16.12.1981
Neðri deild: 25. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1609 í B-deild Alþingistíðinda. (1336)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. minni hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. hefur að mestu leyti gert grein fyrir störfum nefndarinnar. Ég mun því mjög stytta mál mitt þó að ég sé ekki sammála öllu sem fram kom í ræðu hans. Ég vil aðeins leggja áherslu á að ég veit að menn eru að sjálfsögðu ekki sammála um þetta mál, en það er afskaplega brýnt, að það hljóti afgreiðslu hið fyrsta, af þeirri einföldu ástæðu að ekki er hægt að ganga frá fjárhagslegri hlið þessa máls fyrr en frv. þetta hefur öðlast gildi sem lög frá Alþingi. Ég veit að allir eru sammála um að það sé rétt að greiða fyrir að það geti orðið.

Hér er um það að ræða, að seðlabanki Íslands ákvað að falla frá gengisuppfærslu afurðalána, og jafnframt var ljóst að verulegur vandi væri fyrir hendi, eins og kom fram í ræðu hv. 1. þm. Vestf., í Verðjöfnunarsjóði, þ. e. freðfisksdeild, deild fyrir frystar fiskafurðir. Var því ákveðið að tæpar 29 millj., nákvæmlega munu það vera 28 millj. 509 þús., skyldu renna inn í þessa deild. Það eru samtals 36.7 millj. sem koma í hlut sjávarútvegsins vegna þess að Seðlabankinn ákvað að falla frá gengisuppfærslunni, og þar af taka 28.5 millj. til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Það, sem eftir stendur, skiptist hlutfallslega milli þeirra aðila sem skulda þessi afurðalán.

Um það má að sjálfsögðu endalaust deila, hvort rétt sé að ganga frá málum með þessum hætti. Því hefur verið haldið fram, að það sé nýlega upp tekið í sjávarútvegi að framkvæma slíkar aðgerðir sem þessar. Það er ekki rétt, því að jafnvel þótt það hafi verið annars eðlis þegar svokallaður gengishagnaður af birgðum var látinn renna í sérstakan sjóð og honum var skipt á milli ýmissa aðila, eins og fram kom í máli hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar, þá var það svipaðs eðlis. Það var verið að skipta þeim upphæðum í öðrum hlutföllum, en þær hefðu runnið til manna sem áttu viðkomandi vörur. Þannig hefur þetta lengi tíðkast í sjávarútvegi með einum og öðrum hætti og þarf ekki að rekja það frekar hér.

Inn í þetta frv. kemur alls ekki neitt varðandi ákvörðun fiskverðs. Ég held að það sé mikilvægt að þær umræður fari fram í yfirnefnd þeirri sem hefur með þau mál að gera, en þær viðræður fari ekki fram hér á Alþingi, hvað þá í þeim fjölmiðlum sem starfa hér í landinu. Þetta eru viðkvæm mál sem erfitt er að halda á, og það spillir mjög fyrir úrlausn þeirra mála, eins og ég veit að hv. þm. Matthías Bjarnason er mér sammála um. Hann hefur tekist á við slík vandamál. Það hlýtur að spilla mjög fyrir úrlausn þeirra mála þegar menn eru með alls konar yfirlýsingar í því sambandi. Ég vil því fara þess á leit, að slíkar umræður verði mjög takmarkaðar varðandi þetta mál.

Ég vil aðeins að lokum ítreka það, að við, sem skipum minni hl. þessarar nefndar, stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., skipum að vísu minni hl. í nefndinni, en við leggjum eindregið til að frv. þetta verði samþykkt og allt verði gert sem unnt er til að flýta afgreiðslu málsins héðan frá deildinni. Væri mjög æskilegt að endanleg afgreiðsla gæti átt sér stað í dag.