15.12.1981
Sameinað þing: 36. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1561 í B-deild Alþingistíðinda. (1294)

137. mál, liðsinni við pólsku þjóðina

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Málefni pólsku þjóðarinnar eru ofarlega í hugum manna um allan heim þessa dagana. Í gær samþykkti Alþingi ályktun þar sem lýst var yfir samúð Íslendinga með pólsku þjóðinni og stuðningi við mannréttindabaráttu hinna frjálsu pólsku verkalýðssamtaka og þar sem hörmuð var valdataka kommúnistaflokksins og hersins í Póllandi. Í kvöld er til umr. till. sem fjallar um með hvaða hætti Íslendingar gætu rétt pólsku þjóðinni hjálparhönd í þeim sérstöku efnahagsvandræðum sem hún býr nú við.

Ég vil lýsa því yfir fyrir hönd þingflokks sjálfstæðismanna, að við erum reiðubúnir að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að samstaða megi takast um ályktun og athafnir sem verði pólsku þjóðinni að gagni. Við teljum sjálfsagt að þessari till. verði vísað sem fyrst til nefndar svo að þar megi fara fram frekari könnun á málinu. T. d. mundi gefast þar tækifæri til þess að ræða við þá aðila sem nú gangast fyrir fjársöfnun til hjálpar pólsku þjóðinni.

Ég lýsi stuðningi okkar sjálfstæðismanna við framgang þessa máls.