16.12.1981
Neðri deild: 25. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1614 í B-deild Alþingistíðinda. (1339)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég hef verið að sinna ýmsum erindum utan þingsalar í sambandi við fjárlagagerðina og hef því ekki fylgst nákvæmlega með þessum umr., en ég hjó eftir því, þegar ég kom hingað inn undir lok ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, að hann lýsti yfir að lán, sem tekið yrði samkv. heimild í 3. gr. frv., ætti að greiðast af ríkissjóði og hér væri enn ein tilraunin gerð til að falsa fjárlög með því að utanaðkomandi aðili væri að taka lán sem ætti á síðara stigi að greiðast af ríkissjóði.

Ég vil lýsa því yfir hér, að þetta er alrangt og ég kannast ekki við að á nokkurn hátt hafi verið samþykkt af ríkisstj. eða mér að þessi útgjöld yrðu færð á ríkissjóð á nokkru stigi þessa máls. Það segir í greininni, með leyfi forseta:

„Fjmrh. f. h. ríkissjóðs er heimilt að veita ríkisábyrgð fyrir lánum til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Liggi ríkisábyrgð fyrir, er sjóðsstjórn Verðjöfnunarsjóðs heimilt að taka lán í því skyni að gera einstökum deildum sjóðsins kleift að standa við skuldbindingar sínar. Lán þessi mega þó aldrei nema samtals meira en 70% af heildarinnistæðu í Verðjöfnunarsjóði hverju sinni.“

Hér er sem sagt einfaldlega opnuð leið til þess, að Verðjöfnunarsjóður geti á hverjum tíma tekið lán með ríkisábyrgð, en um er að ræða einfalda ríkisábyrgð, ekki sjálfskuldarábyrgð heldur einfalda ábyrgð, sem felur það í sér að þá fyrst er upphæðin kræf á hendur ábyrgðaraðila að skuldari sé gjaldþrota. Ég geri ráð fyrir að einhverjar aðrar ráðstafanir mundu koma til áður en Verðjöfnunarsjóður yrði gerður gjaldþrota. Það er alveg ljóst, að hér er eingöngu um að ræða ríkisábyrgðarheimild, en ekki að ríkissjóður sé að taka á sig þennan kostnað eða gefa neina skuldbindingu í þá átt.

Þetta vildi ég að kæmi hér alveg skýrt fram vegna þess að ef þessu væri látið ómótmælt kynnu menn að draga þá ályktun að sú fullyrðing, sem hv. þm. kom hér með, væri rétt.