15.12.1981
Sameinað þing: 36. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1545 í B-deild Alþingistíðinda. (1281)

1. mál, fjárlög 1982

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör við mörgum þeirra spurninga sem ég varpaði fram í umr. sem fóru hér fram á hv. Alþingi í nótt þegar klukkan var langt gengin í tvö. Hann hefur svarað nokkrum þeirra spurninga, allflestum reyndar sem ég beindi til hans, en kosið að sleppa öðrum. Það er kannske ástæða til að benda á hvaða spurningar það eru sem urðu afgangs, og eflaust er hægt að réttlæta þögn ráðh. með því, að ekki er vitað hvernig hæstv. ríkisstj. ætlar að bregðast við varðandi þau málefni.

Ein spurningin var sú, hvort hæstv. ríkisstj. hefði einhverjar hugmyndir um það, hvernig hún ætlaði að nota þær 140 millj. kr. sem eru til ráðstöfunar í fjárlagafrv. til efnahagsaðgerða, ekki síst með tilliti til þess, að nú hefur um langan aldur starfað efnahagsmálanefnd á vegum hæstv. ríkisstj. sem hlýtur senn að fara að skila einhverju áliti.

Það voru fróðlegar upplýsingar sem komu fram frá hæstv. ráðh. um ríkisendurskoðun og stöðu hennar í kerfinu. En spurning mín beindist að því að fá um það svör, hvað orðið hefði um hugmynd hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar sem hann á sínum tíma flutti inn á Alþingi.

Varðandi skilamatið, sem var efni annarrar fyrirspurnar og hæstv. ráðh. gat um, skal það tekið fram og ítrekað, að sá, sem hér stendur, hafði samband við Halldór V. Sigurðsson og Skúla Guðmundsson um þessi atriði og gerði grein fyrir því við 2. umr. fjárlaga í fyrra. Kom þá fram að þá var enn fremur sagt að fullur vilji væri fyrir hendi að taka þennan hátt upp sem reyndar hefur verið í lögum á annan áratug.

Það var fróðlegt að heyra hæstv. fjmrh. segja að ekki væru uppi áform um að fella frekar niður aðflutningsgjöld af aðföngum til iðnaðar, á sama tíma og meðráðherra hans úr sama þingflokki, þingflokki Alþb., stendur fyrir því, að hæstv. ríkisstj. leggur fram þáltill. um iðnaðarstefnu þar sem segir í 13. lið: „Felld verði niður aðflutningsgjöld af aðföngum þess iðnaðar sem er í samkeppni við erlenda aðila.“ Það eru ekki uppi áform um það innan hæstv. ríkisstj. að efna það sem þarf að gera verði þáltill. þessarar sömu hæstv. ríkisstj. samþykkt á hinu háa Alþingi. Þá vitum við með hvaða hugarfari slíkar þáltill. eru lagðar fram á hinu háa Alþingi. Og það er hollt fyrir hæstv. iðnrh. að gera sér grein fyrir því, hvernig tekið er á þeim málum sem hann skrifar í einni ályktun en hæstv. fjmrh. svarar síðan í umr. um fjárlög.

Um tollkrít spurði ég ekki vegna þess að uppi hafi verið ráðagerðir um að leggja fram tollkrítarfrv. nú í vetur, heldur vegna hins, að vorið 1980 sagði hæstv. forsrh. í ræðustól á Alþingi, að stefnt væri að því að leggja fram tollkrítarfrv. haustið 1980, og hæstv. fjmrh. spilaði aðra fiðlu í því máli. Í apríl 1981 er síðan skipuð nefnd, nefnd skilar skýrslu, þm. fá að sjálfsögðu ekki skýrsluna nema þeir sem sérstaklega biðja um hana, þá eftir nokkurra vikna bið, fjárlagafrv. er til umr. og hvergi er ráð fyrir því gert að slíkt frv., frv. um tollkrít, taki gildi.

Það er athyglisvert með tilliti til yfirlýsinga, sem heyrst hafa úr röðum hæstv. ríkisstj. um tollkrítarmálefni, að ekki er gert ráð fyrir gildistöku slíks frv. á næsta ári.

Þá kom fram hjá hæstv. fjmrh. að ekki er í undirbúningi að fella niður launaskatt. Hér er á ferðinni enn ein orðsending, orðsending frá hæstv. fjmrh. til hæstv. viðskrh. um það, að allt tal um niðurfellingu launaskatts sé út í bláinn. Þess vegna þarf hæstv. viðskrh. ekki að hafa fyrir því við 1. umr. fjárlaga á næsta ári að skýra frá að Framsfl. hafi fyrirvara um launaskattinn. Og hann þarf ekki heldur að fara á fund úti í bæ hjá hinum og þessum samtökum atvinnulífsins og skýra frá því, að hann og aðrir framsóknarmenn í ríkisstj. séu hlynntir því að fella niður launaskatt, einfaldlega vegna þess að hæstv. fjmrh. segir í ræðu hér á Alþingi að það sé ekkert í undirbúningi varðandi þetta mál.

Hitt ber að virða og þakka, að í ræðu hæstv. fjmrh. kom fram að í athugun sé, ef ég hef skilið hann rétt, að fella niður eða endurskoða skatt af verslunar- og skrifstofuhúsnæði, en það mál er til meðferðar á Alþingi nú. Langbesta lausnin á því máli er auðvitað að þetta frv. dagi uppi vegna þess að þá fellur skatturinn af sjálfu sér niður. Að öðrum kosti verð ég að vona að gerðar verði viðhlítandi breytingar á þessum málum, enda mega menn muna það, að skattur var lagður á verslunar- og skrifstofuhúsnæði í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að fyrirtæki í landinu nýttu sér verðbólgugróða til þess að byggja glerhallir. Verðbólgugróðinn var skýrður með því, að þar væri á ferðinni mismunur á þeim eignum, sem menn geta fest í steinsteypu, annars vegar og þeim vaxtagreiðslum, sem þeir yrðu að standa skil á, ef þeir fengju lán til þess að byggja, hins vegar. Eins og öllum er ljóst hefur ný vaxtastefna rutt sér til rúms hér á landi. Þess vegna er þessi skattur, rétt eins og nýbyggingargjaldið sáluga, úreltur skattur sem að sjálfsögðu á engan rétt á sér. Ég fagna þess vegna yfirlýsingu hæstv. ráðh. því að hana má skilja á þann veg, að það sé ætlun hæstv. ríkisstj. að fella niður skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, þótt enn sé nú við 2. umr. að finna á tekjuáætlun í 1. gr. frv. upphæð sem gerir ráð fyrir að sá skattur verið heimtur inn á næsta ári. En það hefur að sjálfsögðu gerst áður, að breytingar hafa orðið á slíku milli 2. og 3. umr., og ég sem fjvn.-maður hlýt að hlakka til þess að taka þátt í að skera niður þessa upphæð, svo mikið sem hún hefur farið í taugarnar á ýmsum hv. þm., hvað þá hinum, sem þurfa að standa skil á þessum ósanngjarna skatti, sem allir sjálfstæðismenn, hver og einn, greiddu atkv. gegn á sínum tíma þegar hann var lagður á haustið 1978.

Ég spurði hæstv. ráðh. síðan tveggja spurninga til viðbótar sem ég veit ekki hvort hann hefur ekki tekið eftir eða hvort hann kærir sig ekki um að svara. Læt ég honum eftir að ákveða hvort var.

Fyrri spurningin varðaði 4. gr. lánsfjárlaga, sem snertir fjárlagagerðina, vegna þess að þar er gert ráð fyrir því, að Iðnrekstrarsjóður taki 10 millj. kr. lán sem síðan á að endurlána til orkunýtingarrannsókna. Spurning mín var: Á þetta fé að greiðast til baka á fjárlögum næstu ára og hver á að fá þessa upphæð? Mér býður í grun að hér sé verið að fara á bak við fjárlög og í stað þess að afhenda iðnrn. þessa upphæð — og það komi fram í fjárlögum — sé Iðnrekstrarsjóður notaður sem eins konar milliliður til þess að ná fjármagni til iðnrn. sem auðvitað ætti að fara eftir öðrum leiðum.

Loks spurði ég viðkvæmari spurningar sem ég skil vel að hæstv. ráðh. vilji ekki svara. Hún var á þá leið, að ég rifjaði upp ummæli hv. þá óbreytts þm. Ragnars Arnalds, þegar hann var í stjórnarandstöðu 1978 og sagði að það væri löngu kominn tími til, að umframfjárþörf í námslánalögum yrði brúuð 100%, og hann og hans flokkur mundu að sjálfsögðu vinna að því sem allra fyrst. Síðar varð hv. venjulegur óbreyttur þm. Ragnar Arnalds að hæstv. menntmrh. og síðar að hæstv. fjmrh. En af einhverjum ástæðum hefur þetta mál tafist og ég gerðist svo djarfur að spyrjast fyrir um það, hvernig á þeirri töf stæði, því að um það var samið milli námsmanna og hæstv. ríkisstj., a. m. k. milli hæstv. menntmrh. Ingvars Gíslasonar og námsmanna, að frv. um námslán yrði lagt fram á síðasta þingi og það gengi fram í áföngum þannig að fullkomlega yrði brúuð umframfjárþörf haustið 1982. En í því frv., sem nú liggur fyrir, er þessu skotið á frest um tveggja ára skeið. Þessari spurningu varpaði ég fram m. a. vegna þess að hér hefur um eins mánaðar bil legið fsp. frá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur um þetta mál og þar hefði ég auðvitað kosið að ræða þetta mál. En af einhverjum ástæðum hefur hæstv. menntmrh. ekki viljað svara þeirri fsp. og hefur nú nýlega lagt fram frv. sitt óbreytt að öðru leyti en þessu, sem auðvitað er stórkostlegt rýrnunaratriði fyrir þá lánþega sem njóta eiga lána úr Lánasjóði ísl. námsmanna.

Nú mætti halda að með þessu væri ég að gera auknar kröfur á hendur ríkissjóði til frambúðar. Svo er þó aldeilis ekki, því að samkv. þessu nýja frv. má gera ráð fyrir að öll skil endurlána lánþega Lánasjóðs ísl. námsmanna verði mun betri en ella, samkv. nýju lögunum, a. m. k. þegar fram líða stundir.

Þetta voru þau atriði sem ég minntist á í ræðu minni í nótt. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þau svör sem hann gaf við nokkrum hluta þessara spurninga. Þau voru athyglisverð. En jafnframt er það íhugunarefni, að hann hefur kosið að svara ekki öllum spurningunum.