15.12.1981
Sameinað þing: 36. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1562 í B-deild Alþingistíðinda. (1297)

137. mál, liðsinni við pólsku þjóðina

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég vil einungis þakka þær góðu undirtektir sem efnisatriði þessarar þáltill. okkar Alþfl.-manna hafa fengið. Eins og fram kom í framsöguræðu minni, sem allir hafa kannske ekki heyrt, var þessi þáltill. lögð fram fyrir tveimur vikum, en hún hefur auðvitað orðið undirstrikuð af þeim atburðum sem gerst hafa síðan. Ég lét það líka koma fram í framsöguræðu minni, að ástandið í Póllandi væri enn verra að því er matvælaskort og slíkt varðaði heldur en ég hafði í rauninni gert mér grein fyrir þegar till. var samin.

Ég vil að lokum einungis ítreka þá ósk sem ég lagði fram hér í upphafi, að fulltrúar allra flokka hér á þingi sameinist um farsæla lausn þessa máls og um að færa það í þann búning sem þeir geta náð saman um, svo að unnt verði að ganga frá þeirri aðstoð, sem hér um ræðir, fyrir jól og verk okkar í þessum efnum fylgi fyrri orðum og það megi sjást áður en við förum í jólaleyfi.