16.12.1981
Neðri deild: 25. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1620 í B-deild Alþingistíðinda. (1345)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og öllum er kunnugt er nýlokið samningagerð ríkisins við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og fer nú fram atkvgr. í BSRB-félögunum. Í viðtali við Morgunblaðið í dag kvartar forseti Alþýðusambands Íslands yfir þessu samkomulagi og lætur í það skína, að við hæstv. ríkisstj. sé að sakast að hún hafi gert hagkvæmari samning við BSRB en gert hafi verið við ASI-félögin og að þannig sé frá málum gengið, að félögin innan Alþýðusambands Íslands geti enga leiðréttingu fengið á kjörum sínum á samningstímanum þó að þorri annarra launþega fái mun meiri kjarabætur. Að sjálfsögðu er ekki við hæstv. ríkisstj. að sakast þó svo hafi verið samið hjá ASÍ, því að samkv. yfirlýsingu forseta Alþýðusambandsins kom hún þar hvergi nálægt. Sé við einhvern að sakast þar um er það að sjálfsögðu við forustu Alþýðusambands Íslands sjálfs sem þannig hefur gengið frá samningunum. Ég held að eftir þessa yfirlýsingu forseta ASÍ sé óhjákvæmilegt að hæstv. fjmrh. geri Alþingi nokkra grein fyrir samningunum sem hann hefur gert við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja.

Mér skilst að auk 3.25% grunnkaupshækkunar hjá BSRB og lágmarkslaunatryggingar, eins og samið var um við Alþýðusamband Íslands, hafi samningarnir við BSRB falið í sér eftirtalin atriði sem ekki eru sambærileg samningum við Alþýðusamband Íslands:

Í fyrsta lagi, að fólk í BSRB, sem starfað hefur þrjú ár eða lengur hjá ríkinu, fær nú í desember sérstaka desemberlaunauppbót sem nemur 1760 kr. á hvern og einn. Fyrr fengu menn þessa uppbót eftir átta ára starf, en nú hefur verið samið um að menn fái þetta eftir þriggja ára starf. Þýðir þetta að um það bil fjórði hver opinber starfsmaður fær nú í desember 1760 kr. greiddar, sem hann hafði ekki átt rétt til áður.

Í öðru lagi skilst mér að einnig hafi verið um það samið, að í staðinn fyrir að menn þurftu áður að starfa í 15 ár í þjónustu ríkisins til þess að hækka um einn launaflokk þurfi menn eftir þessa samninga aðeins að starfa í 13 ár.

Í þriðja lagi skilst mér svo að í febrúarmánuði n. k. eigi að falla úrskurður kjaranefndar um sérkjarasamninga einstakra félaga innan BSRB og þar eigi að taka til meðferðar og úrskurðar allar sérkröfur hinna einstöku félaga. Þessum sérkröfum var, eins og menn muna, ýtt út af borði aðila vinnumarkaðarins í þeim samningum, sem gerðir voru við ASÍ fyrir skemmstu, og verða ekki teknar upp aftur fyrr en að þeim samningstíma loknum.

Af þeim gögnum, sem ég hef fengið, virðist vera ljóst að ríkisstarfsmenn hafi þegar fengið mjög verulegar hækkanir umfram aðra aðila vinnumarkaðarins og fyrirheit um að í febrúarmánuði n. k. falli úrskurður um sérkröfur einstakra félaga innan BSRB og þá bætist enn við þann kjaramismun. Á sama tíma hefur forusta Alþýðusambands Íslands gert kjarasamning til vors, þar sem öllum sérkröfum var í fyrsta lagi ýtt úr af borðinu og í öðru lagi var þannig frá samningum gengið að Alþýðusamband Íslands getur engar kröfur gert um kjarabætur á tímabilinu þó að samið sé við aðra fjölmenna launþegahópa um mun meiri launahækkanir en félögin innan Alþýðusambands Íslands hafa fengið. Ég bið hæstv. fjmrh. að gera grein fyrir samningunum, ég spurði um þá.