16.12.1981
Neðri deild: 25. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1603 í B-deild Alþingistíðinda. (1335)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. meiri hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Eins og við var að búast varð nefndin ekki sammála um afgreiðslu á þessu máli. Meiri hl. n., sem í eru auk mín hv. 3. þm. Vestf., hv. 1. þm. Reykn. og hv. 3. þm. Reykv., skilaði séráliti þar sem við lýsum afstöðu okkar til þessa frv.

Þetta frv. er flutt á hv. Alþingi til staðfestingar á brbl. sem gefin voru út 28. ágúst s. l. í kjölfar gengisfellingar sem átti sér stað tveimur dögum áður. Á meðan þetta frv. var til afgreiðslu í hv. Ed. átti sér stað önnur gengisbreyting og því varð að gera nokkrar breytingar á frv. í Ed. í samræmi við þá gengisbreytingu. Þó að þetta mál sé ekki endanlega afgreitt hér á þingi eru einstakir ráðh. þegar farnir fyrir nokkru að boða eina gengislækkunina enn þá, sem er afleiðing af verðbólgunni, en það er auðvitað það sem allir reikna með, að í þeirri miklu verðbólgu, sem við búum við, verði ekki hægt að halda útflutningsatvinnuvegunum gangandi nema færa gengið til samræmis við stöðu útflutningsatvinnuveganna.

Þetta frv. felur í sér þrjú meginatriði:

Í fyrsta lagi er hér um að ræða ráðstöfun á hluta gengismunar útfluttra sjávarafurða sem framleiddar voru fyrir 1. sept., og ríkisstj. hefur sjálfdæmi um hvort gengismunur á einstökum afurðum sé gerður upptækur eða ekki.

Í öðru lagi er hér um að ræða eignaupptöku á endurgreiðslu Seðlabanka Íslands af gengisuppfærslu endurkeyptra afurða- og rekstrarlána. Meginhluti þessarar endurgreiðslu, sem mun vera um 36.2 millj. kr., á ekki að renna til þeirra deilda Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins sem eiga þessar endurgreiðslur, heldur eru bein fyrirmæli í þessu frv. um að allt að 29 millj. kr. skuli greiddar til freðfiskdeildar sjóðsins. Hér nefni ég hærri upphæð en kom fram í umr. og nál. í Ed. vegna þess að við endurskoðun hefur komið í ljós að þessi upphæð er nú 28.5 millj. kr., en heimildin í frv. er upp á 29 millj. Með þessu er gengið þvert á þá stefnu sem lá til grundvallar setningu laganna um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Það hefur verið ófrávíkjanleg skoðun, bæði stjórnar sjóðsins og stjórnvalda á hverjum tíma, að hver deild þessa sjóðs sé sjálfstæð og að fjármuni eigi ekki að færa á milli deilda, eins og ákveðið er að gera með þessu frv.

Í 2. gr. þessa frv. er fjmrh. heimilað að ábyrgjast lán að fjárhæð 42 millj. kr. handa Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins. Verður ekki séð annað en að ríkissjóður verði að greiða þetta lán þegar metnir eru þeir skilmálar sem settir eru fyrir ábyrgð ríkissjóðs. Með slíkri lántöku sem þessari er verið að taka upp hreint uppbótakerfi eða millifærslukerfi sem almenningi er svo ætlað að greiða.

Hæstv. viðskrh. fylgdi þessu frv. úr hlaði í þessari deild við 1. umr., en hæstv. forsrh. fylgdi því úr hlaði við 1. umr. í Ed. Hvorugur þessara ágætu manna er við þessar umr, og því síður sjútvrh., sem er víðs vegar fjarri. Aðeins einn ráðh. situr nú inni í deildinni, hæstv. landbrh. Ég held, með allri virðingu fyrir honum, að hann sé ekki mjög mikið inni í þessu máli, og jafnvel þó að annar bætist við, hæstv. iðnrh., muni þeir vera sennilega minnst undir það búnir að ræða þetta mál. Ég lýsi furðu minni á því, að þeir ráðh., sem flytja mál og flytja framsögu fyrir málum, skuli ekki vera viðstaddir umr. í þingdeildinni. Ég ætlast því til þess, að hæstv. forseti láti hefja leit að öðrum hvorum framsögumanna málsins. Mér liggur ekkert á. Ég get beðið á meðan. (Forseti: Ég mun gera ráðstafanir til að finna viðkomandi ráðh.) Það nægir alveg að finna annan. Ef ríkisstj. ætlast til þess, að mál séu afgreidd og þau gangi fram hér á þeim knappa tíma sem eftir er til jóla, er það minnsta að viðkomandi ráðh. geti verið viðstaddir umr. um þau mál sem þeir hafa flutt. Það er lágmarkskurteisi við Alþingi og þingræðið. — Var fjmrh. eitthvað að spyrja? (Gripið fram í.) Ég vil hafa annan hvorn þann ráðh. sem mælti fyrir frv. Forsrh. mælti fyrir því í Ed. og viðskrh. í þessari deild. Ég vil að þeir séu hér viðstaddir. Þó hefði mér nægt ef sjútvrh. hefði verið á landinu. (Gripið fram í: Þó hann væri ekki viðstaddur?) Jafnvel, því hann heyrir svo vel og er snar í snúningum og hefur góða fætur. — Já, þá gengur hæstv. forsrh. í salinn og ég fagna því, að hann sem frummælandi þessa frv. í Ed. skuli koma þó að — og skiptir það ekki höfuðmáli — sá sein flutti frv. hér í Nd. sé ekki mættur. Ég vil þá koma inn á efnishlið þessa máls.

Í fyrsta lagi er verið að taka hér lán fyrir deild úr Verðjöfnunarsjóði sem er nú upp urin sem deild fyrir afurðir síldar- og fiskimjölsafurða eða nánar tiltekið fyrir loðnumjöl og lýsi. Um það bil sem núv. hæstv. ríkisstj. tók við var innistæða í þessari deild 22 millj. 992 þús. kr., en 1. jan. 1981 er hún komin í 1492 þús. og 1. okt. 1981 er hún mínus 1474 þús. hvað snertir þessar afurðir, loðnumjöl og lýsi, þannig að sveiflan hefur orðið 24 millj. 466 þús. Nú leyfi ég mér að spyrja: Er nauðsynlegt að láta slíkt gerast í sambandi víð þessar afurðir, eins og átti sér stað á s. l. ári? Þá var ákveðið of lágt viðmiðunarverð til Verðjöfnunarsjóðsins, svo lágt að lítið kom inn í sjóðinn, en svo rúmur var fjárhagur Verksmiðjanna þá, að þær fóru í kapp að yfirbjóða hver fyrir annarri þessar afurðir. Á sama tíma gerðist það, að lítið sem ekkert var greitt í Verðjöfnunarsjóðinn og hann var tæmdur vegna þessa. Það, sem gerist á þessu ári, er ekki verðfall á þessum afurðum. Það er verðfall á gjaldmiðli þeirra þjóða sem kaupa þessar afurðir vegna þess að gengi íslensku krónunnar er rangt. Þó að þessar þjóðir, sem kaupa af okkur, kaupi í dollurum kaupa þær og miða sitt verðlag við eigin mynt, miða við eigin gjaldeyri, og í þjóðfélagi þar sem verðbólgan er 5–6–7 sinnum meiri en í þessum löndum, eins og hjá okkur, verður þetta auðvitað til þess, að hér verður um verulega lækkun á verðlagi að ræða. Í staðinn fyrir að leiðrétta gengi krónunnar er gripið til þess ráðs að taka lán fyrir þessar afurðir, 42 millj. kr., eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, því að í raun og veru er búið að lofa atvinnurekstrinum þessu og verður ekki aftur snúið með það. Það er mjög ljóst úr þessu. En undarlegt er að láta Verðjöfnunarsjóð taka þetta lán, að ekki sé meira sagt, vegna þess að ríkisstj. hefur ákveðið að ábyrgjast þetta lán með þeim skilyrðum að Verðjöfnunarsjóðurinn endurgreiði það. ef hækkun á þessum afurðum verður 30% eða meiri innan tveggja ára, í þeim gjaldeyri sem notaður er þegar þessar þjóðir kaupa af okkur. Það vita allir menn, hver einasti maður, að það eru 999 líkur af 1000 á því, að þessi ábyrgð falli á ríkissjóð og ríkissjóður verði að taka þetta lán á sig. Þetta lán er því tekið út á framtíðina eins og fleira.

Ef við lítum aftur á stærstu deildina í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, deild fyrir frystar afurðir, var innistæða í þeirri deild 35 millj. 155 þús. l. jan. 1980, 1. jan. 1981 er hún komin niður í 28 millj. 280 þús., en 1. okt. á þessu ári er hún komin í 1 millj. 114 þús. kr. Breytingin frá 1. jan. 1980 til 1. okt. á þessu ári er því hvorki meira né minna en mínus 34 millj. 41 þús. kr. Má því segja að það hafi heldur betur tekist til með stærstu greinar Verðjöfnunarsjóðsins. Þetta er langstærsta atvinnugrein okkar Íslendinga, frystiiðnaðurinn, og fram undan eru svo hrikalegir erfiðleikar sem ég mun koma að síðar.

Ég ætla ekki að ræða svo um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins að geta þess ekki í leiðinni, að ein deild einkum, skreiðardeildin, hefur aukið innistæðu sína verulega eða úr 11.3 millj. í 43.7 millj., enda er þar um einstakt verðlag að ræða sem engum dettur í hug að haldi áfram með sama hætti og verið hefur síðustu 2–3 árin.

Hitt er svo annað mál, sem er alvarlegt, að í deild fyrir saltfiskafurðir var 1. jan. 1980 innistæða 28 millj. 982 þús., en hún er nú 1. okt. komin niður í 28 millj. 264 þús. Á sama tíma og hagstæðir markaðir hafa verið fyrir saltfisk er það látið gerast á þessu ári, að alla vertíðina er ekkert greitt í Verðjöfnunarsjóð af saltfisksframleiðslu og saltfiskssölu. Með þessu ráðslagi er verið að kippa grundvellinum undan Verðjöfnunarsjóði. Mér er alveg ljóst, og ég ætla ekki að vera ósanngjarn við hæstv. ríkisstj. að það hafa verið og eru erfiðleikar á að byggja upp deildina fyrir frystar afurðir vegna þeirra aðgerða sem gerðar voru á árinu 1973, verðfallsins sem varð í aðalviðskiptalandi okkar með þessar afurðir. Á árunum 1974, 1975 og fram eftir ári 1976 varð að grípa til ábyrgða hvað eftir annað, og við því er í raun og veru ekkert að segja. Það eru fordæmi fyrir því að grípa til slíkra ábyrgða, en hitt er algjört ráðleysi, hvernig hefur verið farið bæði með deild fyrir saltfisksafurðir og deild fyrir afurðir síldar og fiskimjöls. Það er stórvítavert hvernig ríkisstj. hefur staðið þar að verki.

Þegar hæstv. viðskrh. flutti þetta mál í fjarveru forsrh. við 1. umr. hér í hv. deild sagði hann að það mætti líta á forsendur í fyrri gengisbreytingum og m. a. í aðgerðum sem áttu sér stað á árunum 1974–1978, þegar ég gegndi starfi sjútvrh. Þá var um allt annað að ræða. Þá var staðið að ráðstöfun gengishagnaðar með allt öðrum hætti en nú er gert.

Í fyrsta lagi var það viðurkennt af öllum, bæði stjórn og stjórnarandstöðu, að það bæri að skipta gengishagnaði ekki eingöngu til þeirra, sem ættu vöruna á síðasta stigi, heldur líka til þeirra sem hefðu aflað hennar. Þá var gengið það langt, — ég vil til að hressa upp á minni manna nefna það, — við gengisbreytinguna 1975, með samþykkt laga frá 14. maí það ár, var ætlað að tekjur af gengishagnaði, eftir að búið er að draga frá þeim skyldugjöld, eins og kallað er, yrðu 75 millj. kr. til lífeyrissjóða sjómanna til að verðbæta örorku- og lífeyrisgreiðslur þeirra og aðrar tryggingarbætur. Þannig var komið til móts við sjómenn og þeim sýndur skilningur og viðurkennt að þeir ættu rétt á hluta af gengishagnaði sem myndaðist við gengisbreytingu.

Í öðru lagi var ákveðið að leggja fram hvorki meira né minna en 950 millj. kr. til að létta stofnfjárkostnaðarbyrði eigenda fiskiskipa sem orðið hafa fyrir gengistapi vegna erlendra og gengistryggðra skulda, með þeim skilyrðum sem sett voru. Þá var heimilt að ráðstafa 400 millj. kr. af heildarfjármagni samkv. þessum lið til lánveitinga í sjávarútvegi til 2–3 ára til að bæta lausafjárstöðu eigenda fiskiskipa og vinnslustöðva.

Þá voru einnig látnar af þessum gengishagnaði 300 millj. til Fiskveiðasjóðs til að greiða fyrir lánveitingum sjóðsins til tækjakaupa og endurbóta á eldri fiskibátum og 50 millj. kr. til að bæta eigendum fiskiskipa það tjón sem þeir verða fyrir er skip eru dæmd ónýt eða úrelt. Það var fyrsti vísirinn að aldurslaga- eða úreldingarsjóði, sem þá var tekinn upp með þessum hætti, þó að formlegur sjóður hafi ekki verið stofnaður.

Síðan var ákveðið að greiða til Tryggingasjóðs og Olíusjóðs fiskiskipa 180 millj., en þá voru einnig teknar 50 millj. af gengishagnaði til að greiða fyrir afurðir síldar- og fiskimjölsverksmiðja. Þær voru þá óseldar og tekið af gengishagnaði þessarar vöru til að verðbæta og ákvæði þá til bráðabirgða í því sambandi. Um þetta var fullt samkomulag í sambandi við ráðstöfun gengishagnaðar. Þá stóð þessi vinnsla með þeim hætti að skipin hefðu ekki annars látið úr höfn á vertíð og því var gripið til þessa ráðs.

Jafnframt voru þá veittar nokkrar millj. kr. m. a. til orlofshúsa sjómannasamtakanna, til styrkveitinga við að breyta vélbúnaði skipa til þess að geta nýtt svartolíu í stað gasolíu o. fl.

Síðan voru aftur teknar greiðslur til Olíusjóðs og Verðjöfnunarsjóðs af þessu, en núna er um það að ræða að láta gengishagnaðinn eingöngu renna í Verðjöfnunarsjóð, og þá er brugðið út af þeirri venju og brugðið út af því markmiði sem var fyrir setningu laganna um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, því að það er í raun og veru fært milli deilda. Það er alveg tvímælalaust eignaupptaka því að þeir aðilar, sem hafa greitt til sinna deilda, saltfisksframleiðendur til sinnar deildar o. s. frv., eiga það fjármagn og þeir eiga þessa hlutdeild í birgðunum og þess vegna hefur þessu verið mótmælt ekki eingöngu af fiskverkendum, heldur einnig af sjómönnum, sem hafa alfarið mótmælt því að fara inn á þessar brautir. Það er þetta sem ég gagnrýni þetta frv. langmest fyrir — auk þess að hafa komið Verðjöfnunarsjóðnum í þá stöðu að verða að taka til loðnudeildarinnar 42 millj. kr. að láni.

Allir þessir erfiðleikar eru afleiðing af ranglega skráðu gengi krónunnar allt þetta ár, eru afleiðing af því, að það er verið að fela verðbólguna með því að skrá krónuna röngu verði, eyða eigin fjármagni atvinnuveganna, fyrirtækjanna í landinu. Það er látið brenna upp. Útflutningsverðmætið hefur ekki hækkað nema að litlum hluta miðað við þann tilkostnað sem er við að afla þessa verðmætis og vinna það. Hér er því um ranga gengisstefnu að ræða. Hér er engin krafa um að lækka gengi krónunnar. Hér er aðeins krafa um að krónan sé skráð á því verði sem hún er í á hverjum tíma, en ekki sé verið að blekkja fólkið, því það kemur síðar að því að holskeflan skellur yfir og þá er verra að fá hana með þeim ógnarþunga, sem þá verður, en að mæta vandanum augliti til auglitis strax.

Þessi ríkisstj. virðist ekki hafa kjark eða þrek til að viðurkenna erfiðleika, viðurkenna það sem þarf og er óhjákvæmilegt að gera. Til að halda stöðugu gengi verðum við auðvitað að halda verðbólgunni niðri og það miklu meira en nú er gert. Í þeirri verðbólgu, sem nú er, fer ekki hjá því að gengið er rangt skráð. Síðan er gripið til þess seint og síðar meir að leiðrétta gengið, en alltaf of seint, alltaf á eftir, þannig að það er ekki hægt að rétta úr kútnum.

Atvinnulífið er núna víðast hvar stöðvað. Hvað er þá gert? Það er gripið til þess í fjölmörgum tilfellum og á eftir að grípa til þess í enn fleirum að taka lán hjá Seðlabankanum. Það eru prentaðir seðlar og Seðlabankinn keyrir hlössin út. Þessir seðlar eru svo lánaðir til atvinnufyrirtækja sem eru komin í algjört greiðsluþrot.

Byggðasjóður hefur verið gerður að afgreiðslustofnun nú að undanförnu fyrir þessar kreppuráðstafanir ríkisstj. Það eru tekin lán, sem eru sögð eiga að vera til 15 ára, til að greiða hallarekstur fyrirtækjanna á þessu ári. Svo koma menn og setja upp sakleysislegt andlit og segja að verðbólgan sé 40–42% á Íslandi í ár þegar hún er falin með þessum hætti!

Hvernig er með atvinnufyrirtæki á vegum ríkisins? Það vantar ekki gorgeirinn í hæstv. fjmrh. þegar hann er að lýsa afkomu ríkissjóðs, en hann tekur aldrei með í það dæmi nema A-hluta fjárlaga. Hann tekur aldrei með allt dæmið, B-hlutann og lánsfjáráætlunina. Ætli það sé eins góð útkoma og hann vill vera láta ef það er tekið með í dæmið? Hvernig er með stórfyrirtæki á vegum ríkisins? Þau taka meira að segja núna erlend lán til að standa undir hallarekstri. Hér er verið að taka lán fyrir framtíðina sem er svo annarra að taka við. Það er dæmigerð sýndarstjórn, sem er við völd í þessu landi, hvað efnahagsmálin snertir. Og nú kem ég að því, sem er skylt þessu máli, og það er hvað ríkisstj. ætti nú að gera.

Sjómannasamtökin hafa lýst yfir stöðvun alls flotans núna fyrir áramót, og útgerðin segist ekki geta haldið áfram og verði að stöðvast, sé sjálfstöðvað. Sjútvrh. sagði, áður en hann yfirgaf fósturjörðina, að hann sæi ekki fram á annað en það yrði að gera ráðstafanir, því það væri vitað mál að kaupendur gætu ekki greitt hærra fyrir fiskinn og seljendur þyrftu líka að fá hærra fyrir fiskinn, þess vegna yrði að gera ráðstafanir til að bæta stöðu útgerðar og sjávarútvegs.

Það er um meira að ræða en sjávarútveg. Það þarf ekki síður að hressa upp á útflutningsiðnaðinn. Hann stendur ekkert betur að vígi en sjávarútvegurinn.

Hvað var fyrsta svarið sem kom í þessum ummælum sjútvrh.? Jú, hæstv. félmrh. þurfti að svara sálufélaga sínum í ríkisstj. Hann fann strax ráð. Hann viðurkenndi strax að það þyrfti að bæta sjómönnum upp. Hann viðurkenndi að þeir hefðu orðið fyrir skerðingu að undanförnu og hann fann ráðið: að afnema olíugjaldið til fiskiskipanna og stofnfjársjóðinn. M. ö. o.: til þess að fá meira fjármagn til að skipta fyrir sjómenn ætlum við að taka af útgerðinni þannig að hún fari slétt út, þannig að staða hennar verði nákvæmlega sú sama eða jafnvel verri. Þetta er úrræði í lagi! Þegar þeir leggja saman þessir tveir afbragðshagfræðingar, félmrh. og sjútvrh., er von að fólk spyrji: Getur þetta gengið lengur?

Nú er lögð á það áhersla að halda þessu áfram, halda þessu til streitu. Alþingi á að fara í jólafrí og það er ekki vitað að það séu neinar aðgerðir í burðarliðnum. Fiskverðinu var fyrir nokkru vísað til yfirnefndar Verðlagsráðsins og yfirnefndin hefur verið sammála um eitt, bæði kaupendur og seljendur: Kaupendur eru sammála um, að seljendur þurfa að fá hærra fiskverð til þess að það sé hægt að koma til móts við óskir sjómanna og til þess að útgerðin geti haldið áfram starfrækslu, og seljendur eru sammála um, að kaupendur geti ekki greitt hærra fiskverð nema fá traustari grundvöll undir sinn atvinnurekstur, og þar við situr.

Ef ég þekki hæstv. forsrh. rétt og sjónvarpið kallar hann til sín og spyr: Hvað er nú að frétta af fiskverðsmálum? — þá mun hann svara eitthvað á þessa leið: Fiskverðið er í höndum Verðlagsráðs sjávarútvegsins. Það hefur algjörlega með fiskverð að gera lögum samkv. Þar með er samtalinu lokið og fréttamaðurinn segir: Þetta er gott og blessað. Þá er bara að snúa sér að Verðlagsráði sjávarútvegsins. — Þannig hafa málin verið afgreidd. En þetta er ekki lausn á afgreiðslu mála. Það er alveg rétt, sem hæstv. forsrh. hefur sagt og það oftar en einu sinni, að Verðlagsráð á að fjalla um verðlagningu sjávarafurða lögum samkv., en þegar Verðlagsráð er ekki sammála um verðlagningu er málinu vísað til yfirnefndar og þá kemur inn í yfirnefndina fulltrúi ríkisvaldsins, þjóðhagsstjóri, og hann kemur ekki inn í þetta á eigin vegum eða sem yfirmaður sinnar stofnunar. Hann kemur inn í þetta sem trúnaðarmaður ríkisstj. á hverjum tíma. Og það, sem hann gerir, gerir hann alltaf í samráði við aðgerðir og stefnu þeirrar ríkisstj. sem situr í það og það skiptið. Ég þekki þetta mjög vel og því er ekki hægt að blekkja mig í þessum efnum. Um leið og máli er vísað til yfirnefndar er það fyrst og fremst í höndum sjútvrh. fyrir hönd ríkisstj., og þegar hann þarf að taka ákvarðanir, sem snerta ríkisstj. í heild, ber hann þau mál upp við ríkisstj. Því hefði ég haldið að eins og ástand og horfur eru núna hefði ekki veitt af því, að öll ríkisstj. væri heima á Fróni og legði vel höfuðið í bleyti og velti fyrir sér hvað væri nauðsynlegt að gera og hvernig mætti taka á gífurlegum vanda, sem er alltaf að verða erfiðari og erfiðari, og sérstaklega hefði verið þörf á að sjútvrh. sæti nú og ræddi við alla þessa aðila um hugsanlega lausn á þessu mikla vandamáli.

Við vitum að sjómannasamtökin hafa mjög sterk rök að mæla þegar þau segja: Það hefur verið gengið á rétt okkar sjómanna við undanfarnar verðákvarðanir og hvað eftir annað. — Við vitum mætavel að það koma fyrir verðákvarðanir sem annar hvor aðilinn verður mjög óánægður með. En það spáir ekki vel fyrir málum frekar en forðum að höggva tvisvar í sama knérunn eða jafnvel oftar, og því er nú komið sem komið er, að sjómenn hafa reitt hátt til höggs.

Ég skal játa það fúslega að á þessu ári er hluti útgerðarinnar nokkuð vel settur þar sem er bátaflotinn, sérstaklega eldri flotinn. Mér dettur ekki í hug annað en að viðurkenna jafnaugljósa staðreynd og þá. En allur dýrari flotinn, sem er með hærri lánin, með meiri skuldir á herðunum, er í kröggum. Þar er skuldaaukningin og vaxtabyrðin svo mikil að þessir aðilar standa engan veginn við sínar skuldbindingar. Þess vegna fer þessi vandi vaxandi með hverri vikunni sem liður.

Ég spyr hæstv. forsrh. að því, hvort hann teldi nú ekki eðlilegt að eitthvað komi fram frá hæstv. ríkisstj. um hvað hún sé að gera og hvernig hún hugsi sér í stórum dráttum að leysa þessi mál. Ég fer alls ekki fram á það við hæstv. forsrh., að hann fari að lýsa því yfir hver hann telji að fiskverðshækkunin eigi að vera. Ég tel það mikið glapræði þegar ráðh. fara að nefna einhverja ákveðna prósentu. Hitt er annað mál, að það má gjarnan lýsa því yfir, hvort það sé ekki ákveðið að tefja ekki ákvörðun fiskverðs og ganga til þeirra aðgerða sem gera það að verkum að flotinn þurfi ekki að stöðvast.

Við vitum í raun og veru að hér ræður ein höfuðákvörðun mest. Það eina, sem er hægt að gera til að koma í veg fyrir langa stöðvun, er í fyrsta lagi að viðurkenna þann mikla vanda sem við er að glíma. Sá, sem viðurkennir ekki að hér sé um vanda að ræða og erfiðleika, getur aldrei læknað neitt. Það er fyrsta skilyrðið að sjáandi sjái menn og heyrandi heyri þeir. Það er fyrsta skilyrði að viðurkenna að kostnaður við öflun og vinnslu á okkar útflutningsvörum hefur farið langt fram úr því sem söluverð á erlendum mörkuðum gerir okkur mögulegt að selja fyrir. Þess vegna verðum við að ganga djarflega til verks í þessum efnum.

Ég er sannfærður um að ef það verður löng bið á ákvörðun fiskverðs stöðvast atvinnurekstur víðast hvar úti um allt land. Fiskvinnsla er í raun og veru eini atvinnureksturinn á velflestum stöðum í landinu. Það er kannske helst hér í Reykjavík sem einna minnst ber á því, þó að þar sé auðvitað grundvöllur alls þess, sem gert er á öðrum sviðum, að þessi atvinnurekstur haldi áfram.

Mér finnst ég heyra á mönnum í atvinnurekstrinum, í sjávarútvegi og þá ekki síður í iðnaði, mikinn ótta og kvíða yfir því, hve lítið heyrist frá hæstv ríkisstj. og hvað lítið er gert til að ræða við menn um hugsanlegar leiðir til að ná sáttum og vinna að því að menn reyni að stilla öllum sínum kröfum í hóf. Þar vil ég standa með hæstv. ríkisstj. Menn verða allir að stilla kröfum sínum í hóf, því að við erum annars aðeins að minnka enn þá meir en þegar er orðið kaupmátt launa, og það kemur alltaf verst við þá sem lægstu launin hafa og verst eru settir.