16.12.1981
Efri deild: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1599 í B-deild Alþingistíðinda. (1326)

Umræður utan dagskrár

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, að þetta umrædda mál, 28. mál, fékk afskaplega góðar undirtektir hér í deildinni. Ég var einn þeirra sem tóku mjög undir þann málflutning sem uppi var hafður þegar mælt var fyrir málinu. Það voru margir fleiri sem tóku undir efni frv. og lýstu þeirri skoðun sinni, að þeir vildu gera það sem þeir gætu til að flýta afgreiðslu þess. Hins vegar gengust menn aldrei undir neina ákveðna dagsetningu í því efni.

Ég vil skýra frá því, að við héldum heilbr.- og trn.-fund í morgun og einmitt um þetta umrædda ágæta mál. Það hefur komið fram löngu áður, að endurskoðunarnefnd er starfandi til að endurskoða almannatryggingalögin, — slíkar nefndir hafa reyndar verið starfandi allar götur, hygg ég, síðan almannatryggingalöggjöfin var sett.

Það var um það getið af einum hv. ræðumanna hér við umr., þegar mælt var fyrir málinu, að vert væri að huga að því, hvaða tillögur þessi nefnd, sem í eiga sæti fulltrúar allra flokka, hefði fram að færa í þessu efni. Ég vil skýra frá því, að við í heilbr.- og trn. fjölluðum um drög að tillögum sem fram voru komnar frá nefndinni sem ég ræddi um áðan. Þessar tillögur fjalla um þann flutningskostnað sem frv. hv. þm Kjartans Jóhannssonar og fleiri fjallar um. Það er skoðun okkar nm., ekki síst í ljósi þess, að þær tillögur eru ekki fyrir löngu komnar til nefndarinnar, að við þyrftum að fá ofurlítið lengri frest til að fjalla um þetta mál.

Hins vegar vil ég segja það hér og nú, að samþykkt var og bókað í fundargerðabók heilbr.- og trn. í morgun, að þetta mál yrði forgangsmál að loknu jólaleyfi Alþingis, við mundum taka það fyrir í heilbr.- og trn. svo fljótt sem möguleikar stæðu til og mundum afgreiða frv. með hugsanlega einhverjum breytingum í ljósi tillagna þeirrar nefndar sem er að endurskoða almannatryggingalögin. Sú samþykkt var gerð að hraða málinu eftir áramótin.

Nú vil ég segja það, að e. t. v. er í huga einhverra að hér sé um að ræða einhverja stífni vegna þess að hér sé á ferð frv. frá stjórnarandstæðingum. Ég held að það sé ekki um neitt slíkt að ræða. Það er alls ekki víst að við hefðum afgreitt þetta frv. eins og það liggur fyrir enda þótt það hefði komið frá þeirri ríkisstj. sem við sumir styðjum enn sem komið er. En ég segi þetta í framhjáhlaupi því að þetta eru staðreyndir. Það er frv. ríkisstj. til meðferðar í nefndinni og við erum ekki að afgreiða það. En ég segi það og það skulu vera mín síðustu orð: Við erum öll af vilja gerð — held ég þá að ég tali fyrir munn allra í heilbr.- og trn. — að sinna þessu máli, enda settum við aldrei og undirgengumst aldrei nein ákveðin tímamörk. Við erum nú einu sinni þannig skapi farin hér í Ed., að við viljum athuga málin mjög vel, og það ætlum við að halda áfram að gera.