15.12.1981
Sameinað þing: 36. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1577 í B-deild Alþingistíðinda. (1304)

133. mál, atvinnutækifæri á Suðurlandi

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að segja mörg orð hér í viðbót, en kemst nú ekki hjá því að gera örfáar aths. við ræðu hæstv. ráðh., þó ekki væri nema til þess að leiðrétta misskilning, því að mér heyrðist að það væri alger misskilningur á ferðinni, eins og hæstv. forsrh. orðar það stundum.

Ég skil ekki hvað það kemur málinu við og hvernig í ósköpunum hæstv. ráðh. dettur í hug að ræða mín hér áðan, ef ræðu skyldi kalla, sagði nokkur orð óviðbúinn í þessum ræðustól, hafi verið eitthvað gamansöm ræða. Halda menn að ég hafi verið að gera að gamni mínu hérna? Heldur hæstv. ráðh. að við ætlum að sleppa honum átakalaust með það að hirða af okkur steinullarverksmiðjuna? Það er misskilningur. Hann getur áreiðanlega séð eftir því einhvers staðar annars staðar en hér í þinginu eftir að sú ákvörðun hefur verið tekin.

Nei, það eru engin gamanmál hér á ferðinni. Sannleikurinn er sá, að við höfum ekki sagt neinum ofsögum af því, hvernig Suðurland og atvinnulífið á Suðurlandi hefur verið leikið. Það er ekki aðeins áfall t. d. eins og hann nefndi í Vestmannaeyjum út af eldgosi, sem hafði næstum því komið Vestmanneyingum á kné, eins og margir héldu, en varð auðvitað ekki. Við gefumst ekki upp þó að við fáum á okkur eldgos, en okkur var auðvitað gert mjög erfitt um vik af stjórnvöldum á sínum tíma að ljúka uppbyggingunni eins og þörf var á.

Hér á hinu háa Alþingi var tekin ákvörðun um það, að frumkvæði manna sem ég minnist enn, samferðamanna minna hér árum saman, að skerða tekjur Viðlagasjóðs og fella niður mikinn hluta tekna Viðlagasjóðs á versta tíma, þegar Viðlagasjóður var í bullandi skuld í Seðlabankanum og borgaði fulla vexti fyrir. Vaxtagreiðslur Viðlagasjóðs til Seðlabankans námu næstum því sömu upphæð í krónutölu og öll gjöfin frá Norðurlöndum. Það er ljótt að heyra. Á þessum tíma ákváðu misvitrir menn hér í þinginu, — því miður er stundum dálítið af þeim þó að við hérna, örfáir raunsæismenn, teljumst auðvitað ekki til þeirra, — að hirða af Viðlagasjóði tekjurnar á þeim forsendum að hann ætti miklar eignir og gæti étið eignirnar, eins og á að éta gengismun Seðlabankans núna, eitthvað af því tagi. En Viðlagasjóður hafði keypt hús og lánað fólki fé til þess að kaupa þau, vegna þess að húsnæðislánakerfið neitaði að lána út á Vestmannaeyjahúsin, þá fékkst aldrei króna þar. Þess vegna voru peningarnir bundnir í skuldabréfum til langs tíma. Og enn eru eftir a. m. k. — hvað eigum við að segja? — 18 ár til lokagreiðslu á megninu af þeim skuldabréfum. Þau voru til 26 ára, á sömu kjörum og húsnæðismálastjórnarlánin, í því skyni að selja húsnæðismálastjórn þessi bréf smátt og smátt. Við ættum ekki að heimta þetta af henni í einu lagi. Greiðslustaða sjóðsins lagaðist auðvitað ekki við það að missa tekjurnar. En það voru einhverjir svona spekingar með þykka skýrslubunka undir höndunum sem sönnuðu þetta hér, nægilega vel a. m. k. til þess að menn samþykktu þessa bölvaða vitleysu. Og auðvitað var stjórn Viðlagasjóðs, sem ég var í, skömmuð fyrir að hafa enga peninga. Þá voru menn að gera tilraun til þess að hengja bakara fyrir smið. En það tókst ekki, eins og allir hv. þm. geta séð.

Nei, það er satt að segja ekki aðeins vegna áfalla af eldgosinu sem ýmislegt hefur þróast á verri veg í Vestmannaeyjum. Það er nefnilega tilfellið, þó allir haldi að Vestmannaeyjar séu eitt gósenland í atvinnulegu tilliti, að þar er atvinnuástand býsna veikt, óstöðugt og alls ekki fulltryggt, vegna þess að það er ekki alltaf gengið að þeim fiski sem þarf að sækja í sjóinn. Það er ekki eins farið að því og að rölta út í fiskbúð og kaupa sér eitt flak. Það vill nefnilega svo til, að síldin er kannske fyrir norðan og austan þegar hún ætti að vera hér í kringum Eyjar, eins og öll heiðarleg síld gerði áratugum saman. Við höfum þess vegna misst af henni ár eftir ár. Loðnuveiði, sem var uppistaðan í vinnu fjöldamargra manna í Vestmannaeyjum um langt árabil, hefur minnkað. Loðnan hefur haldið sig annars staðar. Það er minna veitt af henni á Suðurlandi. Vestmannaeyjar voru í mörg ár langhæsta löndunarstöð loðnu. Þar sést varla loðnukvikindi lengur. Fólkið, sem vann við þetta, vinnur ekki við það þegar loðnan fæst ekki.

Eitt af því, sem hæstv. iðnrh. og aðrir þeir, sem eru að huga að iðnaðaruppbyggingu í landinu, ættu að muna, er hversu einhæft atvinnulíf er í næstum öllum verstöðvum landsins. Það er mjög vont að geta ekki boðið ungu fólki nokkurn skapaðan hlut annan en að standa í þrælabúðunum, eins og má kalla, og vinna myrkranna á milli í mikilli akkorðspressu. Það er erfiðasta vinna í heimi. Engum fangabúðastjóra í veröldinni hefði nokkurn tíma dottið í hug að leggja slíkt á sína undirsáta-aldrei. Fólk vill nefnilega hafa tækifæri til annars, ekki síst það fólk, sem síður getur staðið í slíku erfiði, eða fólk sem er farið að eldast. Í þessum sjávarþorpum er um allt of fáa möguleika að ræða í atvinnulegu tilliti. Að því þarf að huga og reyna að gera sér grein fyrir hvað getur komið í staðinn. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að bæði ég og aðrir hér inni — ég er alveg viss um það — eru tilbúnir að verða bandamenn hans í því að efla atvinnulíf í landinu á iðnaðarsviðinu. Það er auðvitað alveg fráleitt að telja að það, sem við höfum sagt hér, ég og aðrir þm. Suðurl., beri keim af svartsýni og þaðan af síður af fordómum. Þetta eru bara staðreyndir sem við höfum verið að segja, og þær eru óþægilegar. En við eigum ekki að beita þeirri aðferð að loka augunum fyrir óþægilegum staðreyndum. Þeim mun opnari þurfa þau að vera sem erfiðara er að eiga við vandann.

Eitt af því, sem ég fann að hér áðan, var sú geysilega pappírsframleiðsla og allar þessar vangaveltur, og ég hef talað svolítið um steinullarverksmiðjuna. Hún er einmitt dæmi um fyrirtæki sem við hefðum getað verið byrjaðir á, á þeim eina og rétta stað þar sem hún á að koma, þar sem hún er heppilegust, þar sem hráefnið er ódýrast, þar sem ekki þarf birgðir á háum vöxtum til langs tíma, þar sem styttra er á markaðinn og þar sem möguleikar eru til útflutnings, ef hann gefst. Öll rök hníga að því, að hún eigi að vera þarna, og kannske ekki síst vegna þess, — ég bið menn að taka eftir því, — að ekkert kjördæmi í landinu hefur eins lágar meðaltekjur og Suðurland. Það er langlægst. Við vorum talsvert hærri en t. d. þeir á Norðurlandi vestra. Það situr hér ágætur maður og hlustar vandlega á það sem ég segi, sem von er, um það. Þeir voru lægstir. En ef við skoðum línuritið um meðaltekjur manna í kjördæmum, þá stígur þeirra línurit til himins og byrjaði á því fyrir alllöngu. Ég man ekki hallann nákvæmlega, ég gæti giskað á að hann væri ekki minni en 20°, það er býsna mikill halli. Hjá okkur sígur hann hægt en örugglega niður. (Gripið fram í: Það gera bændurnir.) Það gera bændurnir, segir hv. þm. og framsóknarmaður úr Sjálfstfl. að austan, að bændurnir séu svona slaklega launaðir. Ég veit ekkert um það, hvað þeir hafa miklar tekjur, en þeir virðast hafa það alveg sæmilegt, margir þeir sem ég þekki. Ég veit ekki betur en í landbúnaðarframleiðsluna fari býsna miklir peningar. Það eru komnir býsna miklir peningar í hana, jafnvel þó helmingurinn af ostinum sé gefinn til útlanda, þriðjungur af ketinu gefinn til útlanda fyrirverð sem dugar handa Sambandinu, uppáhaldsfyrirtæki þeirra framsóknarmanna í öllum flokkum. Það fara í hana útflutningsbætur upp á 20 milljarða, niðurgreiðslur upp á 46 milljarða. Þetta hefur komið frá allri þjóðinni. Það er ekki bara handa bændum, síður en svo, en þó aðallega handa bændum. Allt fer þó þetta til þess að kaupa landbúnaðarafurðir fyrir, beint og óbeint, fyrir utan alla þá peninga sem þeir þurfa að tína upp úr vösunum til þess að kaupa ketið. Það þýðir ekkert að vera með svarta leppinn fyrir báðum augum, hv. þm. Við skulum ekki fara út í landbúnaðinn hér að sinni. Þá er ég hræddur um að klukkan fari að fara yfir eitthvert óþægilegt strik þarna uppi á veggnum.

Það, sem ég átti aðallega við í sambandi við steinullarverksmiðjumálið, var hversu óskaplega seint þetta hefur gengið, þar sem margir geysilega fróðir og vitrir sérfræðingar hafa unnið að þessu, eins og forstöðumaður byggðadeildar í Framkvæmdastofnuninni sem allt vill auðvitað gera til þess að fá hlutina norður, því að hann er meiri Norðlendingur en nokkur Akureyringur, hvað þá annað, þó að hann sé auðvitað fæddur fyrir sunnan. En það er staðreynd. Þetta hefur þurft að rannsaka og rannsaka og ævinlega þegar að því hefur komið, að hæstv. ráðh. hefur þurft að taka einhverja ákvörðun í þessum efnum, þá hefur hann beðið um meiri pappír. Þetta er ekki skrök, þetta er bara satt. En á fyrsta blaðinu sem kom, á undan bókunum, á undan öllu því sem framleitt er í rannsóknarstofnunum nyrðra og syðra og ytra, á þessu eina blaði kom það fram í fáum og einföldum staðreyndum og fáum orðum hvar átti auðvitað að reisa verksmiðjuna. Það var ljóst. En menn vilja ekki vita það. (Gripið fram í: Og steinþögðu.) Já, það eru einmitt svona vinnubrögð, þar sem málin eru tafin og tafin og dregin og rannsökuð og skoðuð, þangað til allt er auðvitað orðið uppgefið. Það er siður hér í kerfinu að vera sífellt að fresta öllum málum þegar menn kannske nauðvantar peninga út úr kerfinu til þess að gera eitthvað alveg ákveðið og sérstakt. Þeir geta bjargað sér með því að koma fyrirtækinu í gang, halað inn peninga á fjárfestinguna. Þá þurfa þessir sérfræðingar að fá pappír, herra forseti, og meiri pappír. Og á meðan drepur fjárfestingarkostnaðurinn, í ónothæfri fjárfestingu, áður en fyrirtækið getur farið í gang.

Það er alveg skelfilegt hversu lítið jarðsamband er hjá mörgum stjórnmálamönnum hér á hinu háa Alþingi. Fjöldamargir þm. hafa komið beint af skólabekknum, án þess að hafa nokkurn tíma dýft hendinni í kalt vatn, inn í þessa stofnun og eiga að fara að ráðskast með alla skapaða hluti, atvinnuvegi þjóðarinnar o. fl., án þess að hafa svo mikið sem hundsvit á því, því miður. (HBl: Áttu við iðnrh.?) Þetta eru óskaplega gáfaðir og vel menntaðir menn, margir hverjir. (Gripið fram í: Áttu við ráðherrana?) Ég á við ráðh., bæði núv. og fyrrv. Ég ætlast nú til að hv. þm. Egill Jónsson noti ekki svo sérstaka mállýsku fyrir austan að hann skilji ekki hvað ég er að segja.

Herra forseti. Það er satt að segja alveg hárrétt, sem kemur fram hjá hæstv. ráðh., að það er ekki nóg að kalla stöðugt á hið opinbera. Ég er alveg sammála því. Það er nú eitt af því sem er að drepa þá í Póllandi núna, að fyrirtæki, sem eru á hausnum, eru rekin af ríkinu, en hin lafa þó uppi þó að illa sé að þeim búið. (EgJ: Bragð er að þá barnið finnur.) Það segir hv. þm. Egill Jónsson satt, þó að hann sé ekki vanur því. Allir þurfa að hafa opin augu fyrir möguleikunum sjálfir. Frumkvæðið þarf auðvitað í flestum málum helst að koma frá heimamönnum. En hvað stoðar að hafa hugmyndirnar og frumkvæðið til þess að setja upp einhvern iðnað ef ekkert rafmagn er komið þangað, svo að ég tali nú ekki um að þegar það kemur er það helmingi dýrara en alls staðar annars staðar, á því svæði þar sem rafmagnið er framleitt? Ég er alveg tilbúinn að taka höndum saman við hæstv. iðnrh. Og það þarf ekkert að eggja okkur Sunnlendinga hér lögeggjan að við fórum að standa saman núna. Við erum ekki að byrja á því að standa saman. Við höfum staðið saman eins og einn maður, menn úr öllum stjórnmálaflokkum, að jarðefnaiðnaðarmálunum. Það sér enginn muninn lengur á mér og hv. fyrrv. þm. Ingólfi Jónssyni. Menn halda að við séum báðir komnir í Framsfl. eða einhvern annan flokk. Við leiðumst hönd í hönd, bæði inn á fundi og út af þeim aftur. Við erum svo sameinaðir í þessu markmiði. Og það er ekki okkur að kenna að við höfum ekki fengið leyfi til þess að byrja á þessu. Það er eitthvað annað. Það er einmitt í þessu dæmi um jarðefnaiðnað, um frumkvæði heimamanna, þar sem hið hræðilega pappírstígrisdýr kerfisins liggur ofan á lokalausninni. Það er staðreyndin og hún er ekki falleg.

Ég held að það sé ekki svo óskaplega erfitt að gera sér grein fyrir hvað þarf að gera til þess að reyna að lyfta undir möguleika iðnaðarins. Það þarf ekki óskaplega langa rannsókn til að sjá hvernig er unnt að bæta stöðu hans. Það er auðvitað hægt að gera með ýmsum hætti. Eðlilegast er það í iðnaði eins og í öðrum atvinnuvegum að reyna fyrst og fremst að beita sér að því að gera aðföngin eins ódýr og mögulegt er, að hráefnið komi tollfrjálst í hendurnar á þeim, sem eru í samkeppnisiðnaði, og að þeir fái ódýra orku til að framleiða sína vöru, það séu ekki bara fyrirtæki í eigu útlendinga eða þá Íslendinga og útlendinga saman, sem fá ódýra orku, heldur að íslensk iðnfyrirtæki njóti þess að við höfum næga orku. Ég er ekki að stinga upp á því að þau fái orku við sama verði og stórfyrirtæki sem kaupa mikið magn langan tíma á ári, kannske 8000 nýtingartíma. Ég man nú ekki hvað eru margar klukkustundir í árinu. (Gripið fram í.) 8700, nýtingartíminn á rafmagni er kannske 8500 hjá þessu fyrirtæki. Auðvitað verður það að vera ódýrara en hjá þeim sem nota bara rafmagnið í 5000 stundir eða svo. Ég er ekki að heimta það. Hins vegar er alveg ástæðulaust að okra á þeim með rafmagnsverði og leggja svo alls konar skatta ofan á sem ríkið verður svo að skila einhvern tíma til baka á síðari stigum, þegar þetta háa verð hefur margfaldast í kerfinu á leiðinni gegnum prósessinn, skila því aftur til þeirra í formi styrkja og þess konar aðstoðar.

Það er auðvitað hægt að koma iðnaðinum til aðstoðar með því að létta innflutningsgjöldin af aðföngum og bjóða ódýrt rafmagn. Svo er líka hægt að þyngja svolítið róðurinn hjá þeim sem flytja inn vörur í samkeppni við Íslendinga þó að við megum ekki hækka á þeim tollana. Það gera flestar almennilegar þjóðir að grípa til þess, eins og kom hér fram um daginn með Svíana. Menn hér ætluðu að selja þeim stóla og borð og þar fram eftir götunum. En þeir láta hlutina fara í margra mánaða rannsókn, hvort þeir séu nógu góðir. Auðvitað er þetta miklu betra en hjá þeim og það vita þeir. En þeir tefja málið og tefja. Svona vefjast Þjóðverjar líka í kringum hlutina sem verið er að flytja til þeirra lands. Hæstv. iðnrh. ætti að þekkja svolítið til þeirra. Það eru ýmsar leiðir til þess að laga þetta þó að ég hafi það auðvitað ekki í höfðinu. Ég hef aldrei verið mjög nálægt iðnaði. En það er auðséð að þarna er hægt að taka víða á.

Það er eitt dálítið merkilegt við þetta plagg hérna, fyrir utan það að fjalla að talsvert miklum hluta um sjómannafrádrátt. Ég get ekki séð að það komi þessu máli mikið við þar sem er býsnast yfir því að sjómenn fengu sérstakan fiskimannafrádrátt. Það er talinn skaði fyrir iðnaðinn. Það sýnir sig hins vegar og kemur fram í þessari bók, að ef hann yrði felldur niður mundu sjómenn greiða 55% hærri skatta en þeir gerðu áður. Það þýðir ekkert að vera að taka sjómannafrádráttinn af sjómönnum. Þeir fengu hann í staðinn fyrir annað sem þeir gáfu eftir á sínum tíma. Þetta er samningsmál, og ég hefði gaman af að sjá iðnaðarormana rífa hann af sjómönnum. Það fer ekki hljóðlaust hér í gegn a. m. k.

Í þessari bók eru margir merkir kaflar, ég efast ekki um það, og töflur sem enginn les auðvitað. En það vantar hérna einn kafla í bókina, tvo í raun og veru. Og það sem vantar fyrst er III. kaflinn. Um hvað ætli hann fjalli?

Skiptir hann kannske í augum hæstv. iðnrh. og annarra iðnaðarforka minnstu máli? Það er kaflinn um markaðsmálin. Í rauninni er enginn vandi í þessu nema markaðsvandinn. Og þar er farið skakkt að. Það er byrjað að framleiða hér og prjóna og spinna — eða hvað það nú heitir allt saman? — í landinu alls konar vörur úr lopa og þessu dóti, prjónavörur eins og okkur finnst fallegt. En við erum ekkert farin að kíkja á það, hvort útlendingarnir, sem eiga að kaupa þetta, vilja fara í þetta. Fyrst á auðvitað að kanna markaðinn: Hvað vantar markaðinn, hvað vill kúnninn kaupa? Það þýðir ekkert að framleiða bara skrautleg föt, sem útlendingum finnast ljót. Það er ekki hægt að selja lopapeysur til Nígeríu eða eitthvað þess háttar, það þýðir ekki. Menn verða að athuga eitt, ef menn ætla að vera í „bisness“ og það er, hvað er hægt að sel ja, og síðan að framleiða það sem „kúnnarnir“ vil ja fá. Það er m. a. þess vegna sem við getum ekki haft fullvinnsluna á fiskréttunum hér heima. Við verðum að vera með verksmiðjurnar á markaðnum, þannig að við finnum alltaf strax hina minnstu breytingu, til þess að við getum snúið okkur að því sem fólkið vill éta. Það þýðir ekkert að framleiða það sem fólk vill ekki éta. Við fáum enga peninga fyrir það. Það, sem er aðalatriðið í þessum efnum, eru auðvitað markaðsmálin frá upphafi til enda.

Herra forseti. Hæstv. ráðh. kveinkaði sér svolítið undan því, að ég hafði líkt þessu kveri hér við helga bók, og var ástæðulaust. Þessi bók er allt of þykk. Þeir, sem rannsaka þetta og vilja bera saman staðreyndir, eiga að gera það fyrir sig og halda staðreyndunum saman, taka síðan saman í miklu, miklu fyrirferðarminna kveri en þetta er, margfalt minna en alla skýrsluna, ekki bara formálann, niðurstöðurnar og helstu efnisatriðin. Og menn verða þá að treysta því, að rétt sé farið með heimildir. Sjálfur Jóhannes Nordal skrifar undir þetta. Alls staðar er hann.

Við skulum hugsa okkur það, að allir hæstv. ráðherrar væru jafnduglegir og hv. þm. og ráðh. Hjörleifur Guttormsson að koma með efni um allt það sem hann er að gera og skiptir geysilega miklu máli í þjóðfélaginu að sé vel unnið. Allir fá upplýsingar um virkjunarleiðir og flutning rafmagns til aldamóta — var það ekki? — hvernig svo sem farið er þangað með rafmagnið. Um þetta eru mjög nákvæmar bækur, töflur, skýrslur og línurit. Þær eru bara of þykkar. Ef þróunin verður nú eins og undanfarin ár í ráðherraefnum h já okkur, að við erum komnir úr þremur ráðh. í tíu, það er sjötti hver þingmaður ráðh. og hlutfallið milli ráðh. og hinna er 1:5. Það er svo nú. Ef þeir framleiða allir svona mikið í sambandi við sín mál og allir svona þykkt og langt mál þá komumst við aldrei yfir að lesa allt þetta og verðum að ráða okkur menn á launum til að draga út úr þessu aðalkjarna málsins. Við höfum ekki efni á því. Það er að mínum dómi alls ekki þörf mikillar rannsóknar. Sannleikurinn er sá, að í þessum efnum er um pólitískar ákvarðanir að ræða í atriðum sem við þekkjum til að langmestu leyti. Þetta er ekki neinn frumskógur hérna: opinber gjöld og skattar, tollar, launaskattur, sem er ýjað að alls staðar núna, og fleira af því tagi. Það er ekkert flókið. Það eru ekki margir liðir í þessu dæmi. Ég held að það sé hægt að fá allt efni þessarar bókar, sem er sjálfsagt mörg hundruð síður, ég veit það ekki, maður vigtar þetta bara í kg, telur ekki bls., og kannske í tíunda partinum af þessu kæmist allt þetta efni fyrir án þess að þurfa að missa nokkurn skapaðan hlut. Vildu menn kynna sér og kanna betur einhverjar þær forsendur sem að baki búa, þá geta þeir það sjálfsagt í vinnugögnum þeirrar nefndar sem að þessu vinnur. En það er ekki hægt að ætlast til þess, að við lesum 10 þús. bls. á einu þingi. Ég hef hins vegar hugsað mér að lesa þetta, af því að ég rakst hér á langt og mikið mál um sjómannafrádrátt sem ég var að segja frá áðan, og það er alveg ótrúlegt að menn skyldu eyða svona löngu máli í það. Það tekur álíka mikið rum og öll efnisatriði þessa máls gætu komist fyrir á öllu — og mætti sleppa úr formálanum. En ég skal lofa því að lesa þessa bók, meira að segja með góðu hugarfari og alls ekki náttúrlega eins og skrattinn les biblíuna. En ég vil endurtaka það, að það þarf ekki svona þykkar bækur til að koma þessu efni til skila.

Að lokum vil ég aðeins nefna það, að það er eiginlega ekki alveg nógu góð latína, eins og það var orðað í gamla daga, þegar menn koma hér upp og halda ræðu eins og hv. þm. gera og hæstv. ráðh. og fleiri og segja setningar eins og t. d. í fyrsta lagi : „að hyggja að þeirri undirstöðu“ — og engin skýring hvað átt er við. Hver er undirstaðan? Og enn fremur setning eins og „að búa þeim vaxtarskilyrði“. Hvað þýðir það? Þegar menn taka sér slík orð í munn verða þeir að gera ofurlitla grein fyrir við hvað er átt, jafnvel er hægt að koma því frá sér í stuttu máli. Ég tala aldrei lengi og það gerir hæstv. iðnrh. líka sjaldan hér. En ég held að menn geti, án þess að lengja mál sitt mikið, talað þannig að allir viti nákvæmlega hvað um sé rætt.

Herra forseti. Þáltill., sem hér liggur fyrir frá hv. þm. Sigurði Óskarssyni og Guðmundi Karlssyni, er flutt í þeim anda að stuðlað sé að iðnaðaruppbyggingu á Suðurlandi. Ég gæti vel fallist á till. eins og þessa ef í textanum sjálfum væri ekki eingöngu miðað við orkufrekan iðnað á Suðurlandi. (Gripið fram í: Stendur það ekki?) Það stendur hérna. (Gripið fram í: Þetta er annað.) Já, það er iðnþróunaráætlun og ítarleg könnun. Ég er vanur að hlaupa yfir þessi orð, það er satt. Það verður að hafa það. Svona eru menn orðnir að ég sleppi þeim. En aðalkjarninn í þessari till. er sem sagt að tryggja staðsetningu orkufreks iðnaðar á Suðurlandi. Ég gæti samþykkt þessa till. og talað fyrir henni þegar hún kemur hér aftur til umr. — Gerir hún það ekki, hæstv. forseti? (Forseti: Það vona ég.) Þá get ég verið undirbúinn, og ef við gætum orðið sammála um að breyta þessu þannig, að í staðinn fyrir orkufrekan iðnað einan kæmi t. d. — það er bara fyrsta uppástunga: tryggi staðsetningu meðalstórra og stórra fyrirtækja í iðnaði. — Þar væri auðvitað innifalinn orkufrekur iðnaður.

Sú ákvörðun, sem hv. alþm. hafa tekið í raun og veru með því að samþykkja að virkja þessi lifandi ósköp á næsta áratug, á ekkert að vefjast fyrir mönnum sérstaklega, hvernig röðun framkvæmda gengur. Hún er algert aukaatriði í raun og veru. Menn vilja bara keppast um það úti á landsbyggðinni að fá að verktaka svolítið og græða peninga. Ég skil það vel. Það er auðvitað ekki kjarni málsins og skiptir engu hvort við byrjum á Norðurlandi vestra, Austurlandi eða höldum áfram á Suðurlandi. Sá kostur blasir nú auðvitað við. (EgJ: Hvar þá?) Halda áfram á Suðurlandi, mér sýnist það. Það vill enginn þá virkjun. Með því að samþykkja að virkja svona mikið erum við jafnframt búnir að samþykkja að koma þessari orku í lóg. Ekki trúi ég því að nokkur maður hér sé svo galinn að hann ætti bara að virkja og virkja og ætlist til að landsbyggðarfólkið éti þetta rafmagn. Það er ekki hægt. Það verður að selja þetta rafmagn eða selja þær vörur sem eru framleiddar fyrir tilstilli þessa rafmagns. Það er aðeins tvennt í því. Við erum nefnilega búnir að samþykkja það með svona hröðum orkuframkvæmdum og örum virkjunarframkvæmdum á stuttum tíma að hafa mikið rafmagn hér til sölu, sem þýðir auðvitað, hvort sem menn vilja horfast í augu við það eða hlaupa í kringum það eins og heitan graut, mikla stóriðju í landinu á næstu árum. Og fyrst búið er að ákveða þetta þýðir ekkert annað en standa frammi fyrir því. Það er alveg sama hvar menn eru í flokki. Þetta er ekki flokksmál eða pólitískt mál. Þetta eru bara ósköp einfaldar, raunvísindalegar staðreyndir.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara frekari orðum um þetta að sinni. En þegar við komum óþreyttir til þings eftir jólin og erum búnir að lesa þessa ágætu bók og allar hinar, þá gæti kannske komið að því að við héldum hérna betri og lengri ræður.