17.12.1981
Efri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1644 í B-deild Alþingistíðinda. (1363)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Frsm. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti hv. minni hl. í fjh.- og viðskn. sem í eru ásamt mér þeir hv. þm. Eyjólfur Konráð og Kjartan Jóhannsson.

Ég vil taka undir það með formanni, að hv. nefndir hafa unnið drjúgt starf á stuttum tíma. Fjh.- og viðskn. fékk þetta frv, til lánsfjárlaga til athugunar fljótlega eftir þingbyrjun, en vinna í nefndinni var ekki hafin fyrr en fimmtudaginn 10. des. s. l. Þá var loks ljóst að hæstv. ríkisstj. óskaði eftir að þetta frv. yrði afgreitt fyrir jól Nefndin hélt fundi á föstudagsmorgun og laugardag, en þá komu fram veigamiklar tillögur frá fylgismönnum ríkisstj. um ákvæði í frv. sem forráðamenn lífeyrissjóðanna töldu hreina eignaupptöku og varða við stjórnarskrá. Fór nær allur tími nefndarinnar í að ræða við fulltrúa lífeyrissjóðanna og þetta vandamál sem upp kom, en sáralítill tími hefur gefist til að kanna þetta viðamikla mál að öðru leyti.

Á sinn hátt er frv. til lánsfjárlaga ekki síður mikilvægt og stefnumarkandi í ríkisfjármálunum en fjárlagafrv. Það gefur auga leið að þeir fáu dagar, sem hv. fjh.- og viðskn. beggja deilda hafa haft til að fjalla um þetta veigamikla mál, eru allt of skammur tími til þess að hægt sé að segja að þessi afgreiðsla sé með skaplegum hætti.

Í sambandi við fram komnar hugmyndir hæstv. ríkisstj. um að taka fyrst 45% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna með lögbindingu til að fjármagna lánsfjáráætlun og síðari hugmyndir meiri hl. n. vil ég taka það fram, að þarna komu fram hugmyndir sem lífeyrissjóðamenn, eins og ég sagði áðan, litu á sem hreina eignaupptöku. Ég vil benda á það í þessari hv. deild, að tekjur fjárlaga á þessu ári eru áætlaðar um 8 milljarðar íslenskra nýkr. og niðurstöðutölur lánsfjáráætlunar og lánsfjárlaga eru eitthvað nálægt 2000 millj. kr. Meginatriði þessara tveggja lagabálka, fjárlaga, sem gera ráð fyrir 8 milljörðum kr., og lánsfjárlaga, sem gera ráð fyrir 2000 millj. kr. í lántökur, koma frá ríkisstj. hverju sinni. Þetta eru 10 milljarðar kr., 1000 milljarðar gkr. eða 37% af þjóðarframleiðslunni. Þannig má segja að ríkisstj. ráðstafi með atbeina meiri hl. Alþingis að sjálfsögðu á hverjum tíma upp undir 40% af því sem við hófum til skipta í þjóðarbúinu. Þess vegna skil ég mætavel að forráðamenn þeirra stofnana, sem telja þær vera sjálfseignarstofnanir og eign viðkomandi sjóðsfélaga, reyni að sporna við fótum þegar lengra á að ganga í því að ríkisvald seilist til að taka fjármagn af sjálfstæðum aðilum. Ég hef hér greint frá því, að 37% af þjóðarframleiðslunni er í raun ráðstafað með þessum hætti, auk þess sem ríkisstj. á hverjum tíma hefur auðvitað áhrifavald yfir miklu meiri fjármunum en ég hef greint frá.

Ég vil draga saman nokkur aðalatriði í stefnu frv. til lánsfjárlaga og benda á helstu vinnubrögð í sambandi við afgreiðslu þessa máls.

1. Forsendur þessa frv. eru þær, að það verði 33% verðbreyting milli áranna 1981 og 1982, en það þýðir 25–27% verðbólgu frá ársbyrjun til ársloka 1982. Þetta er sama grundvallarforsenda og „reiknitala“ fjárlagafrv., eins og kunnugt er. Frá því að þessi reiknitala var ákveðin hefur orðið 4.25% meiri launahækkun en reiknað var með á þeim tíma, þ. e. bæði grunnkaupshækkun og meiri verðbótahækkun á laun. Augljóst er að verðbólga umfram þessa forsendu hefur miklu meiri röskun í för með sér, þegar um er að ræða lánsfjárlög, en gerist um fjárlög. Í lánsfjárlögum er kveðið á um ákveðna krónutölu til tiltekinna verkáfanga. Verði verðbólga umfram forsendur þarf því annað tveggja að koma til: niðurskurður framkvæmda eða meiri lántaka. Seðlabanki Íslands segir í bréfi til fhj.- og viðskn., að verðbólgustig nú sé 50%, og Þjóðhagsstofnun spáir 55% verðbólgu á næsta ári. Það er því alveg ljóst að verðbólgan er ekki á niðurleið. Hún er í sama farinu og hún var þegar hæstv. ríkisstj. tók við. Það er því byggt á mikilli bjartsýni að byggja afgreiðslu lánsfjárlaga á „reiknitölu“ fjárlagafrv. og getur haft miklu afdrifaríkari afleiðingar í rekstri þjóðarbúskaparins en þótt þessi reiknitala sé grundvöllur í fjárlögum, einfaldlega vegna þess sem ég sagði áðan. Tekjur fjárlaga hækka sjálfkrafa, ef verðbólgan verður meiri, að 90%-hlutum, en ekkert slíkt skeður í sambandi við lánsfjárlög.

Annað atriðið, sem ég vildi nefna sem höfuðatriði, er að innlend fjáröflun er augljóslega í lausu lofti og stórlega ofmetin samkv. þessu frv. T. d. er ætlunin að selja spariskírteini á næsta ári fyrir 150 millj. kr., en salan í ár verður að hámarki 40–50 millj. Það er sem sagt ætlunin að selja þrefalt meira af spariskírteinum á næsta ári en tókst að selja í ár. Úr lífeyrissjóðunum er ætlað að afla 460 millj. kr. til Framkvæmdasjóðs, húsnæðismálasjóðanna, Stofnlánadeildar landbúnaðarins og ríkissjóðs, en í ár var þessi fjáröflun 1. nóv. aðeins 227 millj. Það er gert ráð fyrir að fara inn á nýja braut með innlenda fjáröflun í þessu frv. og fylgigagni þess, sem er fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, þ. e. leggja á nýjan skatt, byggðalínugjald, og það á að gefa 40 millj. kr. En engar upplýsingar hafa fengist um hvernig þessu gjaldi á að haga eða yfirleitt hvort þetta verður lagt á, þannig að þessi liður innlendrar fjáröflunar er algerlega í lausu lofti.

Erlend fjáröflun er aukin með þessu frv. um nálægt því 170 millj. kr., en hún var ærin fyrir, einkum þegar haft er í huga að orkuframkvæmdir dragast saman á árinu 1982 um 40–50% að magni til. Hv. formaður fjh.- og viðskn. talaði áðan um erlendar lántökur. Ég tek undir margt af því sem hann sagði, en ég vil benda honum á að sú aukning á erlendum lántökum, sem hæstv. ríkisstj. og meiri hl. hv. n. féllst á, er að verulegu leyti í því fólgin, sem hann vildi vara við, að það er verið að taka lán til að veita ýmsum fyrirtækjum hallærisfyrirgreiðslu og fjármagna taprekstur. Á sama tíma sem það er gert er settur alveg járnharður rammi um að orkuframkvæmdir skulu ekki fara fram yfir ákveðið merk, og þær dragast saman, eins og ég sagði, um 40–50%. Þessi erlenda lántaka, sem verið er að auka hér, er m. a. til þess að Byggðasjóður geti veitt lán til að fleyta sjávarútveginum nokkrar vikur í viðbót.

Í fjórða lagi er alger óvissa um fjármögnun Framkvæmdasjóðssamkv. þeim fjáröflunarhugmyndum sem í þessu frv. eru. Á næsta ári skortir hann samkv. þessu helming þess lánsfjár sem hann átti að fá í ár úr lífeyrissjóðunum. Hann fékk einungis un 63 millj. af 123 sem hann átti að fá í ár samkv. lánsfjáráætlun. Hér er gert ráð fyrir að hann fái 110 millj. kr. úr lífeyrissjóðunum. Í ár má heita að hafi verið öngþveiti vegna þess, hve fjáröflun til Framkvæmdasjóðs og þar með atvinnuvegasjóðanna brást. Er augsýnilegt að það á að halda þessu enn áfram á næsta ári.

Í fimmta lagi er það meginatriði í þessu frv., að fjármögnun húsnæðissjóðanna er algerlega vonlaus eins og hugmyndir eru hér í þessu frv. og lánsfjáráætlun. Þeim er ætlað að afla hjá lífeyrissjóðakerfinu 297 millj. kr. á næsta ári, en höfðu fengið þaðan 110 millj. kr. á yfirstandandi ári. (EKJ: Er ekki eðlilegt að fjmrh. hlustaði á þetta?) Hæstv. fjmrh. sér ekki ástæðu til að hlusta á þetta. Hann sagði við fjárlagaumr. fyrir nokkrum dögum að það væri ekki ástæða til að fara neinum orðum um það, sem stjórnarandstaðan hefði sagt við þá umr., vegna þess að það væri búið að svara því öllu áður. Ég hélt að hæstv. fjmrh. hefði verið það lengi í stjórnarandstöðu að hann vissi að það þyrfti stundum að segja það sama nokkuð oft til þess að stjórnarherrarnir hlustuðu. (Gripið fram í.) — En ég held áfram með fjármögnun húsnæðissjóða. Þeir fengu úr lífeyrissjóðakerfinu 110 millj. á yfirstandandi ári, en það er ætlunin að þeir nái þaðan 300 millj. á næsta ári. Hv. þm. Stefán Jónsson, er þetta ekki mikil fjármálaspeki? (StJ: Röskir strákar.) Skyldusparnaður er áætlaður þannig í þessari lánsfjáráætlun og frv. til lánsfjárlaga til húsnæðissjóðanna að þar nái húsnæðissjóðirnir í um 25 millj., ef ég man rétt, eða jafnvel hærri tölu, en í ár fæst nákvæmlega ekkert nettó út úr skyldusparnaðinum. Það er svo kannske ástæða til að geta þess, að húsnæðissjóðirnir standa frammi fyrir þeim vanda, sem þeir hafa aldrei staðið frammi fyrir áður í sögunni, að um áramót verði 40 millj. kr. yfirdráttarskuld hjá þeim í Seðlabankanum.

Sjötta meginatriðið, sem ég vil leggja áherslu á í sambandi við þessi lánsfjárlög, er að íbúðum byggðum á vegum einstaklinga hlýtur að fækka enn á næsta ári fjórða árið í röð vegna fjárskorts sjóðanna, sérstaklega almenna byggingarsjóðsins, þ. e. Byggingarsjóðs ríkisins. Stjórn hans gerði ráð fyrir í að nálægt 50 millj. kr. meira ráðstöfunarfé yrði varið til hans en þessi lánsfjárlög gera ráð fyrir, en það hefði tryggt að 1 175 frumlán hefði verið hægt að veita á næsta ári til íbúðabygginga. Þessi áætlun er húsnæðismálastjórnar, en 1978 voru þetta 1665 frumlán, þannig að þessi áætlun gerði ráð fyrir rauninni 30–40% færri frumlánum til íbúðarhúsabygginga en 1978. Þessi tala, frumlán til íbúðabygginga, hefur farið sílækkandi á undanförnum árum einfaldlega vegna þess að ungt fólk telur ekki árennilegt að byggja með þeim kjörum sem því eru veitt í þessu kerfi. Það má geta þess, að út á staðalíbúð fá menn 17.4% af byggingarkostnaði í lán úr almenna byggingarlánakerfinu, en 90% ef þeir byggja í verkamannabústöðum. Það eru náttúrlega ekki allir sem fá lán úr verkamannabyggingasjóðakerfinu. Það er spurning fyrir þá, sem hafa miðlungstekjur, hvernig þeir eiga að snúa sér í því að koma sér þaki yfir höfuðið þegar þannig er í pottinn búið eins og ég hef hér sagt, að það fjármagn er skorið niður á alla enda og kanta sem á að fara til einstaklinga þegar þeir eru að byggja yfir sig hús.

Sjöunda meginatriðið, sem ég vil leggja áherslu á í sambandi við afgreiðslu þessa máls, er það, að fjölmargir lausir endar eru í þessari áætlun. Hv. formaður nefndarinnar kom raunar inn á þetta. Það vantar hér fjármögnun til ýmissa aðila sem sent höfðu erindi til nefndarinnar. Í raun gafst nefndinni ekkert tóm til að athuga hvort hér væri um það að ræða að væri verið t. d. að stöðva með þessum ákvörðunum mikilvægar framkvæmdir. Hv. formaður talaði einungis um tvær hitaveitur, Hitaveitu Borgarfjarðar og Hitaveitu Rangæinga. Þar voru beiðnir um verulega háar fjárhæðir sem var hreinlega hafnað, en vísað til þess, að þær gætu e. t. v. rúmast innan orkurammans, að fjármagn til orkumála mætti ekki fara fram úr einhverjum ákveðnum ramma og það yrði að rúmast innan hans. Engin afstaða var tekin til þess, hvort þetta væri hægt eða hvort þessar framkvæmdir mundu koma í gagnið fyrr en eftir svo og svo langan tíma. Tapast á þessu stórfé vegna þess að orkuframkvæmdir eru það sem er arðbærast, a. m. k. í opinberum framkvæmdum í landinu. En svona var unnið að þessu máli.

Sama má segja t. d. um Landsvirkjun, þar vantaði allverulegar fjárhæðir upp á áætlanir, og Rafmagnsveitu Reykjavíkur, sem hefur ekki fengið að hækka sína taxta að undanförnu og er rekin með stórtapi. Mér skilst á forráðamönnum þess fyrirtækis, að þeim hafi verið vísað á að þeir gætu fengið lán. Þeir hafa fengið neitun um hærri taxta. Svo þegar þeir biðja um lán fá þeir neitun þar. Hv. fjh.- og viðskn. gafst enginn kostur á að vita hvað mundi nú ske. Verður lokað fyrir rafmagnið hjá Reykvíkingum eða hvað skeður? Það er tæpast hægt að segja að það sé sæmandi fyrir stjórnvöld að haga sér þannig, segja við opinbert fyrirtæki sem er svona mikilvægt: Þið megið ekki hækka ykkar taxta. Þið skuluð taka lán. Þið verðið að reka fyrirtæki ykkar, þó það sé gott, með halla vegna þess að við erum í vísitöluleik. — En svo þegar fyrirtækið kemur og biður um lán, þá er sagt: Nei, því miður. Það er of mikil erlend lántaka. — Ég er alveg sammála því. Auðvitað á að segja þetta við svona fyrirtæki. Það er ekkert vit í því að reka fyrirtæki eins og Rafmagnsveitu Reykjavíkur með erlendum lánum, enda hefur það siður en svo upp á sig í baráttunni við verðbólguna. Verðbólgan magnast auðvitað þeim mun meir sem tekið er meira af erlendum lánum til að reka fyrirtæki eins og Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Það er hægt að hugsa sér að halda verðbólgu niðri þó að það sé mikill innflutningur á erlendu fjármagni. Ef það fjármagn er notað til uppbyggingar og til að auka þjóðartekjurnar og bæta þar með lífskjör er hægt að ráðast gegn verðbólgunni með ýmsum hætti með slíkum fjármagnsinnflutningi. En það er útilokað þegar menn taka erlend lán til að reka fyrirtæki eins og Rafmagnsveitu Reykjavíkur eða til að reka skipaflotann eða fiskvinnsluna, eins og hæstv. ríkisstj. hefur gert.

Í áttunda lagi vil ég taka undir það með hv. formanni, að erlendar lántökur eru ískyggilegar þegar á heildina er litið. Í þessu frv. er gert ráð fyrir mjög miklum erlendum lántökum. Ég sé að hæstv. viðskrh. ekur sér í sætinu. Hann hefur líka sagt að erlendar lántökur væru of miklar við núverandi skilyrði. En í árslok 1982 verður skuldastaða erlendra lána 39% og hefur aldrei verið svo há í sögu landsins, einmitt á því ári sem á að skera orkuframkvæmdir niður um 40–50% og greiðslubyrði erlendra lána í prósentum og útflutningstekjum verður komin í 18%, í árslok. Auðvitað er ekki hægt að segja að erlend lántaka sé alltaf af hinu illa, síður en svo. Ef erlend lán eru tekin til að auka þjóðarframleiðsluna og gera þjóðarbúið betur í stakk búið til að standa undir erlendum lánum, betur í stakk búið til að standa undir bættum lífskjörum fólksins, þá er hægt að réttlæta erlendar lántökur, jafnvel meiri en nú er. En því miður er erlend lántaka í stórum stíl núna í því skyni að fleyta undirstöðuatvinnuvegunum áfram, að fleyta fyrirtækjum eins og Rafmagnsveitu Reykjavíkur, Landsvirkjun og slíkum fyrirtækjum áfram, jafnvel Sementsverksmiðju ríkisins eða Siglósíld norður á Siglufirði, í kjördæmi hæstv. fjmrh. Þetta eru ær og kýr núv. ríkisstj. í erlendum lántökum, og það er það sem er fyrst og fremst gagnrýnivert.

Á yfirstandandi ári fóru lánsfjáráætlun og lánsfjárlög mjög úr böndum. Þessi lög voru samþykki í vor. Þau eru aðeins nokkurra mánaða gömul. En viðbætur við þessa áætlun eingöngu að því er varðar opinber fyrirtæki eru a. m. k., að mér sýnist í þeirri skýrslu fyrir framan mig sem nefndinni barst frá fjmrn., 7, 8 og 9 veigamikil atriði. Þessu hefur verið bætt inn í opinberar framkvæmdir samkv. lánsfjárlögum 1981 á yfirstandandi ári. Þar eru t. d. þrjú atriði sem alls ekki eru í gildandi lánsfjárlögum. Þar er 37.4 millj. varið til stofnkostnaðar virkjana sem ekki eru í lánsfjárlögum. Þar er Byggingarsjóður Listasafns Íslands með 4 millj. kr. Það er alls ekki heimild til þess í lánsfjárlögum. Þar er Sjóefnavinnslan með 4 millj. kr. Það er alls ekki heimild til þessa heldur í lánsfjárlögum. Alls eru viðbætur þessar upp á 165 millj. kr. í lögum sem samþykki voru fyrir aðeins nokkrum mánuðum. Nú vil ég benda hæstv. ríkisstj. á að hún hefur ekki óskað eftir heimild til að þetta verði löglegt, hún hefur ekki óskað eftir heimild í 28. gr. þessa frv. Þar er aðeins óskað heimildar fyrir því, að lánsfé í ár megi fara 42 millj, fram úr lánsfjárlögum, en ríkisstj. hefur alls ekki óskað eftir heimild til þess, að þessar lántökur, sem farið hafa fram úr áætluninni í ár, séu henni heimilar, að Alþingi heimili þær. Hæstv. ráðh. grettir sig í framan og segir jú. Þetta er samt alls ekki rétt. Fram kom í hv. nefnd að þarna skortir allverulega á fjárhæðina. Ég vil benda hæstv. ríkisstj. á að skoða þetta. Ef rétt er að hæstv. ríkisstj. hafi heimildir fyrir þessu skulum við hafa það sem sannara reynist.

En spurningin er, þegar þannig er staðið að framkvæmd lánsfjárlaga, hvort það sé í rauninni ómaksins vert fyrir Alþingi að vera neitt að grauta í þessu. Ég sé ekki að framkvæmd lánsfjárlaga í ár gefi yfirleitt tilefni til þess. Þó að það sé hart að segja það sem þm. sem vill að Alþingi láti meira að sér kveða gagnvart framkvæmdavaldinu og meira en það hefur gert, þá sýnist mér framkvæmdavaldið hafa hagað sér þannig í ár og hugsi sér að komast upp með svo mikið í framkvæmd lánsfjáráætlunar og lánsfjárlaga að það sé tæpast ómaksins vert fyrir hv. Alþingi að standa að því að leggja mikla vinnu í að afgreiða lánsfjárlög.

Í sambandi við lánsfjáráætlun í ár segir svo í skýrslu fjmrn.: „Sala spariskírteina og happdrættisbréfa hefur ekki gengið vel. Af þeim 90 millj. kr.. sem áætlað var að selja fyrir, er einungis búið að selja bréf að upphæð 32 millj. 679 þús. kr. Vöntun er tilfinnanleg eða 57 millj. 321 þús. kr. Væntanlega má rekja minnkandi áhuga á spariskírteinum og happdrættisbréfum til nýrra verðtryggðra sparnaðarforma sem bjóða upp á minni bindingu. Virðist sem það atriði vegi þyngra en þau góðu kjör sem boðin eru á spariskírteinum.“

Hv. formaður nefndarinnar sagði að hæstv. ríkisstj. væri að hugleiða að bjóða betri kjör á þessum bréfum. Ég held að það sé umhugsunarvert fyrir hæstv. ríkisstj. að fara mjög mikið inn á þá braut að slást á öllum þeim mörkuðum sem hún slæst á til að ná peningum, hvort það væri ekki eðlilegra að láta bankana um að ná í fé frá sparifjáreigendum. Bankakerfið gæti þá liðsinnt ríkisstj. í fjárþörf hennar að einhverju leyti meira en gert er nú, en það yrði þá þannig að það væru ekki þau slagsmál á milli ríkisins og bankanna sem við vitum að hafa verið undanfarin ár um sparifé. Það er ekki útilokað að mörg sparnaðarform geti kannske aukið sparnaðinn eitthvað, en í raun er þarna um að ræða sama fjármagn.

Í þessari skýrslu segir einnig um framkvæmdina á lánsfjáráætluninni í ár:

„Um fjármagn frá lífeyrissjóðunum almennt er fjallað sérstaklega á öðrum stað í þessari skýrslu, en sá hluti, sem hér er til umfjöllunar, þ. e. þeir sjóðir sem kaupa af endurlánum ríkissjóðs, en þar er aðallega um að ræða „opinberu sjóðina“ ásamt Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda, hafa staðið það vel við sínar kaupskyldur að kaup á árinu gætu hækkað um liðlega 5 millj. kr. Minnt er þó á að samkvæmt lánsfjáráætlun áttu þessi kaup að nema 60 millj. kr. sem síðan voru lækkuð í 56 millj. í meðförum framkvæmdavaldsins.“

Hér er sem sagt verið að fjalla um þátt ríkissjóðs í því að ná fé úr lífeyrissjóðakerfinu í ár. Það verður að segja að ríkissjóður hefur staðið sig hér með mikilli prýði. Hann hefur gengið hér fram fyrir skjöldu og náð inn öllu sínu fjármagni úr lífeyrissjóðakerfinu, en nota bene: skilið Framkvæmdasjóð, sem á að fjármagna atvinnuvegina, eftir á köldum klaka og Byggingarsjóð ríkisins, sem á að fjármagna íbúðabyggingar í landinu. en síðan hefur orðið að taka lán í Seðlabankanum. Að sjálfsögðu tekur ekki ríkissjóður það lán, hæstv. ráðh. — er það? Þegar það kemur skýrsla um áramótin um stöðu ríkissjóðs við Seðlabankann, þá tekur ekki Seðlabankinn það lán. Húsnæðismálastjórn tekur það þó að ríkissjóður hafi í raun tekið það fé úr lífeyrissjóðakerfinu sem húsnæðismálastjórn hefði átt að fá.

Á árinu 1980 byrjaði ríkissjóður að slást við Framkvæmdasjóð og Byggingarsjóð ríkisins um fé úr lífeyrissjóðum. Þá tókst það illa. Ríkissjóður ætlaði að ná þarna 60 millj. nýkr., en náði ekki nema 11.8, ef ég man rétt. Nú hafa verið tekin upp önnur vinnubrögð. Ákveðnum opinberum sjóðum, sem eiga að hafa mikið fé, er sagt: Þið borgið þetta í ríkissjóð. — Þar með hefur ríkissjóður með sínum yfirburðum náð þessu fé frá Framkvæmdasjóði í raun og Byggingarjóði ríkisins. Síðan er Byggingarsjóði skipað að taka lán í Seðlabankanum til að jafna þetta. Það er náttúrlega ekki lántaka sem ríkissjóður stendur að eða verður bókaður fyrir:

Þegar fjallað er um framkvæmd lánsfjáráætlunar í ár er fróðlegt að kynna hér hvernig Framkvæmdasjóður Íslands hefur farið út úr viðskiptum sínum við aðila í sambandi við hana og raunar þá um leið sjóðir atvinnuveganna. Í bréfi, sem nefndinni barst frá Framkvæmdasjóði, segir svo, með leyfi forseta.:

„Framkvæmd fjáröflunarþátta útlánaáætlunar Framkvæmdasjóðs fyrir árið 1981 hefur reynst mjög erfið og einn veigamikill þáttur hefur brugðist verulega, en það eru skuldabréfakaup lífeyrissjóða. Af áætluðum kaupum sjóðanna af Framkvæmdasjóði, 123 millj. kr., er útlit fyrir að einungis um 60 millj. kr. muni fást á árinu og mun því vanta um 63 millj. á fjáröflun samkvæmt lánsfjáráætlun. Um mál þetta er nánar fjallað í orðsendingu til fjmrh., dags. 20 nóv. s. l. Eftir viðræður við fjmrh. um lausn þessa máls er niðurstaða þessi:

a) Framkvæmdasjóður taki erlent lán að jafnvirði 25 millj. kr. Er það lágmarksfjárhæð til lausnar máli þessu.

b) Framkvæmdasjóður dragi nokkuð úr fyrirhuguðum lánum til stofnlánasjóða með fullu samþykki viðkomandi sjóða.

c) Skuldabréfakaup banka af Framkvæmdasjóði verði aukin til hins ítrasta í desembermánuði.

e) Sjóðstaða Framkvæmdasjóðs um áramót verði í lágmarki.“

Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh. hvort þessi bráðabirgðalausn á fjármálavanda Framkvæmdasjóðs hafi tekist og hvort bankarnir telji sig geta fjármagnað sjóði að því marki sem fram kemur í þessum atriðum. Ég vil vekja athygli á því, að að því er varðar niðurskurð á lánum Framkvæmdasjóðs til atvinnuvegasjóðanna fékk t. d. Iðnlánasjóður ekki það fé sem þar var áætlað. Í fjárlagafrv., sem nú er milli 2. og 3. umr., er gert ráð fyrir að skera Iðnlánasjóð niður um 88%. Hann fékk í fyrra 4 millj. kr. rúmar úr ríkissjóði í ríkisframlag, en núna fær hann 500 þús. kr. Og á þessu ári er skorið niður til hans úr Framkvæmdasjóði vegna þessarar fjárvöntunar. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. hvort hæstv. ríkisstj. hafi sérstaklega illan bifur á iðnaðinum og fjárfestingu í iðnaði. Það er gert ráð fyrir að Fiskveiðasjóður og Stofnlánadeild landbúnaðarins hækki í fjárframlögum frá ríkinu um 40% í fjárlagafrv. í ár, en svona er farið með stofnlánasjóð iðnaðarins. Ég vek athygli hæstv. ráðh. á því, að þótt hann segi að fjárframlög til Iðnrekstrarsjóðs hafi hækkað er Iðnrekstrarsjóður allt annað. Hann er ekki stofnfjársjóður. Spurningin er sú, hvort í þessu felist fjárfestingarstefna hæstv. ríkisstj. Er þarna um að ræða einn þátt í þeirri afturhaldsstefnu, sem hæstv. ríkisstj. hefur í atvinnumálum, að stöðva fjárfestingu í iðnaði?

Ég vík þá aðeins að lánsfjáráætluninni í ár nánar og fyrst þá að innlendri lánsfjáröflun.

Innlend lánsfjáröflun skiptist fyrst og fremst í þrjá meginþætti samkv. lánsfjáráætlun: Í fyrsta lagi er þar um að ræða fjáröflun úr lífeyrissjóðskerfinu. Þar er um langveigamestu fjáröflunina að ræða. Í öðru lagi er fjáröflun úr bankakerfinu. Og í þriðja lagi er um að ræða að afla fjár með spariskírteinasölu ríkissjóðs. Í fjórða lagi er raunar gert ráð fyrir að lagt verði á byggðalínugjald, en eins og ég gat um áðan liggja ekki fyrir nemar upplýsingar um það.

Ef fyrst er rætt um lífeyrissjóðina er ráðstöfunarfé þeirra á næsta ári áætlað 1 milljarður 180 millj. kr. Þar sem fallið var frá því að lögbinda 45% ráðstöfunarfé þeirra verður einungis um að ræða 472 millj. kr. fjáröflun í lífeyrissjóðakerfinu í ár. Fyrir 1980 voru aðeins tveir aðilar frá hinu opinbera sem sóttust eftir þessu fjármagni, þ. e. Framkvæmdasjóður og Byggingarsjóður ríkisins. (EKJ: Má ég vekja athygli frsm. á því, að bæði forsrh. og fjmrh. eru horfnir á braut. Væri ekki rétt að bíða? — Forseti: Ég vil taka það fram, að ef menn óska sérstaklega eftir úr ræðustól, að ráðh. verði kallaðir til, mun það að sjálfsögðu verða gert.) Herra forseti. Ég er nú orðinn ýmsu vanur af hæstv. ráðh. og kippi mér lítið upp við það þó þeir séu ókyrrir í sætum sínum, enda kannske ekki von að þeir vilji yfirleitt hlusta á almenna þm. tala um fjármál. Ég held að það sé hvorki þeirra sterka hlið að hlýða á þegar talað er um fjármál né yfirleitt fjalla um fjármál. Það sýnir öll stefna hæstv. ríkisstj. og fjármálagutl hennar að slíkt er ekki hennar sterka hlið.

Herra forseti. Ég held áfram ræðu minni. Á næsta ári verða það fjórir aðilar sem sækjast eftir fjármagni úr lífeyrissjóðum, en eins og ég sagði áðan voru það aðeins tveir árið 1980. Nú eru þetta Framkvæmdasjóður, Byggingarsjóður ríkisins, Byggingarsjóður verkamanna og ríkissjóður. Byggingarsjóður verkamanna áætlar að ná úr lífeyrissjóðakerfinu á næsta ári hvorki meira né minna en 111 millj. kr.. en í ár er það óverulegt fjármagn sem hann fær úr þessu kerfi. Nú vil ég benda hv. þm. á, sem vilja eitthvað velta því fyrir sér hvað er að gerast að þessu leyti í fjármálakerfinu, að það er mjög sennilegt að ýmsir sjóðir verkalýðsfélaganna vilji fyrst og fremst kaupa bréf af Byggingarsjóði verkamanna. Það er mjög skiljanlegt. En þegar þessi fjórði sterki aðili er kominn inn á þennan markað er engu líkara en eigi að fara að nota fjármagn lífeyrissjóðanna tvisvar og þrisvar því að þarna eru komnir aðilar sem sækjast eftir þessu fjármagni sem ég veit að ýmsir sjóðir hafa mjög mikinn áhuga á að efla. Að sjálfsögðu hafa verkalýðsfélögin áhuga á að kaupa t. d. bréf af Byggingarsjóði verkamanna, en sjóðir þeirra kaupa þá ekki bréf af öðrum. Þau kaupa þá ekki bréf fyrir sömu peninga af ríkissjóði eða almenna byggingarsjóðnum. Það er þessi þróun sem ég held að sé varhugaverð og sé engu síður rétt fyrir stjórnvöld að athuga en að höggva alltaf í þann sama knérunn að reyna að binda með lögum lífeyrissjóðina. Ég held menn ættu að títa sér nær og hafa einhvern skikk á því hvaða opinberir aðilar það eru sem ætla sér stóran hlut úr lífeyrissjóðakerfinu. Þegar allir þessir aðilar eru komnir og berja á dyrnar hjá lífeyrissjóðunum æsist leikurinn, eins og ég sagði áðan. Það er gert ráð fyrir í þessum lánsfjárlögum, að opinberu sjóðirnir taki nú úr lífeyrissjóðunum 422 millj. kr. lán á þessu ári, en þeir fengu aðeins 227 í fyrra. Í þessu plaggi hér er gert ráð fyrir að hið opinbera nái yfir 100% meira fé úr lífeyrissjóðakerfinu 1982 en gerist í ár. Ég vek athygli á því, að í nái. minni hluta n. er tafla frá Seðlabanka Íslands um lán lífeyrissjóða til fjárfestingarlánasjóða og ríkissjóðs á undangengnum árum. Þar er það mjög athyglisvert, að öll árin frá 1976 til 1979 kaupa lífeyrissjóðir affjárfestingarlánasjóðum mjög í átt við það sem ætlast er til samkv. lánsfjáráætlun.

Það skeikar afskaplega litlu. 1980, þegar ríkissjóður kemur líka inn í myndina, fer þetta pínulítið að skekkjast, og á þessu ári, þegar ríkissjóður gengur svona hart fram að ná sínu á þurru úr lífeyrissjóðakerfinu brestur önnur fjáröflun úr böndum.

Ein innlend fjáröflunarleið er sú, að bankakerfið hefur veitt lán til Framkvæmdasjóðs og ríkissjóðs með því að kaupa skuldabréf af þessum aðilum, fyrir 4% af innlánsaukningu af Framkvæmdasjóði og 3% af ríkissjóði. Á fund fjh.- og viðskn. komu bankastjórar viðskiptabanka, sparisjóða og fulltrúar Seðlabanka. Þeir voru sammála um að bankakerfið hefði „siglt kjörleiði“, eins og einn þeirra orðaði það fyrstu mánuði ársins. Síðan túlkuðu nm. það og því var ekki mótmælt, að það hefði verið skoðun manna að bankakerfið hefði siglt inn í þoku eftir kjörleiðið og væri að sigla í strand. Sumir vildu ekki fallast alveg á þá túlkun, en alla vega að bankakerfið væri inni í þessari þoku, sem sumir töldu að væri rauð, en aðrir höfðu einhvern annan lit á þokunni. En það kom mjög skýrt fram hjá þessum mönnum, að bankakerfið og peningamálin hefðu þróast mjög til hins verra á seinni hluta þessa árs. Raunar er komið svo að margar innlánastofnanir eru komnar í vanskil við Seðlabankann. Í skýrslu Seðlabankans um þessi atriði segir svo um útlán bankakerfisins:

Svo nefndar séu tölur um aukningu heildarútlána, þá var hún um 58% á árinu 1980, 53% á tólf mánuðum til marsloka, en 72% á 12 mánuðum til loka október mánaðar. Líklega stafar þessi breyting að verulegu leyti af því, hve rekstrar- og greiðsluafkoma fyrirtækja er léleg, einkum í útflutnings- og samkeppnisgreinum. En eftir mitt ár jókst almenn lánsfjáreftirspurn, að líkindum einnig vegna ótta við væntanlegar gengisbreytingar og verðlagshækkanir.“

Sem sagt: Í mæltu máli þýðir þetta að fé streymir úr bönkunum í fyrsta lagi vegna taprekstrar atvinnufyrirtækjanna og í öðru lagi vegna þess að fólk er hrætt við verðbreytingar og gengisfellingar.

Í skýrslunni segir enn fremur, með leyfi forseta: „Raunvextir hafa verið of lágir til að viðhalda jafnvægi á peningamarkaði, enda eru nú horfur á að verðbólgustig sé nálægt 50%, en fyrir þremur mánuðum var það metið 42%. — Ég endurtek: enda eru horfur á að verðbólgustig sé nálægt 50%, segir í skýrslu Seðlabankans til nefndarinnar.

Um innlán segir í þessari sömu skýrslu:

„Aukning heildarinnlána með áföllnum vöxtum skoðuð á hverju 12 mánaða tímabili hefur verið yfir 70% á þessu ári og náði hæst 78% í lok ágústmánaðar.“

Næstu tvo mánuði dró heldur úr aukningunni og til október loka nam hún 73%. Mér er tjáð að hún sé eitthvað í kringum 70% um þessar mundir eða eilítið undir útlánaaukningunni, sem þýðir að bankakerfið er í raun að sigla í strand. Í þessu sambandi vil ég því benda hæstv. ríkisstj. á það, vegna þess að mér skilst að hún hafi hugsað sér að reyna að ná í einhverja aura úr bankakerfinu til að ná innlendu fjáröfluninni eitthvað betur á veg en henni hefur tekist til þessarar lánsfjáráætlunar, að það virðist ekki vera þar um auðugan garð að gresja. Ég býst við að hæstv. viðskrh. sé mér sammála í þessum efnum þó að lítið sjáist á svip hans um það.

Þriðja atriði innlendrar fjáröflunar er spariskírteinasalan. Ég hef hér farið nokkrum orðum um það, en ég hef í höndum bréf frá Seðlabankanum til hv. fjh.- og viðskn. um það atriði og vil gjarnan lesa það, með leyfi hæstv. forseta:

„Fram að yfirstandandi ári var unnt að áætla sölu spariskírteina með nokkurri nákvæmni, enda var eftirspurn lengst af mun meiri en talið var rétt að anna með bréfaútgáfu. Þetta hefur breyst mjög, annars vegar við kaupskyldu lífeyrissjóða á sérstökum bréfum, og kaupa þeir þá frekar þau bréf, og hins vegar með opnun verðtryggðra sparifjárreikninga í bönkum.

Á þessu ári var áformað að selja skírteini fyrir 90 millj. kr., en aðeins hefur verið selt fyrir 38 millj. kr., auk 5 millj. kr. happdrættisbréfa, alls 43 millj. kr., og ekki horfur á verulegum fjörkipp fyrir áramót.“ Þetta gerist þrátt fyrir innlausn eldri bréfa um 60 millj. kr., en upplýst er að mjög lítið var tekið af nýjum bréfum í stað eldri við innlausn.

Allt þetta segir sína sögu. Ég held áfram, með leyfi forseta, lestri mínum úr bréfi Seðlabankans: „Frumáætlun Seðlabanka var, að á árinu 1982 gætu selst spariskírteini fyrir 120 millj. kr. Hins vegar mun innlausn væntanlega nema sömu fjárhæð. Með hliðsjón af því, svo og væntanlegu hertu söluátaki, hneigist fjmrn. til þess að áætla 150 millj. kr. sölu. Síðan hefur komið í ljós mun óhagstæðari reynsla en áður var gert ráð fyrir, svo sem að framan greinir. Er nú til nánari athugunar, hvernig unnt muni að örva sölu spariskírteina að mun, svo að komist verði nærri settu marki.“

Það er alveg ljóst hvað hér er á ferðinni. Meira að segja Seðlabanki Íslands hefur ekki gert ráð fyrir að tækist að selja nema fyrir 120 millj. á næsta ári af spariskírteinum, en hæstv. ríkisstj. hefur ákveðið sjálf að setja markið í 150 þrátt fyrir að ekki seljist fyrir nema 30–40 millj. í ár. Þetta er mikil fjármálasnilli.

Auðvitað er alvarlegasti þátturinn í fjáröflunarhugmyndum, sem að baki þessari lánsfjáráætlun búa, erlendu lántökurnar. Ég fór nokkrum orðum um það í upphafi ræðu minnar og skal ekki bæta þar miklu við öðru en því, að ítreka að sú braut, sem farið er inn á nú, að taka erlend lán til að fleyta atvinnuvegunum áfram nokkrar vikur og til að fjármagna rekstrartap stæltustu þjónustufyrirtækja þjóðarinnar, er náttúrlega forkastanleg, eins og kom raunar fram í ræðu hv. formanns nefndarinnar. En ég vil vekja athygli á að erlend lántaka til ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja hefur farið stórkostlega vaxandi á undanförnum árum. Ég las upp tölur um þetta í fjárlagaumr. Að raungildi hefur erlend lántaka til A- og B-hluta ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja þrefaldast. Hún hefur þrefaldast að raungildi síðan 1978. Þar er á ferðinni einn þátturinn í því, að ríkisfjármálin eru komin í þann farveg, að það er ekki einvörðungu um stórfelldar skattahækkanir að ræða árlega, heldur er alltaf verið að fara meira og meira inn á þá braut að taka lán til ýmis konar þarfa hins opinbera og auka þannig umsvif ríkisins fram yfir skattahækkanir. Þetta hefur eitt veigamikið í för með sér, að þessi lán þarf að borga, hv. þm. Þessi lán þarf að borga og þá þarf að leggja á skatta til þess að hið opinbera geti greitt þessi lán. Þetta er ávísun á skattahækkanir í framtíðinni. Þetta er frestun á vanda. Það er grundvallarstefna hæstv. ríkisstj. að taka lán og fresta vandanum: Þeir. sem taka við, verða svo að leggja á skatta til greiðslu lánanna.

Ég benti á það áðan, að á næsta ári er gert ráð fyrir stórfelldum samdrætti í orkuframkvæmdum, en að erlend lántaka væri samt sem áður gífurleg. Ég vil vekja athygli á því, að geri maður sér grein fyrir því, hve skuldabyrði þjóðarbúsins hefur aukist í erlendri mynt, var hún í árslok 1977 aðeins 632 millj. dollara, en hún verður í árslok 1982 1320 millj. dollara. Hún hefur rúmlega tvöfaldast á þessum tíma í erlendri mynt. Það, sem er kannske alvarlegast við þetta, er að nú horfir einu sinni enn illa fyrir íslensku þjóðarbúi. Fjh.- og viðskn. fékk í hendur skýrslur frá Þjóðhagsstofnun um utanríkisviðskipti, horfurnar í þjóðarbúskapnum á næsta ári og utanríkisviðskipti. Þar kom fram að á þessu ári er gert ráð fyrir miklu meiri viðskiptahalla en í fyrri þjóðhagsspá, því miður, en á næsta ári tekur steininn úr. Ég vil leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa úr þessari skýrslu fyrir árið 1982 um spá um útflutningsframleiðslu frá Þjóðhagsstofnuninni. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1982 er sett fram spá um rúmlega 4% aukningu útflutningsframleiðslu á árinu 1982. Í þessari spá var miðað við nokkurn veginn óbreyttan afla frá þessu ári, en um 2% aukningu á framleiðsluverðmæti sjávarafurða á föstu verðlagi. Enn fremur var gert ráð fyrir, að álverksmiðjan og járnblendiverksmiðjan gætu starfað með fullum afköstum á árinu, en markaðsástand var þó talið ótryggt. Á þessum forsendum var talið að útflutningsframleiðslan í heild gæti aukist um rúmlega 4% og útflutningur um rúmlega 3% .

Frá því þessi spá var gerð hafa horfur versnað að því er varðar ál- og kísiljárnsmarkað, og einnig ríkir nú mikil óvissa um framhald loðnuveiða á næsta ári: Nú er útlit fyrir að framleiðslan á kísiljárni á næsta ári verði einungis um 44 þús. tonn, en afkastageta er 55 þús. tonn. Ástæða þessa samdráttar er minnkandi notkun á kísiljárni í heiminum vegna almenns efnahagssamdráttar. Í spám alþjóðastofnana um mitt ár var talið, að hagvöxtur í heiminum væri að glæðast á ný seint á þessu ári eða í byrjun næsta árs. Sú hefur þó ekki orðið raunin á. Nú eru horfur á, að hagvöxtur nái sér ekki á strik í helstu iðnríkjum fyrr en seint á næsta ári eða jafnvel ekki fyrr en á árinu 1983. Þetta mun m. a. hafa áhrif á markað fyrir ál og kísiljárn auk þess sem það mun hafa margvísleg áhrif á íslenska þjóðarbúskapinn. Í spá um útflutningsframleiðslu 1982 er þannig varla unnt að reikna með því, að álverksmiðjan starfi með fullum afköstum á næsta ári, þótt framleiðslan gæti orðið svipuð eða heldur meiri en á þessu ári. Álbirgðir hafa aukist á þessu ári og líklegt að þær vaxi enn á næsta ári.

Í þjóðhagsáætluninni var m. a. gert ráð fyrir svipuðum loðnuafla á næsta ári og á þessu ári, enda þá útlit fyrir að unnt yrði að veiða þann kvóta, sem ákveðinn var í sumar, og að kvótinn á næsta ári yrði a. m. k. ekki minni. Síðustu mælingar á loðnustofninum hafa hins vegar kollvarpað þessum forsendum. Alger óvissa ríkir nú um loðnuveiðar á næsta ári. Er því einungis unnt að taka dæmi til þess að gefa hugmynd um afleiðingar af verulegum samdrætti loðnuveiða. Sé t. d. miðað við að einungis verði veidd um 50 þús. tonn af loðnu í vetur (samanborið við 150 þús. tonn á s. l. vetri), fyrst og fremst til frystingar og hrognatöku, og aflinn á næstu haustvertíð verði aðeins helmingur af aflanum í haust eða um 250 þús. tonn, þá jafngildir það 5% samdrætti sjávarafurðaframleiðslunnar í heild. Þessi minnkun loðnuveiða mundi sennilega með einum eða öðrum hætti leiða til aukinnar sóknar í aðra fiskstofna, fyrst og fremst þorsk, sem þá kæmi niður á annarri útgerð, ef takmarka á heildaraflann. Hér verður einnig að líta til þess, að karfi hefur nú um skeið verið ofveiddur að áliti fiskifræðinga og gæti því þurft að draga úr þeim veiðum. Þegar á allt þetta er litið, virðist nú líklegast, að sjávarafurðaframleiðslan dragist saman á næsta ári í stað þess að í þjóðhagsáætlun var reiknað með 2% aukningu. Sé tekið dæmi af 3–4% minni framleiðslu 1982 en 1981, þá mundi útflutningsframleiðslan í heild dragast saman um nálægt 1.5% miðað við það sem áður var sagt um ál og kísiljárn. Í þjóðhagsáætlun var reiknað með rúmlega 4% vexti útflutningsframleiðslunnar. Í þessu dæmi yrðu útflutningstekjur því 5–6% minni en í fyrri áætlun eða um 500 millj. kr. minni. Þetta mundi vafalaust að einhverju leyti hafa þau áhrif, að innflutningur yrði minni en ella. Þó er ljóst, að á þessum breyttu forsendum stefnir í viðskiptahalla á næsta ári, einnig í ljósi þess að viðskiptahallinn á þessu ári verður talsvert meiri en áður var reiknað með. Þessi samdráttur útflutningsframleiðslunnar mundi einnig leiða til þess að öðru óbreyttu, að þjóðarframleiðslan yrði minni en gert var ráð fyrir í þjóðhagsáætlun.

Herra forseti. Það er einmitt þetta sem er hættulegt við erlendar lántökur af þessu tagi, sem hæstv. ríkisstj. stendur nú fyrir, að þegar svo syrtir í álinn, eins og hér er gefið í skyn að muni gerast á næsta ári og undir það rennt gildum stoðum, verður skuldabyrðin meiri, en geta þjóðarbúsins til að standa straum af skuldabyrðinni minnkar vegna þess að það er stórfelldur samdráttur í þeim framkvæmdum er gætu malað okkur gull og gætu staðið undir áföllum af þessu tagi, sem væri stórkostleg minnkun loðnuaflans og annarra útflutningsafurða. Ljóst er af þessu, að greiðslubyrði erlendra lána, ef útflutningstekjurnar hrapa svo sem kemur fram í þessari skýrslu, verður ekki 18% í lok næsta árs, heldur gæti hún orðið 20% , þ. e. að fimmti hver fiskur, sem við veiðum, færi í að greiða erlend lán.

Ég vil þá víkja örlítið að ráðstöfun á því fjármagni, sem ég hef hér fjallað um, samkv. lánsfjárlögum og lánsfjáráætlun, og skal þó í því sambandi vera stuttorður.

Ég hef sýnt fram á hve fjáröflun til sjóðakerfisins er hæpin, svo að ekki sé dýpra tekið í árinni, og er raunar sýnilegt að allt stefnir í að ekki verði hægt að standa við skuldbindingar Framkvæmdasjóðs á næsta ári annað árið í röð, eins og gerðist í ár, og þaðan af síður við skuldbindingar húsnæðissjóðanna eða lánsfjárþörf þeirra sem standa í húsbyggingum. Ef vikið er að Framkvæmdasjóði, þá fékk fjh.- og viðskn. í hendur áætlanir sjóðsins fyrir næsta ár. Þar er tíunduð fjáröflun. Lán frá lífeyrissjóðum eru 170 millj., en sú tala lækkar í 1 10 millj. í samræmi við að hætt var við að lögbinda 45% af ráðstöfunarfé sjóðanna og hækkuð erlend lántaka að sama skapi til sjóðsins. Það vekur athygli í þessum tölum, að gert er ráð fyrir að veita fé úr Framkvæmdasjóði sem hér segir: Stofnlánadeild landbúnaðarins 54 millj. Fiskveiðasjóður 165. Iðnlánasjóður 85. Lánasjóður sveitarfélaga 55, Ferðamálasjóður 12. Verslunarlánasjóður 9. Stofnlánadeild samvinnufélaga 9. Landflutningasjóður 3. Útflutningslánasjóður 5. Lán til bætts aðbúnaðar á vinnustöðum 10. Bein útlán Framkvæmdasjóðs 7. Framleiðsluráð landbúnaðarins 20. — Það vekur athygli í þessu sambandi, þegar gluggað er í skýrslu hæstv. ríkisstj. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1982, hvað naumt er skorið í útlánum til atvinnuvegasjóðanna sem eiga að standa undir fjárfestingu atvinnuveganna. Hér segir, með leyfi forseta, í þessari skýrslu um Fiskveiðasjóð, og það er í samræmi við útlánaáætlun Framkvæmdasjóðs: „Eigin fjármögnun Fiskveiðasjóðs verður sífellt erfiðari. Samkv. áætlun ársins 1981 er hún neikvæð um 74 millj. kr. og 1982 neikvæð um 133 millj. kr. og þrátt fyrir 88 millj. kr. framlög af skatttekjum það ár verður hún því enn neikvæð um 45 millj. kr. Með yfirteknum erlendum lánum vegna skipakaupa, skipasmíða, tækja og viðgerða 278 millj. kr. og láni Framkvæmdasjóðs 165 millj. kr. verða útlán Fiskveiðasjóðs 1982 398 millj. kr. Getur sjóðurinn þá lánað til vinnslustöðva 74 millj. kr., en til þessa verkefnis lánaði sjóðurinn 25 millj. kr. á árinu 1980 og mun væntanlega lána 65 millj. kr. á árinu 1981.“ — Ég endurtek: Getur sjóðurinn þá lánað til vinnslustöðva fiskiðnaðarins í landinu 74 millj. kr.? Það er allur obbinn sem á að leggja í þessa grundvallaratvinnugrein. Það er svipuð fjárhæð og hæstv. fjmrh. hrifsar úr lífeyrissjóðunum í ár í sína hít.

Um húsnæðissjóðina er það að segja, að Byggingarsjóður ríkisins gerði áætlun í ágúst í sumar um fjárþörf til sjóðsins. Hún var 47 millj. kr. hærri en lánsfjáráætlun gerir ráð fyrir. Samt sem áður er ekki gert ráð fyrir nema eftirtöldum lánveitingum til nýbygginga innan ramma áætlunar húsnæðismálastjórnar: 1175 frumlán. Það gerir 62.9 millj. Viðbótarlán 97.3. Þarna er um að ræða 160.2 millj. kr. í útlán til nýbygginga. — Sé borin saman niðurskorin fjáröflun, sem er í lánsfjáráætlun, og tekið tillit til yfirdráttarskuldar hjá Seðlabankanum um áramót kemur það í ljós, að gert er ráð fyrir að auka tekjuinnstreymið í byggingarsjóð almenna húsnæðiskerfisins, Byggingarsjóð ríkisins, frá ríkissjóði, skyldusparnaði, lífeyrissjóði og Atvinnuleysistryggingasjóði um 89.5% frá því í ár til að fjármagna þessa niðurskornu lánsfjáráætlun. Vandi Byggingarsjóðs ríkisins er því þríþættur á næsta ári: Hann vantar 40 millj. kr. til að borga Seðlabankanum bráðabirgðalán, hann vantar kannske 100–150 millj. kr. vegna ofáætlaðs innstreymis fjár miðað við reynsluna í ár og hann vantar 47 millj. kr. til þess að hann geti staðið við að lána 1175 frumlán, sem eru 30–40% færri lán en gerðust fyrir tveimur eða þremur árum. Þetta er sá vandi sem almenna húsnæðismálakerfið í landinu stendur frammi fyrir. Það er ekki að furða þótt húsnæðismálastjórn hafi hreinlega neitað bæði mér sem fjvn.- manni og fjvn. og fjh.- og viðskn. um að leggja fram sínar áætlanir um útlán á næsta ári. Þarna er stórfellt vandamál á ferðinni. Hæstv. ríkisstj. er að skilja við almenna húsnæðislánakerfið í rúst.

Sé almennt litið á þróun fjármunamyndunar og fjárfestingar í landinu að undanförnu er það einkar athyglisverð þróun sem þar hefur átt sér stað. Fjármunamyndun í atvinnuvegunum, stóriðju og orkuframkvæmdum dregst stórlega saman í ár og á næsta ári samkv. skýrslum um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. sem fylgja þessu frv. Sama er að segja um byggingar íbúðarhúsnæðis. Fjárfesting í þeim hefur dregist saman ár eftir ár, bæði félagslegum byggingum og byggingum á vegum einstaklinga, og samdrátturinn er 13.6% að magni til frá árinu.1979–1981 að báðum árum meðtöldum. Á hinn bóginn er fjárfesting í opinberum byggingum talin aukast á sama tíma um 24.6%, þ. e. á árunum 1980–1982, samkv. spám fjárfestingaráætlunar til næstu ára. Þessar staðreyndir segja sína sögu um stjórnarstefnuna í landinu. Framkvæmdir við virkjun við Hrauneyjafoss, stækkun álversins og járnblendiverksmiðju voru hafnar þegar ríkisstj. tók við. Þessar framkvæmdir fóru vaxandi að undanförnu, en á hinn bóginn dragast þær saman í ár um 3.5% og er spáð að þetta dragist saman að magni til um 43.5% á næsta ári. Sömu sögu er að segja um hitaveituframkvæmdir. Þær jukust undanfarin ár, en dragast saman í ár um 3.7% og á næsta ári um 31.5%. Allt er þetta samkv. upplýsingum úr fjárfestingar- og lánsfjáráætlun hæstv. ríkisstj.

Herra forseti. Ef farið er gegnum þetta frv. til lánsfjárlaga er l. kafli þess um fjárútveganir til ýmissa aðila, en II. kafli öllu ítarlegri og lengri. Hann fjallar um það að breyta öðrum lögum. Það er þessi frægi kafli: Þrátt fyrir ákvæði þessara og þessara laga skulu þau breytast svona og svona. Við hv. þm. höfum talað um það undanfarin ár að það væri Alþingi vanvirða að breyta ekki þessum lögum fremur sjálfum en flytja slíkan bandorm, sem kallaður hefur verið, um að hin og þessi ákvæði gildandi laga skuli vera ógild ár eftir ár. Mér skilst að við séum sammála um þetta. Þrátt fyrir það hefur þetta ekki verið gert. Það er þó ekki það sem ég ætlaði að tala um, heldur aðeins eitt atriði í þessu.

Hér eru skornir niður svokallaðir félagslegir sjóðir, þ. e. sjóðir sem eiga að leggja fé til félagslegra mála, m. a. Erfðafjársjóður, sem á að leggja fé til endurhæfingar lamaðra og fatlaðra og sjúklinga. Það er ár fatlaðra í ár svo að það er við hæfi að haldið sé áfram að skera þennan sjóð niður eins og áður. En hér er einn sjóður sem hefur staðið undir því að greiða tjón, hlaupa undir bagga með mönnum þegar verður tjón, aðallega í landbúnaði, þ. e. Bjargráðasjóður. Nú hefur svo skipast að það hafa orðið allmörg tjón á undanförnum árum. M. a. var tjón af óveðri á Suðvesturlandi bætt úr þessum sjóði í ár samkv. sérstökum lögum um það að afla Bjargráðasjóði láns til að hlaupa undir bagga í þessu sambandi. Lögum um Bjargráðasjóð var breytt á síðasta þingi, ef ég man rétt. Þar voru tekjustofnar hans auknir til að standa að einhverju leyti undir þessum böggum sem hann hefur tekið á sig að undanförnu. En á hverju ári hefur viðkomandi hæstv. ríkisstj., bæði núv. ríkisstj. og fyrrv., séð ástæðu til að skerða framlög í þennan sjóð, sem þýðir náttúrlega ekkert annað en að það er verið að ýta þarna á undan sér, fresta ákveðnum vanda. Er það náttúrlega alveg í takt við allt það sem hæstv. ríkisstj. gerir í efnahagsmálum. Enn er vegið í þennan sama knérunn nú. Það er sem sagt um skerðingarákvæði hér að ræða hvað varðar framlag ríkisins til Bjargráðasjóðs.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh. Fyrir skömmu urðu norðlenskir bændur fyrir allmiklu tjóni vegna þess að vetur gekk óvenjusnemma í garð og var harður, kartöflubændur misstu mikla uppskeru og fóðurvöntun er veruleg hjá sumum. Mér er kunnugt um að núna, annaðhvort í gær eða dag, hefur skýrsla borist til hæstv. landbrh. um mat á þessu tjóni. Ég óskaði eftir að það kæmu fram upplýsingar í hv. fjh.- og viðskn. um það, með hvaða hætti Bjargráðasjóði yrði gert kleift að bæta þetta tjón. Þær upplýsingar fengust ekki. En þar sem þetta tjón hefur verið metið og mér skilst að það sé metið á 13 millj., og þá er búið að skera niður á alla enda og höggva, og auðvitað verður það ekki nema hluti af tjóninu sem verður bættur með 13 millj., vil ég spyrja hæstv. ráðh. hvernig hæstv. ríkisstj. hugsi sér að mæta þessum vanda. Ég vænti þess, að hann geti svarað því ákveðið hér. Ég geymi mér að flytja um það brtt. við þetta frv., að Bjargráðasjóður fái heimild til að hlaupa á einhvern hátt undir bagga í þessu sambandi. Ef hann getur gefið mér ákveðin svör mun ég hins vegar ekki flytja brtt. og treysta því, að hæstv. ríkisstj. muni sinna þessu eins og gert hefur verið. Ég vil sem sagt biðja hæstv. ráðh. að upplýsa mig um það og hv. þd., hvernig hæstv. ríkisstj. hefur hugsað sér að standa að þessu máli.

Herra forseti. Svo sem fram kemur í nál. okkar minnihlutamanna felur þetta frv., sem hér er til umr., í sér óraunsæi í innlendri fjáröflun og stórauknar erlendar lántökur m. a. til að fjármagna taprekstur ríkisfyrirtækja og atvinnuvega í góðæri, eins og fram hefur komið hjá mér í þessari ræðu. Það einkennist af bráðabirgðaúrlausnum og frestun efnahagsvanda sem hrannast upp. Önnur vandamál eru látin reka á reiðanum, svo sem fjáröflun til almenna húsnæðismálakerfisins, sem augljóslega er í rúst, og fjármögnun atvinnuvegasjóðanna stefnt í fullkomna tvísýnu. Alvarlegust er erlend skuldasöfnun samtímis stórfelldum samdrætti í framkvæmdum sem gætu staðið undir aukinni greiðslubyrði erlendra lána. Þessari stefnu frv. erum við andvígir.