17.12.1981
Efri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1658 í B-deild Alþingistíðinda. (1364)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Þau mál, sem hér eru til umfjöllunar, eru einhver mikilvægustu mál sem Alþingi hefur um að fjalla. Í sambandi við lánsfjáráætlun eru teknar að mínum dómi ákvarðanir, sem eru efnahagslega mikilvægastar þeirra allra sem teknar eru hér á þinginu. Lánsfjárlögin eru hér til umr., en þau styðjast við lánsfjáráætlun. Hæstv. forsrh. hafði framsögu fyrir lánsfjáráætluninni og með hliðsjón af því, hvað hér er um mikilvægar ákvarðanir að ræða hefði ég talið mjög æskilegt að forsrh. hefði gefið sér tóm til að hlusta á a. m. k. hluta af því sem ég hef hér fram að færa. Óska ég eftir því við forseta að hann kanni hvort hæstv. forsrh. gæti gefið sér tíma til að hlusta hér á nokkrar athugasemdir sem ég hef varðandi þetta mál. (Forseti: Hæstv. forsrh. gengur nú hér í deildina. Ég vona að hann geti gefið sér tíma til að hlýða á ræðu hv. þm.)

Eins og ég sagði, herra forseti, þá tel ég að hér sé um mjög mikilvægan málaflokk að ræða. Ég tel að þetta sé í rauninni mikilvægasta mál sem er til umfjöllunar á Alþingi. Efnahagsleg áhrif þess eru áreiðanlega ekki minni en af fjárlögum og að mínum dómi mun meiri.

Mér er það nokkuð til efs, að þm. og þjóðin í landinu hafi í rauninni gert sér nægilega grein fyrir því, hvert stefnir með þeim lánsfjárlögum sem hér er hugmyndin að samþykkja, hvert stefnir samkv. þeirri lánsfjáráætlun sem hér er hugmyndin að komi til framkvæmda. Hafa menn t. d. gert sér grein fyrir því, að erlendar lántökur vaxa langt umfram allt sem áður hefur gerst? Það er hægt að leggja á þetta fáeina tiltölulega einfalda mælikvarða. Nettólán þjóðarbúsins erlendis sem hlutfall af öllum orkuframkvæmdum og öllum stóriðjuframkvæmdum var 55% á árinu 1976. En samkv. því, sem hér er til umfjöllunar, eiga þessi lán að fara yfir 100% af þessari sömu tölu, því sem fjárfest er í öllum orkuframkvæmdum og allri stóriðju.

Það má líka líta yfir skemmra tímabil. Það má líta á það, að á árinu 1980 voru nettó-lántökur 686 millj. kr. en orkuframkvæmdirnar í stóriðju, virkjunum og hitaveitu voru 703 millj. kr. Nettó-lántökurnar voru þannig á árinu 1980 97,5% af þessu og var þá orðið ærið hátt. En samkv. því, sem nú er áformað fyrir árið 1982, eiga þessar erlendu lántökur að vera 152% af fjárfestingum í virkjunum, stóriðju og hitaveitu. Nettó-lántökurnar eiga að vera 1270 millj. kr., en framkvæmdirnar í þessum hlutum, sem eru þeir arðgefandi, sem eru þeir sem við getum sagt með vissu að standi undir lántökum, — þessar fjárfestingar eru 823.8 millj. kr. Það á að taka 11/2-falt þetta að láni erlendis. Þessar fjárfestingar, sem við hófum ætlast til og getum gert ráð fyrir að standi undir erlendum lántókum og afborgunum af þeim, eru ekki nema 2/3 hlutar af þeirri upphæð sem nú er hugmyndin að taka að láni erlendis. Þetta er alvarlegt mál.

Við getum líka litið á erlendu lántökurnar sem brúttó lán erlendis, sem prósent af orkuframkvæmdunum í heild. Ef við lítum t. d. til ársins 1976, þá var þetta svipuð tala. En núna samkv. frv. 1982 er hugmyndin að brúttólánin séu helmingi hærri en fjárfestingarnar í öllum orkuframkvæmdum, að stóriðjuframkvæmdum ekki meðtöldum. Þannig er alveg sama hvaða mælikvarði er tekinn. Ef litið er á þær fjárfestingar, sem eiga að standa undir greiðslum af erlendum lánum, þá er ljóst að með þessu frv. er verið að fara stórkostlega fram úr því sem nokkurn tíma hefur áður gerst. Og hver er skýringin? geta menn spurt. Skýringin er einfaldlega sú, að það er verið að taka hundruð millj. kr. að láni til þess að standa undir eyðslu, ekki til þess að standa undir fjárfestingu, sem muni skila aftur greiðslum af þessum lánum, það er auðvitað eðlilegt að erlend lán séu tekin til slíkra hluta, heldur er augljóslega samkv, þessu verið að taka lán í innlenda eyðslu. Og ég vil ítreka það, að innlend lán nettó voru þó innan við 100% af fjárfestingum í virkjunum. stóriðju og hitaveitum á árinu 1980, en samkv. því, sem hér er á borðið lagt, eiga þetta að verða 152% af þeirri hækkun. Ég tel að þetta sé það alvarlegasta í því frv. sem við höfum hér fyrir framan okkur, þetta sé það alvarlegasta sem komi fram í lánsfjáráætluninni, vegna þess að það er eins og stjórnarstefnan, sem hefur kannske að undanförnu einkennst ekki hvað síst af því að eyða sparifé frá kynslóðum sem eru að ganga fyrir ætternisstapa, eigi nú að byggjast á því að eyða fyrir sig fram frá börnunum okkar. Það má orða það svo, að það sé allt gert sem mögulegt er til þess að gera ómögulegt að stjórna hér í framtíðinni.

Ég tók eftir því í fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni, þegar litið er á þær tölur sem hér eru til umfjöllunar varðandi erlendar lántökur, að sívaxandi hluti þeirra fer í að greiða af lánum sem þegar hafa verið tekin. Árið 1980, sem var ekki sérlega gott ár, fóru 35% af þeim löngu erlendu lánum, sem við tókum í greiðslur afborgana af eldri lánum. En samkv. þessu eiga það að verða 44% af þeim brúttó-lánum sem menn taka, sem fara til þess að framlengja í rauninni þan lán sem menn hafa tekið áður. Og ég vek athygli á því, að sú tala, sem ég var að tala um áðan að yxi upp í 152%, var af nettó-lántökunum. Það er fyrir þetta sem verið er að taka til þess að standa undir lánum sem áður hafa verið tekin. Alveg sérlega athyglisvert er þetta í sambandi við atvinnuvegina, eins og kemur fram á bls. 37 í lánsfjáráætlun. Þar er gert ráð fyrir að innkomin lán verði 535 millj. kr., en afborganir eru 495 millj. kr. 92% af þeim lánum, sem tekin eru samkv. þessum gögnum til atvinnuveganna á árinu 1982, er lánsfjáráætlun nær til, — 92% af þeim fara til þess að framlengja í rauninni gömul lán, að velta byrðinni fram fyrir sig. Þetta er líka mjög alvarlegt mál.

Það eru líkur á að með þessum vinnubrögðum séum við að festast í þeim farvegi að sístækkandi hluti lánanna sé tekinn til þess að framlengja gömlu lánin. Við höfum lent í þeirri efnahagslegu ógæfu að festast í 40–60% verðbólgu, og það hefur reynst erfitt að ná sér niður úr þeim verðbólgufarvegi. Á það nú fyrir okkur að liggja líka að festast í þeim farvegi, að meira en helmingurinn af þeim lánum, sem tekin eru erlendis, sé til þess að framlengja fyrri syndir, sé til þess að standa undir afborgunum af þeim lánum sem við eigum að standa skil á ? Líkurnar á þessu fara vaxandi eftir því sem menn fara ógætilegar í þessum efnum, og nú sýnist mér keyra um þverbak að því er varðar það hve ógætilega menn fara.

Það, sem hefur verið að gerast á árinu 1981 og 1982, hefur gerst í miklu góðæri, við sérstaklega góð ytri skilyrði á þessu ári, 1981. En hvað ef kemur hallæri? Hvernig komumst við þá úr þessum farvegi? Sökkvum við þá ekki enn dýpra í þetta far? Það er búist við því, að viðskiptakjör fari versnandi þegar á næsta ári. Það er ekki bjart útlit t. d. um loðnuveiðarnar. Við höfum farið ógætilega í veiðum á þeim fiskstofni og reyndar fleirum. Það verður þannig minna til þess að standa undir þeim skuldbindingum sem þjóðin hefur tekið á sig. Greiðslubyrðin, ef svo fer fram sem horfir varðandi næsta ár, verður því enn þyngri en hún hefur verið hingað til, og það verður enn þá meiri ástæða til þess, að við lendum í þeim farvegi að við séum að taka erlend lán til þess að greiða niður þær skuldbindingar sem við eigum að standa undir á því ári.

Það er athyglisvert og ég held að allir hv. alþm., sérstaklega þeir sem eru stuðningsmenn núv. ríkisstj., ættu að gera sér grein fyrir því, hvað erlendar lántökur hefðu með eðlilegum hætti verið miklar á árinu 1982 ef menn hefðu sett sér það markmið að halda í sama horfi og bara á árinu 1980. Þá hefðu erlendu lántökurnar brúttó átt að vera 1639 millj. kr. en ekki 2248. Þær hefðu átt að vera um 600 millj. kr. lægri ef menn hefðu sett sér sömu markmið um að taka ekki lán umfram virkjanir, stóriðju og hitaveitu, með sama hætti og gert var árið 1980. Það eru 600 millj. kr. sem menn ætla að bæta við í erlendum lánum umfram það sem menn leyfðu sér á árinu 1980. Þetta er sú viðmiðunartala sem ég tel að sérstaklega hæstv. stjórnarsinnar ættu að hafa í huga. Ég ítreka það að þessi þróun í erlendum lántökum er uggvænleg.

Það vill reyndar líka svo til, að það er til stefnumörkun af hálfu ríkisstj. um það, hversu erlendar lántökur skuli vera miklar. Ég minnist þess, að í stjórnarmyndunarviðræðunum 1979 talaði Framsfl. um að það væri hæfilegt að greiðslubyrðin yrði um það bil 14% af útflutningstekjum þjóðarinnar. Það var eitt af grundvallaratriðum í stefnumörkun Framsfl. Í stjórnarsáttmála ríkisstj. Gunnars Thoroddsens, dags. 8. febr. 1980, segir um þetta mál á bls. 6: „Erlendar lántökur verði takmarkaðar eins og kostur er og að því stefnt, að greiðslubyrði af erlendum skuldum fari ekki fram úr um það bil 15% af útflutningstekjum þjóðarinnar á næstu árum.“ Er þá greiðslubyrðin innan þessara 15% marka samkv. þeim áformum sem nú eru uppi? Nei, greiðslubyrðin er ekki innan þessara 15% marka. Greiðslubyrðin er ekki heldur innan þessara 15% marka á yfirstandandi ári. Á yfirstandandi ári áætlar Seðlabankinn að greiðslubyrðin sé 16–17%. Áætlunin fyrir árið 1982, sem hér er til umfjöllunar, er 18%. Þetta er langt yfir því marki sem menn hafa sett sér. Þetta er 4% yfir því marki sem Framsfl. lagði til að haft yrði til viðmiðunar á árinu 1979. 4% þykja kannske ekki sérlega mikið. En við skulum gæta að því, að það er um 18% hækkun umfram það sem ætlað var á þeim tíma, — það er langtum meira, fyrirgefið þið. Mér brást í hugarreikningnum, því að 4% af 14 nálgast það að vera fjórðungur. Menn eru að stefna í greiðslubyrði, sem er upp undir það fjórðungi meiri en menn settu sér fyrir tveimur árum drjúgum. Þetta er mjög alvarlegt mál.

Menn kunna að velta því fyrir sér, hvort þetta sé einstaki eða hvort þetta hafi oft komið fyrir áður. Um greiðslubyrðina á undanförnum árum má t. d. lesa í bókinni Verðbólguvandinn sem út hefur verið gefin. Á árunum 1965–1966 var þetta á bilinu 7.7–8.7% af útflutningstekjunum. Árin 1967–1973 er þetta yfirleitt 1011 %. Eitt árið fer það niður í 9.1 %, eitt árið fer það upp í 16.7 %, það er hæsta talan og það er árið 7 969, þegar við urðum fyrir miklu efnahagslegu áfalli. Árin þar á eftir, árin 1974–1976, er þetta 11, 14, 13.8%. Árin 1976 og 1977 eru þetta annars vegar 13.8% og hins vegar 13.7 %. Árið 1979 er þetta 12.8%, árið 1980 14.1%.

Við höfum aldrei stefnt í það að binda okkur bagga með þessum hætti. Einu sinni hefur þetta farið yfir 16%. Það var þegar eitthvert mesta hallæri, sem við höfum nokkurn tíma lent í, skall yfir þjóðina. Síldin hvarf eins og loðnan gæti horfið núna. Frystu afurðirnar stórféllu í verði. Ég er ekki viss um að markaðsástandið sé allt of tryggt í frystum afurðum hjá okkur heldur núna. Og ef bætist nú hallæri ofan á, hvar stöndum við þá, þegar svo skal sigla sem hér er gert ráð fyrir og eins og hefur verið gert í undanfarandi góðæri?

Skuldastaðan er líka orðin hærri en nokkru sinni fyrr. Skuldastaða þjóðarinnar sem hlutfall af þjóðarframleiðslu hefur aldrei komist í þær tölur sem nú er gert ráð fyrir. Skuldastaða þjóðarinnar sem hlutfall af þjóðarframleiðslu á árunum 1964–1967 var 18–21%. Nú er áætlað að skuldastaðan í árslok 1982 samkv. upplýsingum frá Seðlabankanum verði nær 40% , helmingi meiri skuldir miðað við þjóðarframleiðslu en voru á þessum tíma. Þessar skuldir hafa auðvitað sveiflast til í samræmi við þær tölur sem ég las hér upp um greiðslubyrðina. En þær hafa öll árin fram til 1974 verið í kringum 25% eða fjórðungur af þjóðarframleiðslunni, að einu ári undanteknu, árinu 1969, þegar þær fóru í 34%. Seinustu árin hefur þetta farið vaxandi: 31.6% 1977, 34.6% 1979, 35.2% 1980, 37% á yfirstandandi ári og stefnir í 40%. Þær skuldir, sem að er stefnt, eru að verða næstum jafnhá tala og allar útflutningstekjurnar eru áætlaðar á sömu forsendu fyrir árið 1982.

Það er áætlað að skuldastaðan í árslok 1982 verði 10.600 millj. kr. Á sömu forsendum voru útflutningstekjur alls áætlaðar 11.850 millj. kr. á árinu 1982, og það er áður en farið er að líta til þess, hvert áfall kunni að vera fram undan í þessum efnum. Þessi skuld er þá 46 þús. kr. á hvert mannsbarn í landinu eða 184 þús. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Það eru 18.4 millj. gamlar í erlendum skuldum á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Þetta er einstaklega alvarlegt ástand.

Þessar tölur, sem ég er að tala um og verið er að líta á fyrir næsta ár, gera í rauninni ráð fyrir að við séum ekki með viðskiptahalla sem neinu nemur. En nú er spáð 500 millj. kr. viðskiptahalla á þessu ári, um það bil. Og í rauninni felst í þeim spám, sem verið er að gera, að við skulum búast við 500 millj. kr. til viðbótar í lækkun útflutningstekna vegna þeirrar þróunar sem virðist vera fram undan á næsta ári. Hérna eru 1000 millj. kr. bara í þessum tveimur tölum. Og hvernig förum við að þegar viðskiptahallinn hleðst upp á þessu ári og hinu næsta? Þá verður að mæta honum líka með erlendum lántökum. Hvar stöndum við þá að standa í skilum?

Nei, ég held að hv. stjórnarsinnar ættu að taka til viðmiðunar að því er nettó-lántökur varðar þó ekki væri nema árið 1980. Þeir ættu að taka til viðmiðunar það sem segir í stjórnarsáttmálanum, að greiðslubyrðin skuli ekki fara fram úr um það bil 15%. Það er raunverulegt og eðlilegt markmið. En fram úr því er farið núna með geigvænlegum hætti.

Því miður er það svo, að innlend lánsfjáröflun hefur heldur ekki gengið sem skyldi á árinu 1981. Það hefur verið rakið hér áður, að skuldabréf ríkissjóðs hafi ekki verið keypt nema í mjög takmörkuðum mæli. Það hefur verið keypt fyrir um 33 millj. kr. þegar gert var ráð fyrir 90 millj. Mismunurinn hefur í rauninni verið brúaður með erlendri lántöku. Það hafði líka verið gert ráð fyrir miklu fé frá lífeyrissjóðum. Það hefur brugðist í mjög verulegum mæli. Það vantar 72 millj. kr. upp á að þar hafi verið staðið við á þessu ári, og það eru líka verulegir peningar. Hvernig hefur því verið mætt? Jú, því hefur verið mætt að verulegu leyti með lántöku í Seðlabankanum. Lántaka í Seðlabankanum endar í erlendu láni fyrr eða síðar, þannig að á yfirstandandi ári hafa menn verið að fara æ meir ofan í þann farveg að þurfa að byggja fjárfestingaráform sín og jafnvel rekstur og eyðslu á erlendum lánum.

Það hefur áreiðanlega verið reynt á þessu ári að ná meira út úr innlenda peningamarkaðinum en hann í rauninni getur skilað við núverandi aðstæður. Og nú er, samkv. þeim tölum sem hér liggja fyrir og tillögur eru gerðar um, enn ætlunin að halda áfram á þeirri sömu braut. Þrátt fyrir það að ríkisskuldabréfin seljist ekki er hugmyndin að gera ráð fyrir tekjum af þeim upp á 150 millj. kr. Verður það svo, eins og á yfirstandandi ári, að þegar út af ber með söluna á ríkisskuldabréfunum verði gripið til erlendrar lántöku líka á næsta ári? Er þá útlit fyrir að þær tölur, sem ég hef farið í gegnum hér og mér þykja hrikalega háar, verði hækkaðar um kannske 100– 200 millj. kr. meðan árið er að líða, vegna þess að sú fjáröflun, sem gert er ráð fyrir, stenst ekki, hún bregst? Það vantaði 160 millj. upp á það hinn 20. nóv. s. l., að fjáröflun hefði tekist þrátt fyrir erlendar lántökur til þess að standa við þau áform sem uppi voru. Samt var búið að taka fyrir hönd Framkvæmdasjóðs erlent lán. Samt var búið að veita ýmsum fyrirtækjum á landinu erlend lán til þess að standa undir rekstri sínum. Samt hafði húsnæðislánakerfið fengið að komast í prentsmiðju Seðlabankans. Þetta gefur manni auðvitað tilefni til að ætla að reynslan sýni manni að stöðugleikinn í stjórn þessara mála sé ekki meiri en svo, að undan sé látið og á sé bætt erlendum skuldum umfram það sem þó er hér gert ráð fyrir í lánsfjáráætlun og lánsfjárlögum á árinu 1982.

Annars er athyglisvert að líta á hve miklar viðbætur hafa verið gerðar við lánsfjáráætlunina á árinu og með hvaða hætti þær hafa verið gerðar. Það er t. d. lán vegna Kröfluvirkjunar. Það er viðbót, eftir að áætlunin hafði verið afgreidd, upp á 33.2 millj. kr. hér undir 7. lið í bréfi frá fjmrn. Það eru aðrar 3 millj. á 10. lið. Það er líka til Lagmetisiðjunnar Siglósíldar sérstaklega 2.4 millj. kr., sem hefur verið bætt við fram yfir lánsfjáráætlun í lánum, til byggðalína 15.5 millj. kr., til stofnkostnaðar virkjana 37.4 millj. kr., til byggingarsjóðs Listasafns Íslands 4 millj. og til Sjóefnavinnslu 4 millj. Svo er önnur viðbót undir lið 14, til byggðalína, þar sem heitir Orkusjóður, upp á 35.7 millj. kr. Orkubú Vestfjarða 5.6, Kísiliðja 3 millj. Þannig mætti áfram telja smærri upphæðir til ýmissa hitaveitna. Þetta gefur til kynna að menn hafi ekki treyst sér til að standa við lánsfjáráætlunina, heldur hafi talið nauðsynlegt að fara fram úr henni. Og það að menn fara fram úr hefur m. a. bitnað á erlendu lántökunum. Þær hafa náttúrlega aukist. Þrýstingurinn hefur aukist þess vegna, hvernig svo sem þessa lánsfjár var að öðru leyti aflað. Og það er það, sem maður óttast sérstaklega í sambandi við þessa lánsfjáráætlun, að enn verði beitt sömu vinnubrögðum og á undanfarandi ári — og sjálfsagt undanfarandi árum — að taka erlend lán, láta undan, gera viðbætur við lánsfjáráætlunina þannig að útkoman geti orðið enn hryllilegri, liggur mér við að segja, heldur en þær tölur benda til sem ég hef rakið hér að undanförnu.

Ég held, hæstv. forseti, að þessi þáttur erlendu lánanna sé alveg einstakur, bæði sú þróun, sem hefur átt sér stað á árinu 1981, og það, sem menn eru að stefna í á árinu 1982. Ég vara sterklega við því, vegna þess að við höfum verið að ganga í gegnum góðæri, en það er ekkert sem bendir til þess að það góðæri haldist áfram. Þetta mundi valda því, að við stæðum mjög illa ef hallæri kæmi. Þá mundi aukast verulega eftirspurn eftir hallærislánunum, sem hefur þó verið úthlutað nú í góðæri að undanförnu.

Ég held að það sé óþarfi fyrir ríkisstj. að hrósa sér af jafnvægi í ríkisbúskapnum þegar svona er staðið að erlendum lántökum. Það hefur átt að vera ein af skrautfjöðrum ríkisstj. að það væri jafnvægi í ríkisbúskapnum. En það er ekkert jafnvægi í búskap landsmanna þegar á að fara svona að í sambandi við erlendar lántökur. Og vel að merkja, þetta jafnvægi í ríkisbúskapnum er reyndar fengið með bellibrögðum, tilflutningi milli A- og B-hluta fjárlaga, þannig að það er marklaust með öllu. Dæmi um það má í sjálfu sér lesa hér t. d. í töflu 5 í lánsfjáráætluninni. Þar kemur mjög glögglega fram hvað verið er að gera.

Lánsfjárþörf opinberra aðila samkv. lánsfjáráætlun 1982 breytist ósköp lítið að því er A-hluta fjárlaganna varðar eða bara úr 244 í 319 millj. En þegar kemur að B-hlutanum, þá meira en tvöfaldast hún, úr 319 í 806. Þetta segir auðvitað að sínu leyti líka sína sögu.

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að menn vilji fá sér matarhlé, og þar sem hér geta heitið nokkur kaflaskil í ræðu minni, komið að innlendum hlutum ýmsum, húsnæðismálum og því um líku, þá mundi ég vera reiðubúinn til að fresta nú máli mínu. (Forseti: Vegna orða hv. þm. vil ég geta þess, að ætlunin var að fresta hér fundi milli 12 og 2, fundinum yrði frestað til 2. Ég er þakklátur hv. þm. fyrir það að hann fresti nú ræðu sinni og haldi henni áfram eftir að fundur hefst að nýju kl 2). — [Fundarhlé]

Herra forseti. Í þeim hluta ræðu minnar, sem ég flutti hér fyrir hádegi fjallaði ég að langmestu leyti um erlendar lántökur og benti á hversu alvarlegt ástandið væri í þeim efnum. Það, sem mér finnst vera sá mælikvarði sem menn eigi sérstaklega á þetta að leggja og gefur hvað skýrasta mynd, er að líta á erlendu lántökurnar sem hlutfall af framkvæmdum í orkugeiranum, í virkjunum, stóriðju og hitaveitu. Slíkur samanburður gefur til kynna að meðan þetta hlutfall var þannig að innkomin löng erlend lán nettó, tekin erlend lán, voru innan við 100% á árinu 1980 og rétt um 100% eða rúmlega 100% á árinu 1981, þá skuli vera gert ráð fyrir því 1982, að þetta fari upp í 152%, að þriðjungurinn af lántökum erlendis nettó skuli fara í annað en þessar framkvæmdir og þá í ýmiss konar eyðslu. Og ég gerði grein fyrir því, að ef halda ætti svipuð markmið og 1980 í þessum efnum, þá ættu lántökur erlendis að vera 600 millj. kr. lægri en gert er ráð fyrir í þeim lánsfjárlögum og þeirri lánsfjáráætlun sem hér er til umfjöllunar.

Ég lít svo til að þessi mælikvarði sé sérstaklega athyglisverður. En ég benti líka á að það væri vaxandi áhyggjuefni hve stór hluti af lántökunum erlendis sem heild færi í rauninni til þess að endurnýja lán. Þetta hlutfall hefur farið sívaxandi á undanförnum árum og er nú að nálgast það, að helmingur lána, sem tekin eru erlendis, eða um 1000 millj. kr. samkv. áætlun 1982, fari bara í að framlengja þau lán sem menn hafa áður tekið, að halda þeirri súpunni gangandi. Þetta eru þeir þættir sem sérstaklega eru varhugaverðir. Þetta varðar þó einkum og sér í lagi það, hve þetta hlutfall hefur farið hækkandi í því góðæri sem við höfum búið við að undanförnu. Hvernig mundi þá fara fyrir okkur ef færi að halla undan fæti, eins og ýmsir mælikvarðar og vísbendingar koma nú fram um?

Maður hefur orðið þess var, og þarf ekki að fara lengra aftur en í áætlunina 1981, að fram úr áætlun sé farið í erlendum lántökum. Á árinu 1981 hefur það verið gert í mjög ríkum mæli. Þá er sérstök ástæða til þess að vara við ef hinar háu tölur, sem hér eru sýndar, eiga nú enn að hækka vegna þess að fram úr verði farið. Ástæða til þess að vara við í þeim efnum er líka sú, að hinn innlendi lánsfjármarkaður hefur ekki skilað því sem menn höfðu uppi áform um á árinu 1981, og verður ekki annað séð, sérstaklega með tilliti til þess, hvernig árið 1981 lítur út, en enn frekar stefni í sömu átt á árinu 1982, að það sé verið að ætla hinum innlenda markaði of mikið með innlendri lánsfjáröflun. Nú sýnir reynslan okkur það, að ríkisstj. hefur leyst slík viðfangsefni með því að fara í erlendar lántökur. Hver er trygging okkar fyrir því, að svo verði ekki á komandi ári? Öllu nær væri að ætta og óttast að svo yrði enn. Og þá yrði þetta hlutfall enn þá óhagstæðara.

Ég gat þess líka hvað greiðslubyrðin væri mikil. Miðað við það, að hún fari upp í 18% á þessu ári, er það 28% meiri greiðslubyrði en Framsfl. miðaði við í stjórnarmyndunarviðræðunum 1979 og milli 20 og 25% meira en gert er ráð fyrir í stjórnarsáttmála ríkisstj. Gunnars Thoroddsens.

Þetta eitt, hvernig horfir um hinar erlendu lántökur og hvað geysast eigi mjög fram í þessum efnum, væri í sjálfu sér nóg, ætti eitt sér að nægja til þess að menn stöldruðu við og áttuðu sig á því, að ekki væri rétt að afgreiða þetta frv. til lánsfjárlaga eins og hér er gert ráð fyrir. Mér býður reyndar í grun að ýmsum hv. stjórnarsinnum sé ljóst að hér sé óvarlega farið, að ýmsum hv. stjórnarsinnum sé ljóst að hér sé ekki vel að verki staðið, að þeim sé ljóst að hér sé of geyst að farið og að þetta séu ekki skynsamleg vinnubrögð. Það er kannske eins og örlögin hafi gripið inn í í þeim efnum vegna þess að prentvillupúkinn hefur komist í nál. minni hl. nefndarinnar. Þar sem átti að standa: „Minni hl. n. telur að við svo búið megi ekki standa, minni hl. n. er andvígur þessum vinnubrögðum og þeim leikaraskap sem í þeim felst“ — stendur í hinu prentaða þskj.: „Mikill hluti nefndarinnar.“ Það skyldi þó ekki vera að þar hefði prentvillupúkinn hitt á að segja í rauninni sannleikann, að það væri mikill hluti nefndarinnar sem væri andvígur þeim vinnubrögðum sem hér eru viðhöfð, það væri mikill hluti nefndarinnar sem teldi að hér væri ekki rétt að farið. Mig grunar að svo sé í raun og sannleika, að samviska manna hljóti að vera að vakna í þessum efnum, að menn s jái að hér er ekki rétt að farið.

En það kemur fleira til. Ég man ekki eftir því áður í sambandi við umr. í nefnd um mál eins og þetta að heyra þvílíkan uppgjafartón eins og einkenndi ýmislegt það sem fulltrúar ríkisstj. í nefndinni höfðu um þessi mál að segja. Ég minnist þess tæpast að hafa svo oft fengið óljós svör við því, hvað í frv. fælist. Ég minnist þess ekki, að það hafi komið fyrir áður á nefndarfundum, að formaður fjh.- og viðskn. hafi þurft að svara spurningum ítrekað á þá leið að hann vissi það ekki, að aftur og aftur skyldi svar hans við einföldum spurningum nm. vera: Ég bara hreinlega veit það ekki. — En þetta er annað einkennið á því frv. til lánsfjárlaga sem hér liggur fyrir, að þar er ekki um eiginlega stefnumörkun að ræða, þar eru ekki teknar ákvarðanir varðandi ýmis þau mál sem fyrir liggja. Þess vegna ber frv. mjög mikil bráðabirgðaeinkenni. Það eru ekki teknar ákvarðanir um margvísleg atriði og eins og þetta er úr garði gert grunar mann að það sé ekki hugmyndin að fara eftir þessu frv., að menn muni taka þetta til endurskoðunar mjög fljótlega. Og ég ætla nú reyndar að vona að það verði gert og þá til gagngerrar endurskoðunar þar sem hin þjóðhagslegu markmið séu höfð í hávegum.

Til marks um það hversu oft málin voru skilin eftir og hversu oft var svarað: Ég veit það ekki — má nefna fáein dæmi. Það var minnst á Járnblendiverksmiðjuna. Svörin voru þessi: Jú, auðvitað er þar um vandamál að ræða, en það vandamál ætlum við að geyma okkur, það vandamál verður geymt. — Það var minnst á vandamál Rafmagnsveitu Reykjavíkur, hvað yrði gert að því er þau varðaði og þá uggvænlegu stöðu sem þar er upp komin. Þar var svarið líka að það yrði geymt, ákvörðun um það yrði tekin seinna. Spurningum varðandi Landsvirkjun var svarað með svipuðum hætti. Þar var sagt: Við hreinlega vitum ekki hvernig verður tekið á því máli. Það var líka erindi frá Skipaútgerð ríkisins. Það fékkst hvorki já né nei sem svar við því erindi, engin ákvörðun. Það var talað um hitaveituframkvæmdir, það lágu fyrir ýmis erindi um það efni. Þar var svarað að því yrði að mæta með því að skapa svigrúm innan þess ramma sem fyrir hendi væri. Nú getur verið svolítið torráðið að skilja hvað átt er við í þeim efnum. Í framsöguræðu formanns fjh.- og viðskn. áðan var reyndar leitast við að svara þessari spurningu, og það var þá ýmist að það áttu að verða gjaldskrárhækkanir eða það átti bara að skilja sem svo, að það, sem veitt væri til hitaveituframkvæmda í heild, yrði þá að skiptast öðruvísi en ráð væri fyrir gert — eða það sem veitt væri til orkuframkvæmda í heild ætti þá að skiptast öðruvísi en ráð væri fyrir gert.

Nú verður ekki fundinn neinn sérsmíðaður rammi í þessu frv. til lánsfjárlaga utan um hæstv. iðnrh. En það er einhver hugarsmíð sem hér er verið að gera ráð fyrir að sé fyrir hendi og innan þessa ramma eigi þá væntanlega hæstv. iðnrh. að tolla. Ég veit ekki hver liðsafnaður verður hafður uppi til þess að tryggja að hæstv. iðnrh. tolli innan þessa ramma, en venjulegast hefur hugmyndin verið sú, að Alþingi tæki ákvarðanir af þessu tagi. Mér er fyllilega ljóst að auðvitað er ekki hægt að segja já við öllu. Ef það væri hægt væri engin ástæða til að vera með raunverulega ákvarðanatöku. Þá þyrftum við hvorki Alþingi né ríkisstj. Þá nægði í rauninni grammófónplata til þess að stjórna, sem segði bara já við öllu sem um væri beðið. Það, sem um er að ræða í afgreiðslu á lánsfjárlögum og lánsfjáráætlun, er að menn geri upp við sig hvað þeir ætli að gera, þannig að menn fái að vita hvar þeir standa, ákvarðanirnar séu teknar. Sumt er fallist á, öðru er neitað, enn öðru er skipt með öðrum hætti en óskir komu fram um. Við því er ekkert að segja. En hér erum við skildir eftir í algerri óvissu. Það eru ekki teknar ákvarðanir og öll svör eru eins óljós og ég hef hér rakið.

Ég veit t. d. ekki hverju hv. þm. Davíð Aðalsteinsson á Vesturlandi á að svara þegar hann kemur í sitt kjördæmi og verður spurður hver sé staðan varðandi hitaveituframkvæmdir Akraness og Borgarness. Á hann að svara því, að málið hafi verið afgreitt í lánsfjárlögum? Ég get ekki séð, miðað við þau svör sem hafa verið gefin, að hann geti einu sinni svarað því, vegna þess að það er allt saman laust eftir sem áður. Hann verður í rauninni að svara því, að það hafi verið afgreitt án þess að afgreiða það. Hann hafi ekki hugmynd um það. Þó að hann hafi tekið hér þátt í þessari stefnumörkun — hann er líka kjörinn til þess að taka ákvarðanir af þessu tagi — þá hafi það í rauninni ekki verið nein ákvörðun og hann hafi, með þeim afgreiðsluhætti sem hér er tíðkaður, með þeim yfirlýsingum sem gefnar eru með fyrirvörum og þar fram eftir götunum, verið sviptur möguleika til þess að taka ákvörðun um þetta efni, til þess að gera upp hug sinn, vera þátttakandi í því, að menn geri upp hug sinn um hvað þeir ætli að gera.

Sama gildir væntanlega um annan hv. þm. þar sem er erindi frá Hitaveitu Hvammstanga. Ekki fær hann heldur nein svör. Hann fær hvorki já né nei, hann fær enga ákvörðun um það, hvernig með það mál verði farið. Og þannig má áfram upp telja. Hlutunum er ýtt út af borðinu, það á að geyma þá, það á að skapa svigrúm innan ramma til þess að flytja til hluti með einhverjum hætti sem Alþingi er ekki gerð grein fyrir að því er hitaveiturnar varðar. Það fást engin svör varðandi Landsvirkjun eða Skipaútgerð ríkisins eða Framkvæmdasjóð öryrkja, hvort eitthvað eigi að gera með þetta eða ekki. Og t. d. varðandi málefni Bjargráðasjóðs var svarið að vísu ekki að þetta yrði geymt, heldur hét það í umr. í nefndinni að það vandamál yrði tekið sér.

Nú er ég búinn að telja upp æðimörg atriði, sem engar ákvarðanir eru teknar um við þessa afgreiðslu, og það er auðvitað mjög alvarlegt mál. En ég ítreka það, að það á einmitt að vera hlutverk lánsfjárlaganna og þeirrar afgreiðslu, sem við nú stöndum frammi fyrir, að taka þessar ákvarðanir svo menn viti hvar þeir standa. Ýmsar þær framkvæmdir, sem menn standa í, þurfa svo og svo mikinn undirbúning. Það þarf líka aðdraganda og undirbúning ef menn ætla að draga úr framkvæmdunum. Það er ekkert síður ef hugmyndin er sú að draga úr framkvæmdastiginu sem menn þurfa að fá að vita hvernig málin standa. Þetta er mjög alvarlegur ljóður á þeim tillögum, sem hér eru uppi, og eiginlega ekki sæmandi Alþingi að afgreiða mál með þessum hætti. Það er hugmyndin að stefna sé mörkuð með lánsfjárlögum og lánsfjáráætlun. Það er ekki gert og menn fá ekki svör um það, hvernig með ýmis vandamál verði farið sem upp hafa komið.

Mig langar til í þessu sambandi að benda samt á einn lið sem spurt var um og lítil svör fengust reyndar um líka, þar sem verið er að veita fé samkv. þessum lögum til hluta, sem ekki er hægt að gera grein fyrir, á sama tíma og öðrum er ekki svarað vegna þess að fé sé ekki fyrir hendi. Í 4. og 5. gr. frv. eru samtals 25 — og eru reyndar orðnar 28 millj. kr. sem eru veittar með mjög litlum rökstuðningi. Í 4. gr. er um að ræða 10 millj. til athugunar á sviði orkufreks iðnaðar. Og í 5. gr. er um að ræða 15 — sem reyndar eru orðnar 18 millj. kr. sem ráðstafa á samkv. síðari ákvörðun fjmrh. Skýringar var óskað á því, hvaða hugmyndir væru uppi um ráðstöfun þessa fjár. Því miður gátu fulltrúar ríkisstj. í fjh.- og viðskn. engu öðru svarað en því að vísa í bls. 13 í fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni fyrir árið 1982. (Gripið fram í: Hvaðan hefurðu þetta?) Þetta eru þeir liðir sem eru í 4. og 5. gr. frv. til lánsfjárlaga, samtals 25 samkv. upprunalegum frv. drögum, en 28 millj. með þeirri breytingu sem meiri hl. fjh.- og viðskn. leggur til. Skýringarnar, sem við fengum á þessu eftir eftirgrennstan, er að finna á bls. 13 í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1982. Þær eru ein setning fyrir hvora fjárhæð, ein setning til þess að skýra út 10 millj. kr., önnur setning til þess að skýra út 15 millj. kr. Sú setning, sem varðar útskýringu á 10 millj. kr., hljóðar svo: (Fjmrh.: Þetta er sem sagt á bls. 13.) Já, þar stendur reyndar fyrst: „Unnið er að athugun og undirbúningi á ýmsum framkvæmdum á sviði orkufreks iðnaðar.“ Svo kemur skýringin: „Í þessu tilliti er gert ráð fyrir að Iðnrekstrarsjóður afli 10 millj. kr. lánsfjár og endurláni síðan til áframhaldandi athugana á þessu sviði.“ Þessi texti segir mér ekkert umfram það sem stendur í rauninni í frvgr. Við báðum um, fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjh.- og viðskn., að fá hugmyndir um hvað þarna væri um að ræða, hvað menn væru að fást við, hvernig menn hefðu hugsað sér að verja þessum fjármunum, hvaða verkefni það væru sem þættu álitlegust. við fengum engin svör um það önnur en tilvísun í þessa bls. 13. Það verður að teljast mögur útskýring á þessari fjárhæð.

Svo kemur önnur fjárhæð, að upphæð 18 millj. kr., í 5. gr. Þar er skýringin þessi og kemur í beinu framhaldi af hinni fyrri: „Að síðustu ber að geta 15 millj. kr. lánsfjár, þar sem ráðstöfun hefur ekki verið endanlega mótuð.“ Ég gat nú ekki séð að fyrri ráðstöfun hefði verið neitt frekar endanlega ákveðin en sú síðari. En þetta eru vægast sagt mjög magrar upplýsingar um svo háar fjárhæðir.

Nú held ég að raunverulegur áhugi sé á því hér á hv. Alþingi að vinna að því, að fundin verði tækifæri í orkufrekum iðnaði. En það hefur gengið heldur hægt og reyndar langtum hægar en t. d. við fulltrúar Alþfl. hér á Alþingi höfum talið eðlilegt, hvað þá að það nái þeim hraða sem við hefðum talið æskilegan í því sambandi. Það er eins og hugmyndir manna um virkjanir og reipdráttur um virkjanastað yfirskyggi það sem meira er þó virði, að menn taki ákvarðanir um það, með hvaða hætti skuli nýta orkuna, og séu með raunveruleg tækifæri af því tagi á reiðum höndum áður en í virkjanirnar er ráðist. Engu að síður hefði mér fundist lágmark að gerð væri einhver grein fyrir þessum 25–28 millj. kr. reyndar fyrir þessum 25, því að það er fullnægjandi skýring fundin á þeim 3 millj. sem þarna eru til viðbótar, — að gerð væri einhver grein fyrir því, hvernig hugmyndin væri að ráðstafa þessu fjármagni. Hér er fulltrúum í fjvn. gert að búta niður í hinar smæstu summur fjárframlög af ýmsu tagi. En síðan megum við búa við það, að hér séu 25 millj. kr. sem við fáum engar skýringar á aðrar en þann texta sem liggur fyrir í prentuðum gögnum. Alþingi á með þessu að afsala sér ákvörðunaríhlutun um þessar 25 millj. kr. Það er væntanlega algerlega í höndunum á hæstv. iðnrh. og fjmrh. Þetta er þeim mun einkennilegra þegar öðrum er sagt að það sé ekki hægt að svara þeim, það sé ekki hægt að taka ákvarðanir um hvaða úrlausn þeir geti fengið í sínum málum.

Ég hef í þessum þætti ræðu minnar fjallað um það, í hverri óvissu málin eru skilin eftir, þrátt fyrir það að þetta frv. til lánsfjárlaga yrði afgreitt, — þá algeru óvissu sem ríkir um marga þætti. Og ég hef fjallað um það, að það verður að gera kröfu til þess, að afdráttarlaus svör fáist. Ýmist hefur málum verið ýtt út af borðinu, þau geymd eða ákvörðun ekki tekin. Það eru bæði framkvæmdaaðilarnir, sem eiga kröfu á því að fá svör til þess að geta undirbúið sig, og svo eiga alþm. auðvitað kröfu á því að fá að taka þátt í þessari ákvarðanatöku, en skilja ekki eftir óskrifaðan tékka og allt í lausu lofti. Alþm. eru skildir eftir í mjög erfiðri og óþægilegri aðstöðu með því að afgreiða mál með þessum hætti, auk þess sem ég tel það vera niðurlægjandi fyrir Alþingi og alþm. að halda svona á málum. Og ég verð að segja það, að ég vorkenni alveg sérstaklega hv. stjórnarsinnum, þar sem hafa komið brýn erindi úr þeirra kjördæmum sem skipta menn miklu máli, t. d. hv. þm. Davíð Aðalsteinsson eða hv. þm. Stefán Guðmundsson. Hverju eiga þeir að svara um það, að mál hafi verið afgreidd? Þeir verða að svara því að þau hafi verið afgreidd án þess að afgreiða þau. Það er líka af þessum sökum sem við í Alþfl. teljum, að ekki sé stætt á því að afgreiða frv. til lánsfjárlaga eins og það er nú úr garði gert, og erum því algerlega andvígir.

Mig langar því næst að víkja fáeinum orðum að húsnæðislánakerfinu. Ég hef oft haft á orði hér úr þessum ræðustól að mér þætti við sem þjóðfélag koma mjög illa fram við ungt fólk um þessar mundir. Ég hef kallað það villimannlegar aðfarir að ætla mönnum að eignast þak yfir höfuðið með þeim hætti, að 314 hlutum af íbúðarverðinu yrði kannske að mæta með skammtímalánum og með óheyrilegu vinnuálagi. Ég kalla þetta villimannleg vinnubrögð. Ég skil ekki hvernig menn geta ætlast til að ungt fólk rísi undir þessu. Mér finnst þetta hrein hneisa.

Nú vitum við það auðvitað, að menn björguðust á verðbólgunni í þessum efnum um langa hríð og það mátti bjóða mönnum hinar furðulegustu tölur. En nú er öld snúin að þessu leyti. Nú höfum við tekið upp verðtryggingu og raunvaxtastefnu. Og þó að ýmsir talsmenn ríkisstj. bölvi henni hátt og í hljóði, þá eru þeir samt að framfylgja henni. Hún er auðvitað rétt. Kerfið, sem við bjuggum við áður, hefði hvort sem er hrunið. En þáttur í því að taka upp ný vinnubrögð í þeim efnum, framfylgja verðtryggingar- og raunvaxtastefnu, verður að vera að lengja lánstíma og auka lánshlutfall. Þetta er ég búinn að segja svo oft, bæði í þessari hv. deild og eins hér utan dyra, að það ætti að fara að verða ljóst hve mikið grundvallaratriði við Alþfl.-menn teljum að það sé að komið sé til móts við einkanlega íbúðabyggjendur í þessum efnum. Við höfum líka flutt hvert frv. á eftir öðru til að reyna að fá fram úrlausn þessara mála. En þess sér ekki stað að það sé gert. Og það sem verra er, eins og haldið hefur verið á fjármögnun húsnæðislánakerfisins er sífellt að draga úr fjölda nýrra íbúða sem bætast við.

Ég óskaði eftir því í hv. fjh.- og viðskn. að fá yfirlit frá Húsnæðisstofnun ríkisins um fjölda íbúða sem veitt hefðu verið lán út á árin 1978–1981. Hér er á ferðinni þróun sem ég held að menn verði að horfast mjög alvarlega í auga við, vegna þess að ef menn gera það ekki geta menn staðið uppi með mikil húsnæðisvandræði áður en menn vita af. Þó að landflótti sé mikill, því miður, þá er það samt svo, að þjóðinni fer fjölgandi. Þessar tölur eru lýsandi. Nýbyggingar, fyrsti hluti sem kemur inn á árinu 1978, eru 1883 íbúðir. Síðan fer það nokkuð fallandi á árunum 1979–1980, fer niður í 1687 og 1665 íbúðir, en á árinu 1981 fer að nálgast að þær séu bara helmingur af því sem þær voru 1978, nefnilega 1075. Samkv. þessari áætlun Húsnæðisstofnunar lækkar heildartala íbúðanna sem veitt eru lán út á, — þá eru gamlar íbúðir og allt með, verkamannabústaðir og þar fram eftir götunum, — hún lækkar úr 4854 árið 1979 í 3728 árið 1981. Þetta er fækkun um 1100 íbúðir á þessu tveggja ára bili. Og þetta gerist á sama tíma og þjóðinni er að fjölga.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að þær breytingar, sem hafa verið gerðar á fjármögnun húsnæðislánakerfisins, eiga hér verulegan þátt í. En þegar litið er á þessa tölu, sem er 1100 íbúðum lægri en árið 1979, þá hafa samt verið notaðar 40 millj. kr., sem fengust að láni í Seðlabanka Íslands, þannig að fjármögnunin nær ekki einu sinni þessum 3728, sem er 1100 íbúðum færra en var fyrir tveimur árum. Og hvernig á svo þróunin að verða á komandi ári? Er ætlunin að Húsnæðisstofnunin greiði af því takmarkaða fé, sem hún fær, þær 40 millj. kr. sem hún hafði fengið að láni í Seðlabankanum á yfirstandandi ári? Hvernig skyldi þá svigrúmið verða? Það liggur við að maður óttist að með þessu sé beinlínis verið að stuðla að því, að enn þá fleiri hrekist hér úr landi, ekki vegna þess að það sé léleg atvinna, eins og var hér t. d. 1968 og 1969, það var skiljanlegt, ekki vegna þess að kjörin séu svo slæm að því er kaupið varðar, og eru þau þó verulega fyrir neðan ýmislegt sem gerist í kringum okkur, heldur beinlínis vegna þess að það er verið að gera ungu fólki ókleift að koma sér fyrir hér hjá okkur.

Það kemur líka fram í gögnum frá Húsnæðisstofnun, að heildarfé, sem hún hafði haft til ráðstöfunar á árinu 1981 eða muni hafa, nemi um það bil 400 millj. kr.: 300 millj. í Byggingarsjóði ríkisins og 100 millj. í Byggingarsjóði verkamanna. Þessar upplýsingar voru veittar á fundi nefndarinnar. Við skulum líta svolítið á þessar tölur og það, að þessar 400 millj. hafa verið notaðar til þess að standa undir lánveitingum út á 3728 íbúðir. Nú er áætlað að til Byggingarsjóðs ríkisins fari 373.7 millj. kr. og til Byggingarsjóðs verkamanna 268.3 millj. kr. Þetta eru samtals 642 millj. kr. Mun þetta hrökkva til að snúa þessari þróun við?

Það voru 300 millj. hjá Byggingarsjóði ríkisins. Ef við drögum frá þær 40 millj. sem hann skuldar í Seðlabankanum, þá eru eftir 333.7 millj. sem eru ætlaðar fyrir árið 1982, það er 10% aukning. Reiknitala fjárlaga gerir að vísu einungis ráð fyrir 33% verðbólgu, en ýmislegt bendir til þess að hún geti orðið meiri. Hér er því raunverulega um mjög verulegan samdrátt að ræða hjá Byggingarsjóði ríkisins frá þeim tölum sem ég var að lesa upp áðan. Mér reiknast svo til að það fé, sem hér er til ráðstöfunar, muni þýða fækkun á íbúðum, sem unnt sé að veita lán út á, frá því sem er í tölum ársins 1981 sem nemur 550 íbúðum. Þessar tölur, miðað við 800 þús. kr. íbúðarverð og þau lánshlutföll sem í gildi eru, svara til þess, að það ætti að vera hægt að fjölga íbúðum í verkamannabústöðum um 175 eða því sem næst, en að öðrum lánveitingum til íbúða yrði að fækka um 725. Þetta gerir samtals samdrátt um 550 íbúðir. Ég spyr: Eru menn sannfærðir um að þetta sé rétt stefna? Eru menn sannfærðir um að eftir samdrátt upp á 1 100 íbúðir eigi nú að bæta öðrum samdrætti upp á 550 íbúðir? Halda menn að þessi stefna gangi upp? Vilja menn þetta í raun og sannleika? Eða er hér verið að búa til vandamál sem muni reynast álíka erfitt úrlausnar á yfirstandandi ári — eða helmingi erfiðara úrlausnar og brugðist verði við með sama hætti og á yfirstandandi ári, nefnilega með yfirdrætti í Seðlabankanum og tilheyrandi þrýstingi á erlendar lántökur í íslenska hagkerfinu — og þá umfram það sem ég gerði grein fyrir fyrr í ræðu minni? Ég held að þessi stefna muni ekki ganga. Ég er sannfærður um að þessi stefnumörkun muni ekki geta gengið, að menn muni ekki geta unað þessu, að það sé í raun og sannleika ekki meining manna að hrekja fólk úr landi með þessum hætti.

Ég hef hér sérstaklega fjallað um þrjá þætti í lánsfjáráætlun. Það væri auðvitað ástæða til að fjalla um langtum, langtum fleiri þætti. Ég hef fjallað um erlendar lántökur, lítils háttar um hinn innlenda fjáröflunarmarkað í því sambandi, bara til þess að styðja það mál, og ég hef fjallað um húsnæðislánakerfið sérstaklega. Ég hef einnig fjallað um ákvarðanatökuleysið og þá málsmeðferð að hv. þm., t. d. Davíð Aðalsteinsson og Stefán Guðmundsson, séu sendir heim í hérað og verði að svara því til, að að vísu hafi mál verið afgreidd, en það hafi ekki verið afgreiðsla varðandi þau mál sem menn bíða með mestri óþreyju í þeirra kjördæmum. En ég vil ítreka það aftur, að lánsfjárlögin eiga að vera stefnumarkandi og þau eru það ekki. Og ég vil ítreka það aftur, að það er hörmulegt til þess að vita, að þetta góðæri árið 1981 skuli ekki hafa nýst betur en raun ber vitni. Þegar lánsfjáráætlun þess árs var til afgreiðslu leyfði ég mér í nál. mínu að fjalla svolítið um almennar þjóðhagshorfur. Þá var aðeins komið fram á árið 1981. Ég ætla að leyfa mér að lesa hér örstuttan kafla úr því, vegna þess að mér sýnist það hafa gengið eftir sem þar var spáð. Þar sagði:

„Almennar þjóðhagshorfur á árinu 1981 verða að teljast allgóðar. Miðað við nær óbreytt verð á sjávarafurðum hefur Þjóðhagsstofnun áætlað að verg þjóðarframleiðsla verði óbreytt frá fyrra ári. Nú hafa hins vegar verið gerðir samningar um skreiðarsölu, sem eru 10% hærri en á fyrra ári, og um saltfiskssölu sem eru um 70% hærri. Þá er vitað að fiskmjölsverð er ívið hærra en að jafnaði árið 1980, og verðlagsþróun í Bandaríkjunum gefur ástæðu til að ætla að verð í íslenskum krónum á frystum fiski, sem seldur er þar í landi, muni hækka innan tíðar. Það styðst m. a. við það, að gengi Bandaríkjadollars hefur verið að styrkjast á þessu ári, og það hefur vitaskuld feikileg jákvæð áhrif á þjóðarbúskap okkar. Að öllu samanlögðu verða því ytri skilyrði þjóðarbúskapar okkar að teljast góð. Þessi góðu ytri skilyrði veita sérstakan möguleika á því að ná meiri stöðugleika í íslensku efnahagslífi án þess að rýra lífskjör. Sér í lagi skapa þessi ytri skilyrði einstakar aðstæður til að draga úr verðbólgu án almennrar kjaraskerðingar. Talsmenn ríkisstj álíta að verðbólga sé nú 35% á ársgrundvelli.“

Hér staldra ég við. Þegar umr. fóru fram um seinustu lánsfjáráætlun var það sérstakur boðskapur talsmanna ríkisstj., einkum og sér í lagi hæstv. forsrh., að verðbólgustigið væri 35%, svo að eitthvað hefur þeim nú hrakað frá þeirri mælingu.

„Sé gengið út frá því og með tilliti til hinnar hagstæðu þróunar í markaðsmálum og gengis dollarans ætti því að vera lag til þess að ná verðbólguhraðanum vel niður fyrir 30%. Spurningin er hvort ríkisstj. ber gæfu til að nýta þessar einstöku aðstæður til að ná verulegum árangri í verðbólgumálunum, sem hlýtur að teljast innan seilingar samkv. þeim yfirlýsingum sem talsmenn ríkisstj. hafa gefið um það að verðbólgustigið væri einungis 35%.

Ef það tekst ekki dynur gengisfelling yfir,“ segir hér. „Ríkisstj. hefur vitaskuld yfir að ráða þeim stjórntækjum, t. d. í ríkisfjármálum, peningamálastjórn og í fjárfestingarmálum, sem úrslitum ráða um það, hvort það svigrúm ytri skilyrða, sem nú hefur gefist, nýtist til þess að draga úr verðbólgunni. Spurningin er hvort þessum stjórntækjum verður beitt á réttan hátt.“

Nú hefur þetta tækifæri runnið okkur úr greipum. Ég harma það, að þetta tækifæri skuli ekki hafa nýst betur en þetta. Þróunin hefur orðið langtum verri samkv. framlögðum plöggum en hinar ytri aðstæður þjóðarbúsins gáfu tilefni til að ætla. Framlögð plögg sýna stórvaxandi erlendar lántökur. Framlögð gögn sýna yfirdrátt í Seðlabanka. Það er margstaðfest, að mörg fyrirtæki hér á landi hafa fengið erlend lán til þess að framfleyta sér, annaðhvort beint eða í gegnum Byggðasjóð.

Að því er peningamálin varðar var mjög athyglisvert að hlusta á málflutning fulltrúa bankakerfisins í hv. fjh.- og viðskn. Það kom fram í málflutningi þeirra, eins og flestum hv. alþm. er væntanlega ljóst, að staða bankanna hefði hríðversnað á síðustu mánuðum, að útlán hefðu aukist stórlega, en að innlán hefðu hætt að vaxa og heldur dregist saman, að bankarnir væru komnir í óviðunandi stöðu. Hv. nm. leituðu auðvitað skýringar hjá þessum aðilum á þessari þróun sem ein sér verður að teljast mjög uggvænleg. Þeir gáfu þær skýringar, að tvennt hefði gerst að því er innlánin varðar. Trú sparifjáreigenda á því, að þeir fengju raunvexti, væri greinilega minnkandi. Tekist hefði á síðari hluta ársins 1980 og vaxandi fram á árið 1981 að byggja upp trú sparifjáreigenda á það, að þeir væru að fá raunvexti fyrir fé sitt. En nú hefði þessi trú horfið. Nú væri hún að hverfa. Það væri ein aðalskýringin á því — og mjög eðlileg skýring, að innlánin hefðu hætt að vaxa.

Skýringin á útlánunum lá í augum uppi. Það var hin slæma staða ýmissa atvinnufyrirtækja í landinu fyrst og fremst, en sjálfsagt líka að einhverju leyti bæði slæm staða ýmissa heimila í landinu og svo það óvissuástand sem hefur skapast með gengisfellingum, sem koma á eins til tveggja mánaða fresti og skapa auðvitað mikla spennu og óvissu hér í þjóðfélaginu. Skýringin á þessu fyrirbæri liggur þannig í augum uppi. En ráðin til úrbóta hafa ekki séð dagsins ljós. Þau verða ekki fundin í þeim gögnum sem hér liggja fyrir hv. deild. Þau verða ekki fundin í því frv. til lánsfjárlaga, sem hér er hugmyndin að afgreiða, og þeirri lánsfjáráætlun sem því fylgir.

Ég verð að segja að þær skýringar, sem fulltrúar bankakerfisins gáfu, komu mér auðvitað ekki á óvart. Ég verð að segja það líka, að mér þótti heldur dapurlegt að hlusta á ýmsa bankastjóra og framámenn í peningamálakerfinu hér á landi gefa skýringar á því, hvernig þeir ætluðu að bjargast út úr árinu 1981. Það má alveg sérstaklega vitna til þess sem fulltrúi Framkvæmdasjóðs hafði fram að færa sem skýringar af sinni hálfu um það, hvernig hann ætlaði að bjargast á árinu 1981. Það var sambland af skuldasöfnun, erlendum lántökum, sérstöku nauðungaruppgjöri við bankakerfið í landinu og því að setja sjóðinn því sem næst á hausinn um áramót með því að hafa stöðu hans mjög lélega.

Það ástand, sem við búum við í þjóðmálunum; er að mínu mati mjög alvarlegt. Að vísu hafa menn þóst vera með 40% verðbólgu þó að ýmsir mælikvarðar bendi til þess, að hún sé mun meiri. Ýmsir opinberir mælikvarðar benda til þess, að hún sé 50–55%. En ég held að ef tekið er með í reikninginn það stórkostlega svindl sem átti sér stað varðandi myntbreytinguna og verðlagningu í því sambandi og hæstv. forseti þessarar deildar hefur m. a. gert glögg skil bæði í ræðum hér á Alþingi og eins með blaðaskrifum, þá muni koma í ljós að verðbólgan hafi í raun og sannleika verið langtum, langtum meiri. Og ef við tökum þann mælikvarða sem ólygnastur er, sem er buddan, þá sýnir hún okkur langtum meiri verðbólgu. Það, sem menn hafa státað af í þessum efnum, reynist þess vegna vera falsið eitt.

Ég hef áður minnst á það, að ein skrautfjöðrin ætti að vera greiðsluafgangur eða jafnvægi í ríkisfjármálum. Það er ekki jafnvægi í ríkisfjármálunum. Þar eru sýndartölur sem gefa alls ekki rétta né raunhæfa mynd og standast ekki samanburð við tölur af sama tagi sem settar eru upp erlendis. Ég held að hæstv. fjmrh. ætti frekar að snúa sér að því að innleiða þær reglur varðandi færslu á þessum hlutum, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lagt til, en að stunda hártoganir varðandi þetta og bellibrögð um uppfærslu. Peningamálastjórnin hefur ekki heldur tekist. Sjóðir hafa verið tæmdir. Það var nýlega til umr., í gær trúi ég, í hv. Nd. hvernig væri komið fyrir Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, hvernig hann hefði verið gersamlega tæmdur á rúmlega einu ári. Og nú, þegar sjóðirnir hafa verið tæmdir, bankakerfið hefur verið þanið til hins ítrasta þannig að það er að þrotum komið, þá er komið upp aukabankakerfi í gegnum Byggðasjóð og veitt sérstök hallærislán, — hallærislán sem eru farin að ná til stórs hluta atvinnufyrirtækja í landinu í einhverju mesta góðæri sem yfir okkur hefur gengið.

Það er skýrt frá því að tugir fyrirtækja hafi fengið sérstaka fyrirgreiðslu, eins og það er kallað, í þessum efnum. Það er ekki gæfuleg stefna að allt skuli vera rekið meira og minna á fyrirgreiðslu af ýmsu tagi. Að mínum dómi er hér um stórhættulega þróun að ræða. Menn hafa farið svo langt á þessari braut, að þeir, sem eru ábyrgir í rekstri sínum og hafa verið það, eru óðum að gefast upp við það. Ég varð var við það í samtali við merkan mann af Austurlandi nýlega, að hann hafði áhyggjur af því að ýmsir aðilar á því landssvæði gengju á það lagið að fara í opinbera sjóði til þess að fjárfesta ótæpilega og gefa á bátinn hinn raunverulega rekstrarárangur. Hann hafði áhyggjur af því vegna þess að fyrirtækið í hans heimabyggðarlagi hafði verið rekið af ábyrgð, en nú sæju þeir ekki ástæðu til þess lengur að ástunda ábyrgð í sínum rekstri. Þeir mundu bara fara að ganga í sjóðina eins og hinir, eins og þeir á grannfjörðunum.

Þetta er sjúkdómur sem er að smita okkar þjóðfélag. Það er verið að gera menn gersamlega ábyrgðarlausa. Það er verið að koma mönnum upp á það, að ekki borgi sig að ástunda góð vinnubrögð í rekstri sínum, menn geti bara komið með vandamál sín á ríkisjötuna og beðið um opinbera fyrirgreiðslu. Þetta, að atvinnurekendur skuli vera farnir að finna það, að þeir þurfi ekki að sýna ábyrgð í rekstri sínum, heldur geti bara gengið í opinbera sjóði til þess að fá fyrirgreiðslu af hinu eða þessu taginu, er alvarlegt mein sem stendur í vegi fyrir raunverulegum framförum, því að eitt aðalframfaraaflið er auðvitað það að mönnum nýtist hugvit sitt og þekking til þess að gera hlutina með sem bestum hætti og ástundi það frekar en sláttumennsku út um allar jarðir. Við þessu meini vil ég vara alveg sérstaklega.

Að því er þetta ástand varðar vil ég að lokum minna á að það er óþolandi í þjóðfélagi að búa við bráðabirgðalausnir sem eiga að gilda til tveggja eða þriggja mánaða, það er óþolandi með öllu. Þetta sögðum við Alþfl.-menn 1978. Þetta höfum við Alþfl.-menn sagt allar götur síðan. Við töldum að það væri meginnauðsyn að menn fikruðu sig út úr þessu ástandi eilífra bráðabirgðalausna. Brýnt var það þá, en enn þá brýnna er það nú. (Gripið fram í.) Jú, það var skárra, það var langtum skárra viðfangs, það er komið í langtum verri farveg, eins og ég tel að hafi reyndar komið fram mjög greinilega í því sem ég hef vitnað til í ræðu minni, því að mjög oft hefur reyndar viðmiðunarárið verið 1978. En hvað um það, ég get ekki lokið svo þessari umfjöllun um lánsfjáráætlun að minnast ekki nokkuð á vissa grundvallarþætti, sem mér finnst að þurfi að taka upp að því er varðar stefnumörkun í efnahagsmálum, og ég kýs að gera það undir þessum þætti með tilvísan til þess sem ég sagði í upphafsorðum mínum fyrir hádegi, að ég tel að í lánsfjáráætlun og með lánsfjárlögum sé verið að taka einhverjar veigamestu efnahagsákvarðanir sem nokkru sinni eru teknar af Alþingi.

Ég vil telja það fyrst sem efnahagsráðstöfun, að sú stefna verði tekin upp að menn verði að vera ábyrgir gerða sinna, að það sé afnumið að menn geti sífellt heimtað að ríkið bjargi taprekstri hvers einasta atvinnurekanda. Mín skoðun er sú, að þessar bakávísanir á ríkið geri atvinnurekendur gersamlega ábyrgðarlausa. Og meðan svo er fæst ekki árangur. Nákvæmlega það sama á við og kannske í enn ríkara mæli í ríkisstofnunum og í málefnum sem sveitarfélög fara með, eins og í raforkumálum og þess háttar. Til þess að breyta þessu verður að eiga sér stað kerfisbreyting. Það verður í raun og sannleika að koma á aukinni valddreifingu. Það verður að færa meira af þessari ákvarðanatöku til hinna einstöku stofnana, til hinna einstöku rekstraraðila, til hinna einstöku sveitarfélaga, en um leið að gera þessar stofnanir, hvort heldur það eru sveitarfélög eða ríkisfyrirtæki, ábyrg gerða sinna og taka fyrir alla bakreikninga og kröfur um ríkisfyrirgreiðslu. Valddreifing af þessu tagi held ég að sé ákaflega mikilvæg, en þó fyrst og fremst það, að menn verði ábyrgir gerða sinna. Við Alþfl.-menn höfum einmitt flutt frv. með tilliti til valddreifingar af þessu tagi að því er varðar málefni sveitarfélaganna, um að fela þeim aukið sjálfsforræði. Það er liður í þeirri stefnumörkun sem við teljum vera nauðsynlega í efnahagsmálum.

Í öðru lagi er ég eindregið þeirrar skoðunar, að breyta þurfi gildandi verðlagskerfi í landinu. Ég tel að hér sé í rauninni ekkert verðlagseftirlit eða verðlagsaðhald. Það, sem við höfum, er einungis ríkisuppáskrift á verðhækkanir. Verðbólgan er með þessum hætti staðfest og uppáskrifuð af ríkisstj. Sjálfvirkar útreikningsformúlur eru notaðar til þess að framlengja verðbólguna með ríkisforsjá og hver tapkróna er endurheimt með sérstakri blessun ríkisins. Þar sem samkeppni er næg á að breyta kerfinu í frjálsræðisátt, en í mörgum tilvikum verður að breyta kerfinu þannig að hið almenna aðhald fái að njóta sín. Það er hlutverk ríkisins að skapa skilyrði til aðhalds, en ekki að skrifa upp á tapreikningana og velta þeim svo yfir á almenning.

Í þriðja lagi vil ég telja að gerbreyta þurfi ríkisbúskapnum. Núna eru tekjurnar og þar með álögurnar ákveðnar eftir að óskalistinn hjá ráðherrunum hefur verið lagður saman. Í þess stað á að nota ríkisfjármálin og þá sérstaklega skattakerfið til þess að jafna kjörin og treysta kaupmáttinn hjá heimilunum. Skattaálögurnar eiga að miðast við það að ná árangri í verðlagsmálum. Það er mesta blekking, sem hver fjmrh. étur upp eftir öðrum, að einhver meira og minna misvísandi jákvæð afkoma ríkissjóðs, sem a. m. k. núna er fengin með bellibrögðum, hafi afgerandi áhrif til þess að halda aftur af verðbólgunni. Reynslan hefur líka afsannað þetta raus svo kirfilega að ekki verður um villst.

Í fjórða lagi verður að vera öryggi og festa í stjórn peningamálanna. En þá verða líka að vera skilyrði í þjóðfélaginu til þess að halda því uppi. Og það er eitt af því sem brást núna á þessu ári. Þeir, sem fóru með stjórn sjóðanna og bankakerfisins, gátu ekki staðið undir þeim álögum sem á þá voru lagðar, þeim þrýstingi sem á þá var lagður. En aðalatriðið er að hætta að taka eyðslulán erlendis, eins og þriðjungurinn af nettó-lántökunni núna virðist vera, samkv. þeim mælikvarða sem ég hef hér lagt á og gerði sérstaklega að umtalsefni samkv. útreikningum sem ég gerði fyrr í ræðu minni. En nú hefur það verið gert í sívaxandi mæli og keyrir alveg um þverbak að því er varðar áformin fyrir 1982.

Í fimmta lagi tel ég það þátt í efnahagsstefnu að koma til móts við ungt fólk að því er varðar íbúðakaup og íbúðabyggingar. Skoðun mín er sú, að meðan svo stór hluti þjóðarinnar sem raun ber vitni verður í rauninni að horfa upp á það, að eina björgunin til þess að koma þaki yfir höfuðið væri að verðbólgan yrði meiri en ráð var fyrir gert, þá séum við þar líka með verðbólguþrýsting. Auk þess er þetta efnahagsaðgerð vegna þess, að með þeirri stefnu, sem haldið er uppi í þessum málum, er verið að hrekja ungt fólk, starfsamt gott fólk úr landi, og það er auðvitað efnahagslegur skellur að hrekja vel menntað ungt fólk, góða starfskrafta úr landi.

Í sjötta lagi vil ég telja það sem ég hef oft gert að umtalsefni hér áður, að það verður að taka upp nýja atvinnustefnu. Hvaða gagn er í því, að Alþingi leggi sig í það — eða meiri hluti Alþingis — að skerða kaupið um 7%, þegar hæstv. sjútvrh. fellir gengið og skerðir kjörin um sömu 7% í ofanálag og eykur verðbólguna um 7% með ákvörðunum sínum um togarakaup, eins og ég hef sýnt fram á hér í deildinni. Til hvers á að vera að leggja sig í það að krukka í kaupið til þess að ná verðbólgunni niður, þegar svo einn ráðh. í ríkisstj. eykur verðbólguna jafnmikið með ákvörðunum sínum um skipakaup á þessu sama ári? Það er efnahagsleg staðreynd, að stækkun skipastólsins við núverandi aðstæður er hrein gengisfelling, er hrein verðbólguaðgerð. Þess vegna er það meginatriði að því er þennan þátt varðar, að ný vinnubrögð verði upp tekin.

Við skulum þá taka hinn næsta þátt, fiskvinnsluna. Þar eru feikileg tækifæri til þess að treysta lífskjörin í landinu með aukinni fjárfestingu og hagræðingu. Á árinu 1979 tókst að auka fjárfestinguna í fiskvinnslunni um 20% að magni til. Allar götur síðan er fjárfestingin í fiskvinnslunni minnkandi hlutfallslega ár frá ári. Þarna eigum við hagvaxtarmöguleika sem var verið að reyna að byrja að nýta árið 1979, en er nú kominn í skítinn aftur.

Ég skal taka þriðja atvinnuþáttinn, ég get ekki stillt mig um það, landbúnaðarmálin. Hugsið ykkur það, að við skulum enn þá vera að greiða niður landbúnaðarafurðir ofan í útlendinga með stórfé í skattaálögum á okkur. Þetta getur ekki gengið til lengdar. Mér finnst að skilningur á þessu sé að vaxa. En samt er það svo, að á þessu ári og á s. l. ári verða menn að láta sig hafa það að taka erlend lán til þess að greiða niður umfram það sem leiguboðið er, taka erlend lán til þess að greiða niður þetta kjöt ofan í útlendinga. Og nú er svo komið, að farið er að taka erlend lán til þess að greiða af erlendu lánunum sem menn tóku til þess að greiða niður landbúnaðarafurðir ofan í útlendinga. Þetta er algerlega óviðunandi vítahringur. Og ég þykist sjá það af viðtölum mínum við ýmsa bændur, að þeir uni í raun og sannleika alls ekki því, að kerfið skuli vera svona. Við eigum auðvitað að leggja áherslu á ýmsar aðrar búgreinar. Tilraunir í þá átt eru hafnar. En við verðum að setja okkur fastan ramma um það, hve miklu fé verði varið í útflutningsuppbætur af þessu tagi, og greinin verður að standa frammi fyrir því, að slíkar ákvarðanir standi. Ég minnist þess t. d. þegar ég ræddi þessi mál við fyrrv. landbrh., Ingólf Jónsson, sem er nú reyndar höfundur þessarar 10% reglu og ábyrgðarmaður, — það var í sambandi við umræður um kvótakerfið, — að hann var nákvæmlega sömu skoðunar og ég um það, að menn yrðu að standa frammi fyrir fastákveðnum mörkum í þessum efnum og það mætti ekki fara fram úr þeim. En þetta hefur ekki heldur tekist hjá okkur.

Við fluttum um það frv. Alþfl.-menn, að tekin yrði upp niðurtalning útflutningsbóta. Ég vil skora á aðra þm. að líta á þær hugmyndir sem þar eru um það að fikra sig út úr þessu kerfi, en að þetta sé grundvallarstærðin sem menn verði að aðlaga sig. Hér kemur aftur að ábyrgðinni sem ég talaði um, að menn verða að standa frammi fyrir því í þessari grein eins og öðrum, að það séu ákveðin mörk, en ekki að þau séu bara flutt til ef ekki er staðið við mörkin. Það er sams konar fyrirbæri og hjá atvinnurekendunum sem koma með bakreikningana og heimta fyrirgreiðslu ríkissjóðs.

En til þess að mæta þeim breytingum, sem við þurfum að gera í þessum greinum tveimur, í útgerðinni og í landbúnaði, verður auðvitað að eiga sér stað uppbygging í annarri atvinnustarfsemi. Sú uppbygging ætti að vera hafin fyrir löngu og það er í orkufrekum iðnaði. Nú erum við í algeru samdráttarskeiði á þessu sviði. Hugsið ykkur öfugþróunina sem við stöndum frammi fyrir. Við höfum verið með vaxandi framleiðslu í landbúnaðarafurðum sem við verðum að greiða niður ofan í útlendinga með skattaálögum á okkur. Við erum sífellt að stækka skipastólinn, sem þýðir gengisfellingar og meiri verðbólgu, en það er samdráttur í orkufrekum iðnaði. sem er vaxtarbroddurinn, og það er samdráttur í fiskvinnslunni, þar sem vaxtarbroddurinn er að því er sjávarútveginn varðar.

Sú stefna, sem beitt er, er eins vitlaus og nokkur atvinnustefna getur verið. Hún er þveröfug við þau markmið að treysta kaupmáttinn og lífskjörin í landinu. Þess vegna segi ég: Það þarf að snúa henni við í öllum þessum atriðum. Meðan það er ekki gert, meðan menn halda fram þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið í atvinnumálum að undanförnu, munu menn ekki vinna neina varanlega sigra í verðbólgumálum. Hversu oft sem menn láta leiða sig til þess leiða verks að krukka í kaupið dugar það ekkert ef með hinni hendinni er sífellt verið að rýra lífskjörin og skapa þannig aukna verðbólgu.

Herra forseti. Ég taldi nauðsynlegt að ýmsir þættir stefnumörkunar í efnahagsmálum kæmu fram hér vegna þess að þar er fylgt þveröfugri stefnu við það sem er raunverulega til hagsbóta fyrir íslenska alþýðu. Og ég taldi sérstaka ástæðu til þess að gera þetta að umræðuefni einmitt núna, vegna þess að þau plögg, sem okkur er ætlað að afgreiða hér núna, eru framhald á þeirri alvitlausu stefnumörkun í atvinnumálum sem fylgt hefur verið að undanförnu, vegna þess að menn munu engum árangri ná í efnahagsmálum almennt, í verðbólgumálum, sem alltaf er verið að kljást við, ef þeirri stefnu er fylgt í atvinnumálum sem menn hafa fylgt til þessa, og sjútvrh. og viðskrh. leggjast á eitt um að fella gengið með skipainnflutningi jafnóðum og aðrir þykjast vera að berjast við verðbólguna, og þær gengisfellingar valda jafnmikilli verðbólgu og það sem mönnum tókst að strika út um stundarsakir með því að krukka í kaupið.

Og nú er enn fram haldið þessari sömu vitlausu atvinnustefnu í þessu frv. til lánsfjárlaga og í þeirri fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sem gilt hefur í þessum efnum. En þar á ofan á þriðjungurinn af nettó-lántökum erlendis að vera hrein eyðslulán, eins og ég sýndi fram á í upphafi máls míns. Á sama tíma og samdráttur er í þeim greinum þar sem helst er vaxtarbroddur með því að leggja í fjárfestingu, þá eru þessi lán stóraukin. Að hugsa sér það, að miðað við fjárfestingu í orkuframkvæmdum, miðað við fjárfestingu í virkjunum og stóriðju og hitaveitum skuli nettó-lántakan eiga að fara 50% fram úr þessari fjárfestingu og þessi 50% skuli vera umfram það sem menn hafa nokkurn tíma gert áður. Að hugsa sér það, að ofan á það að fylgja kolvitlausri atvinnustefnu skuli auka greiðslubyrðina um 20–28% frá því sem sett var fram sem stefnumið þessarar ríkisstj., að menn skuli vera komnir 20–28% fram úr því sem þeir töldu stefnu sína í þessum efnum fyrir tveimur árum eða svo, að menn skuli vera að velta þannig bagga á framtíðina, — ekki einasta að fylgja rangri atvinnustefnu, heldur líka að binda framtíðinni þá bagga í eyðslulánum sem ég hef hér sýnt fram á, að menn skuli vera að færa sjálfstæði þjóðarinnar fram á þennan barm þannig að lítið þarf til að hrinda henni fram af.