15.12.1981
Sameinað þing: 36. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1567 í B-deild Alþingistíðinda. (1300)

133. mál, atvinnutækifæri á Suðurlandi

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það er lítið gaman að koma illa undirbúinn í slíka umr. eftir svo vandaða og mikla og vísindalega ræðu sem hv. þm. Sigurður Óskarsson var að ljúka við. Hann sýndi okkur hluta af hinni miklu bókaútgáfu í landinu sem fer fram á vegum hinna ýmsu stofnana ríkisins. Þarna var hann með nokkra pésa frá hinni margfrægu Framkvæmdastofnun ríkisins sem er að mínu mati algerlega óþörf og allt of dýr og stór stofnun utan um hluti sem mætti koma fyrir annars staðar án þess að nokkurs staðar sæi högg á vatni og nokkurs staðar þyrfti að bæta við manni.

En þetta er einmitt eitt af því sem hefur verið aðalverkefni Framkvæmdastofnunar ríkisins, að semja alls konar landshlutaáætlanir sem enginn nýtir svo til eins eða neins, hvorki á Suðurlandi né annars staðar. Að vísu eru til undantekningar, en þær eru aðeins til þess að sanna regluna. Þar er reglan: bara pappír og meiri pappír.

Að undanförnu hafa Íslendingar orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að hlusta á Norðlendinga og lesa þeirra skrif og Austfirðinga og kynna sér þeirra skrif í blöðum og tímaritum, þar sem þeir segja að ef virkjun kemur norður og ef Blanda verður virkjuð — sem ekki virðist nú útlit fyrir vegna þess að það eru einir 15–20 bændur sem neita að leyfa að framleiða rafmagn þar nyðra — þeir segja: Þegar Blanda verður virkjuð verður nóg af iðnaði, það verður undirstaða iðnaðaruppbyggingar á Norðurlandi. Það lyftir okkur úr körinni og eymdinni sem er reyndar ekki svo ýkjaslæm. Þangað hefur verið ausið peningum þjóðfélagsins undanfarin 10 ár á meðan sumir aðrir landshlutar hafa verið sveltir og dregnir niður í skítinn. Austfirðingar segja það sama: Ef við fáum Fljótsdalsvirkjun verða þar stóriðjufyrirtæki og iðnaðaruppbygging í hverjum stað.

Þessir herramenn hafa ekki fylgst betur með sögunni en svo, að þeir setja jafnaðarmerki milli virkjana í héraði og iðnaðaruppbyggingar.

Reynslan sýnir að það er skakkt.

Næstum því öll raforka, sem framleitt er í þessu landi, er framleidd í Suðurlandskjördæmi og hefur verið svo lengi. Hún er hins vegar flutt þaðan vestur yfir heiði. (GJG: Og eytt stórfé í að flytja hana.) Já, menn hafa lagt sig mikið fram um að flytja hana burt úr kjördæminu. Hún hefur hins vegar alls ekki komið okkur Sunnlendingum að gagni hvað varðar iðnaðaruppbyggingu, þaðan af síður að talað sé um orkufrek fyrirtæki í Suðurlandi og ekki heldur um það sem kallað hefur verið meðalstór iðnaðarverkefni, svo sem steinullarverksmiðja.

Þegar það barst aðeins í tal, að hugsanlega gæti komið til greina að eitthvert slíkt fyrirtæki yrði reist á Suðurlandi, þá gripu menn nú heldur betur við sér að safna gögnum um hvað nauðsynlegt væri að hafa það annars staðar. Alls ekkert mátti byggja hjá okkur hér syðra. Og menn gengu svo langt að sýna fram á það í þessari sömu Framkvæmdastofnun — með toppmönnum í fyrirtækinu sem hljóta auðvitað að vera verstir — að það væri meira að segja styttra að flytja steinullina frá Sauðárkróki til Reykjavíkur heldur en frá Þorlákshöfn til Reykjavíkur — og allt er eftir því. Ég er hins vegar nýbúinn að lesa í þriðja skiptið steinullarverksmiðjubókina, eina af mörgum, trúi ég, þar sem hver einasti liður sem varðar framleiðslukostnað á þessu hráefni er hagkvæmari ef verksmiðjan rís í Þorlákshöfn heldur en á Sauðárkróki, allt frá sandi og skeljasandi upp í fullunna vöru. Það er alveg sama á hvað litið er. Og ég er næstum viss um að þessi verksmiðja verður reist fyrir norðan, ósköp einfaldlega vegna þess að hún er miklu óhagkvæmari þar og getur aldrei borið sig, hefur engan möguleika til útflutnings. Hún verður reist fyrir norðan vegna þess að það er vitlausasti kosturinn. Annað væri ekki í samræmi við það sem verið er að gera.

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að hafa þetta langt mál. En maður kemst ekki hjá því að nefna þær áætlanir og þær tillögur sem þegar hafa verið framleiddar og samþykktar í þá veru að auka fjölbreytni í atvinnulífi á Suðurlandi sem er næsta fábreytt. Ég man ekki betur en ég hafi flutt hér mikla og margbrotna þáltill. fyrir nokkrum árum. Maður gleymir þessu auðvitað, því að það er alveg sama hvað hér er samþykkt um það sem á að ske á Suðurlandi, því er öllu hent í ruslakörfuna. Það hverfur allt á bak við nýju framleiðsluna í prentverksmiðju iðnrn. og annarra ráðuneyta hér. Þeir sjá ekki orðið hver annan fyrir pappír og þaðan af síður til sólar í þessum efnum.

Þar er oft fjallað um iðnaðartækifæri og atvinnutækifæri af ýmsu tagi, bæði til sjávar og sveita, framleiðslu úr grasi og grjóti og öllu þar á milli. Og hv. alþm. samþykktu þetta með því að rétta upp hendurnar, en það hefur auðvitað ekki verið litið á þetta, hvað þá heldur að nokkrum hafi dottið í hug að framkvæma það. Og enn er ekki að sjá annað en iðnaðaruppbygging á Suðurlandi verði aðeins á pappírnum, eins og margt annað hjá núv. hæstv. ríkisstj. og auðvitað öðrum ríkisstjórnum sem hafa setið á undan, hver annarri verri í þessum efnum. Ég sé ekki að það sé áhugi hjá núv. hæstv. ríkisstj. á öðru en koma í veg fyrir iðnaðaruppbyggingu á Suðurlandi. Vísustu menn þjóðarinnar eru látnir finna út, hvað það sé miklu óhagkvæmara og vitlausara frá öllum sjónarhornum, og teygja sín rök óendanlega í allar þær áttir sem hugsanlega gætu leitt til þess, að einhver iðnaður yrði til hér sunnan heiða. Það er hörmulegt að segja þetta, en ég get ekki séð annað en það sé satt.

Það er að vísu talsverður vandi að eiga við þetta, og það er meira en að segja það að koma upp öflugum iðnaði í þorpum á Suðurlandi. En menn skyldu athuga það, að á þessum miklu uppbyggingartímum á Íslandi, uppgangstímum í atvinnuvegunum þar sem kaupstaðir og þorp hringinn í kringum allt landið fengu betri og stærri veiðiskip, nýrri og fullkomnari frystihús, hafa þorpin á Suðurlandi ekki notið þess vegna þess að þar eru ekki hafnir. (Gripið fram í.) Þar eru ekki hafnir. Það eru t. d. tvö þorp á Suðurlandi sem höfðu hafnir, en hafa þær ekki nú. Það eru þorpin Stokkseyri og Eyrarbakki.

Hvað má eitt sjávarpláss síst missa fyrir utan fólkið náttúrlega? Það eru hafnirnar. Og það er einmitt það sem hefur skeð á Stokkseyri og Eyrarbakka. Þeir verða að láta sér nægja að brúka höfn annars staðar langt í burtu, þar sem er 100 km leið fram. og til baka með aflann, sem á land kemur, og það sem þaðan fer aftur tilbaka. Til þess að bæta þetta ástand er ekki nema aðeins ein leið og hún er að setja brú yfir Ölfusá við ósana, ákaflega ómerkilega brú og ódýra, sem kostar margfalt minna en risafyrirtækið Borgarfjarðarbrúin. Þessi brú er ekki aðeins til verulegra samgöngubóta, hún kemur í staðinn fyrir tvær hafnir. Og hvað kosta tvær hafnir? Ein höfn kostar fimm svona brýr. (Gripið fram í.) Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson efast um mína reikningskúnst. En það er nú svo, að fyrir nokkrum árum reiknuðu menn út hvað það kostaði að gera höfn — eða „reisa höfn“, eins og menn segja úr þessum ágæta ræðustóli nú til dags. Þeir „byggja vegi“ og „reisa hafnir“ og „smíða skurði“ eða guð má vita hvað, allt ruglast þetta sem von er, því að þannig er tungumálið á þessum opinberu skýrslum — allt öfugt nema það sem er aftur á bak.

Það var sem sagt reiknað út að höfn á Eyrarbakka kostaði eins og þrisvar sinnum meira en brú yfir Ölfusá þá, og var höfnin af minnstu gerð. Það var nokkurs konar „mini“-höfn. Annað datt mönnum auðvitað ekki í hug að gera á Suðurlandi. En þessi brú — það er ekki byrjað á henni. Það er enn þá verið að kanna og rannsaka og safna meiri pappír, meira að segja ekki í iðnrn., það er í samgrn. að þessu sinni, en engar framkvæmdir auðvitað, — engar framkvæmdir. (Gripið fram í.) Ja, það kemur sér. Við sáum það í dag þegar við fengum formálann að starfsskilyrðanefndaráliti, svo að ég nefni svona langt nafn, það var bara formálinn, en hún er næstum því eins og Guðbrandsbiblía.

En til þess að koma í veg fyrir að þessi sjálfsagða framkvæmd komist á, að smíða brú yfir Ölfusá — ég segi smíða af því að menn tala um brúarsmíði eða gerðu það meðan menn töluðu íslensku — hafa verið fengnir sérfræðingar út og suður til þess að reikna út svokallaða hagkvæmni þessara brúa. Og hvernig er hún reiknuð? Með umferðartalningu. Það er af skiljanlegum ástæðum ekki mikið keyrt yfir Ölfusá neðanverða óbrúaða. Menn gera sér ekki grein fyrir því, að þegar brúin er komin hljóta auðvitað miklu fleiri að eiga erindi þessa leið. Þm. finnst þetta voðalega fyndið, þetta alvarlega mál. Ég harma það, að menn skuli ekki setja sig í alvarlega hugsandi stellingar. Ég get tekið dæmi úr mínum heimabæ.

Þegar við vorum ekki búnir að fá Herjólf okkar nýja, sem safnar á sig skuldum okkur Vestmanneyingum til skammar, að því er sagt er, þó engum hafi dottið í hug hingað til að láta Borgfirðinga borga brúna sína né Siglfirðinga gatið í gegnum fjallið sem ekki er opið nema bara eftir dúk og disk. Þetta dæmi, sem ég ætlaði að fara að segja ykkur frá, er um umferðina milli lands og Eyja með skipi. Áður voru fluttir með Herjólfi margfalt færri farþegar en nú á nýja Herjólfi, ágætu skipi með góðum mönnum, — margfalt færri farþegar en nú, því að eftir að menn gátu fengið skip sem gekk daglega milli lands og Eyja, höfðu örugga ferð svo gott sem næstum hvernig sem viðraði, — ég held að hann hafi aðeins einu sinni ekki komist í Þorlákshöfn öll þessi ár, — hefur farþegafjöldi vaxið úr kannske 10 þúsundum í yfir 40 þús. manns á ári. Og við skulum athuga það, að það er engin stórborg úti í Eyjum, það er aðeins 4700 manna bær. Og þetta skip flytur orðið allar vörur þarna á milli, 10 þús. tonn á ári, og alla bíla, ef ég man rétt, mörgum sinnum á ári í raun og veru.

En þegar verið var að reikna út hvernig gengi að reka þetta skip, þá voru hinir vísustu menn kvaddir til, meira að segja einn vís maður úr sömu stofnun og beitir öllum brögðum til þess að fá steinefnaverksmiðjuna norður, þ. e. forstjóri Ríkisskips sem þá var. Hann tók bara farþegafjöldann með gamla skipinu, bílaflutningamöguleikana með gamla skipinu — sem voru fimm bílar, núna flytjum við 50 — og reiknaði svo út hvað kostaði farið fyrir manninn og bílinn og fékk náttúrlega út voðalega útkomu, ekkert vit í þessu. En um leið og þessir möguleikar verða til eru þeir auðvitað líka notaðir. Það er hart að þurfa að glíma við slíka íhaldsdrauga úr öllum flokkum þegar svona sjálfsögð framfaramál eru á dagskrá.

Þetta var aðeins útúrdúr varðandi iðnaðarverkefni á Suðurlandi — og þó ekki útúrdúr, því að t. d. með brúartengingu tengjum við saman miklu stærra svæði sem getur verið eitt samfellt atvinnusvæði, þjónustusvæði, úrvinnsla úr landbúnaðarvörum, fiskiðnaður o. s. frv., o. s. frv.

Herra forseti. Ég gat þess í upphafi, að Norðlendingar og Austfirðingar hefðu hvorir tveggja byrjað að syngja þann fagra kór um það, hversu dýrlegt væri að lifa í viðkomandi fjórðungum eftir að þeir fengju virkjun, fyrir utan að þeir hefðu fengið tækifæri til að græða peninga, vinnandi myrkranna á milli uppi á heiðum — sem bændur eiga að vísu— og fengju allsherjar iðnaðaruppbyggingu og rafmagn út úr því. En á Suðurlandi, þar sem allt rafmagn landsmanna er framleitt, hafa íbúarnir í kjördæminu ekki einu sinni almennilegt rafmagn. Rafmagn er nefnilega misgott og mistryggt. Það er ekki sama hvort bændur í Suðurlandskjördæmi hafa tveggja eða þriggja fasa rafmagn. Það er ekki sama hvort þeir hafa svo handónýta línu að það er ekki hægt að mjólka nema kannske fjórða hvern dag yfir allan veturinn, enda verða þeir að hafa sérstakt kyn sem er sérhannað fyrir svo stopular mjaltir. (Gripið fram í: Hver þekkir þetta ekki í Eyjafirðinum?) Ég þekki lítið til búskapar í Eyjafirði, ekki nema það, að þeir geta ekki torgað landbúnaðarvörum sínum og flytja afganginn út fyrir ekki neitt. Samt eiga þeir sex dráttarvélar, fjóra bíla og eina flugvél á einum bæ sem ég sá í sjónvarpinu um daginn. Það er nú eitt dæmið um fáránlega stefnu hér í þjóðfélaginu. (Gripið fram í: Hún var orðin gömul.) Drottinn minn, já, og það voru sumir hv. þm. gamlir þegar þeir fæddust, það er auðheyrt.

En það er nú svo komið á Suðurlandi eftir allan þennan raforkuflutning um kjördæmið, að þar höfum við mjög lélega dreifingu á rafmagni — mjög lélega á stórum svæðum. Aðallínan austur er ekki einu sinni komin austur í Vík á mörgum, mörgum árum. Það er búið að flytja um þetta 144 ræður hér í þinginu, en aldrei gert neitt. Auðvitað eiga orðin að vera til alls fyrst, en þau eiga ekki bæði að vera byrjun og endir. Einhvern tíma verður að gera eitthvað.

Ég held að menn misreikni sig alvarlega ef þeir halda að það sé nóg að fá bara virkjun í sitt kjördæmi. (Gripið fram í.) Já, Austfirðingar, þeir fá hana líklega fyrst af vissum ástæðum. En ég vil skora á hæstv. iðnrh., sem virðist vera stunginn af úr salnum, — það er ákaflega vont að hlusta á svona ræðu sem ekki er neinn lofgerðarkór með blikkandi rauðbleikum ljósum og allt í dýrlegum fögnuði. Lífið er bara ekki þannig. Menn verða að gera svo vel að venja sig við að horfast í augu við staðreyndir, jafnvel þó það séu Alþb.-menn að austan.

Ég vil að endingu óska eftir því, að iðnrh. taki ekki aðeins sig hæstvirtan taki, heldur setji nú „skríbentana“ í iðnrn. við borð til þess að skrifa einhvern knappan texta sem kæmist fyrir á tveimur blöðum, en ekki í þremur bindum, um það hvað eigi nú að reyna að gera til þess að aðhafast eitthvað gagnlegt og þarflegt og vitlegt nógu fljótt í Suðurlandskjördæmi.