17.12.1981
Efri deild: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1723 í B-deild Alþingistíðinda. (1373)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Það er orðið áliðið og mönnum hefur orðið tíðrætt um lánsfjáráætlun sem hér liggur fyrir. Er það ekki að ófyrirsynju, því að hér er um að ræða botnlaust plagg, merki þeirrar stjórnarstefnu sem hér ríkir, og því eðlilegt að menn hafi sitthvað við það að athuga. Er athyglisvert að í þessari áætlun er, eins og komið hefur fram hér áður, gert ráð fyrir að neyslulán verði 1/3 af þessari áætlun. Og það, sem er sorglegast við þetta, er að nú eru tekin lán fyrir útflutningsbótum, fyrir vörum sem við seljum útlendingum fyrir svo til ekki neitt. En þetta er í dúr við það sem gengur og gerist hér í þjóðfélaginu. Það virðist allt vera á niðurleið. Í þeim efnum virðist niðurtalningin ætla að skila sér. Kaupmáttur hefur ekki verið eins lítill og nú í langan tíma. Fyrirtækin kveinka sér og barma, allir nema verslunin, sem vafalaust hefur stórgrætt á myntbreytingunni sem aftur hefur orðið til mikils óhagræðis fyrir almenna launþega.

Hvað gerir ríkisstj. til þess að stjórna? Eina leiðin, sem hún sér, er í raun að rýra kjör launþega, skera af kaupinu, krukka í kaupið. Það virðist vera höfuðmarkmið þessarar ríkisstj. að koma verðbólgunni niður í 40% á meðan aðrar ríkisstjórnir áttu þá ósk heitasta — og landsmenn reyndar allir — að koma verðbólgunni enn þá neðar en það. Ekki hefur þó betur til tekist en það, að nú er verðbólgan komin langt upp fyrir það mark aftur, því að það tókst aðeins að lækka verðbólguna vegna hagstæðrar gengisþróunar dollarans, en síðan hefur þetta allt farið upp á við og spáir Þjóðhagsstofnun því, að verðbólgan á næsta ári verði 55%. Vafalaust er þar varlega spáð, enda hefur raunin orðið sú, að Þjóðhagsstofnun hefur alltaf verið fyrir neðan það sem veruleikinn hefur orðið síðar.

Ef ég vík nú sérstaklega að lánsfjáráætlun, þá er það mjög athyglisvert að núv. ríkisstj., sem gerir mikið að því að kenna sig við félagshyggju, virðist vera mjög hörð í því að skera niður þá fjármuni sem renna eiga til félagslegra mála. Mætti þar margt til tína. Þar má minnast á t. d. hvernig farið er með Byggingarsjóð ríkisins, sem hefði samkv. eldri lögunum átt að fá 222.6 millj., en samkv. þessari áætlun er reiknað með að Byggingarsjóður fái aðeins 57.2 millj. til sinna þarfa, sem afturverður til þess, að þeir, sem byggja eftir þessu kerfi, fá að láni aðeins um 17% af byggingarkostnaði.

Núv. ríkisstj. lauk við að setja í lög aukna aðstoð við byggingu verkamannabústaða og lauk þá því verki sem Magnús H. Magnússon hafði hafið. Samkv. þeim lögum, sem sett voru, er ætlað að menn fái 80% af húsnæðiskostnaðinum að sem sett voru, er ættað að menn fái 80% af húsnæðiskostnaðinum að láni. En því miður var það hlutverk þessarar ríkisstj. að stórskemma það frv. sem áður hafði verið lagt fram af fyrri félmrh., gera það á allan hátt óhagkvæmara fyrir húsbyggjendur. Og nú kemur það fram í 16. gr., að það er ekki einu sinni ætlað að standa við þau lög sem þá voru sett. Það er tilgreint að til þessara þarfa skuli fara 111 millj. 314 þús. kr. og er þá miðað við þá reiknitölu sem lánsfjáráætlun er byggð á, þ. e. 33%, en það vita allir sem vilja vita, að verðbólgan verður meiri, sem þýðir aftur að hagur húsbyggjenda verður lakari en til var stofnað. Þetta er náttúrlega fyrir neðan allar hellur. Þetta eru svik við verkalýðssamtökin. Þetta eru svik við þá launþega sem bundu vonir við það, að hér ætti að hefja stórfellt átak til uppbyggingar í húsnæðismálum, og er sorglegt til þess að vita, að menn skuli hafa sig til slíks.

Það má víða koma við í þessari áætlun. Það er t. d. tilgreint í 20. gr. að framlög til Framkvæmdasjóðs þroskaheftra skuli skert. Þau eru að vísu komin ofar eftir 2. umr. fjárlaga og liggur fyrir brtt. í samræmi við það frá meiri hl. nefndarinnar. En þrátt fyrir að það verði samþykkt er um skerðingu að ræða, því að áætlað er að Framkvæmdasjóður þroskaheftra hefði átt að fá 31.8 millj. til sinna þarfa.

Það má víðar bera niður í þessu frv.; en allt á það sammerki að því leyti til, að það er um óraunhæfa hluti að ræða sem þar birtast. Það hafa því sem betur fer átt sér stað ýmsar breytingar frá því að þetta frv. var lagt fram. Það var ætlun ríkisstj. að binda fjármagn lífeyrissjóða þannig, að 45% af ráðstöfunarfé yrði að fara til kaupa á skuldabréfum. Hvarvetna um landið hafa heyrst mótmæli við þessari ráðstöfun og nú hafa ríkisstjórnarmenn verið svínbeygðir þannig að nú ætla þeir að fara niður í þau 40% sem þeir voru í áður. En gerðin er söm eða ætlunin sú sama. Það má ekkert vera í friði. Það skal taka allt sem mögulegt er til að setja í hít ríkisstj.

Ég vék að kjaramálum áðan og því, hversu allt væri þar á niðurleið. Reyndar segir í grg. Þjóðhagsstofnunar að á næsta ári sé reiknað með að kaupmáttur rýrni um 2.5% og er það vissulega afleiðing af stjórnarstefnunni. Enn er ekki vitað hvað ríkisstj. hyggst gera til þess að bæta úr þeim vanda sem hvarvetna er í atvinnulífinu. Verður fróðlegt að sjá hvað í þeim efnum verður gert. Mig grunar að farin verði sama leiðin og áður, að krukka í kaupið og láta þar við sitja, en gera ekki neitt sem marktækt er. 7% fóru um síðustu áramót. Spurningin er: Hvað er ætlunin að taka nú um þessi áramót eða stuttu síðar?

Þessi ríkisstj. hóf feril sinn á því að lofa mönnum að hér yrði full atvinna. Það er nú svo, að þrátt fyrir að við búum betur en aðrar þjóðir er hér staðbundið atvinnuleysi alltaf annað slagið. Nú er svo málum komið, að þar sem ég bý eru um 100 manns atvinnulausir. Nú í dag voru mönnum að berast uppsagnir frá helstu fyrirtækjum þar í bæ og væri fróðlegt að vita hvers þetta fólk má vænta hvað varðar atvinnu.

Ef við lítum á kaupmáttinn, þá er svo komið að við erum litlu betur settir en árið 1971. Við erum raunar verr settir en árið 1972. Þá var meðalkaupmáttur kauptaxta allra launþega 110.6 stig, en í ár hefur hann aldrei farið svo hátt. Reyndar er reiknað með að í ár verði hann langtum lægri en þá var, og ef svo verður sem Þjóðhagsstofnun spáir þurfi enn lengra niður á við. Það er greinilegt að þarna er meiningin að láta niðurtalninguna takast. Sjálfsagt tekst þeim það ef ekki verður spyrnt ærlega við fótum. Ég vona því að svo verði gert, þegar líða tekur á árið, og þá verði sótt til baka sú rýrnun sem átt hefur sér stað fyrir tilverknað ríkisstj., sú rýrnun á kaupmætti sem nú er staðreynd.

En svo að ég víki aftur að skerðingu á framlögum til félagsmála, þá er það mjög fróðlegt, að á meðan skert er framlag til Framkvæmdasjóðs þroskaheftra og til húsbyggjenda og annarra þátta ætlar ríkisstj. sér á fjárlögum fjárveitingu sem er 97.2% hærri en var á síðasta ári. Þetta sýnir hugarfar, sem er langt út fyrir það sem eðlilegt fólk gerir ráð fyrir og er aðalsmerki ríkisstj., það er að hugsa fyrst um sig, síðan skiptir ekki máli hvernig öðrum líður.

Á þessu ári hafa ytri skilyrði verið með besta móti. Það hefur verið mjög athyglisvert að t. d. olíuverð hefur verið frekar hagstætt miðað við það sem áður hefur verið, sem gerir það aftur að verkum að eðlilegt hefði verið að bæta kjör launþega. En nú virðist vera ætlunin að fara öðruvísi að. Það mætti tína margt til í þessari áætlun sem gagnrýnivert er. Eitt er það sem mig furðar á. Það er að meiningin er að byggja svo og svo margar byggðalínur, eins og Suðurlínu, sem mér er sagt að sé afskaplega umdeild h já þeim sem um þessi mál fjalla. Þar er gert ráð fyrir 60 millj., sem er með ólíkindum þegar svo er komið að menn hafa ekki einu sinni enn þá áttað sig á því, hvert skal stefna í orkumálum, nú þegar skortir 150 mw. í virkjanakeðjuna til að fullnægja eftirspurn í meðalári. Það segir okkur að við þurfum að virkja meira og ekki liggi á að byggja þessa línu fyrr en það er búið þannig að sinnt sé brýnustu frumþörfum manna.

Ég ætla ekki að orðlengja frekar. Þetta hefur verið alldrjúg umræða og menn hafa rætt ítarlega um málið. En ég sé ekki annað en að við séum að ræða um plagg sem er markleysa ein. Hún er miðuð við allt aðrar forsendur en menn vita að eru fyrir hendi, og því er ekkert annað til en taka þetta sem markleysu og fella það. Ég vonast til að sem flestir geri það.