16.12.1981
Neðri deild: 25. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1621 í B-deild Alþingistíðinda. (1346)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur spurst fyrir um samning BSRB og fjmrh., sem undirritaður var nú fyrir skemmstu, og óskaði eftir að nánari grein yrði gerð fyrir samningnum hér á hv. Alþingi. Mér finnst satt að segja að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sé nokkuð seinn að spyrja þar sem nú eru fimm dagar liðnir síðan samningur þessi var undirritaður. Hann er ekki vanur að vera svona seinn á sér svo að ég átta mig ekki á því, hvers vegna dregst svo mjög hjá honum að spyrja tíðinda af þessum samningum.

Það er rétt, sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda og flestum landsmönnum mun kunnugt, að hinn 11. des. s. l. var undirritaður nýr aðalkjarasamningur milli fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs og BSRB. Samningur þessi er að meginuppistöðu sambærilegur við samninga þá sem aðildarfélög Alþýðusambands Íslands gerðu við vinnuveitendur í fyrra mánuði. Kjarni samningsins er sá, að samið er um 3.25% grunnkaupshækkun frá 1. nóv. og að lágmarkstekjutrygging þeirra, sem laun höfðu undir 5213 kr., miðað við 1. nóv. s. l., er hækkuð til samræmis við þá hækkun sem varð á lágmarkstekjutryggingu hjá félagsmönnum í aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands. Til viðbótar kemur svo hitt, sem hv. þm. nefndi réttilega, að gert er ráð fyrir sérkjarasamningum aðildarfélaga BSRB. Vegna þess að hv. þm. gerði mjög mikið úr því atriði í máli sínu áðan neyðist ég til að gera frekari grein fyrir því, hvers vegna gerðir eru sérstakir sérkjarasamningar á næstu mánuðum við BSRB. Það er ósköp einfaldlega vegna þess að lagaskylda knýr okkur til þess. Í 2. gr. laga um kjarasamninga BSRB segir: „Kjarasamningur greinist í tvo þætti, aðalkjarasamning og sérkjarasamning.“ Og í 7. gr. laganna segir: „Í sérkjarasamningi skal kveðið á um röðun manna og starfsheita í launaflokka svo og þau kjaraatriði sem aðalkjarasamningur tekur ekki til og eigi eru lögbundin“. Í 9. gr. segir: „Uppsögn aðalkjarasamnings felur í sér uppsögn sérkjarasamninga. Sérkjarasamningum verður ekki sagt upp sérstaklega.“ Og í 16. gr. segir: „Unnið skal að gerð sérkjarasamninga jafnhliða því sem unnið er að gerð aðalkjarasamnings.“ Það er því alveg ljóst af þessum tilvitnunum, að aðalkjarasamningur verður ekki gerður milli ríkisins annars vegar og BSRB hins vegar að óbreyttum lögum nema sérkjarasamningur fylgi. Um þetta hefur að sjálfsögðu enginn ágreiningur verið. Lögin eru skýr og ótvíræð og því hlýtur að verða unnið að sérkjarasamningum í kjölfar þessa aðalkjarasamnings. Hitt er rétt að benda á, að aðildarfélög Alþýðusambands Íslands hafa ekki verkfallsrétt um sérkjarasamning, en verði ágreiningur milli ríkisins og aðildarfélaga BSRB skal kjaranefnd taka málið til úrskurðar. Hún er eins konar gerðardómur í slíkum ágreiningsmálum. En af þessu leiðir að ekkert verður um það fullyrt á þessu stigi hvað út úr sérkjarasamningum kemur.

Ég vil bæta því við, að þessi samningur við BSRB er vissulega ekki að öllu leyti nákvæmlega eins og samningurinn sem gerður var við Alþýðusambandið. Ég held að ég megi fullyrða að samningur við BSRB hafi aldrei verið nákvæmlega eins og samningur við Alþýðusambandið. Árið 1977 voru gerðir samningar við báða þessa aðila, annars vegar af vinnuveitendum og hins vegar af ríkinu, og þá var talið að BSRB hefði fengið jafnvel heldur meira út úr þeim samningum en Alþýðusambandið. Aftur á móti er enginn vafi á því, að í þeim kjarasamningum, sem áttu sér stað á árinu 1980, kom allverulega miklu meira í hlut félagsmanna í aðildarfélögum Alþýðusambandsins heldur en í aðildarfélögum BSRB, enda voru samningar þeirra síðarnefndu gerðir þremur mánuðum áður en samningar hinna fyrrnefndu. Talið var að niðurstaða úr samningum við BSRB hefði gefið beina kauphækkun um 2–3% að jafnaði, í einstaka tilviki upp í 41/2%, en eins og kunnugt er varð niðurstaðan sú í hinum almennu samningum ASÍ-félaganna síðar þetta haust, að samið var hækkun sem var á bilinu frá 7 og upp í 12%.

Eins og áður segir er það rétt, að samningur BSRB við fjmrh. er ekki nákvæmlega eins og samningur sem ASÍ-félögin hafa gert. Skiptir þar mestu máli og ber hæst að samningurinn gildir til nokkru lengri tíma. Hann gildir til 31. júlí n. k. sem er 21/2 mánaðar lengri samningstími. Aftur á móti eru tvö atriði sem BSRB-menn gætu talið sér sérstaklega til tekna. Það er í fyrsta lagi sú persónuuppbót sem greidd hefur verið mörg undanfarin ár í desembermánuði og hefur verið einskorðuð við að viðkomandi hafi átta ára starf að baki sér. Þetta starfsaldursmark er nú lækkað í þrjú ár. Það er vissulega aðeins lítill hluti félagsmanna BSRB sem nýtur þessa samningsákvæðis. Mikill meiri hluti þeirra naut þessarar persónuuppbótar áður en þessir samningar höfðu verið gerðir. En það þótti eðlilegt og sanngjarnt að rýmka þennan rétt þannig að hann næði til fleiri félagsmanna en áður var. Kostnaður ríkisins af þessu mun vera um 4 millj. kr. eða sem svarar 0.36% miðað við árslaun félagsmanna BSRB. Í öðru lagi var um það að ræða að 15 ára starfsaldurshækkun lækkaði í 13 ár, þ. e. að sú starfsaldurshækkun, sem átti að koma við 15 ára starfsaldur, er nú miðuð við 13 ára starfsaldur. Þetta gildir þó ekki fyrr en frá 1. maí 1982. Talið er að kostnaður fyrir ríkið af völdum þessa sé um 2 millj. eða sem svarar um 0.19% gjaldaauka miðað við þau laun sem greidd eru félagsmönnum BSRB.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða miklu frekar um þetta mál. Þó er kannske rétt að láta þess getið, að samkv. útreikningum fjmrn. mun aðalkjarasamningur þessi kosta 3.85% launaaukningu miðað við þau laun sem greidd hafa verið félagsmönnum BSRB á ári. Einnig vil ég nota þetta tækifæri til að árétta það — vegna þess að til þess hefur verið vitnað m. a. hér á Alþingi, að ég hafi sagt ekki alls fyrir löngu að nógir peningar væru til til þess að greiða opinberum starfsmönnum hærra kaup, og þessi tilvitnun hefur heyrst hjá stjórnarandstæðingum næstum að segja daglega — að ég hef nú þegar leiðrétt þetta og andmælt því að ég hafi orðað þetta nokkurn tíma á þennan veg. Hins vegar komu þessi mál til umræðu á samningafundi. Þessi orð eru ekki höfð eftir mér. Ég hef ekki sagt þetta við fjölmiðla. Hins vegar mun einhver samninganefndarmaður í BSRB hafa orðað þetta við fjölmiðla og síðan hefur það verið afflutt í hvert sinn sem það hefur borist manna á milli og er nú orðið víðs fjarri því sem það var þegar ég lét það frá mér fara. Það, sem ég sagði, var að kjör félagsmanna BSRB réðust ekki af því, hvort fjárhagur ríkisins væri bágborinn eða stæði vel á hverjum tíma. Ef rekstrarhalli er á ríkissjóði er ekki líklegt að fjmrh. segi við þær aðstæður: Nú geta félagsmenn BSRB ekki fengið neina breytingu á sínum launakjörum þótt aðrir hafi fengið slíkt, því að það eru ekki peningar í ríkissjóði til að greiða það. Ég er viss um að enginn fjmrh. mundi segja slíkt. Eins er hitt, að þó að einhver afgangur kunni að vera í ríkissjóði annað árið, þá ræður það engu um hvaða laun BSRB-menn fá. Það, sem ég var því að segja, var ósköp einfaldlega að kjör BSRB-manna réðust af öðrum lögmálum. Þessi lögmál eru þær breytingar og hreyfingar sem verða á hinum almenna vinnumarkaði. Sem sagt, ef hreyfing verður á launum sem nemur milli 3 og 4%, þá er eðlilegt að samningar séu gerðir í þeim dúr.

Hins vegar er ljóst að með tíð og tíma vill skapast nokkurt ósamræmi milli launakjara, sem starfsmenn ríkisins hjá BSRB njóta, og þeirra launakjara, sem í gildi eru á hinum almenna vinnumarkaði, og þá ber að reyna að samræma þessi kjör og minnka þetta bil. Ef einhverjar breytingar eiga sér stað við gerð sérkjarasamninga, þá mun það fyrst og fremst stafa af því, að menn komast að þeirri niðurstöðu, að einhver munur sé á þeim kjörum, sem BSRB-menn njóta, annars vegar og hins vegar þeim sem boðin eru á hinum almenna vinnumarkaði. Sú hreyfing, sem hugsanlega gæti orðið í sérkjarasamningum BSRB, er þá fyrst og fremst leiðrétting og samræming miðað við aðra.

Ég býst við að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sé sammála mér um það, enda fyrrv. fjmrh. sjálfur, að ekki sé gæfulegt fyrir ríkið að bjóða starfsmönnum sínum lakari kjör en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði og ef í ljós kemur, að um mismunun sé að ræða, þá sé eðlilegt og sjálfsagt að leiðrétta það. Ég er sannfærður um að við erum innilega sammála um það. Eins erum við áreiðanlega innilega sammála um að lög á ekki að brjóta. Ef það stendur í lögum, að sérkjarasamningar skuli fara fram í tengslum við gerð aðalkjarasamnings, þá hljótum við að framfylgja þeim lögum. Þar duga engin undanbrögð.

Að lokum við ég bera fram eina spurningu. Vegna þess að ég átta mig ekki alveg á tilefni þessara umr. og vegna þess að ég hygg að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, formaður þingflokks Alþfl., hljóti að fylgjast það vel með fréttum að hann viti um allt efni samninga ríkisins við BSRB — ég held að honum hljóti að vera fullljóst hvað þar var um samið — þá vil ég leggja fyrir hann þessa spurningu — og ég veit að fjölmiðlar munu fylgjast mjög grannt með svörum hans: Er hann með því að vekja máls hér á Alþingi á samningum BSRB að koma á framfæri þeirri skoðun Alþfl., að of vel hafi verið gert við opinbera starfsmenn? Ég er sannfærður um að það eru fleiri en ég og það eru fleiri en fjölmiðlamenn hér sem hafa áhuga á svari formanns þingflokks Alþfl. við þessari spurningu. Það kynni vel að vera að þeir félagsmenn BSRB, sem eru að greiða atkvæði nú þessa dagana um samning þann sem þeir hafa gert við ríkið, hefðu áhuga á að heyra svar hv. þm. Sighvats Björgvinssonar við þessari spurningu.