15.12.1981
Sameinað þing: 36. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1560 í B-deild Alþingistíðinda. (1293)

137. mál, liðsinni við pólsku þjóðina

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Neyð Pólverja er ekki ný af nálinni. Hún hefur verið þekkt um nokkurn tíma og á ég þá ekki við það pólitíska ástand sem skapast hefur við þau átök sem átt hafa sér stað milli þjóðarinnar og Kommúnistaflokks Póllands og hersins.

Það eru líklega 2–3 mánuðir síðan ég bar fram till. í utanrmn. sem allir þeir, sem sæti eiga í utanrmn., tóku undir. Till. var einmitt um aðstoð við Pólverja vegna þeirrar neyðar sem þar ríkti. Utanrrh. var á fundi og utanrmn. varð sammála um að vísa málinu til utanrrn. og viðskrn. til þess að reyna að finna lausn á þeim vanda, sem þá blasti við, og finna leið til þess að fjármagna þær íslensku afurðir sem Pólverjar vildu gera viðskiptasamninga um. Beiðnin hljóðaði upp á nokkuð margar milljónir dollara. Óskað var eftir að fá þessar vörur afgreiddar nú þegar gegn greiðslufresti til 2–3 ára. Pólverjar sjálfir höfðu ekki lánstraust, en voru að biðja um afgreiðslu út á nokkurs konar víxilviðskipti, þannig að við Íslendingar skrifuðum sem ábekingar á víxilinn, en útveguðum erlent lán annars staðar frá til að fjármagna viðskiptin. Málið var rætt og allir nm. urðu sammála um að vísa því til meðferðar þessara tveggja ráðuneyta sem ég gat um.

Næstu fréttir, sem mér bárust, voru að ekki væri hægt að verða við óskum Pólverja um þennan greiðslufrest. Málið féll í gleymsku þangað til nú, að pólitískar breytingar til hins verra í Póllandi draga að sér athygli. Þá verður uppi fótur og fit á hv. Alþingi og allir eru reiðubúnir til að bera fram till. um að hlaupa undir bagga með Pólverjum. (Gripið fram í.) Þessi till. er einum til tveim mánuðum yngri. Hér eru utanrmn.-menn sem geta tekið undir og staðfest það. Neyð pólsku þjóðarinnar er ekkert meiri en hún var, en samúðin með henni hefur vaknað nú síðustu daga. Og ég tek undir það og er reiðubúinn til þess — eins og ég var þegar ég gerði þetta mál að umræðuefni í utanrmn. — að standa að aðstoð við Pólverja.

Ég tek undir þá till., sem hér er flutt, og mun veita henni brautargengi eins og ég get, ef henni verður vísað — eins og mér skilst að sé áformað — til utanrmn. til frekari meðferðar. Ég vona að allir stjórnmálaflokkar á Alþingi verði jafnreiðubúnir til þess að leysa málið nú eins og þeir voru sammála um að vísa því til athugunar þegar ég bar sams konar till. fram í utanrmn. fyrir u. þ. b. tveimur mánuðum.