21.10.1981
Efri deild: 5. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

28. mál, almannatryggingar

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til l. um breyt. á lögum um almannatryggingar. Eins og fram hefur komið var þetta frv. lagt fram á liðnu þingi og í sannleika sagt var því ekki sýndur nægur sómi á því þingi, það skal viðurkennt. Hins vegar vil ég lýsa því yfir hér og nú, að ég lít svo á að þetta sé mjög gott mál, og það er full ástæða til að athuga það rækilega í nefnd.

Hv. 1. flm. hefur rækilega greint frá því í skýru máli, hver aðstöðumunur fólks er gífurlegur vegna ferðalaga samlagslæknis og jafnframt vegna flutninga sjúkra í dreifbýli. Getið er um það í grg. með þessu frv., að flm. hafi verið bent á hugsanlega reglu varðandi flutninga á sjúkum, þ. e. að almannatryggingar greiði flutningskostnað að því marki sem hann er umfram fargjald með áætlunarferð milli viðkomandi staða, þó aldrei minna en 3/4 hluta flutningskostnaðar. Ég hygg að þessi regla, sem hér er nefnd, hafi komið til umræðu á heilbrigðisþingi 1980. Á því heilbrigðisþingi urðu mjög verulegar umræður einmitt um sjúkraflutninga. Lýstu menn þar áhyggjum sínum vegna þess skipulagsleysis sem ríkti í framkvæmd sjúkraflutninga í sumum læknishéruðum landsins. Raunar er það svo, að tæpast verður séð að núgildandi lög geri ráð fyrir aðila sem er ábyrgur fyrir sjúkraflutningum eða skipulagi þeirra. Eins og kunnugt er eru sjúkrabifreiðar ýmist í eigu sveitarfélaga, sýslufélaga eða félagasamtaka. Þess skal þó getið, að margir hafa sinnt þessum málum af myndarskap og ber þar að sjálfsögðu hæst Rauða krossinn. En ég hef heyrt því fleygt, að til væru læknishéruð sem eru algjörlega án sjúkrabifreiðar, og er slíkt auðvitað óhæfa. Ég vil segja það aftur, að þessi mál þurfa rækilegrar athugunar við ekki síður en þau atriði sem frv. gerir ráð fyrir, þ. e. skipulag sjúkraflutninga.

En að því er varðar sérstaklega þetta frv. sem hér er til umfjöllunar vil ég taka fram að ég er hjartanlega samþykkur því sjónarmiði sem liggur þar að baki, þ. e. að enginn eigi að þurfa að kvíða því vegna efnahags að fá ekki notið bestu sjúkraþjónustu sem völ er á í landinu. Auðvitað eiga allir að hafa sama rétt til læknisþjónustu og hjúkrunar án tillits til efnahags og búsetu. Nóg er samt þótt fólk gjaldi ekki búsetu sinnar í þessu tilviki. Það er einlæg von mín að tekist geti víðtækt og gott samkomulag um þessa þætti sem raktir hafa verið af hv. flm. og ég hef tíundað.