15.12.1981
Sameinað þing: 36. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1588 í B-deild Alþingistíðinda. (1308)

133. mál, atvinnutækifæri á Suðurlandi

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Það er leitt að hv. 4. þm. Suðurl. er farinn úr salnum, en ég hefði gjarnan viljað segja við hann, að ég er ekki sömu skoðunar og hann um gagnsemi áfangaskýrslu starfsskilyrðanefndar. Ég held að við verðum að aðlagast nýjum tíma. Vinnubrögðin eru öðruvísi núna og eiga eftir að breytast enn meira og verða allt öðruvísi en þau voru fyrir nokkrum árum, þegar ekkert var sett á blað áður en framkvæmdir hófust.

Ég vil taka undir með tillögumönnum og skil að þeir hafa vissar áhyggjur af atvinnuástandi í sínu kjördæmi. Ég vil undirstrika að það er meira en nauðsyn á nýjum atvinnutækifærum á Suðurlandi. Ég tel að ekki sé í neinum landshluta meiri þörf fyrir vel athugaða möguleika á nýjum atvinnutækifærum en einmitt á Suðurlandi.

Ég tek undir, ef ég má vitna hér í grg., með leyfi forseta, þar sem segir: „Svo langur óslitinn virkjanatími sem hér um ræðir hefur óhjákvæmilega leitt til þess, að hundruð fjölskyldumanna hafa byggt íbúðarhús í sunnlenskum kauptúnum í þeirri von, að möguleikar samfara þessum virkjunum yrðu nýttir til atvinnusköpunar á Suðurlandi.“

Því segi ég þetta að mér er enn í minni Reykjavík fyrir árið 1940. Hér í höfuðborginni ríkti atvinnuleysi. Þetta var róleg og kyrrlát borg. Fátæktin var mikil. Margir heimilisfeður voru atvinnulausir. Unglingar veiddu í soðið við gömlu bryggjurnar sem nú eru löngu horfnar, og allir þekktu alla. Menn sátu hér í gamla verkamannaskýlinu dögum saman og biðu eftir að fá eina og eina klukkustund í vinnu. Menn á mínum aldri og eldri muna þá tíma. Síðan skall á heimsstyrjöldin síðari. Við komu hinna erlendu gesta, þ. e. breska hersins, varð Reykjavíkurborg að eins konar stóriðju og fyllilega sambærileg við það sem er að gerast í Suðurlandskjördæmi og hefur verið þar í gangi undanfarin nokkuð mörg ár. Fólk streymdi til höfuðborgarinnar í atvinnuleit. Peningaflóð streymdi í vasa fólksins, og í fyrsta skipti gátu landsmenn veitt sér þægindi, gátu keypt sér mat og drykk og síðan jafnvel komið sér upp þaki yfir höfuðið. En styrjöldinni lauk og atvinnuástandið breyttist. Þeir, sem komið höfðu langt að í atvinnuleit, fyrst til skamms tíma, en höfðu nú fest rætur, sest að í höfuðborginni, sáu nú drauma sína um bjarta framtíð, sem blasti við þeim við komuna til höfuðborgarinnar, annaðhvort rofna eða vera í hættu. Reykjavík var í hættu. Reykjavíkurborg sat uppi með miklu fleira fólk en hún gat á eðlilegan hátt brauðfætt. En allt blessaðist þetta einhvern veginn og vinnumarkaðurinn í Reykjavík jafnaði sig og hefur verið nokkuð traustur vegna þess að borgarstjórn tókst að finna lausn með nýjum verkefnum og svo er enn.

Því rifja ég þetta upp nú, að í gangi hafa verið í Suðurlandskjördæmi stóriðjuframkvæmdir hliðstæðar við það sem ég hef í huga og hef hér lýst, sem laðað hafa til sín fólk úr öllum áttum heim í hérað. Margt af því fólki hefur fest rætur í kjördæminu og byggt yfir sig á alveg nákvæmlega sama hátt og gerðist í Reykjavík. Byggðakjarnarnir á Suðurlandi hafa vaxið, eins og kemur fram í grg. flm. En nú, þegar virkjunarframkvæmdir eru á lokastigi, verður að sjá þessu virkjunarfólki fyrir atvinnu í byggðakjörnunum á Suðurlandi ef komast á fyrir flótta úr héraði, og því blasir við að þörfin fyrir stóraukin atvinnutækifæri þar til að koma í veg fyrir flótta fólks til annarra staða er meiri en víða annars staðar. Lifnaðarháttum Reykvíkinga var raskað þegar vinnumarkaðurinn tók fjörkipp. Á nákvæmlega sama hátt hefur lifnaðarháttum í Suðurlandskjördæmi verið raskað með tilkomu þessara stóru vinnustaða og miklu tekjumöguleika.

Ég vil undirstrika það, að áður en stóriðja er sett niður í byggðarkjarna annars staðar á landinu, sem eru nú í nokkru jafnvægi, tel ég að eigi að skapa tryggan vinnumarkað fyrir fólkið í Suðurlandskjördæmi — fyrir það fólk sem hefur ekki lengur vinnu þegar virkjunarframkvæmdum lýkur. Ég held að á engan annan hátt getum við komið í veg fyrir að það fólk flytjist til annarra byggðarlaga og skapi þá vanda á þeim vinnumarkaði.

Ég segi þessi orð til þess og í von um að við getum lært eitthvað af reynslunni, því að ég finn skyldleika á milli þess ástands, sem var á tímabili í Reykjavík og blasti við, og þess ástands, sem hefur verið í suðurlandskjördæmi. Það var rólegt hérað. Vinnumarkaðurinn var í nokkuð góðu jafnvægi. Síðan hefjast þessar miklu framkvæmdir í héraðinu. Nú eru þær á lokastigi og sama vandamálið blasir þá við heima í því héraði og blasti um tíma við hér í Reykjavík. Því vil ég beina því til hæstv. ráðh. iðnaðarmála, sem ég veit að er allur af vilja gerður, að hann hafi þetta í huga þegar hann velur nýrri stóriðju stað eða þarf að staðsetja nýja vinnustaði, hann taki þá þessi orð mín sem ábendingu og varnaðarorð. Við megum ekki raska ró og jafnvægi í þeim byggðarkjörnum þar sem fólkið óskar kannske eftir stóriðju án þess oft að gera sér grein fyrir hvað það hefur í för með sér, en þegar búið er að raska ró eins kjördæmis, eins og Suðurlandsins, verður að skapa fólkinu lífvænleg skilyrði á staðnum áður en fólksflótti á sér stað.

Ég held að okkur beri skylda til hér á hinu háa Alþingi að vera samtaka í þeirri viðleitni að skapa þessu fólki, sem ég hef hér rætt um og flm. hafa dregið athygli að, tækifæri til að halda velmegun uppi í héraði. Það gerum við ekki öðruvísi en hafa tilbúin eða í sjónmáli atvinnutækifæri í byggð þegar þetta duglega fólk kemur til baka úr óbyggðunum. Það er ekkert óeðlilegt heldur að einmitt í þessu héraði ætlist fólk til þess, að sú orka, sem þar er framleidd við bæjardyrnar, nýtist kjördæminu að verulegu leyti. Því vil ég lýsa stuðningi mínum við það, sem kemur fram í till. til þál. á þskj. 145, og tel að flm. hafi unnið þarft verk með því að draga athygli að þeirri miklu og brýnu þörf sem er fyrir ný atvinnutækifæri í Suðurlandskjördæmi.