15.12.1981
Sameinað þing: 36. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1556 í B-deild Alþingistíðinda. (1291)

137. mál, liðsinni við pólsku þjóðina

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Við stöndum agndofa frammi fyrir síðustu atburðum í Póllandi. Alþingi hefur þegar fordæmt valdbeitingu kommúnistaflokksins þar í landi og þá heljargreip herlaga sem hann hefur hneppt þjóðina í. Við höfum harmað og fordæmt þessa atburði og lýst stuðningi okkar við hina frjálsu verkalýðshreyfingu í Póllandi og baráttu hennar fyrir lýðréttindum og frelsi.

Það væn freistandi að fjalla sérstaklega um frelsiskúgunina og rangsleitni þess kerfis sem Pólverjar eins og aðrar austantjaldsþjóðir búa við. Ég ætla samt ekki að gera það. En það er önnur hlið á þessu máli, á þeirri atburðarrás sem hefur átt sér stað í Póllandi. Það eru hinar efnahagslegu þrengingar fólksins í landinu. hungrið sem þar sverfur að. Þar er skortur á mat, hreinlætisvörum og lyfjum. Þetta mál kemur okkur við alveg eins og frelsissviptingin og herlögin, sem þar voru sett, koma okkur við. Við eigum sem þjóð að bregðast fljótt og vel .við í þessum efnum. Það er sagt að 100 þús. Pólverja vanti mat til þess að lifa af veturinn. Það segir fulltrúi Samstöðu, Magdalena Wojcik sem dvelst hér nú til að tala máli félaga sinna og meðbræðra og meðsystra í Póllandi.

Margar grannþjóðir okkar hafa sent mikla hjálp að undanförnu og röðin er svo sannarlega komin að okkur og hefði fyrr mátt vera. Þáltill., sem ég mæli hér fyrir, fjallar um þessa hlið mála. Hún var lögð fram fyrir um það bil tveimur vikum. Ég verð að játa að þótt ég þættist vita að ástandið væri þá slæmt er það miklu verra en mig grunaði, enda hafa fréttamiðlar hér tæpast gert því nægileg skil.

Mér barst fyrir skömmu bréf frá manni sem hafði verið á ferð í Póllandi í ágústmánuði s. l. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að leyfa mér að lesa lýsingu hans á ástandinu eins og það horfir við af hans sjónarhóli. Hann segist hafa ferðast víða um Pólland og segir svo:

„Ég kynntist því ástandinu af eigin raun, auk þess sem ég ræddi við fjölda manns um hag þjóðarinnar. Í stuttu máli má segja þetta: Hagkerfi og atvinnulíf þjóðarinnar er í rúst, ríkiskerfið er lamað. Flokkurinn sem valdastofnun er hruninn og tvístraður. Í flokknum teljast 3 millj. félaga. Þar af starfar um 1 millj. í Solidarnosc og sá hluti einn er virkur.

Rússar krefjast þess af yfirvöldum, að þau ráði niðurlögum Solidarnosc, en ef þau reyna það kostar það alvarleg innanlandsátök. Þegar í ágúst á þessu ári var hungur í landinu. Matvælaverslanir voru tómar, þar var yfirleitt engan mat að fá. Allur almenningur eyddi þó meginhluta af tíma sínum í það að standa í biðröðum við matarbúðir í þeirri von, að einhver smápíringur kæmi til sölu, sem var lítið og sjaldan.

Orkuskortur er alvarlegur og jafnvel kolanámumenn fengu ekki nægan mat og höfðu ekki líkamsburði til að vinna. Rafmagn, gas og vatn var skammtað svo að heilir borgarhlutar voru án þessara gæða heilu dagana. Á járnbrautarstöðvum og opinberum matsölustöðum var yfirleitt engan mat að fá nema í nokkrum lúxushótelum í Varsjá. Eini rétturinn, sem fram var borinn, var sykurlaust te og — ef heppnin var með — viðbitslaust brauð.

Foreldrar héldu börnum sínum innandyra og helst í rúmunum til þess að þau yrðu ekki eins svöng. Á spítölum og öðrum heilbrigðisstofnunum var algjört svartnættisástand, því að engin lyf var önnur að fá en þau sem framleidd voru í landinu, en það er lítill hluti þeirra lyfja sem þörf er á. Sjúklingar, gamalt fólk og veikburða hrundi niður. Foreldrar með smábörn voru í hreinustu örvæntingu því að engan barnamat var að fá. Fólk fór út um sveitir með þá von í huga að geta fengið mat hjá bændum í skiptum fyrir einhverjar vörur eða peninga, en bændur voru lítt aflögufærir. Hvarvetna sem ég kom horfði fólk með ógn og skelfingu og kvíða til vetrarins því við blasti enn meira hungur, kuldi og myrkur.“

Síðan segir: „Fólk svalt þegar í sumar er leið heilu hungri. Einstaklingar og alþjóðlegar hjálparstofnanir viða um heim hafa nú í marga mánuði sent mat, lyf og fatnað til Póllands. Rauði kross Íslands og Hjálparstofnun kirkjunnar hafa þegar brugðist við.

Ég vona að Alþingi samþykki ofannefnda þáltill. og að við Íslendingar hjálpum Pólverjum sem við getum í þrengingum þeirra.“

Sá, sem þetta bréf ritar, er dr. Arnór Hannibalsson. Við höfum líka heyrt frásagnir fulltrúa Solidarnosc, sem er í heimsókn hér á Íslandi. Lýsingu hennar má m. a. lesa í dagblöðum í dag. Hún segir:

„Nú vantar 100 þús. Pólverja mat til að geta lifað veturinn af. Það vantar allar brýnustu nauðsynjar: mat, hreinlætisvörur, lyf. Flestar fæðutegundir eru skammtaðar og fólk verður að bíða klukkustundum saman, jafnvel sólarhring, eftir mat. Einnig vantar okkur kol og koks, sem þýðir að flestar íbúðir eru kaldar og óupphitaðar.“

Og á öðrum stað stendur:

„Börn og gamalmenni eru verst stödd, því að þau geta ekki staðið tímunum saman í biðröðum, e. t. v. í hörkufrosti, til þess að fá eitt kg af sykri á mánuði, 1/2 kg af kjöti á mánuði eða 1/2 kg af hrísgrjónum fyrir hverjar þrjár máltíðir. Á sjúkrahúsunum er ástandið geigvænlegt, þar eru oft ekki til nauðsynlegustu lyf, skortur er á hreinlætisvörum og hjúkrunarvörum. Mörgum sjúkrahúsum verður e. t. v. lokað. Ungbarnadauði fer greinilega í vöxt. Smitsjúkdómar verða æ tíðari.“

Ég held, herra forseti og hv. alþm., að ekki þurfi að rekja það nánar, hversu alvarlegt ástandið er í Póllandi. Þegar um þessi mál, seinustu atburði í Póllandi, var fjallað í gær var ástandið að ýmsu leyti óljóst. Og það er það kannske líka að ýmsu leyti í dag. En matvælaskortur er staðreynd. Og eitt er ljóst núna og það er að gjafasendingar komast leiðar sinnar. Það er líka ljóst núna að ýmsar grannþjóðir okkar hafa brugðist alveg sérstaklega við þessa dagana. Frá því er t. d. greint í útvarpsfréttum, að 100 bíla lest hafi farið með gjafasendingar til Póllands frá Hollandi í dag og fengið að fara leiðar sinnar.

Till., sem ég mæli hér fyrir, fjallar um að beina því til ríkisstj. að kanna með hvaða hætti við Íslendingar getum rétt pólsku þjóðinni hjálparhönd í þessum vanda. Ég óska eftir því, að samstaða allra flokka náist um liðsinni af þessu tagi við pólsku þjóðina. Ég óska eftir því, að allir stjórnmálaflokkar hér á Alþingi sameinist um að færa þessa till. í þann búning sem samstaða á og hlýtur að geta náðst um. g óska eftir því, til þess að það verði ekki bara orð og ályktanir sem frá þessu Alþingi berist, heldur líka áþreifanlegur stuðningur í mikilli neyð.

Ég legg til, að þáltill. verði vísað til utanrmn., og ég óska eftir því, að fulltrúar allra flokka hér á þingi sameinist þar um farsæla lausn málsins og afgreiðslu fyrir jól, því að jólaleyfi okkar er nokkuð langt og neyðin er stór í Póllandi. Með þeim hætti á og hlýtur íslenska þjóðin að sýna samhug sinn og samstöðu með henni og skilning á hennar vandamálum og stuðning við hana í mikilli neyð.