þeir ættu að gera í þessum efnum.