21.10.1981
Neðri deild: 5. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

10. mál, héraðsútvarp

Páll Pétursson:

Herra forseti. Hv. þm. Benedikt Gröndal flytur hér frv. um héraðsútvarp. Hv. þm. Friðrik Sophusson benti réttilega á að það væri ekki nýtt að flytja frumvörp um útvarpsstöðvar sem störfuðu í samkeppni við Ríkisútvarpið. En það verð ég að segja, að mér sýnist að þetta sé miklu betra frv. en þeir fyrirrennarar þess sem hv. þm. Friðrik Sophusson var að vitna til. Ég tel að það sé ástæða til að athuga þetta frv. mjög gaumgæfilega og það fái vandlega skoðun í nefnd.

Menn hafa hér verið að tala um einokun ríkisins á útvarpsrekstri og talið hana sumir hverjir af hinu illa. Mér leiðist þessi rógur og last um útvarp og sjónvarp. Ég held að þarna sé yfirleitt dugandi fólk að störfum og leggi mikið af mörkum til dagskrárgerðar og fréttaöflunar. Bæri fremur að þakka þessu fólki fyrir vel unnin störf við oft og tíðum erfiðar aðstæður en að vera sí og æ að tala niðrandi um verk þess. Jafnframt vil ég ekki heyra neitt ljótt um útvarpsráð því að ég held að það sé skynsamlegt fyrirkomulag að hafa viðlíka stjórn á þessari stofnun.

Það má alltaf velta vöngum yfir því, hvort fjölmiðill eins og Ríkisútvarpið — sjónvarpið veiti fullnægjandi þjónustu. Ég vil meina að það, sem einum getur þótt fullnægjandi þjónusta, t. d. mér, kann að vera ófullnægjandi fyrir einhverja aðra. En ég vil meina að þessir fjölmiðlar veiti furðugóða þjónustu og alls ekki úrelta þjónustu, eins og var verið að tala um hér í umr. Auðvitað sníður þröngur fjárhagur stakkinn, og auðvitað hefði þetta fólk löngun til að gera enn betur ef því væri fjárhagslega gert það kleift. En svo verður að búa sem á bæ er títt, og það er margt sem þarf að gera í þessu þjóðfélagi.

Það þarf náttúrlega að gá að peningamálum svona stofnunar eins og annars staðar. Auglýsingamarkaður okkar er ekki stór og e. t. v. er hann ekki til skipta.

Ég vil ekki fara að stofna til héraðaútvarpa ef þau yrðu með einhverjum hætti til að draga úr starfsemi Ríkisútvarpsins, með einhverjum hætti til að rýra tekjur þess eða gera því örðugra fyrir. Ég er sammála því, að héraðsútvarp þurfi auðvitað að hafa auglýsingatekjur. Það kann að vera að menn komist að sömu niðurstöðu og flm., að markaðurinn sé stærri, staðbundinn markaður mundi koma þarna til greina í héraðaútvarpi svo ekki drægi frá Ríkisútvarpinu. Þá er þetta í lagi. Ég er jafnframt ekkert mótfallinn þeirri hugmynd að leggja skatt á sölu myndbandatækja, myndbanda, segulbandstækja og segulbanda, eins og segir í 6. gr. Ég held að uppbygging þess myndbandafargans, sem tröllríður nú þjóðinni, sanni að fólk virðist ekki horfa í eyrinn í þessu tilfelli. Þarna er alveg vafalaust upplagður skattstofn, annaðhvort til héraðsútvarps eða einhverra annarra hluta, því að útþensla þess arna hefði náttúrlega ekki orðið með þeim hætti sem raun hefur orðið á á þessu ári ef þetta væri ekki óeðlilega ódýrt. Mér sýnist, án þess að ég vilji ræða þetta myndbandamál frekar á þessu stigi, að þar þurfi nú að taka til hendinni.

Ég gæti fallist á að okkur vantaði ýmislegt fleira og ýmislegt fremur en útvarpsstöðvar, og sjálfsagt væri hægt að telja upp margt af því taginu. En þetta frv. er betra að mínum dómi en hliðstæð frumvörp, sem ég hef áður séð, og menningarlegra að allri gerð, enda við því að búast þar sem 1. flm. er hv. þm. Benedikt Gröndal sem gerþekkir málefni útvarpsins og ber til þeirrar stofnunar góðvilja, en ekki óvild, eins og mér virðist því miður kenna iðulega í ræðum einstaka þm. Þess vegna held ég að þetta frv. sé allrar athygli vert og sé sjálfsagt að skoða það vandlega.