16.12.1981
Neðri deild: 25. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1625 í B-deild Alþingistíðinda. (1351)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu á valdi forseta hvernig hann hagar fundarstörfum. Hins vegar hefur það ekki þótt kurteisi, allra síst þegar einstakir ráðherrar eru mjög ertandi í málflutningi og fara svona frjálslega með sannleikann — svo ekki sé meira sagt, að taka mál þá umsvifalaust út af dagskrá áður en þingflokksfundir eru haldnir og setja annað mál á dagskrá öllum að óvörum, fresta síðan fundi til hálfsex, svo að ekki gefst einu sinni sá tími sem er venjulegur fundartími þingflokka, og byrja þá umr. um enn annað mál.

Ég vil vekja athygli á því, að ég er hér að tala um mál sem frsm minni hl. fjh.- og viðskn., hv. 3. þm. Austurl., óskaði sérstaklega eftir að yrði hraðað hér í deild, — mál sem samkomulag var um, að menn héldu, að greiða heldur fyrir. En eftir ræðu tveggja ráðherra hér í deildinni í dag er óhjákvæmilegt að taka þetta mál allt til nýrrar umræðu og athugunar og algerlega óþolandi að stjórnarandstöðunni sé með þessum hætti sýnd lítilsvirðing.

Við vitum að það er greiður aðgangur að fréttamönnum hér fram að þingflokksfundum, fram til kl. fjögur, og auðvitað átti að gefa stjórnarandstöðunni kost á að svara þeim ummælum sem fram komu í ræðu hæstv. forsrh. áðan. Auðvitað veit ég það ósköp vel eins og ég sagði áðan, að einstakir þm. eiga erfitt um vik ef fundum er þannig stjórnað. En ég vil vænta þess, að annað tveggja verði þetta mál tekið af dagskrá og bíði næsta fundar eða það verði þegar í stað tekið á dagskrá, svo að halda megi áfram að ræða málið, og gerðar séu ráðstafanir til að hæstv. forsrh. sé við.

Ég vil vekja athygli á því jafnframt, að það komi hér upp ágreiningur á milli tveggja hæstv. ráðh., hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds og hæstv. viðskrh. Tómasar Árnasonar, um hvernig bæri að skilja þær skuldbindingar sem ríkissjóður hefði í sambandi við lántökuheimild. Eðlilegt hefði verið að hæstv. forsrh. hefði skorið úr þeim ágreiningi í stað þess að koma með fimm aura brandara um seðlaprentun í Seðlabankanum.